Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 76

Skógræktarritið - 15.10.2014, Page 76
SKÓGRÆKTARRITIÐ 201474 Á könglaslóðum í Alaska Ágúst Árnason, fyrrverandi skógarvörður í Skorradal, kynntist Barböru Kalen haustið 1958, þegar hann vann við könglasöfnun á vegum Manning Seed Company, í Alaska. Hann hafði ferðast vítt og breitt um ríkið og var Skagway síðasti viðkomustaður hans í ferðinni. Umboðsmaður Manning Seed Company í Skagway var munkur sem rak vistheimili fyrir unga indíána sem áttu ekki í önnur hús að venda. Sá lét Ágúst fá stálpaðan pilt af vistheimilinu sem leiðsögumann og saman héldu þeir út í skóg í leit að könglum. „Þetta var ágætis strákur en hann hafði aðallega áhuga á því að klífa fjöll. Við klifruðum öll fjöll og firnindi en könglasöfnunin var skrambi léleg,“ segir Ágúst sem leist ekki á blikuna enda fékk hann aðeins borgað fyrir það sem hann safnaði en ekkert fast kaup. „Hótelvistin var nokkuð dýr þannig að ég sá að ég vann ekkert fyrir mér og vildi hætta þessu,“ segir Ágúst sem var þá þegar búinn að panta far með flugvél. Síðasta kvöldið sem hann hugðist dvelja í Skagway fór hann á barinn þar sem fjöldi fólks var samankominn. „Ég fór að tala við hina og þessa um þetta vandamál mitt. Það voru margir sem töldu að það væri nóg af könglum þarna og að ég þyrfti bara að komast á rétta leið. Þar á meðal var lítill og þrekinn maður sem var mjög fyrirferðamikill og talaði mikið. Við lentum á spjalli og hann vildi allt fyrir mig gera, bauðst meira að segja til að lána mér bílinn sinn. Ég gaf nú ekki mikið út á þetta en vildi fá að tala við hann í betra tómi daginn eftir þegar runnið væri af honum,“ segir Ágúst og bætir við að þetta hafi orðið til þess að hann hafi hætt við að fara. „Ég vissi ekkert hvar hann ætti heima, maðurinn sem ég hafði talað við og ætlaði að redda mér um allt, þannig að ég fór til barþjónsins og spurðist fyrir um hann. Hann sagði mér að það þýddi nú ekkert að tala við hann fyrripart dags eftir svona nótt.“ Til að drepa tímann rölti Ágúst um bæinn og rakst þá á verslun sem seldi ljósmyndavörur. „Ég fór inn til að skoða og velja nokkrar slides-myndir til að taka með mér heim. Konan í búðinni fór að spjalla við mig og úr verður að hún býður mér heim til sín í kvöld- mat og myndakvöld ásamt tveimur kennslukonum úr skólanum. Þetta var Barbara Kalen.“ Um kvöldið bankaði Ágúst upp á hjá Barböru Kalen og var tekið vel á móti honum. „Þegar ég kem inn sé ég að þar situr maður í hægindastól með mikinn trefil og Barbara segir við mig: Það þarf nú ekki að kynna ykkur. Þið kynntust í gærkvöldi.“ Þarna var þá kominn eiginmaður hennar, sá sami og hafði boðist til að liðsinna Ágústi á barnum kvöldið áður. Hann lét minna fyrir sér fara þetta kvöld og Ágúst innti hann ekki frekar eftir aðstoð við könglasöfnun enda hafði honum verið bent á að best væri að tala við mann að nafni Forrest Bates sem var öllum hnútum kunnugur. Bates þessi átti eftir að leiða Ágúst á réttar slóðir í könglasöfnuninni. Þarna hófust samt kynni Ágústs og Barböru Kalen sem síðar átti eftir að verða stórtækur könglasafnari og náinn samstarfsmaður íslenskra skógræktarmanna. „Það var gaman að spjalla við hana og hún spurði um eitt og annað sem tengdist Íslandi. Hún var mjög viðkunnanleg og elskuleg sem sést best á því hvað hún tók vel á móti mér þegar ég kom þarna alveg ókunnugur og ætlaði að kaupa myndir af henni,“ segir Ágúst Árnason.

x

Skógræktarritið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skógræktarritið
https://timarit.is/publication/1996

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.