Morgunblaðið - 18.03.1980, Qupperneq 20

Morgunblaðið - 18.03.1980, Qupperneq 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 18. MARZ 1980 Fréttir um mismunandi launakjör manna, sem vinna sömu störf eftir því, hvort þeir eru félagsmenn í Verkamannafé- laginu Dagsbrún eða aðilar að Verzlunarmannafélagi Reykja- víkur eða BSRB hafa að vonum vakið verulega athygli. Svo virðist sem Dagsbrúnarmenn geti búið við allt að 20—30% verri launakjör en félagsmenn í Verzlunarmannafélaginu eða aðilar að BSRB, þótt þeir vinni allir sömu störf. Óánægjan innan Dagsbrúnar með þennan launamun er orðin svo mögnuð, að Dagsbrún hafa borizt fjöldauppsagnir starfsmanna á einum og sama vinnustað og hafa þessir félagsmenn sótt um aðild að Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Við því er að búast, að launþegar sætti sig ekki við það að vinna sömu störf en fá mun lægri laun en starfsbræður þeirra einungis vegna þess, að þeir eru í öðru launþegafélagi. En hvernig stendur á því, að þessi launamunur hefur orðið til? Ástæðan hlýtur að vera sú, að forráðamenn Dagsbrúnar hafa ekki verið nógu vakandi um hagsmuni félagsmanna sinna. Vafalaust kemur mörgum það spánskt fyrir sjónir, þar sem Dagsbrún hefur lengi verið í fararbroddi í kaupgjaldsbaráttu launþega. Það vekur hins vegar athygli, að forráðamenn Dagsbrúnar hafa tekið þessum fréttum illa og sakað Morgun- blaðið um að birta rangar fréttir. Þeir félagsmenn Dagsbrúnar, sem hér eiga hlut að máli geta bezt dæmt um sannleiksgildi frétta Morgunblaðsins en viðbrögð forystumanna Dagsbrúnar vekja upp spurningar um það, hvort þeir hafi eitthvað að fela. Dagsbrún hefur um áratugaskeið verið undir stjórn Alþýðu- bandalagsmanna og þar áður Sósíalistaflokksins. Það er alkunna, að baráttuharka Alþýðubandalagsmanna í launþega- samtökunum fyrir hærra kaupgjaldi fer alveg eftir því, hvort Alþýðubandalagið er í stjórn eða utan stjórnar. Ef Alþýðu- bandalagið er aðili að ríkisstjórn eru forráðamenn Dagsbrúnar og annarra launþegasamtaka reiðubúnir til að framlengja kaupsamninga óbreytta. Ef Alþýðubandalagið er utan stjórnar nota þeir launþegafélögin í pólitískan hernað þess á hendur þeirri ríkisstjórn, sem við völd situr. Nú hefur Alþýðubandalag- ið verið í ríkisstjórn frá haustinu 1978 með litlum hvíldum og þá ganga forsvarsmenn Dagsbrúnar ekki of hart fram í kjarabar- áttunni fyrir hönd félagsmanna sinna. Þetta er líklegasta skýringin á því, að menn, sem vinna sömu störf, fá hærri laun, ef þeir eru í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur en í Verkamanna- félaginu Dagsbrún. Þessi staðreynd leiðir hugann að því, að það er löngu tímabært, að launþegar hristi af sér ok pólitískra flokka í launþegafélögunum. Fengin reynsla sýnir, að yfirráð trúnaðarmanna pólitískra flokka í einstökum verkalýðsfélögum leiða ekki til velfarnaðar fyrir óbreytta félagsmenn. Mikilsverð- asta umbótin í starfi almennra verkalýðsfélaga nú er sú, að hinir almennu félagsmenn taki völdin í sínar hendur frá pólitískum kommissörum, sem þar hafa hreiðrað um sig um áratuga skeið. Dagsbrúnarmálið sýnir, að slík umbótahreyfing á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar er orðin tímabær. Ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa upplýst launþega um það, að ekki sé grundvöllur til grunnkaupshækkana á þessu ári. Þeir hafa ennfremur skýrt frá því, að þeir hafi gerzt aðilar að núverandi ríkisstjórn til þess að verja kaupmátt launa. Það er lítið samræmi í þessum yfirlýsingum og tillögum þeirra Alþýðubandalagsmanna um það að hækka útsvarsprósentuna. Útsvarið er brúttóskattur, sem kemur auðvitað þyngst niður á láglaunafólki. Útsvarshækkun nú þýðir auðvitað minnkandi ráðstöfunartekjur. Vissulega skortir sveitarfélögin fé en þau verða eins og aðrir að draga úr rekstrarútgjöldum sínum. Það er ekki endalaust hægt að ganga í vasa almennings. Útsvarshækk- un nú þýðir 4—5 milljarða skattahækkun. Alþingi ætti að hugsa sig vel um áður en það samþykkir slíka skattalækkun. Og víst er um það, að sjálfstæðismenn, hvort sem þeir eiga aðild að þessari ríkisstjórn eða ekki, hljóta að snúast gegn skattahækk- un af þessu tagi. s- Utsvarshækkun? p|iírsr0fM Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Ritstjórnarfulltrúi Þorbjörn Guömundsson. Fréttastjóri Björn Jóhannsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aöalstræu 6, sími 22480. Afgreiösla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskriftargjald 4.500,00 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 230 kr. eintakiö. Sigurbjörn Einarsson biskup: Innhverf íhugun og verðbólgan í síðustu viku var kynnt áætl- un um miklar umbætur á högum íslendinga. Meðal annars er ætl- unin að lækka verðbólguna. Það atriði vakti að vonum sérstaka athygli. Ekki af því, að menn séu óvanir að heyra verð- bólgu nefnda eða sjá hennar getið á stefnuskrám. En hérlend pólitísk snilli hefur ekki kunnað þau brögð að finna, er dugi gegn henni. Því er von menn taki eftir, þegar úr annarri átt birt- ast einföld ráð til lausnar á þessum flókna vanda. Fleira er í þessari áætlun höfðinglegt, svo >sem það, að Islendingar geti „lagt fram skerf til sköpunar heimsfriðar", ef þeir víkjast sæmilega undir þetta mál. En málið er það, að hálft hundrað íslendinga læri „innhverfa íhugun", íhugunar- tækni Maharishi Mahesh Yogi. Þessi tækni kallast Trans- cendental Meditation í útlöndum og hafa íslenzkir boðendur henn- ar kosið að kalla hana Innhverfa íhugun, sem er íslenzka í sjálfu sér en engin þýðing á útlenda nafninu. Bæði eru nöfnin nokkuð dularfull. Það er ekkert kyn. En hitt er undarlegt, að þessi leið til lækkunar verðbólgu skuli ekki hafa verið kynnt rækilega fyrr en nú, svo lengi sem verðbólgan er búin að hrjá þjóðina og svo ótæpilega sem Innhverf íhugun hefur verið auglýst hér á landi árum saman sem flestra meina bót. Hvað um það: Nú hefur þessi áætlun verið kunngjörð og lögð bæði fyrir Norðurlandaráð og forsætisráðherra Islands. En góð ráð eru dýr. Það kostar þó ekki meira en 60 milljónir að kenna 50 Islendingum „inn- hverfa íhugun Sidhikerfisins". Aðeins 1,2 millj. á mann. Það eru lítil björgunarlaun, ef heil þjóð bjargast. Og allt verður endur- greitt með verðbótum, ef í ljós kæmi, að engin áhrif yrðu af tilrauninni. Þetta er stórmannlegt tilboð. Enda engin smæð á bak við. Það er „íslenzka stofnunin fyrir vís- indi skapandi greinar og norræn friðarnefnd heimsstjórnar tíma- skeiðs uppljómunar.“ Þetta eru glæsileg orð og dulmögnuð. Seiðþrungin eins og nafn meist- arans Maharisfci Madesh Yogi. Og andlit hans, sem allir kann- ast við. Hann situr í Sviss. Ég veit ekki hvort margir geta fengið að líta hann augliti til auglitis en oft birtast myndir af honum með auglýsingum um Innhverfa íhugun og sem fyrir- heit um uppljómun undir heims- stjórn hans. Nú er þess að bíða, hvernig ríkisstjórnin tekur þessu tilboði eða veðmáli. Henni til léttis, þegar til ákvörðunar kemur, er sú upplýsing, sem „stofnunin fyrir vísindi skapandi greinar o.s.frv." hefur látið henni í té: Töfrar Maharishi Mahesh Yogi hafa borið árangur í fylkinu Rhode Island. Þar fjölgaði sól- skinsdögum að mun, fækkaði umferðarslysum og morðum, dró úr atvinnuleysi. Þess er ekki getið, hvað áætlunin á Rhode Island hefur kostað, enda má ráða í það af því, sem farið er fram á að íslenzka ríkið leggi í sjóð Maharishi Mahesh Yogi til þess að hans óbrigðuli elixír megi bæta náttúru lands og þjóðar norður hér. Og hér er sem sagt verðbólgan nokkuð ofarlega á meinaskrá. Miðað við það sem til tíðinda varð á Rhode Island, ætti nú að vera fært að kveða hana niður, loksins. Það er reyndar ekki nýtt, að auglýsendur Innhverfrar íhug- unar fullyrði mikið um árangur- inn af þessari íþrótt. Hvað eftir annað hafa þeir staðhæft, að ef nægilega margir kosti þessari iðkun upp á sig (námsskeiðin í „tækninni" kosta nokkurn pen- ing), þá hafi það ekki aðeins áhrif til bóta á sjálfa þá ein- staklinga, sem í hlut eiga, heldur á þjóðlíf og veðurfar. Þeir segja þetta „margsannað". Ýmsir munu telja þann málstað lítt trúverðugan, sem styðst við slík- ar staðhæfingar. Hér liggja eng- ar sannanir fyrir, ekki einu sinni sennilegar líkur. En fjárþörf þessa trúboðs virðist töluverð. Nýlega gerði Innhverf íhugun snarpa atrennu í Danmörku til þess að fá viðurkenningu sem heilsubótar- tækni eða læknisráð og komast með því móti inn á sjúkratrygg- ingar ríkisins. En auðvitað mis- tókst það að koma þessu inn á almannatryggingar. Danska heilbrigðisstjórnin gaf út það álit, að Innhverf íhugun væri ekki nein vísindi né vísindalega rökstudd tækni, trúarlega hlut- laus, heldur trúariðkun, ind- versk eða hindúísk í öllum grundvallaratriðum. Þetta álit er byggt á einróma greinargerð þejrra trúnaðarmanna danskra lækna, sem falið var að kanna málavexti. Sama niðurstaða liggur fyrir í skýrslu, sem gefin var út í Svíþjóð 1977 (Ottoson-skýrslan). Sigurbjörn Einarsson Hún byggist á rannsókn, sem félagsmálastjórnin sænska lét gera. Þar er gerð vísindaleg grein fyrir aðferðum og eðli Innhverfrar íhugunar og fyllsta áherzla lögð á það, að hún geti ekki með neinu móti talizt hlut- laus tækni, hún verði að flokkast undir átrúnað og trúariðkun, hún sé í raun og framkvæmd bundin indverskum guðum og trúarhugtökum. Það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þeirri staðreynd, að Innhverf íhugun er trúarhreyf- ing. í öllum áróðri er þetta aldrei látið koma fram, það er alltaf talað um tækni aðeins og vísindi. En Innhverf íhugun er trúariðkun, hindúísk að uppruna og eðli, hún byggir á indverskum trúarforsendum og leiðir inn í trúarlegan hugmyndaheim, sem er ekki kristinn. Enginn misskilji mig svo, að ég telji ekki hverjum manni frjálst að leita á slík mið til fanga. Ég vil aðeins að menn viti þetta og geri sér grein fyrir því, hvað þeir eru að gera, ef þeir fara að stunda þessa íhugunar- aðferð. Þeir sem gangast undir handleiðslu Maharishi Mahesh Yogi og safnaðar hans, verða að taka „vígslu" og hún felur í sér fórnarathöfn, þar sem indversk- ir guðir eru ákallaðir. Og þeir fá s.n. „mantra", orð, sem þeir eiga að styðjast við í iðkun sinni, það er einskonar lykilsorð, sem á að ljúka upp þeim djúpsviðum, sem leitað er að. Og þetta „mantra" er líka nafn á indverskum guði. Ég tek það fram, að jóga- iðkanir geta verið hlutlausar trúarlega. Það er unnt að stunda jóga sem einbera tækni. Einnig getur kristinn maður tileinkað sér marga jóga-aðferð og fellt inn í trúariðkun sína. En það eru til margar leiðbeiningar um innri þjálfun, sem eru kristnar alls kostar. Hinn kristni arfur er auðugri en svo, að manni endist ævin til að hagnýta sér hið bezta, sem þar er geymt og tiltækt, hvað þá að menn komist yfir meira. Kristin íhugun, krist- in hugleiðsla býr að ríkri reynslu og þarf enginn langt að leita yfir skammt til þess að sækja sér svölun og blessun í þann nægta- brunn. Þetta er sagt í allri vinsemd í garð þeirra, sem halda indversk- um hugmyndum svo fast að þjóðinni. Ég mun ekki þreyta deilur við fulltrúa Innhverfrar íhugunar. Ég vil aðeins í eitt skipti fyrir öll benda á það, sem hér hefur komið fram: Hér er um trúboð að ræða. Eina grein af þó nokkuð umsvifamiklu og margþættu indversku trúboði. Þetta er ekki sagt í niðrunar skyni. Nema ef vera skyldi, að menn hafi fallið fyrir þeirri freistingu að hafa ekki uppi réttan fána. Það er ámælisvert, ef vísvitandi er gert. Sízt kæmi mér til hugar að lítilsvirða indverskar trúarhugmyndir. Þær eru auðvitað misjafnar og ýmislega notaðar af misjöfnum mönnum. En enginn skyldi láta lauma framandi trúarhugmynd- um inn á sig undir fölsku yfirskini. Dönsku læknarnir, sem ég gat um, taka það einmitt fram í áliti sínu, að fæstir þeir, sem taka „vígslu" og fá „mantra" hjá kennurum Innhverfrar íhug- unar viti, hvað hin dularfullu orð þýða, þeir haldi, að þeir séu aðeins að fara með hlutlausar samstöfur, án tengsla við trúarbrögð. En það hafi oft komið fyrir, að þegar menn komust að hinu sanna í þessu, þá hafi það orðið þeim andlegt áfall, þeim hafi fundizt, að þeir hefðu selt sig undir áhrif og gengið máttarvöldum á hönd, sem þeir ætluðu sér ekki að „vígjast" og lúta. Og ýmsir minntust þess þá, að þeir höfðu ekki ætlað sér að hverfa frá sinni kristnu trú, ekki vitandi vits snúið baki við Jesú Kristi. Þeir tóku það nærri sér að uppgötva, að þeir höfðu í grandaleysi tekið aðra trú, ját- ast óþekktum, indverskum forn- guðum. Margir fleiri en dönsku lækn- arnir hafa beint athygli að þessu og ýmsum öðrum neikvæðum staðreyndum sem fyrir verða í slóð margra mjög auglýstra og umsvifamikilla nýmóðins trúhreyfinga. Meðal manna, sem hafa látið til sín heyra í viðvör- unar skyni, eru þó nokkrir, sem hafa slitið sig úr neti þeirra kerfa, sem þeir höfðu fest sig í, og þótti sem þeir væru leystir úr álögum. Til er í þessum hópi fólk, sem hefur lagt stund á Innhverfa íhugun Maharishi Mahesh Yogi, en miklu fleiri, sem sætt hafa verri afdrifum í öðrum veiðiklóm.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.