Helgarpósturinn - 27.08.1987, Blaðsíða 26

Helgarpósturinn - 27.08.1987, Blaðsíða 26
INNLEND YFIRSYN Lífeyrissjóður verslunarmanna var annar stærsti aðilinn í tilboði „útvegsmanna" í Útvegsbankann. Sjóðurinn á í einum átta fyrir- tækjum. Hann hefur tapað umtals- verðum fjárhæðum á þessari hluta- bréfaeign sinni. Braskað með lífeyri Meöal þeirra sem svörudu tilboði Sam- bandsins í Útvegsbankann með gagntilboði var Lífeyrissjóður verslunarmanna, meðsex- tíu milljónir króna. Eflaust hefurýmsum þótt skjóta skökku við að lífeyrissjóður þessarar stéttar vœri að verja bankann fyrir Sam- bandinu í nafni útgerðar. Svo erþó ekki þeg- ar málefni sjóðsins eru skoðuð og enn síður þegar litiö er yfir þann hóp sem stóð að til- boðinu. Áður en til þessa tilboðs kom átt Lífeyris- sjóður verslunarmanna hlutabréf í átta fyrir- tækjum; Iðnaðarbankanum, Verslunar- bankanum, Fjárfestingarfélaginu og dóttur- fyrirtæki þess Féfangi, Eimskipafélagi Is- lands, Tollvörugeymslunni, Þróunarfélaginu og Frumkvœði. Alls nam hlutabréfaeign sjóðsins tæpum 60 milljónum króna. Það var rúmlega eitt prósent af heildareign sjóðsins um síðustu áramót. Með tilboðinu í Utvegs- bankann hefði sjóðurinn því tvöfaldað hluta- bréfaeign sína. Samkvæmt reglugerð sjóðsins er heimilt að verja allt að tíu prósentum af ráðstöfunar- fé hans til kaupa á hlutabréfum. Þessa heim- ild hefur sjóðurinn nýtt sér allt frá árinu 1969. Samkvæmt upplýsingum Guðmundar H. Garðarssonar, stjórnarformanns sjóðsins um langt árabil, hefur sjóðurinn aldrei tapað á þessari fjárfestingu, — utan einu sinni. Lífeyrissjóður verslunarmanna átti nefni- lega um tvö prósent í Hafskip. I febrúar 1985 leitaði stjórn Hafskips til eigenda fyrirtækis- ins um aukningu hlutafjár. Lífeyrissjóður verslunarmanna varð við þessu og lagði til um tvö prósent af ráðgerðri hlutafjáraukn- ingu og viðhélt þar með eignarhlut sínum í fyrirtækinu. Þessir fjármunir glötuðust síðan í gjaldþroti Hafskips í desember 1985. Tap sjóðsins vegna gjaldþrotsins varð 1,6 milljón- ir króna. Þó Guðmundur telji þetta eina skiptið sem sjóðurinn hafi tapað á hlutabréfaeign sinni má deila um það. Árið 1971 lagði sjóðurinn fram fimmtán milljóna króna hlutafé til Fjár- festingarfélags íslands, sem þá var stofnað. Þessi upphæð jafngilti átján prósentum af hlutafé félagsins. Ef þessi upphæð er fram- reiknuð til síðustu áramóta jafngildir hún 22.791.262 krónum. En um þessi áramót var hlutafjáreign Lífeyrissjóðs verslunarmanna hjá Fjárfestingarfélaginu skráð á 5.409.738 krónur. Hlutur sjóðsins í félaginu var þá um tíu prósent. Samkvæmt þessu hefur þessi fjárfesting rýrnað um ein 76 prósent. Atkvæðamagn sjóðsins hjá Fjárfestingarfélaginu hefur að sama skapi rýrnað. Rekstur félagsins hefur gengið brösuglega að undanförnu, til dæmis skilaði það umtalsverðu tapi á síðasta ári. Þetta ætti í raun ekki að koma neinum á óvart. Hlutabréf hafa allt þar til á síðustu misserum verið afskaplega slæm fjárfesting. Þar um vitnar mikill fjöldi harmsagna af fólki er hefur ætlað að tryggja fé sitt til elliáranna með þessum hætti. Hlutabréf á íslandi hafa hingað til að mestu verið ávísun á völd. Hlutabréfaeign Lífeyrissjóðs verslunar- mánna hefur þannig leitt af sér stjórnarsetu forráðamanna sinna í stjórnum þeirra fyrir- tækja er lífeyrissjóðurinn á hlut í. Guðmundur H. Garðarsson, fráfarandi stjórnarformaður sjóðsins, og Jóhann J. Ólafsson, arftaki hans, eiga þannig báðir sæti í stjórn Fjárfestingar- félags íslands. Jóhann situr einnig í stjórn Fé- fangs, dótturfyrirtækis Fjárfestingarfélags- ins. Þá situr Guðmundur í bankaráði Verslun- arbanka Islands í krafti hlutabréfaeignar sjóðsins. Lífeyrissjóður verslunarmanna var með næststærsta hlutinn af tilboðinu í Útvegs- bankann á eftir Eimskip. Ef gengið væri að þessu tilboði yrði það til þess að sjóðurinn ætti átta prósent í bankanum. Það ætti að nægja fyrir einum bankaráðsmanni. En stjórnarseta forráðamanna sjóðsins skarast á annan hátt við hlutabréfaeign hans. Þannig sat Davíð Scheving Thorsteinsson bæði í stjórn Hafskips og sjóðsins þegar ákveðið var að kaupa ný hlutabréf fyrir eina og hálfa milljón króna í fyrirtækinu. Davíð á einnig sæti í bankaráði Iðnaðarbankans. Þá sat hann ásamt Birni Þórhallssyni í stjórn Þróunarfélagsins þangað til allt fór þar í háa- loft, eins og frægt varð. Þegar litið er yfir þá aðila sem lögðu til stærstu fjárhæðirnar í tilboðið í Útvegsbank- ann kemur í ljós að Lífeyrissjóður verslunar- marina tengist þeim flestum á einn eða ann- an hátt. Eimskip lagði til eitt hundrað millj- ónir króna, en eins og áður sagði á sjóðurinn hlutabréf í því fyrirtæki. Iðnaðarbankinn og Verslunarbankinn lögðu hvor um sig til fimmtíu milljónir króna, en bæði er að sjóð- urinn á í þessum bönkum og stjórnarmenn hans sitja í bankaráðum þeirra. Sölusam- band hraðfrystihúsanna lagði sömuleiðis til fimmtíu milljónir króna og einnig systur- fyrirtæki þess, Tryggingamiðstöðin. Guð- mundur H. Garðarsson, fyrrverandi stjórnar- eftir Gunnar Smára Egilsson formaður Lífeyrissjóðsins, er innsti koppur í búri SH. Stjórnarmenn sjóðsins hafa síðan meiri eða minni tengsl við megnið af þeim smærri aðilum sem gerðu tilboðið í Útvegs- bankann. En hversu góð fjárfesting eru hlutabréfa- kaup í Útvegsbankanum fyrir Lífeyrissjóð verslunarmanna? Frekar en við fyrri hlutabréfakaup sjóðsins var þetta tilboð ekki rætt á vettvangi þar sem almennir félagsmenn gátu látið skoðun sína í ljós. Ákvörðunin var tekin um helgi af stjórnarmönnum, sem jafnhliða tóku ákvarðanir um hlut annarra fyrirtækja í til- boðinu. í auglýsingum um stöðu sjóðsins, sem birtar eru í dagblöðunum í upphafi hvers árs, er þessara hlutabréfakaupa að engu getið. Staða Útvegsbankans er um margt enn á huldu. Frá því fyrsta maí, þegar bankanum var breytt í hlutafjárbanka, er lítil reynsla komin á rekstur bankans. Þó er ljóst að rekst- ur hans hefur dregist mikið saman frá því hann var mestur fyrir hrun Hafskips. Eftir til- boð Sambandsins hafa hinir svokölluðu ,,út- vegsmenn" komið með þá skýringu á seina- gangi sínum að þeir hafi verið að bíða eftir raunhæfum tölum um stöðu bankans. En þegar tilboð Sambandsins lá fyrir virtist það síðan verða að aukaatriði. Það er sjálfsagt ekki hægt að gagnrýna Thor Ó. Thors eða Halldór H. Jónsson fyrir að verja fjármunum sínum á þennan hátt. En það hlýtur að vera gagnrýnisvert að stjórn- armenn Lífeyrissjóðs verslunarmanna renni blint í sjóinn með að fjárfesta ellilífeyri fé- lagsmanna sinna. Enn gagnrýnisverðara hlýtur það að vera þegar hagsmunaárekstr- ar stjórnarmanna eru jafn augljósir og að of- an greinir. En félagsmenn í Lífeyrissjóði verslunar- manna eru ýmsu vanir og hafa sýnt það í gegnum árin að þeir kippa sér ekki upp við þó atvinnurekendurnir í félaginu ráðstafi fjármunum þess í samræmi við fé fyrirtækja sinna. ERLIND YFIRSYN Þegar erfðavísarnir finn- ast, ætti að vera unnt að prófa áhættu hvers ein- staks. Leit miðar að arfgengisþáttum ristilkrabbameins og drykkjusýki Á grænmetisökrum í Kaliforníu er hafin fyrsta tilraun úti í náttúrunni með lífveru, búna til í rannsóknarstofu með aðferðum sem síaukin þekking á erfðum hefur lagt mönnum í hendur. Um er að ræða bakteríu, sem tekur sér búsetu á hýði berja og ávaxta og á að gera gróðurinn mun frostþolnari en ella. Myndun nýrra afbrigða lægri og æðri líf- vera með því að skeyta saman erfðaefni af mismunandi uppruna er sú grein lífefna- tækni sem vekur í senn mesta athygli og ugg. Myndun lífvera í rannsóknarstofum er elsta viðfangsefni vísindaskáldskapar. Þar er erfðaefnið, kjarni alls lífs, handfjallað og því skákað til eftir geðþótta vísindamannsins. Bæði stjórnvöld og vísindastofnanir hafa séð ástæðu til að binda tilraunir með erfðaefni ströngum hömlum og eftirtiti, bæði af ótta ■við skaðvænlegar afleiðingar skyldu örver- ur með áður óþekkta eiginleika sleppa út í náttúruna og vegna torræðra siðferðislegra úrlausnarefna í meðferð á erfðaefni manna. Líftækni á grundvelli erfðafræði er enn á frumstigi, en í læknavísindum telja menn sig eygja möguleika á að leiðrétta erfðagalla, jafnvel meðan fóstur er enn í móðurkviði. Skemmra er í að vitneskju um arfgenga hneigð til sjúkdóma megi greina og nota þá vitneskju til fyrirbyggjandi ráðstafana. Ný- skeð hafa birst fregnir af niðurstöðum sem virðast færa slíka möguleika nær gagnvart tveim plágum, krabbameini í neðri melting- arvegi og drykkjusýki. í breska vísindatímaritinu Nature birtist í þessum mánuði frásögn af rannsókn sem vekur vonir um að brátt verði unnt að bera kennsl á erfðavísi, þar sem galli geti verið veigamikil undirrót krabbameins í ristli og endaþarmi. Þetta afbrigði krabbameins er hið næstmannskæðasta víða um Vesturlönd, á eftir lungnakrabba. Ástæðan fyrir hárri dánartíðni ristilkrabbasjúklinga er að sjúk- dómseinkénni eru einatt ógreinileg og þeirra verður ekki vart fyrr en meinvefurinn hefur náð að breiðast svo út að brottnám hans með skurðaðgerð heppnast ekki. Væri því mikið unnið, ef unnt væri að bera kennsl á erfðaeinkenni sem sýndi að hverjum ein- staklingum sérstök ástæða er til að beina fyrirbyggjandi aðgerðum, svosem reglulegri iðraskoðun. Rannsóknir þessar eru unnar undir stjórn sir Walters Bodmer við Imperial Cancer Research Fundí London. Hann og samstarfs- fólk hans telur sig hafa komist að raun um að galli á erfðavísi geti skýrt milli fjórðung og helming ristilkrabbameina. Erfðavísir þessi er ekki fundinn ennþá, en vísindamennirnir telja sig vita á hverjum stað í tilteknum litn- ingi hans sé að leita. Eftir að leitin ber árang- ur má vonast til að unnt sé að vinsa úr með einföldu frumuprófi þá einstaklinga sem sér- stök ástæða er til að fylgjast með. Kenning innyflameinafræðinga hefur lengi verið sú, að fæða auðug að fitu en sem skortir trefjar stuðli að krabbameinsmyndun í neðri meltingarvegi. Þýðing starfs bresku vísindamannanna felst í því, að þar virðist ætla að fást skýring á því, hvernig breytingar á frumum geta hlotist af slíkum umhverfis- þáttum og hrundið krabbamyndun af stað. Þessum árangri var náð með nýlegri tækni við að sneiða niður og sundurgreina erfða- efni. Rannsóknin beindist að fjölskyldum, þar sem tíður er ættgengur kvilli, sem oft reynist undanfari ristilkrabba. Kvillinn nefnist poly- posis adenomatosa familiaris og felst í því að sveppæxli taka að spretta innan á ristlinum og þekja einatt innra byrði hans. Sum æxlin taka svo breytingum yfir í illkynja vef. Vísindamennirnir bresku telja að erfðavís- irinn, sem þeir leita enn, stjórni myndun efna sem ráða frumuvexti. Hver einstakling- ur hefur að öllu eðlilegu tvö eintök af hverj- um erfðavísi, sitt frá hvoru foreldri. Séu bæði eintökin gölluð eða óvirk, hlýst af stjórnlaus frumuvöxtur, og nokkuð af frumugrúanum gerist illkynja. Hætta á ristilkrabba vex mjög við gróður sveppæxla í ristli. Hjá þeim sem af honum eru haldnir fundu vísindamennirnir afbrigði- legt erfðaefni, sem bendir til galla í erfðavísi í fimmta litningi, en litningapör mannsins eru 23 talsins. í fjölskyldunum sem rannsakaðar voru reyndust þeir sem sýktust af ristilkrabba nær undantekningarlaust hafa til að bera af- brigðilega erfðaefnið. Við samanburðar- rannsókn kom í ljós, að sama afbrigðilega erfðaefnið fannst hjá um það bil fimmta hverjum ristilkrabbasjúklingi, þar sem sveppæxlavexti var ekki til að dreifa. Nú er eftir að staðsetja erfðavísinn nákvæmiega á fimmta litningi og þróa síðan frumupróf til að ganga úr skugga um hvort fólk sé í sér- stökum áhættuhópi hvað ristilkrabba varðar. Rannsóknir á arfgengi drykkjusýki eru ekki eins langt komnar, en benda til að þar sé undirrótin líffræðileg frekar en félagsleg. Lengi hefur legið fyrir að drykkjusýki geng- ur í ættir, en margir hafa talið að þar réði for- dæmi en ekki erfðaeiginleikar. Rannsóknir, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum, bera nú böndin að erfðaefninu. Sérstakt mark er tekið á sænskri rann- sókn, þar sem borinn var saman lífsferill barna, sem ýmist ólust upp hjá kynforeldr- um eða kjörforeldrum. Niðurstaðan varð, að börn drykkjusjúklinga reyndust fjórfalt lík- eftir Magnús Torfa Ólafsson legri til að verða drykkjusjúklingar sjálf en þau sem áttu foreldra sem ekki töldust eiga við áfengisvandamál að stríða. Áhættan fyr- ir börn drykkjusjúklinga reyndist fyrir hendi enda þótt þau yrðu frá blautu barnsbeini kjörbörn foreldra sem laus voru við of- drykkju. Rannsókn Thedore Reich við Áfengisrann- sóknastöð Washington-háskóla í St. Louis ber að sama brunni. Hann kannaði áfengis- notkun forfeðra og afkomenda 243 drykkju- sjúklinga. Af 202 körlum áttu 38 af hundraði drykkjusjúkan föður en 21 af hundraði drykkjusjúka móður, 57 af hundraði ■ drykkjusjúkan bróður, 15 af hundraði drykkjusjúka systur, 32 af hundraði drykkju- sjúkan son og 19 af hundraði drykkjusjúka dóttur. Svipuð voru hlutföll hjá nánustu ætt- ingjum 41 drykkjusjúkrar konu. Meðal Bandaríkjamanna gegnumsneitt er talið að drykkjusýki hrjái 3 af hundraði kvenna og 8—10 af hundraði karla. Rannsókn Donalds W. Goodwin við rann- sóknastöð Kansas-háskóla í læknisfræði sýndi að börn foreldra sem ástunduðu bind- indi voru í mun meiri hættu en aðrir að ger- ast drykkjusjúklingar, ef afi eða amma höfðu verið drykkjusjúk líka á sínum tíma. Vísinda- mennirnir vilja ekki taka þessum niðurstöð- um svo, að drykkjusýkin sé vissú fólki ásköp- uð. Þeir telja sig hafa fengið vísbendingar um lífeðlisfræðilegt samhengi í afbrigðilegum áhrifum áfengis á því hvern ig áfengi aðlagast í líkömum drykkjusjúklinga, hvernig það raskar hjá þeim hvatajafnvægi og hversu mikið drykkjuþol þeir hafa. Eftir þessu vilja vísindamenn rekja sig, í þeirri von að finna í erfðaefninu vísbendingu um hvort einstaklingurinn hefur til að bera þá eiginleika, sem líklegir eru til að gera hann að drykkjusjúklingi taki hann að neyta áfengis. Meðan prófið á drykkjusýkitilhneigingu er ekki fundið, gefa vísindamennirnir þessi heilræði: Sonum drykkjusjúkra feðra er ráð- legast að temja sér algert áfengisbindindi. Konur jafnt sem karlar skulu líta svo á, að þeim sé verulega hætt við drykkjusýki, hafi þau átt móður, ömmu eða afa sem þannig var ástatt um. 26 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.