Morgunblaðið - 28.10.1983, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 28. OKTÓBER 1983
27
Guðmundur Árnason læknir er
fallinn frá fyrir aldur fram. Aðrir
munu vera til að rekja æviatriði
hans, lífsferil og afköst í starfi. Ég
mun aðeins freista þess að draga
hér upp örfáa drætti þeirrar
myndar sem ég geymi af honum í
huga mér. En ég átti því láni að
fagna að njóta handleiðslu hans
tvívegis á Lyflækningadeild Borg-
arspítalans auk annars samstarfs
og samskipta, einnig vegna ættar-
og fjölskyldutengsla. Guðmundur
tók starf sitt mjög alvarlega eins
og vera ber og stundaði það af
mikilli alúð. Snyrtimennska hans
og vandvirkni á því sviði var óað-
finnanleg og mjög til fyrirmyndar.
Sem yfirmaður og samstarfsmað-
ur var hann einstaklega yfirlætis-
laus, góður félagi og ráðgjafi, óeig-
ingjarn, lipur, áhugasamur og
fróður, gæddur mikilli kímnigáfu.
Nærvera hans var góð. Allra
minnisstæðust er mér tillitssemi
hans og nærgætni í starfi, sem
vitnaði um djúpa virðingu hans
fyrir hverjum einstökum sjúklingi
sem hann hafði eitthvað með að
gera. Þessi nærgætni Guðmundar
var í sérflokki, langt fyrir ofan
það sem almennt gerist. Hún varð
mér afar minnisstæð. Hún er að
mínu mati eitt af því sem mest er
til prýðis og sóma í fari iæknis.
Guðmundur Árnason var maður
vörpulegur, alvörugefinn, en svip-
urinn hlýr og bros hans hýrt.
Hann er harmdauði öllum er til
hans þekktu. Enn einu sinni
stendur maður varnarlaus and-
spænis hverfulleik lífsins. Þakk-
læti er mér þó um leið efst í huga.
Á viðkynningu mína við Guðmund
bar aldrei neinn skugga. Ég er
mjög þakklátur fyrir að leiðir
skeiði fyrir mig. Sú samfylgd var
mér mikils virði. Minningin um
slíkan förunaut og vin er verðmæt
eign, jákvæður styrkur og hvatn-
ing í lífsbaráttunni.
Magnús Skúlason
í dag kveðjum við Guðmund
Árnason, lækni, sem lést á Borg-
arspítalanum hinn 19. október sl.
Hann fæddist á Kjarna í Arn-
arneshreppi 28. nóvember 1925, en
ólst upp á Akureyri. Foreldrar
hans voru hjónin Valgerður Rós-
inkarsdóttir, bónda á Kjarna,
Guðmundssonar, hreppstjóra og
stórbónda í Æðey í Isafjarðar-
djúpi, og Árni Ólafsson frá Dag-
verðartungu í Hörgárdal, sem
lengi var sýsluskrifari á Akureyri.
Móðir Árna var Anna Margrét
Jónsdóttir frá Skriðu í Hörgárdal,
en móðir hennar var sonardóttir
Þorláks Hallgrímssonar danne-
brogsm. í Skriðu, hins landskunna
athafnamanns og brautryðjanda í
ræktun o.fl. En amma Ónnu var
dóttir Páls prests á Bægisá, sem
var sonur Árna Þórarinssonar
biskups á Hólum.
Hér er ekki rúm til að rekja
ættir Guðmundar nánar, en í þeim
er að finna ýmsa merka atorku-
menn og er ekki betur séð en Guð-
mundur hafi erft margt það besta
og eftirsóknarverðasta í fari
þeirra, góðar gáfur, viljastyrk og
drengskap. Við það bætist svo
heilbrigt og ástríkt uppeldi í for-
eldrahúsum. Þetta samanlagt hef-
ir stuðlað að heilsteyptum og
giftusamlegum persónuleika Guð-
mundar og farsæld í námi og
störfum.
Náms- og starfsferill Guðmund-
ar var í stórum dráttum sá að
hann lauk stúdentsprófi frá MA
1945, kandidatsprófi í læknisfræði
frá Háskóla íslands 1953, náms-
dvöl í Danmörku 1956—57, síðan
sérfræðinám í lyflækningum og
læknisstörf í Svíþjóð 1957—65, en
þá flutti hann heim til íslands
ásamt konu sinni Stefaníu Sig-
rúnu Þórðardóttur úr Reykjavík,
en þau gengu í hjónaband 1955.
Eftir að heim kom var Guðmund-
ur lengst af læknir á Borgarspítal-
anum þar til 1973 að hann gerðist
yfirlæknir á Akranesi.
Um læknisstörf Guðmundar
ætla ég ekki að fjölyrða. Þar geta
sjúklingar hans og samstarfs-
menn betur um fjallað.
En kunnugt er mér þó um alúð
hans og umhyggju sem hver mætti
er til hans leitaði og framúrskar-
andi vandvirkni í öllu er hann tók
sér fyrir hendur, enda voru rann-
sóknir í hans fagi eitt af áhuga-
málum hans þótt annir við skyldu-
störfin stæðu þar mjög í vegi. En
hugsandi og skrifandi um þau efni
var hann til síðasta dags, því
hugsunin var skýr þótt höndin
brygðist.
Oft reyndi á þrek hans og karl-
mennsku, jafnvel á unga aldri.
Föður sinn missti hann árið 1946
og var þá eini karlmaðurinn í fjöl-
skyldunni og ómetanleg stoð og
stytta móður sinnar og systra sem
treysti enn meir hin órjúfandi
bönd innan fjölskyldunnar.
Einn bróður eignaðist hann,
Ólaf, sem dó 1930 ekki ársgamall.
Systur hans eru: Anna, gift Jóni
Tómassyni, framkvæmdastjóra,
Reykjavík, Þorgerður Septína, gift
Hirti Eiríkssyni, framkvæmda-
stjóra, búsett á Akureyri, og
Hulda sem er kennari á Akureyri.
Móðir hans dó 1979.
Má geta sér nærri um trega
þeirra systranna við fráfall bróð-
urins. En mestur er þó missirinn
og sorgin sárust hjá eiginkonunni
og sonunum tveim, Guðmundi
Þórði 17 ára og Ólafi Skúla 15 ára,
sem eiga nú á bak að sjá heimilis-
föður í þess orðs fyllstu og bestu
merkingu, því óhætt er að fullyrða
að ekkert stóð hjarta Guðmundar
nær en heimili hans og fjölskylda
og framtíð hennar. Nærri þriggja
áratuga sambúð í blíðu og stríðu
talar sínu máli. Þá hefur og sam-
fylgdin með hans mannvænlegu
sonum veitt honum ómælda ham-
ingju, því betri syni verður ekki á
kosið. Osk mín og von er sú að þeir
og móðir þeirra sigrist á sorginni
og minningin um góðan föður og
eiginmann fylgi þeim sem leið-
arstjarna um óráðna framtíð.
Minn góði frændi var allt til
hins síðasta í minum augum sami
íhuguli og fallegi drengurinn sem
ég þekkti svo vel allt frá barnsár-
um hans.
Við hjónin þökkum Guðmundi
ævarandi vináttu og kveðjum
hann með söknuði. Eiginkonu og
sonum sendum við ynnilegar sam-
úðarkveðjur.
Skúli Magnússon
Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.
St.G.St.
Andlát Guðmundar Árnasonar
kom vinum hans ekki á óvart; þeir
höfðu lengi fylgst með hinum
ójafna leik og orðið vitni að því,
hvernig mannleg reisn fær hald-
ist, þrátt fyrir þjáningar og dauða.
Leiðir okkar Guðmundar lágu
saman þegar ég varð lyfsali á
Akranesi. Vegna starfs míns hlaut
ég að hafa af honum nokkur
kynni, en vera okkar beggja í
Rótarý-klúbbi Akraness stuðlaði
að enn nánari kynnum, og við
hjónin eignuðumst í þeim Guð-
mundi og Stellu einlæga vini.
Guðmundur Árnason var ákaf-
lega eftirminnilegur maður í sjón
og raun. Myndarlegur á velli, lítið
eitt lotinn í herðum á síðari árum,
jarpur á hár og fríður sýnum, og
frá augnaráði hans stafaði óum-
ræðilegri hlýju.
Hann var mikils metinn af
starfsbræðrum sínum, og margir
læknakandídatar og stúdentar litu
á hann sem sannan höfðingja í
læknastétt, enda hafði hann til að
bera alla þá kosti sem lækni mega
prýða. Hann var framúrskarandi
skýr í ályktunum, nákvæmur og
þolinmóður, og umhyggja hans
fyrir sjúklingunum var takmarka-
laus. Enda þótt lærdómsferill
Guðmundar væri langur og glæsi-
legur, varð hann þó aldrei viðskila
við uppruna sinn, og heilbrigðri
dómgreind sveitadrengsins hélt
hann til æviloka.
Það er sagt að vegir Guðs séu
órannsakanlegir, og víst er um
það, að okkur eru hulin rökin fyrir
því að annar eins kvistur og Guð-
mundur Árnason skyldi vera svo
fljótt af höggvinn, meðan við hin,
sem svo miklu minna var lagt í,
erum eftir skilin. Og hlutur okkar
getur ekki orðið meiri en að kveðja
hann hinstu kveðju — með sárum
trega.
Stefán Sigurkarlsson
Sjúklingar eiga greiða að gjalda
þegar góður læknir er kvaddur,
því er við hæfi að ein rödd láti í
sér lítillega heyra.
Ég heyrði hafða eftir mætum
lækni þessa setningu: — Þið búið
við mikið læknaval þarna á Akra-
nesi, þar eru læknar hver öðrum
færari í starfi og nú eruð þið að fá
einn færasta lyfjalækni landsins,
Guðmund Árnason. Sá sem hér
skrifar hefur mátt sæta þeim ör-
lögum, allmörg síðustu ár, að
verða að leita að heilsubót á ýms-
um stöðum, þó mest á Sjúkrahúsi
Akraness. Eftir að hafa undir-
gengist skurðaðgerð og eftirmeð-
ferð hjá hinum orðlagða snillingi
og mannvini Guðjóni Guðmunds-
syni, segir hann eitt sinn við mig:
— Nú ætla ég að koma þér í góðs
manns hendur. Hér við sjúkrahús-
ið er að taka til starfa mjög fær
lyfjalæknir, hann heitir Guð-
mundur Árnason. Komdu, ég ætla
að kynna þig fyrir honum. Þessi
stillti, prúði maður tók mér með
hlýju brosti á vör og sagði: — Ég
skal reyna að hjálpa þér. Traustið
sem ég fékk á þessum manni fór
sem straumur um æðar mínar.
Síðan átti ég svei mér eftir að
reyna manninn, því sitt af hverju
kom uppá varðandi heilsuna. Það
var sama hvenær ég leitaði til
Guðmundar, alltaf mætti ég hon-
um hlýjum, prúðum, ákveðnum í
að gera sitt bezta, það var aldrei
látið bíða. Nei, það var strax farið
að athuga hvað væri hægt að gera
og ég tekinn á sjúkrahúsið. Ég
man þegar hann sagði: — Ég hefi
lofað að hjálpa þér, við það ætla
ég að standa. Það gerði hann svo
sannarlega. Þess vegna finn ég hjá
mér hvöt til að þakka fyrir mig,
við leiðarlok, minna má það ekki
vera.
Guðmundur var traustvekjandi
læknir, viljinn leyndi sér ekki,
hann lagði sig fram við að hjálpa
og kanna alla þætti vandlega og
gaf sér góðan tíma til. Öll við-
kynning við þennan mann var eins
og bezt verður á kosið.
Við ræddum oft saman við Guð-
mundur um landsins gögn og ger-
semar, hann var unnandi íslenzkr-
ar fegurðar. Honum þótti gaman
að ræða við bónda um sveitalífið.
Hann sagði stundum: — Veistu
ekki af jörð til sölu, það væri svei
mér áhugavert að athuga um þá
hluti. Já, Guðmundur var náttúru-
unnar barn í eðli sínu. Okkur varð
gott til vina og fór vel á með
okkur. Því sakna ég þessa ágæta
vinar, sem lagði sig fram við að
bæta heilsu mína og líðan. Hafi
hann hjartans þökk fyrir.
Eins og áður var á minnzt hefur
Sjúkrahús Akraness verið heppið
með lækna og starfsfólk. Það er
orðlagt fyrir hve þar er allt hlý-
legt, fólk vingjarnlegt og í einu
orði sagt heimilislegt. Þetta kunna
sjúkir vel að meta. Ég kveð minn
kæra vin Guðmund Árnason yfir-
lækni með söknuði, þakka góð
kynni, hjálp og drengskap. Blessuð
sé hans minnning. Ástvinum votta
ég samúð mína.
Valgarður L. Jónsson
frá Eystra-Miðfelli.
In memoriam
Fæddur 28. nóvember 1925
Dáinn 19. október 1983
Guðmundur Árnason, yfirlækn-
ir á Akranesi, er dáinn.
Sá er nú fallinn í valinn, sem
barðist við sjúkdóma á tvennum
vigstöðvum. Hann hafði það að
ævistarfi að lækna og lina þján-
ingar samborgara sinna. En þar
kom að hann átti í höggi við eigin
sjúkdóm. Á hinum fyrri vígstöðv-
um vann hann margan sigur og
hlaut að launum þakklæti og virð-
ingu. En á hinum síðari laut hann
í lægra haldi og er að leiðarlokum
sárt saknað.
Ekki verður uppruni Guðmund-
ar rakinn hér langt aftur í tímann
né æviferli lýst nákvæmlega.
Hann fæddist að Kjarna í Arnar-
neshreppi í Eyjafirði, sonur hjón-
anna Árna ólafssonar, bónda að
Kjarna og síðar skrifstofumanns á
Akureyri og Valgerðar Rósin-
karsdóttur. Föðurafi Guðmundar
var Ólafur Tryggvi Jónsson, kenn-
ari, frá Gröf í Svarfaðardal, og
föðuramma Anna Margrét Jóns-
dóttir frá Skriðu í Hörgárdal. Var
Árni yngstur fjögurra systkina.
Valgerður, móðir Guðmundar,
var vestfirsk í aðra ætt en eyfirsk
í hina. Faðir hennar var Rósinkar
Guðmundsson frá Æðey í ísa-
fjarðardjúpi en móðir hennar
Septíma Porgerður Sigurðardóttir
frá Kjarna í Eyjafirði. Bjuggu þau
hjón á Kjarna 1904—1920, að
Septíma lést. Valgerður var elst
barna þeirra. Þau Árni og Val-
gerður giftust árið 1923, bjuggu á
Kjarna fá ár en fluttust síðan inn
á Akureyri þar sem Árni gerðist
sýsluskrifari. Þau fluttust aftur á
fyrri stöðvar 1 sveitinni en settust
síðan að á Akureyri fyrir fullt og
allt 1937. Árni lést árið 1946 en
Valgerður dó í hárri elli 1979.
Árna og Valgerði varð fimm
barna auðið. Elst er Anna, búsett í
Reykjavík. Annar í röðinni var
Guðmundur. Þorgerður Septíma
og Hulda eiga báðar heima á Ak-
ureyri. Sonur þeirra ólafur dó
skömmu eftir fæðingu.
Eins og að líkum lætur settist
Guðmundur Árnason í Mennta-
skólann á Akureyri og brautskráð-
ist úr stærðfræðideild árið 1945.
Kandidatsprófi í læknisfræði lauk
hann frá Háskóla íslands árið
1953. Eftir kandidatsár hér heima
og starf á Rannsóknastofu HÍ hélt
hann utan til framhaldsnáms og
læknisstarfa, fyrst í Danmörku og
síðan í Svíþjóð. Hann varð löggilt-
ur sérfræðingur í lyflækningum
um það leyti sem hann fluttist
heim til íslands, 1965. Heim kom-
inn vann hann fyrst á Heilsu-
verndarstöðinni í Reykjavík en
þaðan lá leiðin á Borgarspítalann
þar sem hann var aðstoðaríæknir
til ársins 1973. Þá hófst síðasta
skeið ævi hans og markaði það há-
tindinn á starfsferli hans. Hann
var yfirlæknir á Sjúkrahúsi Akra-
ness frá árinu 1973 til dauðadags.
Árið 1955 gekk Guðmundur að
eiga eftirlifandi konu sína, Stef-
aníu Sigrúnu Þórðardóttur úr
Reykjavík. Hún er meinatæknir
og fóstra að mennt. Synir þeirra
eru Guðmundur Þórður, mennta-
skólanemi og Ólafur Skúli, sem
senn lýkur gunnskólaprófi.
Við Guðmundur Árnason
kynntumst ekki svo nokkru næmi
fyrr en við vorum báðir komnir í
háskóla, raunar ekki fyrr en á
þriðja eða fjórða ári þar. Þegar við
fyrstu kynni duldist mér ekki að
þar var á ferð skarpgáfaður
náungi, skemmtilegur og viðfelld-
inn. Ekki minnist ég þess að hann
hafi látið félagssamtök né félags-
líf stúdenta mikið til sin taka á
þeim árum en hafði þeim mun
meira yndi af samneyti við fáa.
Þeir sem verið hafa heimagangar
innan veggja Hí vita að nám í
læknisfræði er enginn dans á rós-
um. Það krefst skerpu, iðni og ein-
beitingar, og allt þetta hafði Guð-
mundur til brunns að bera. Hann
varð svo vel að sér í pensúmi
fyrsta hluta læknisfræðinnar að
síðari námsstig urðu honum létt-
bær. Eftir skriflegt próf í lyflækn-
isfræði á lokaprófi hafði hann orð
á því að hann hefði verið lítt les-
inn í spursmálinu en orðið að
fleyta sér á þekkingu fyrri ára.
Hann fékk háa einkunn í þeirri
grein. í náminu naut sín vel vís-
indalegur þankagangur hans, stál-
minni, rökvísi og sá hæfileiki að
geta greint hismið frá kjarnanum.
Því var hann einnig hvass í rök-
ræðum en kunni jafnframt að
glæða tal sitt gamansemi, enda
fundvís á skoplegar hliðar manna
og málefna. Guðmundur var stál-
heiðarlegur maður, nákvæmur og
hirðusamur svo að stundum jaðr-
aði við smásmygli, en siíkt aflaði
honum virðingar og trausts. Hann
var orðheldinn, hjálpsamur og
greiðvikinn, ræktarsamur, trygg-
ur vinum og vandamönnum. Þegar
menn fóru að kynnast Guðmundi
var ekki að því að spyrja að menn
leituðu félagsskapar hans, enda
var ekki alltaf næðisamt hjá hon-
um á herbergi hans á Gamla
Garði.
Ég minnist með ánægju síðasta
árs okkar á þeim bæ. Þá bjuggum
við andspænis hvor öðrum. Jafnan
var tekið í spil í hádeginu og bætt-
ut ekki óskemmtilegri menn en
Aðalgeir Kristjánsson og Gísli
Jónsson í hópinn. Ekki má gleyma
dálitlu glasaglingri svona við og
við. Undir glaðlegu yfirbragði og
góðlátlegu fasi Guðmundar bjó
ríkt geð og mikil skapfesta. Hann
kunni illa mótgerðum, var fastur
fyrir og hafði til að bera þann
metnað sem nauðsynlegur var í
ábyrgðarstarfi síðar meir.
Trygglyndi Guðmundar lýsti sér
vel í því að þegar hann kom heim
eftir langa útivist var það eitt-
hvert fyrsta verk hans að endur-
nýja kynni við þá sem hann hafði
haft samneyti við á skólaárunum,
bjóða þeim til dýrlegrar veislu og
hvetja til þess að tengsl rofnuðu
ekki að nýju. Það lá þó í hlutarins
eðli að færri urðu vinafundir þeg-
ar hann hvarf burt úr Reykjavík.
Þá hófust ný kynni, ný og stærri
verkefni biðu sem kröfðust for-
ystuhæfileika og atorku, skipu-
lagsgáfu og ábyrgðar. Fullyrða má
að í yfirlæknisembættinu hafi
Guðmundur komist næst því að fá
viðfangsefni við hæfi. Aðrir vita
það betur en ég hvað hann vann
heilbrigðismálum í Akraneskaup-
stað og hversu mjög hann sinnti
félagsmálum svo sem í samtökum
lækna og Rotaryklúbbi Akraness.
Eftir Guðmund liggja margar
greinar og ritlingar um heilbrigð-
ismál. Þótt lyflæknir væri var
honum í mun að gætt væri hófs í
notkun lyfja. Sést það á greinum
sem hann reit um aukaverkanir
lyfja.
Guðmundur og Stella — eins og
Stefanía er jafnan kölluð — voru
ákaflega samhent í því að prýða
heimili sitt og umhverfi. Var Guð-
mundur slikur fagurkeri og
snyrtimenni að híbýli þeirra eru
meira í ætt við listasafn en dag-
legar vistarverur og ekki er hlutur
Stellu síðri þar. Gestrisni þeirra
hjóna var líka við brugðið. Austur
í Grímsnesi átti fjölskyldan sér
sælureit þar sem hún varði
sumardögum eftir því sem tóm
gafst til. Þar gróðursetti Guð-
mundur fjölda plantna af ýmsum
tegundum og var gaman að fylgj-
ast með því hvílíkt yndi hann
hafði af því að fylgjast með vexti
og viðgangi þeirra.
Dauðastríð Guðmundar Árna-
sonar var langt og sýndi hann
mikla hetjulund. En ekki gekk
hann „einn og óstuddur að þeim
dimmu dyrum“ því að Stella létti
þjáningarstundir hans með sí-
felldri umhyggju og nálægð.
Ég þakka Guðmundi vini mín-
um löng og góð kynni og bið fjöl-
skyldu hans blessunar.
Þórhallur Guttormsson
ÞAKRENNUR
úr plasti eða stáli?
Plátisol er lausnin
Plátlsol þakrennur. niðurföll oq tilheyrandi er
framleltt úr 0,7 mm þykku galv. stáli sem er húöaö
meö PVC efni i lit • Meö þessari aöferö hefur
rennan styrk stálsins og áferö plastsins • Efniö
er einfalt í uppsetningu. • Viö seijum þaö og þú
setur þaö upp án þess aö nota lím eöa þéttiefni.
• Hagstœtt verö.
Kaupid þakefnið hjá fagmanninum
W) Lindab Platisol
Þakrennukerfi framtíðarinnar
Heildsala — smásala.
BREIÐFJÖRÐS
BLIKKSMIÐJA HF
Leittö nénari upplýsinga
aöSigtúni 7 Simit29022
9
Fróöleikur og
skemmtun
fyrirháa sem lága!