Morgunblaðið - 25.11.1982, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 25. NÓVEMBER 1982
Efnahagsöngþveitið
ógnar börnum okkar
eftir Sólrúnu B.
Jensdóttur
sagnfrœðing
Þegar kona, sem lítið hefur látið
til sín taka á stjórnmálavettvangi
birtist á framboðslista í prófkjöri,
hljóta væntanlegir kjósendur að
spyrja: Hver er þessi kona, og
hvað vill hún? Ég ætla að reyna að
svara því.
Ég er fædd og uppalin í Reykja-
vík, sagnfræðingur að mennt, lauk
magistersprófi frá Lundúnahá-
skóla. Ég var blaðamaður við
Morgunblaðið í sex ár og hef
kennt við menntaskóla og Háskóla
íslands. Ég hef skrifað um
nútímasagnfræði, t.d. um ísland í
fyrri heimsstyrjöld og lýðveldis-
stofnunina og vinn nú að
sagnfræðirannsóknum á utanrík-
isverslun íslendinga á fyrra helm-
ingi aldarinnar auk húsmóður-
starfa.
Þegar kjörnefnd Sjálfstæðis-
flokksins fór þess á leit við mig, að
ég tæki þátt í prófkjöri flokksins
fyrir alþingiskosningarnar, ákvað
ég að láta til leiðast. Ástandið í
þjóðfélaginu er þannig, að enginn,
sem fær tækifæri til að leggja
hönd á plóginn, getur færst und-
an. Ég er eindregið fylgjandi
stefnu Sjálfstæðisflokksins. Eink-
um fellur mér vel sú áhersla, sem
hann leggur á frelsi einstaklings-
ins til orða og athafna, andstætt
öðrum stjórnmálaflokkum, sem
telja, að stjórnmálamenn eigi að
hafa vit fyrir almenningi og
ákveða fyrir einstaklinga og
atvinnufyrirtæki, hvernig aflafé
þeirra er varið og eru haldnir
þeirri áráttu að reyna að stjórna
atvinnulífinu með höftum,
ofsköttun og tilfærslu fjármagns
frá arðbæru starfi til tapreksturs.
Með slíkum aðferðum eignumst
við aldrei blómlegt atvinnulíf, sem
getur skapað ný atvinnutækifæri
fyrir unga fólkið, sem kemur á
vinnumarkaðinn.
Hér erum við komin að mikil-
vægasta hagsmunamáli þjóðar-
innar. í hefðbundnu atvinnuveg-
unum, landbúnaði og sjávarútvegi,
er dulbúið atvinnuleysi og ekki
batna lífskjörin, ef ríkið ræður
alla, sem þurfa vinnu á komandi
árum. Orkan er eina auðlind
okkar, sem ekki er nær fullnýtt.
Það verður því að vinda bráðan
bug að uppbyggingu arðbærrar
stóriðju. Ég neita að trúa því, að
ekki sé unnt að nýta orkuna Is-
lendingum til hagsbóta. Skrif-
finnskunni í iðnaðarráðuneytinu
verður að linna. Endalaus skýrslu-
gerð gagnar ekkert, ef engar
framkvæmdir fylgja.
Hvað léttan iðnað varðar, verð-
ur að skapa honum betri vaxtar-
skilyrði. Áðgerðir stjórnvalda að
undanförnu virðast miða að því að
kæfa hann í fæðingu með rangri
gengisskráningu og óhæfilegum
álögum. Þessu verður að breyta.
Áhyggjur landsmanna af verð-
bólgunni aukast stöðugt. Af hálfu
stjórnarliða hefur hvorki skort
loforð né máttvana aðgerðir, enda
versnar ástandið sífellt. Fánýti
aðgerðanna er loksins viðurkennt,
jafnvel af þeim flokki, Alþýðu-
bandalaginu, sem alþjóð þekkir
aðeins af fullkomnu fjárhagslegu
ábyrgðarleysi.
Verðbólgan verður ekki kveðin
niður nema með fjármagnsflutn-
ingi frá ríkisrekstri og einka-
neyslu til arðbærra atvinnuvega.
Verði það gert skapast ný at-
vinnutækifæri og við getum gert
okkur vonir um að halda góðum
lífskjörum og jafnvel bæta þau.
Þetta getur haft í för með sér
tímabundna kjaraskerðingu, en
hún verður minni en sú kjara-
skerðing, sem blasir við okkur öll-
um, fái verðbólgan að æða áfram
óhindruð. Almenningur er, sem
betur fer, farinn að gera sér þetta
ljóst. Aðgerðir, sem þýða kjara-
rýrnun, þurfa ekki að vera óvinsæl-
ar, ef fólk skilur, að þær eru
nauðsynlegar og árangur lætur
ekki bíða of lengi eftir sér.
Skammarlega lágt hlutfall
kvenna í opinberu lífi var mér
hvatning til að taka þátt í próf-
kjörinu. Þrátt fyrir rétt kvenna til
setu á Alþingi í tæp 70 ár, eru þar
aðeins 3 konur en 57 karlar. Þess-
ar tölur endurspegla ástandið víð-
ar. Ég ætla ekki að reyna að skýra
þetta, en ég er ekki þeirrar trúar
að karlmenn hafi meðvitað haldið
konum úti í kuldanum. Viljum við
aukin áhrif verðum við að vinna
að því sjálfar. Við eigum ekki að
bjóða okkur fram til sveitastjórna
og Alþingis til að vinna að svoköll-
uðum kvennamálum, heldur öllum
Sólrún B. Jensdóttir
málum sem þjóðfélaginu eru
gagnleg við hlið karla og á sama
grundvelli og þeir.
Flestar konur vinna óhæfilega
mikið utan heimilis og innan. Fá-
ar fjölskyldur geta lifað af einum
launum, en æskilegast væri, að
það væri unnt og hjón gætu komið
sér saman um hvort ætti að vinna
úti og hvort gæta bús og barna.
Það ætti ekki að hindra frama
fólks þótt það ynni hlutastörf.
Þetta er draumur, sem ekki rætist
í bráð. Hins vegar má gera ýmis-
legt til að bæta ástandið við nú-
verandi aðstæður. Til dæmis með
því að koma á sveigjanlegum
vinnutíma og samfelldum skóla-
degi.
Það er ómannúðlegt, að mæður,
sem kjósa að vera heima og hugsa
um ung börn sín, geti það ekki af
fjárhagsástæðum. Það ætti að
veita þessum mæðrum opinberan
styrk. Kannað hefur verið í Sví-
þjóð, hvort þetta sé hagkvæmt
fyrir þjóðfélagið. Niðurstaðan var
sú, að það þyrfti ekki að vera dýr-
ara að styrkja mæður á þennan
hátt, því að það sparaði bæði
stofn- og reksturskostnað dag-
vista.
Loks vil ég nefna það áhugamál
kvenna, sem mest hefur verið rætt
undanfarna áratugi, dagvistun
fyrir öll börn mæðra, sem kjósa
eða verða að vinna utan heimilis.
Ástandið í þessum málum er enn
óviðunandi. Algengt er að dag-
mæður gæti barna útivinnandi
mæðra, en auðskilið er, að konur,
sem í ár hafa tíma og tækifæri til
að starfa sem dagmæður, geti ekki
skuldbundið sig til að veita sömu
þjónustu næstu ár. Flækingur
milli staða og einstaklinga getur
komið róti á börnin.
Alvarlegasta ógnun, sem vofir
yfir börnum okkar, felst þó í efna-
hagsvandanum. Það er geigvænleg
staðreynd, að ríkisbúskapurinn er
rekinn með erlendum lánum og
ekkert gert til að auka útflutn-
ingsverðmæti og framleiðslu. Oft
er sagt, að við verðum að standa
vörð um sjálfstæði okkar og
menningu, en ekki er víst að allir
geri sér ljóst, hve sjálfstæði okkar
stendur mikil ógn af sífelldum er-
lendum lántökum til rekstrar. Við
viljum ekki, að börnin okkar verði
skuldaþrælar erlendra ríkja, eins
og nú stefnir. Ég trúi því, að
Sjálfstæðisflokkurinn sé eina aflið
í þjóðfélaginu, sem getur stöðvað
þessa óheillaþróun.
Almenningur fái að
ræða stjórnarskrármálið
eftir Jónas Elíasson,
prófessor
Hvaö vill stjórn-
arskrárnefnd?
Af þeim fréttum að dæma, sem
hafa „lekið" út af fundum stjórn-
arskrárnefndar, mun fullur vilji
innan nefndarinnar til að bæta úr
óréttlæti vegna núverandi kjör-
dæmaskipunar. Þau áform njóta
áreiðanlega víðtæks stuðnings.
Það eru hins vegar slæmar fréttir,
sem hafa borist þess efnis, að
nefndin ætli sér að ljúka allsherj-
arendurskoðun stjórnarskrárinn-
ar og leggja tillögur að nýrri
stjórnarskrá fyrir það þing, sem
nú situr. Þar mun gert ráð fyrir
verulegum breytingum á eignar-
réttar- og mannréttindaákvæðum
stjórnarskrárinnar.
Engin umræða farið fram
um stjórnarskrárbreytingar
Stjórnarskrárnefnd hefur ekk-
ert upplýst um áform sín eða til-
lögur, sem hún vill leggja fyrir Al-
þingi. Því hafa menn ekki átt þess
kost að ræða um eða gera athuga-
semdir við breytingartillögur
nefndarinnar. Það verður að telj-
ast ófært, ef keyra á breytingar á
eignarréttar- og mannréttinda-
ákvæðum stjórnarskrárinnar
gegnum þingið án þess að almenn-
ingi gefist kostur á að ræða þær.
Til þess er hér um of veigamikið
mál að ræða. Tökum lítið dæmi:
Það hefur „lekið" út, að til standi
að setja í stjórnarskrá, að jarðhiti
fyrir neðan 100 metra dýpi verði
„þjóðareign". Fréttinni fylgdi, að
fyrir neðan 100 metra tæki skratt-
inn við, og það, sem næðist frá
honum, ætti að vera eign „þjóðar-
innar" allrar. Þetta hljómar
kannski ágætlega, en hvað þýðir
það í raun, þegar stjórnarskrár-
nefnd er komin á skak hjá kölska?
Umboðsmaður kölska
Hvað gerist nú ef jarðhiti fyrir
neðan-100 metra verður „þjóðar-
eign“ samkvæmt stjórnarskrá?
Hvað verður um réttindi, sem
Reykjavík á á Nesjavöllum og ætl-
ar að nota fyrir hitaveitu sína?
Hvað um réttindi sem Hafnar-
fjörður á í Krýsuvík og verða líka
notuð? Verða þessi réttindi „þjóð-
areign" fyrir neðan 100 metra? Ef
svo er, má ekki bora niður fyrir
100 metra nema með leyfi húsráð-
enda? Þarf þá ekki Hitaveitan að
fá uppáskrift hjá umboðsmanni
kölska, ef hún ætlar að bora á
Nesjavöllum? Eða með öðrum orð-
um, þarf Reykjavíkurborg að biðja
um leyfi til að bora á Nesjavöllum,
hjá orkumálaráðherra? Hann set-
ur væntanlega nefnd í málið ag
svarar ekki fyrr en eftir mörg ár.
Eða getur þá fjármálaráðherra,
með skírskotun til þessa ákvæðis,
lagt „þjóðareignarskatt" á borhol-
ur sem þegar eru notaðar, með
auðveldari hætti en nú er hægt?
Mikið hefur verið rætt um að
skattleggja Hitaveitu Reykjavík-
ur. Núverandi orkumálaráðherra
er því fylgjandi að því er manni
skilst. Mun ákvæði í stjórnarskrá,
um að jarðhiti fyrir neðan 100
metra sé „þjóðareign", auðvelda
honum það? Allir hljóta að sjá, að
slík ákvæði er ekki hægt að keyra
gegnum þingið án þess að gefa
mönnum kost á rækilegri umræðu
um þau.
„Það verður að teljast
ófært, ef keyra á breyt-
ingar á eignarréttar- og
mannréttindaákvæðum
stjórnarskrárinnar gegn-
um þingið án þess að al-
menningi gefist kostur á
að ræða þær. Til þess er
hér um of veigamikið mál
að ræða.“
Afstaða Sjálf-
stæðisflokksins
Afstaða Sjálfstæðisflokksins í
kjördæmamálinu er skýr. Á síð-
asta flokksráðsfundi og á síðasta
landsfundi voru kosningalög og
kjördæmaskipan mjög til um-
ræðu. Ályktun landsfundar 1981
um kosningalög og kjördæmaskip-
an er skýr og afdráttarlaus. En
flokkurinn hefur enga sérstaka
stefnu markað í stjórnarskrár-
málinu sem slíku. Það hafa aðrir
flokkar ekki heldur gert. Það er
því ekki við hæfi að gera breyt-
ingar á veigamiklum þegnréttar-
ákvæðum án þess að gefa almenn-
ingi kost á að ræða þær, áður en
þær eru lagðar fyrir Alþingi. Ef
slíkt er gert, þáer stefnt í deilur
um stjórnarskrármálið. Það verð-
ur að rjúfa þing jafnskjótt og búið
er að samþykkja frumvarp að
nýrri stjórnarskrá á Alþingi. Ef
almenn umræða hefur ekki orðið
um þetta stjórnarskrárfrumvarp
áður en það er samþykkt á þingi,
fer hún fram eftir á. Það þýðir, að
umræðan um stjórnarskrána
blandast saman við almenna póli-
tíska kosningabaráttu. Allir hafa
verið sammála um það hingað til
að þetta bæri að forðast. Því verð-
ur að halda sig við það á þessu
þingi að ná fram breytingum á
kosningalögum og kjördæmaskip-
an og leiðrétta núverandi órétt-
læti.
Samþykkt stjórnar Full-
trúaráðs sjálfstæðis-
félaganna í Reykjavík
Að ofangreindu tilefni sam-
þykkti stjórn Fulltrúaráðs sjálf-
stæðisfélaganna í Reykjavík eftir-
farandi ályktun á fundi sínum 28.
október síðastliðinn.
Stjórn Fulltrúaráðs sjálfstæðis-
félaganna í Reykjavík skorar á
stjórnarskrárnefnd, að gera nú
þegar opinberar þær tillögur að
breytingum á stjórnarskránni,
sem fjailað er um innan nefndar-
innar nú.
Hér er talað skýru máli um
nauðsyn þess, að almenningur fái
að fylgjast með stjórnarskrármál-
inu og fái tækifæri til að ræða
fram komnar breytingartillögur.
Allir sjá nauðsyn þess, að máls-
meðferð í þessu mikilvæga máli sé
slík, að ekki sé stefnt út í pólitísk-
an ófrið um stjórnarskrármálið.
Tíöindalaust hjá
stjórnarskrárnefnd
Á þessu ári hefur stjórnarskrár-
nefnd starfað miklu meira og
haldið fundi oftar en menn hafa
vanist fram til þessa. Sá ásetning-
ur stjórnmálamanna að endur-
skoða stjórnarskrána í heild á
fjörutíu ára afmæli. Því er eðlilegt
að nú vilji menn fara að sjá ein-
Jónas F.liasson
hvern árangur af endurskoðun-
arstarfinu.
En þrátt fyrir mikið starf heyr-
ist ekkert frá stjórnarskrárnefnd.
Hún hefur ekki gert almenningi
kunnar neinar tillögur að breyt-
ingum á stjórnarskránni. Því er
eðlilegt að menn spyrji, hvort
engra breytinga sé von. Telur
stjórnarskrárnefnd ef til vill að
engra breytinga sé þörf ?
Er breytinga þörf?
Þessari spurningu má tvímæla-
laust svara játandi. Einn dreifbýl-
isbúi getur haft sömu áhrif á
stjórn landsins og fimm þéttbýl-
isbúar. Þetta óréttlæti verður að
afnema, jafnvel þótt sumum full-
trúum dreifbýlisins þyki völdin
harla góð eins og margsinnis hef-
ur komið fram. Menn skilja vel að
þeir séu ekki sérstaklega viljugir
að flýta fyrir breytingunni. En
þeir mega ekki nota völd sín á Al-
þingi til að hindra að breytingin
nái fram að ganga. Slíkt væri póli-
tískt samsæri minnihlutans gegn
meirihlutanum.