Morgunblaðið - 11.08.1985, Síða 28

Morgunblaðið - 11.08.1985, Síða 28
28 B MORGUNBLADIÐ, SUNNUDAGUR 11. ÁGÚST 1985 «( Fegurstu garðar Kópavogs verðlaunaðir Sigrún Edvardsdóttir og Einar Þorgeirsaon, Hvannhólma 16, sem hlutu heiöursverðlaunin, f verðlaunagarðin- um. Anna Alfonsdóttir og Harry Sampsted, Starhólma 16, sem hlutu verðlaun Rotaryklúbbs Kópavogs, í garði sfnum Áslaug Jóelsdóttir og Sverrir Arngrímsson, Kópavogsbraut 51, sem hlutu verðlaun bæjarstjórnar, í garði sínum. Fegrunarnefnd Kópavogs hefur nú veitt árleg verðlaun sín og við- urkenningar fyrir fagra garða og fleira fyrir árið 1985. Aðalverð- launin, glerbikarar hannaðir og gerðir af listamönnunum Sigrúnu Olöfu Einarsdóttur og Sören S. Larsen, voru þrjú talsins. Ber þar fyrst að nefna heiðursverðlaun bæjarstjórnar Kópavogs, sem komu í hlut Sigrúnar Edvardsdótt- ur og Einars Þorgeirssonar, Hvannhólma 16. Verðlaun Rotary- klúbbs Kópavogs hlutu þau Anna Alfonsdóttir og Harry Sampsted, Starhólma 16, en verðlaun bæjar- stjórnarinnar hrepptu hjónin Ás- laug Jóelsdóttir og Sverrir Arn- grímsson, Kópavogsbraut 51. Einnig hlutu Guðríður Gísla- dóttir og Haukur Einarsson, Austurgerði 7, viðurkenningu fyrir fjölbreytt steinabeð og snyrtilegan garð, Auður Jóna Auðunsdóttir og Sigurjón Ein- arsson, Hjallabrekku 6, fyrir fagran garð, Svanhvit Friðriks- dóttir og Kristinn Sigurjónsson, Fögrubrekku 16, fyrir utan- húsklæðningu ársins og Verslun- in Búbót, Nýbýlavegi 24, fyrir snyrtilegan frágang við framhlið hússins. „Nei, satt best að segja hafði ég aldrei leitt hugann að þessari verðlaunaveitingu," sagði Sigrún Edvaldsdóttir, sem ásamt manni sínum, Einari Þorgeirssyni, hlaut heiðursverðlaun bæjar- stjórnarinnar fyrir fegursta garðinn í Kópavogi, sem ein- kennist af góðri hönnun, sam- ræmi og fegurð. „Þeim tíma sem við höfum eytt í garðinn höfum við eytt fyrir okkur sjálf, en ekki verið að keppa við nágrannann," bætti hún við. „Hins vegar er það óneitanlega gaman, að fá svona viðurkenningu. Það sýnir manni að aðrir kunna líka vel að meta fagurt umhverfi." Aðspurð kvað Sigrún vinnuna ekki svo ýkja mikla, sem að baki þessu lægi. „Það er helst fyrst á vorin, sem mikið er að gera, hreinsa til eftir veturinn, en ef maður gætir þess svo að halda þessu við jafnóðum, þá er þetta miklu minna mál en margir halda.“ „Svo gefur þetta manni líka svo mikið," sagði hún. „Fyrir mér er garðvinnan hvíld, nokkurs konar stund milli stríða í stórborgarstressinu. Reyndar hefur sumarið núna verið alveg sérlega gott fyrir allan gróður, en þó svo það rigni mikið og veðrið sé hálf-leiðinlegt, eins og til dæmis í fyrra, þýðir ekkert að láta það á sig fá. Ætli maður sér að hafa garð á annað borð, er algjört frumskilyrði að maður gefi sér þá tíma til að sinna hon- um“ bætti hún við. „Einar starfar sem garðyrkju- maður og sá hann um að hanna og byggja upp lóðina á sínum tíma,“ upplýsti Sigrún, er hún var innt eftir verkaskiptingu fjölskyldunnar í garðverkunum. „Ég sé hins vegar um að hirða hann og halda við.“ „Nú, og svo eigum við tvö börn, 12 ára son, sem leggur okkur lið þegar á þarf að halda og litla 2ja ára dóttur, sem hefur það hlutverk með höndum að tala við blómin, sem eins og allir vita er afskap- lega mikilvægur þáttur í gróður- rækt,“ sagði Sigrún Edvards- dóttir að lokum. „Jú, það liggur heilmikil vinna á bak við fallegan garð,“ sagði Anna Alfonsdóttir, sem ásamt manni sínum, Harry Sampsted, fékk viðurkenningu fyrir garð- inn að Starhólma 16. „Hins veg- ar er þetta ekki svo mikið mál fyrir húsmóður, eins og mig, sem er heima allan daginn, auk þess sem okkar garður er nú ósköp látlaus og einfaldur, enginn íburður eða neitt þess háttar," bætti hún við. Aðspurð kvað Anna garðyrkj- una gefa sér mikið, hún ræktar öll sumarblómin sjálf og fyllir einnig fjóra aðra garða af fögr- um jurtum. „Ég hef svo gaman af þessu að mér finnst sjálfsagt að leyfa systkinum, vinum og kunningjum að njóta afraksturs- ins með mér. Um helgar er líka oft margt um manninn í þessum litla sælureit. Hér hittist öll fjöl- skyldan, börnin okkar, tengda- og barnabörn og grillum við þá gjarnan úti, krakkarnir fara í leiki o.s.frv. Svo ekki er hægt að segja að við hlífum garðinum neitt, enda erum við að þessu til þess að njóta þess að hafa fallegt í kring um okkur en ekki standa bara og horfa í andakt á her- legheitin," sagði hún. „Við höf- um líka verið heppin með það að börnin virðast bera töluverða virðingu fyrir plöntunum og reyna eftir bestu getu að skemma ekki neitt." Samkvæmt upplýsingum önnu hafa þau hjónin enga menntun í garðyrkju, heldur hafa þau einungis hannað garð- inn eftir eigin smekk. „Eina kunnáttan sem ég hef, er frá því ég var í vinnuskólanum í gamla daga,“ sagði Anna, „og hefur sá lærdómur reynst mér ótrúlega vel í þessu brölti rnínu." Eins og fyrr segir hlutu hjónin Aslaug Jóelsdóttir og Sverrir Arngrímsson einnig viðurkenn-. ingu, fyrir garð sinn að Kópa- vogsbraut 51. „Okkar garður er nú orðinn 30 ára gamall,“ sagði Sverrir, „eða jafngamall bæjar- félaginu. Ég hef nú alltaf haft mikinn áhuga á garðrækt yfir höfuð og finnst vinnan sem að baki henni liggur ekkert óhóf- lega mikil. Það er að segja ef maður kann að skipuleggja tíma sinn vel. Hins vegar er það óneit- anlega svolítil binding að standa í þessu. En það er líka í lagi, þar sem maður þarf ekkert að flakka út um allt land, þegar maður hefur svona vistlegan blett við bæjardyrnar," bætti hann við. Áðspurður kvaðst Sverrir njóta þess að dútla I garðinum. „Maður kemst i svo miklu nán- ara samband við náttúruna," sagði hann. „Hitt er svo annað mál að þegar maður hefur lagt þó þessa vinnu i garðinn, hættir manni til að verða svolítið nísk- ur á hann og er mér meinilla við að mikið sé hamast i honum. Þess vegna hef ég til dæmis strangbannað alla boltaleiki i garðinum,“ upplýsti Sverrir að lokum. Dómnefndina, fegrunarnefnd Kópavogs, skipuðu að þessu sinni þau Sigurlaug Sveinsdótt- ir, formaður, Guðrún R. Þor- valdsdóttir, Alexander Alexand- ersson og fulltrúi Rotaryklúbbs Kópavogs, Gunnar J. Kristjáns- son. Starfsmaður og ritari nefndarinnar var Einar I. Sig- urðsson, heilbrigðisfulltrúi. „Jú, það verður að segjast eins og er,“ sagði Sigurlaug Sveins- dóttir, „að valið var óvenju erf- itt. Það er orðið svo mikið af fal- legum görðum hér í Kópavogin- um. Áhuginn á garðrækt hefur aukist verulega og er óhætt að fullyrða að nú vill meiri hluti fólks hafa huggulegt í kring um sig, jafnt utan dyra sem innan," bætti hún við. Aðspurð kvað Sigurlaug til- ganginn með verðlaunum þess- um og viðurkenningum að hvetja bæjarbúa til að halda vöku sinni. „Markmiðið er að sjálfsögðu að Kópavogur komi til með að verða öðrum bæjum til fyrirmyndar hvað þetta snertir,“ sagði hún. „Sérstaklega vakti það athygli okkar hvað mikið var af falleg-. um gróðurreitum í nýju hverfun- um,“ upplýsti Sigurlaug, „og virðist okkur sem fólk sé farið að leggja meiri áherslu á það, nú en áður, að koma lóðinni i stand sem fyrst.“ Undanfarin ár hafa bæði Lions-menn og Rotary-menn átt fulltrúa í fegrunarnefndinni, en samkvæmt upplýsingum Sigur- laugar höfðu hinir fyrrnefndu öðrum hnöppum að hneppa, að þessu sinni. „Það er hins vegar rétt að taka það fram að enginn skuggi hefur þó fallið á sam- starfið," sagði hún, „og vil ég nota tækifærið og þakka bæði þeim og Rotary-mönnum fyrir feikilega gott samstarf á liðnum árum svo og bæjarbúum fyrir geysilega góðar móttökur og lið- legheit," sagði Sigurlaug Sveinsdóttir, formaður fegrun- arnefndar, að lokum.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.