Morgunblaðið - 11.05.1985, Side 17
MOftGWNBIiAPIÐ, flMTOMtDflOURHW MAl (M85
Hhiti Kópavogskaupstaöar árið 1956 — ári eftir að kaupstaðarréttindi fengust
Nýleg mynd af Kópavogskaupstað.
'stendur austar á hálsinum en
Digranesskóli. Af þessari upptaln-
ingu sést að mikið hefur verið gert
í þessum málum. Fyrirhugað er að
hótel og veitingaskóli verði í
Kópavogi. Sundlaug var tekin í
notkun á Rútstúni í vesturbæ
1%7. Þetta er þó aðeins hluti af
fyrirhugaðri byggingu. Þá eru
uppi hugmyndir um sundlaug við
íþróttahúsið Digranesi.
Að mestu er lokið við byggingu
Félagsheimilisins. Þar er auk bæj-
arskrifstofanna Leikhús Kópa-
vogs, en Leikfélag Kópavogs hefur
oft starfaö með miklum blóma
þrátt fyrir erfiða aðstöðu. Þá er i
húsinu aðstaða fyrir félagsstarf
aldraðra.
1972 tókust samningar við
Reykjavíkurborg um að Hitaveita
Reykjavíkur legði hitaveitu í
Kópavog sem framkvæmt var á
fáum árum, þetta tel ég vera eitt
mesta happ fyrir Kópavogsbúa.
Byggður hefur verið góður
íþróttaleikvangur sunnan Fífu-
hvammslækjar, það er grasvöllur
með hitalögnum undir og yfir-
breiðslu til að verjast að hann
blotni um of. Þetta hefur gefið
góða raun. Framkvæmdum er ekki
lokið við leikvanginn, m.a. er eftir
að ganga frá hlaupabrautum og
fleiru. Malarvöllur er í vesturbæn-
um og er hann flóðlýstur.
Midbærinn
1971 var hafinn undirbúningur
og siðan framkvæmdir við upp-
byggingu miðbæjar í Kópavogi.
Mikið er búið að framkvæma þó
svo margt sé eftir. Þar eru íbúð-
arhús og verslanir. Þá eru bíla-
stæði á 2 hæðum undir íbúðunum.
öryrkjabandalagið byggði þar
stórhýsi. Kópavogsbær hefur rétt
til að ráðstafa nokkrum íbúðum
þar, hefur sú samvinna gengið
Grillveizla í Vinnuskóla Kópavogs fyrir 3 árum.
mjög vel. Á jarðhæð hússins er
mötuneyti. Kópavogsbær gerir
mikið fyrir aldraða ibúa auk þess,
sem getið hefur verið eru einnig
æfingar fyrir þá í íþróttahúsinu
við Kársnesskóla.
Þá er heilsugæslustöð á svæðinu
með alhliða heilsugæslu og endur-
hæfingastöð sem sjúkraþjálfarar
reka.
Bókasafniö og náttúru-
fræðistofa
Bókasafn Kópavogs var stofnað
1953, það var fyrst til húsa í Kópa-
vogsskóla og síðan Félagsheimil-
inu, en er nú í nýbyggingu í Fann-
borginni. Safnið á nú 58 þúsund
bindi. Margar góðar gjafir hafa
safninu borist m.a. gáfu hjónin
Valgerður Þórarinsdóttir og Stef-
án A. Guðjónsson sl. haust safn-
inu 7000 hæggengar hljómplötur
með sígildri tónlist. Áformað er að
kaupa öflug og góð hljómflutn-
ingstæki, svo hægt verði i framtíð-
inni að njóta sem best þessarar
merku gjafar.
Jón úr Vör var bókavörður allt
frá stofnun safnsins til 1976. Þá
réðst Hrafn Harðarson, bóka-
safnsfræðingur að safninu. Bóka-
safnið er tölvuvætt. Náttúrufræði-
stofan er í kjallara hússins númer
12 við Digranesveg, þar er m.a.
fullkomnasta safn skeldýra, sem
til er á landinu, en það var keypt
af Jóni Bogasyni.
Lista- og menningar-
sjóður, tónlistarmál
Lista- og menningasjóður var
stofnaður 1965 og er varið til hans
0,5% af útsvörum bæjarbúa. Sjóð-
urinn hefur styrkt margþætta
menningarstarfsemi í bænum, auk
þess sem hann hefur keypt tals-
vert af listaverkum. f umsjón
stjórnar sjóðsins eru og tvær
merkar gjafir sem bænum hafa
verið gefnar, þar er um að ræða
gjöf ættmenna hinnar merku
listakonu Gerðar Helgadóttur,
m.a. verk hennar og skissur að
verkum, og í öðru lagi gaf sonur
lista-hjónanna Barböru og Magn-
úsar Árnasonar bænum verk
þeirra, þetta eru stórmerkar gjaf-
ir. Til stendur að byggja listasafn
á miðbæjarsvæðinu í framtíðinni.
Tónlistarskóli Kópavogs er víð-
frægur. Hann er til húsa á mið-
bæjarsvæðinu. Aðsókn að skólan-
um hefur ávallt verið mikil og
margir góðir tónlistarmenn hafa
stundað nám þar. Skólastjóri hef-
ur frá upphafi verið Fjölnir Stef-
ánsson.
Skólahljómsveit Kópavogs var
stofnuð 1966, sveitin hefur um
áraraðir gert garðinn frægan inn-
an lands og utan. Hornaflokkur
Kópavogs hefur starfað frá 1975
við góðan orðstír. Stjórnandi hef-
|ur verið frá upphafi Björn Guð-
mundsson.
Söngkór Kársnesskóla hefur
starfað með miklum ágætum og
komið oft fram hér heima og er-
lendis. Stjórnandi kórsins hefur
frá upphafi verið Þórunn Björns-
dóttir. Fleira mætti telja en verð-
ur ekki gert.
Strætisvagnar Kópavogs
og samgöngumál
Strætisvagnar Kópavogs tóku
til starfa 1957. Landleiðir höfðu þá
frá árinu 1951 annast ferðir um
byggðina en Kópavogsbúar köll-
uðu á aukna þjónustu.
Starfsemi SVK jókst stöðugt
með aukinni byggð. Nú ferðast
4—6000 manns með vögnunum
daglega. Ekki verður svo skilið við
samgöngumálefni og gatnagerðina
án þess að geta um Hafnarfjarð-
arveginn.
Eftir 1960 var svo komið að hin
mikla umferð um Hafnarfjarðar-
veginn nánast skipti bænum í tvo
hluta, sem verulegum erfiðleikum
og hættum ollu. Vegalögin frá
1963 gerðu ráð fyrir því að fjöl-
mennustu sveitarfélögin sæu að
verulegum hluta um iagningu
þjóðvegar um þéttbýli. Miðað við
aðstöðuna hér í Kópavogi var
þetta verkefni bænum algjörlega
ofviða svo að viðunandi yrði til
frambúðar. Þáverandi samgöngu-
málaráðherra Ingólfur Jónsson
gerði sér fljótt grein fyrir sérstöðu
Kópavogs i þessu máli og reyndist
okkur mjög vel.
Nefnd á vegum bæjarstjórnar
og ríkisins vann að lausn málsins
og á fyrsta fundi bæjarstjórnar
eftir kosningarnar 1966 sam-
þykkti hún það samkomulag, sem
náðst hafði milli Kópavogs og
ríkisins. Framkvæmdir hófust
1968 og tók Björn Einarsson að sér
framkvæmdastjórn og leysti það
verk af hendi með miklum sóma.
Við fuiltrúar Kópavogs héldum
því ávallt fram að við teldum að
þessi framkvæmd yrði kostuð að
mestu af ríkinu.
Samgönguráðherrar sýndu
þessu fullan skilning. Ég hef áður
getið Ingólfs Jónssonar sem átti
stærstan þáttinn í þessu máli. Þar
næst vil ég nefna Hannibal Valdi-
marsson og að lokum Björn Jóns-
son, sem 1973 tók af skarið um að
ríkið yfirtæki veginn aiveg. Þessi
framkvæmd var á sinum tíma sér-
stök þar sem brýr voru byggðar í
stað gatnamóta eða hringtorgs.
Þetta var erfiðasta málið sem ég
vann að sem fulltrúi Kópavogs, en
það var að mestu að tjaldabaki ef
svo má að orði komast og verður
ekki getið hér.
Félagsleg þjónusta
Þrátt fyrir að ávallt hafi verið í
mörg horn að líta varðandi fram-
kvæmdir hefur Kópavogur ávallt
veitt mikla félagslega þjónustu.
Félagsmálastofnun Kópavogs hef-
ur orðið ýmsum öðrum sveitarfé-
lögum fyrirmynd. Getið hefur ver-
ið um málefni aldraðra, en þó til
viðbótar má nefna að nú eru í und-
irbúningi byggingar íbúða sem
verða að hluta til eign bæjarins og
standa einnig til boða öldruðu
fólki til kaups.
Mikil áhersla hefur verið lögð á
byggingu dagvistarstofnana og
eru 7 í bænum. 30 leiguíbúðir eru í
eigu bæjarins.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð
er sjálfseignarstofnun, sem fé-
lagasamtök í bænum beittu sér
fyrir undir forystu Ásgeirs Jó-
hannessonar. í kjallara bygg-
ingarinnar er verndaður vinnu-
staður. Bærinn hefur gengist fyrir
byggingu verkamannabústaða.
Félagslíf er mikið í bænum og
mörg félög starfandi, sem hér
verða ekki talin. Íþróttalíf er mik-
ið.
Norrænt samstarf
Hjálmar ólafsson gekkst fyrir
stofnun Norræna félagsins í
Kópavogi 1962 og síðar að tekin
yrði upp vinabæjasamskipti.
Hjálmar var mikill áhugamaður
um norrænt samstarf, sama má
segja um þá bæjarstjóra sem síðar
hafa verið hér, svo og bæjar-
stjórnirnar.
Vinabæir Kópavogs eru: Angm-
assalik á Grænlandi, Klakksvík i
Færeyjum, Mariehamn á Álands-
eyjum, Norrköping í Svíþjóð,
Odense í Danmörku, Tampere í
Finnlandi og Þrándheimur í Nor-
egi.
Mikil samskipti hafa verið milli
vinabæjanna á sviði íþrótta, hóp-
ferða eldri og yngri, kynningar á
bæjunum meðal skólanemenda, en
þýðingarmest hlýtur að vera að
æskulýður þessara bæja kynnist.
Þá hafa verið haldin vinabæjamót
þar sem fulltrúar bæjanna, nor-
rænu félaganna og fleiri hittast,
hafa skapast sterk persónutengsl í
þessu sambandi.
Ýmislegt
Lengi vel var svo að Kópavogur
var nánast svefnbær, fá atvinnu-
tækifæri voru þá í byggðinni,
þetta hefur breyst mikið. Nú er
Kópavogur mikill iðnaðarbær. Þar
er og fjölbreytt verslunar- og
þjónustufyrirtæki. Bankar eru 5
með útibúum, þar er Sparisjóður
Kópavogs elstur og er staðsettur á
miðbæjarsvæðinu en útibú í aust-
urbæ. Útvegsbankinn einnig stað-
settur á miðbæjarsvæðinu, en
einnig með útibú í austurbæ. Bún-
aðarbankinn er í miðbænum. Áður
fyrr þurftu Kópavogsbúar að
sækja kirkju til Reykjavíkur, en
1952 var stofnað prestakall fyrir
Bústaðahverfi og Kópavog og var
séra Gunnar Árnason kjörinn
prestur. 1964 varð Kópavogur sér
prestakall og þjónaði séra Gunnar
því þar til Kópavogi var skipt í 2
prestaköll austan og vestan Hafn-
arfjarðarvegar. Þá voru kjörnir
þeir séra Árni Pálsson í Kárs-
nesprestakalli og séra Þorbergur
Kristjánsson í Digranespresta-
kalli.
Eftir að Kópavogur fékk kaup-
staðarréttindi var stofnað hér
embætti bæjarfógeta. Sigurgeir
Jónsson hæstaréttadómari var
bæjarfógeti til 1979, en Ásgeir
Pétursson síðan.
Héraðslæknir var fyrst Brynj-
úlfur Dagsson svo Kjartan Jó-
hannsson og nú er Eyjólfur Þ.
Haraldsson heilsugæslulæknir.
íbúafjöldi Kópavogs var I
stríðslok um 500, 1948 1.163, 1955
3.783 og 1. desember sl. 14.585.
Núverandi bæjarstjórn skipa:
Björn ólafsson, forseti, og Heið-
rún Sverrisdóttir Alþýðubanda-
lagi Guðmundur Oddsson og
Rannveig Guðmundsdóttir, Al-
þýðuflokki, Skúli Sigurgrímsson
og Ragnar Snorri Magnússon,
Framsóknarflokki, Richarð
Björgvinsson, Bragi Michaelsson,
Ásthildur Pétursdóttir, Guðni
Stefánsson og Arnór Pálsson,
Sjálfstæðisflokki.
Bæjarstjóri er eins og áður er
getið Kristján Guðmundsson.
Þegar litið er yfir sögu síðustu
áratuga, þá tel ég að Kópavogsbú-
ar geti horft björtum augum til
framtíðarinnar. Kópavogur er
orðið öflugt sveitarfélag með
dugmikla íbúa eins og jafnan hef-
ur verið.
Höfundur er fyrrvenndi alþingis-
maður Sjálfsúeðisflokks í Reykja-
neskjördæmi og rar jafnframt for-
ystumaður flokksins í bæjarstjórn
Kópavogs um langt árabil.