Morgunblaðið - 23.01.1983, Page 36

Morgunblaðið - 23.01.1983, Page 36
36 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 23. JANÚAR 1983 Ásdís Ingólfs- dóttir — Minning Fædd 23. júní 1922 Dáin 16. janúar 1983 Þann 16. janúar síðastliðinn andaðist tengdamóðir mín, Ragna Ásdís Ingólfsdóttir, í Landspítal- anum eftir erfiða sjúkdómslegu. Það var fyrir tæpu hálfu ári að Ásdís kenndi þess sjúkdóms er að lokum hafði yfirhöndina. Óvænt kom þá í ljós hvað við var að etja og hverjar batahorfur voru. Við þeim tíðindum brást Ásdís með einstöku hugrekki og æðruleysi, sem varaði ailt til hinstu stundar. Aldrei varð vart kvíða eða ótta við þau örlög sem virtust smátt og smátt nálgast, heldur beindist hugur hennar ávallt að sínum nánustu og velferð þeirra, en sem fæst orð höfð um eigin hag. Ekki kom mér þessi andlegi styrkur Ásdísar á óvart eftir öll okkar kynni, heldur minntu mig á Katr- ínu móður hennar, sem mér þótti einstök kona að allri gerð. Báðar höfðu þær hæglátt yfirbragð ívaf- ið ástúð og hlýju, en samt kjark og dugnað sem aldrei var flíkað. Ásdís var fædd á Víðirhóli á Hólsfjöllum 23. júní 1922. Foreldr- ar hennar voru Ingólfur Krist- jánsson, bóndi á Grímsstöðum á Fjöllum, Víðirhóli og síðast Kaup- angsbakka í Eyjafirði, og kona hans Katrín Magnúsdóttir Hann- essonar bónda í Böðvarsdal í Vopnafirði. Varð þeim 15 barna auðið og Ásdís sú fimmta í ald- ursröðinni. Eru enn eftirlifandi 11 af þessum glæsilega systkinahóp. Hefur ávallt haldist mikil og góð samheldni með þeim öllum. Árið 1946 giftist Ásdís eftirlif- andi eiginmanni sínum Guðjóni Kristni Eymundssyni, verkstjóra, frá Reykjavík. Bjuggu þau fyrst í Reykjavík en síðar á Akureyri og Keflavík í nokkur ár en fluttust svo aftur til Reykjavíkur 1962 og hafa búið þar síðan. Börn þeirra Ásdísar og Guðjóns eru: Ingólfur sálfræðingur, kvæntur Susan Guðjónsson og eiga þau tvö börn, auk þess átti Ingólfur son fyrir hjónaband. Áslaug Sif ritari, gift Karli F. Garðarssyni og eiga þau tvö börn. Kolbrún stúdent gift Jóni Sævari Jónssyni rekstrar- verkfræðingi og eiga þau tvö börn. Bergljót bankamaður, gift Helga Bergmann Ingólfssyni vélstjóra og eiga þau eitt barn. Hörður menntaskólanemi er býr enn í for- eldrahúsi. Á þessu ári verða 17 ár liðin frá því ég kom fyrst á heimili Ásdíar og Guðjóns. Strax í upphafi mætti mér hjartahlýja og góðvild. Fljótt sá ég að það sama gilti gagnvart öllum er þangað komu, félögum barna þeirra jafnt sem vinum og vandamönnum. Ótalinn sjóður góðra minninga hefur safnast á þessu tímabili samveru, en heimili þeirra varð brátt sem mitt annað heimili. Ótal tækifæri höfðum við Ásdís til að spjalla saman enda kom ég svo til daglega til hennar fyrstu árin eftir að ég tengdist fjölskyldunni. Einkennandi fannst mér í fari Ásdísar að láta alla njóta sín, unga sem gamla, taka fullt tillit til skoðana þeirra og virða þær, jafnvel þótt andstæðar væru. Hógværð og ljúfmennsku var frekar beitt heldur en hinu. Barnabörnum sínum var Ásdís ætið sérlegur verndari og áttu þau sterkt athvarf þar sem amma var. Margar af hennar helstu ánægju- stundum voru þegar hún fékk barnabörnin í heimsókn eða ferð- aðist með þeim um landið í lengri eða skemmri ferðum. Þá kom oft í ljós hve ríka tilfinningu Ásdís hafði fyrir náttúru landsins, feg- urð þess og tign. Áhrifa frá æsku- stöðvunum gætti þar eins og í mörgu öðru. Þegar komið er að því að kveðja í hinsta sinn er mér efst í huga góðvild, hlýja og hjálgsemi Ásdís- ar. Það viðmót ber að þakka en ekki taka í mót sem sjálfsögðum hlut. Þeir sem sá slíkum frækorn- um í akur tilverunnar uppskera kærleik í huga þeirra er njóta. Blessuð sé minning Ásdísar. Megi algóður Guð varðveita hana í náðarfaðmi sínum. Karl F. Garðarsson Mánudaginn 24. janúar kveðjum við okkar elskulegu vinkonu hinstu kveðju. Hugurinn reikar 16 ár aftur í tímann er frumbyggjar byggðu sér ból í Árbæjarhverfi. Það var þá er við eignuðumst góða og trausta nágranna, fjölskylduna að Hraunbæ 23. Góðar minningar tengjast þessum árum. Asdís unni heimili sínu, það var lærdómsríkt að fylgjast með hennar starfa innan þess, hún var heilsteyptur persónuleiki, greind, réttsyn, mikilhæfur uppalandi, hafði glöggt auga fyrir þörfum hvers einstaklings sem speglaðist í allri hennar framkomu og við- móti. SannUr og einlægur vinur var hún á heimili okkar. Ógleymanleg- ar verða okkur þær stundur er við áttum í samræðum um lífið og til- veruna, því frásagnargáfa Ásdísar var einstök, einnig var athyglis- vert hve hún laðaði að sér fólk og brúaði ávallt bil kynslóðanna. Síðastliðið sumar kenndi Ásdís sér þess meins er bar hana ofur- liði, en í veikindum sínum æðrað- ist hún ekki, frá henni ljómaði og hún brosti sínu bjarta og hug- hreystandi brosi. Að leiðarlokum viljum við þakka Ásdísi. Við biðjum algóðan Guð, að vernda og styrkja eiginmann hennar, börn og barnabörn. Blessuð sé minning hennar. Ásta Gunnarsdóttir, Elín Bára Magnúsdóttir. Ásdís Ingólfsdóttir var fædd á Víðirhóli á Hólsfjöllum 23. júní 1922, fimmta barn foreldra sinna, Katrínar Magnúsdóttur og Ingólfs Kristjánssonar. Katrín var ættuð úr Böðvarsdal í Vopnafirði, dóttir hjónanna Elísabetar Olsen frá Klakksvík í Færeyjum og Magnús- ar Hannessonar, en Ingólfur frá Víðikeri í Bárðardal, sonur Aldís- ar Einarsdóttur og Kristjáns Sig- urðssonar, sem síðar fluttust að Grímsstöðum og bjuggu þar stór- búi. Kristján var annálaður bændahöfðingi og einn fjárflesti bóndi landsins. Katrín og Ingólfur bjuggu fyrstu búskaparár sín á Gríms- stöðum, en fluttust síðar að Víðir- hóli norðar á Fjöllum. Þar var Ás- dís alin upp, ásamt fjórtán systk- inum sínum. Þar var mannmargt og skjólgott. Ingólfur Kristjánsson var glöggur fjárbóndi og farnaðist vel, en heimilið var stórt og þurftu þau Katrín á að halda öllu sínú til að koma barnahópnum á legg. Þau voru samhent í því sem öðru, enda var sambúð þeirra svo góð og ást- úðarfull að minnisstætt er öllum sem til þekkja. Katrín var fyrir- myndarhúsfreyja og lík Bergþóru að því leyti að hún var ekki síður húsbóndi á heimilinu en Ingólfur, sem hneigðist til bóka og mundi allt sem hann las eða heyrði. Katrín var ekki síður miklum kostum búin og sá meðal annars um sönginn í Víðirhólskirkju og hafði þá forystu aðra fyrir söfnuð- inum sem minnisstætt verður og séra Ágúst Sigurðsson hefur fag- urlega lýst í ágætu ritverki sínu, Forn frægdarsetur. Uppeldi barn- anna var með þeim hætti að þau fóru með óvenjugott veganesti út í lífið, en þó einkum hógværð og æðruleysi sem þau sóttu til for- eldra sinna. Þeir eðliskostir eru kynfylgja þessarar fjölmennu ætt- ar. Ásdís átti mikið af þessum eðl- iskostum og komu þeir fram í öllu dagfari hennar, svo og sú hlýja og það manneskjulega viðmót sem fylgir einnig þessu fólki. Og þá ekki síður heiðríkja hugans, í ætt við fjallbláa kyrrðina þar sem Herðubreið ber við himin á heið- um degi. Ur eldhúsglugganum á Víðirhóli var drottning fjallanna tilkomumest, að margra dómi. Þaðan horfði Ásdís oft í æsku sinni, og þau systkin öll. Það er mikil gæfa að eignast ungur slíka útsýn til hálendis íslands. Þögnin fer auðninni bezt. En þegar hún tekur til máls, verður það minnis- stætt. Öræfin mæla það eitt, sem ekki verður aftur tekið. Það hefur verið verðmæt reynsla að kynnast svo traustu fólki, en þó einkum höfuðprýði þess upp til hópa, en það er hve orðvart það er og laust við dóm- hörku og tómyrði. Þeir eðliskostir eru ekki sízt mikilvægir á þessum rótlausu tímum. Enginn skilji samt orð mín svo, að þau frænd- systkin séu einhverjar liðleskjur sem eltast einlægt við að kaupa sér frið, þvert á móti eru þau föst fyrir og láta engan veginn yfir sig ganga. Þau fengu einnig kraft og dugnað í arf. Foreldrar þeirra lögðu kapp á að börnin kæmust til mennta. Katrín hafði ung hleypt heimdraganum og það skorti ekk- ert á að hún hefði ákveðnar skoð- anir á mönnum og málefnum sam- tíma síns. En hún var mild í dóm- um og tillitssöm við aðra. Það var Ásdís einnig og nauðalík móður sinni eins og henni er lýst í minn- ingargrein, þegar hún lézt á út- mánuðunum 1978: „Hún var ekki orðmörg um sig og sína, viðhafði ekki hégómlegt né marklaust tal“, segir Aðalsteinn Eiríksson náms- stjóri sem minnist hennar af hlýju og raunsæi. Ásdís Ingólfsdóttir t Útför móður okkar og tengdamóöur, FRÚ GUORÚNAR ÁGÚSTSDÓTTUR, verður gerö frá Dómkirkjunni mánudaginn 24. janúar kl. 13.30. Anna G. Hallsdóttir, S. Ágúst Hallsson, Ásgeir Hallsson, Margrét Halldóra Sveinsdóttir, Kristínn Þ. Hallsson, Hjördís Þ. Siguröardóttir. t Eiginmaöur minn, ÞORVALDUR SKÚLI SIVERTSEN, Laufásvegi 10, veröur jarösunginn frá Fossvogskirkju þriðjudaginn 25. janúar kl. 13.30 e.h. Blóm vinsamlegast afþökkuö, en þeim, sem vilja minnast hins látna er bent á Barnaspítala Hringsins. Ingibjörg Guónadóttir. t Eiginmaöur minn, KRISTJÁN SVEINBJORNSSON, Mýrargötu 14, veröur jarösunginn frá Fossvogskirkju þriöjudaginn 25. janúar kl. 10.30, Fyrir hönd barna minna, tengdabarna, barnabarna og annarra vandamanna, Guðrún Bjarnadóttir. t Bálför móður okkar, systur og ömmu, KRISTÍNAR ÞORVARDARDÓTTUR, veröur gerð frá Fossvogskirkju þriöjudaginn 25. janúar kl. 15.00. Heiöveig, Selma og Sunna Guömundsdætur, Kristbjörg Þorvaröardóttur og dætrabörn. t Eiginmaður minn, faöir, tengdafaöir og afi, BENEDIKT J. ÞÓRARINSSON, yfirlögregluþjónn, Keflavíkurflugvelli, veröur jarösunginn frá Dómkirkjunni þriöjudaginn 25. janúar kl. 13.30 e.h. Sigríöur Guömundsdóttir, börn, tengdabörn og barnabörn. t Litli sonur okkar og bróöir, VIÐAR ÞÓR HAFÞÓRSSON, veröur jarösunginn frá Bústaöakirkju mánudaginn 24. janúar kl. 13.30. Þeir, sem vildu minnast hins látna, eru vlnsamlegast beðnir aö láta Barnaspitala Hringsins eöa Styrktarfólag lamaöra og fatlaöra njóta þess. Lilja Hjördís Halldórsdóttir.Hafþór Jónsson og systkini hins lótna. var jafnlynd. Æðruleysi hennar var með þeim eindæmum, að ekki er unnt að gleyma baráttu hennar í ójöfnum leik við erfiðan sjúkdóm nokkra undanfarna mánuði, svo karlmannlega horfðist hún í augu við blákaldar staðreyndir óum- flýjanlegra örlaga. Ingólfur Kristjánsson og Katrín Magnúsdóttir fluttust frá Víðir- hóli 1950 og saknaði hann þess mjög, en hún síður. Þau héldu áfram búskap að Kaupvangsbakka í Eyjafirði, þar til Ingólfur féll frá tæpum fjórum árum síðar, ein- ungis 64 ára að aldri. Gott var að gista á Grímsstöðum á Fjöllum eins og frægt er orðið og ekki síður skemmtilegt á Víðirhóli og Kaup- vangsbakka, þótt flest börnin væru þá flogin úr hreiðrinu og Ásdís nokkrum árum áður, þegar hún ung að aldri giftist eftirlif- andi manni sínum Guðjóni Ey- mundssyni rafvirkjameistara úr Reykjavík, 1946. Þau þóttu glæsi- leg ung hjón. En Ásdís kynntist einnig þungri sorg eins og foreldrar hennar og systkin. Einn bræðranna, Hörður, drukknaði á unglingsaldri við Möðrudal á Efra-Fjalli, en annar, Magnús að nafni, varð úti á leið- inni frá Fagradal, 16 ára gamall, en þau Ásdís höfðu skroppið þang- að í stutta sunnudagsheimsókn. Fólkið í Fagradal vildi að þau yrðu nóttina vegna veðurútlits, en Magnús kvaðst eiga að kenna við barnaskólann daginn eftir og lagði því einn af stað undir kvöld. Hann þótti óvenjuþroskaður og mikið mannsefni og hafði tekið við far- kennslu í sveitinni, þegar hann fórst. Hann varð öllum harmdauði og þeir Hörður báðir og hvíldi skuggi yfir heimilinu á Víðirhóli eftir andlát þeirra bræðra. En báðir hvíla þeir í kirkjugarðinum á Víðirhóli. Hann stendur í túninu sunnan við gamla bæinn sem nú er horfinn. Helzta vísbending þess að á Víðirhóli var eitt sinn iðandi mannlíf. Nú þögnin ein. Víðirshólsfólkið er trúað og dul- rænt, en sár þessa endurtekna harmleiks greru aldrei. Förin að Fagradal fylgdi Ásdísi alla tíð, svo nærri henni sem þá var höggvið. Ásdís Ingólfsdóttir og Guðjón Eymundsson bjuggu fyrstu bú- skaparár sín í Reykjavík, en síðar á Akureyri þar sem Guðjón rak fyrirtækið Raforku um nokkurra ára skeið. Þá fluttust þau til Keflavíkur og bjuggu þar nokkurn tíma, en fluttust þá aftur á æsku- slóðir Guðjóns í Reykjavík, þar sem heimili þeirra hefur verið undanfarna tvo áratugi. Ásdís var húsbóndi á sínu fallega heimili ekki síður en Katrín, móðir henn- ar, og í skjóli þeirra Guðjóns hlutu börnin ómetanlegt veganesti sem hefur orðið þeim dýrmæt gjöf í lífsbaráttunni. Á heimili Ásdísar og Guðjóns ríkti ást og samheldni sem börnin og makar þeirra hafa hlotið að erfðum, svo og barna- börnin sem voru gleði og stolt ömmu sinnar. Börn Ásdísar og Guðjóns eru: Ingólfur, sálfræðingur, kvæntur enskri konu, Susan Mona Price, landfræðingi, og búa þau í Eng- landi, Áslaug Sif, skrifstofumað- ur, gift Karli Garðarsyni við- skiptafræðingi, Kolbrún, húsmóð- ir, gift Jóni Sævari Jónssyni rekstrarverkfræðingi hjá Hafskip, Bergljót, bankamaður, gift Helga Bergmann Ingólfssyni vélstjóra sem rekur eigið fyrirtæki ásamt öðrum, Istraktor hf., og Hörður, sem er í Menntaskólanum við Sund, í heimahúsum. Ásdísar Ingólfsdóttur, mágkonu minnar, er sárt saknað af öllum sem kynntust henni. En þegar hún verður borin til grafar á morgun, er þakklæti efst í hugum okkar sem eignuðumst hana að vini. Minningarnar um Ásdísi eru bjartar og hlýjar. Þær eru eins og ljós frá stjörnu sem sjálf er horf- in. Mikilvægri stjörnu í lífi okkar. Sólir ganga sína leiA M-m þú, drotlinn, býAur... segir Björn Gunnlaugsson, þessi barnslegi vísindamaður sem horfði öðrum mönnum oftar til himins. Matthías Johannessen

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.