Morgunblaðið - 11.03.1990, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 11.03.1990, Blaðsíða 23
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11. MARZ 1990 4" MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11. MARZ 1990 a <123 Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Aðstoðarritstjóri Fulltrúarritstjóra Fréttastjórar Auglýsingastjóri Árvakur, Reykjavík HaraldurSveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Björn Bjarnason. Þorbjörn Guðmundsson, Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen. Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst IngiJónsson. Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 691100. Auglýsingar: Aðalstræti 6, simi 22480. Afgreiðsla: Kringlan 1, sími 83033. Áskrift- argjald 1000 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 90 kr. eintakið. Einstæðir foreldrar o g húsnæðismál Ifylgiblaði Morgunblaðsins sl. föstudag var fjallað um aðstæð- ur um 7.500 einstæðra foreldra. Auðvitað eru aðstæður þessa fólks mjög misjafnar en þó fer ekkert á milii mála, að þarna er kominn sá hópur þjóðfélagsþegna, sem býr við einna kröppust kjör um þessar mundir. í umfjöllun Morgunblaðs- ins k'emur skýrt fram, að margir einstæðir foreldrar búa við svo erf- ið skilyrði, að þau eru ekki sæm- andi velferðarþjóðféiagi. Augljóst er, að húsnæðismálin skipta sköpum um það, hvort þetta fólk kemst sæmilega af eða ekki. Þeir, sem búa við öryggi í hús- næðismálum eða eiga jafnvel skuld- laust húsnæði, bjarga sér. Hinir geta það tæpast, þótt vilji sé fyrir hendi. Yfírleitt eru þetta ungar konur, sem eru á mjög lágum laun- um og hafa litla sem enga mögu- leika til að auka tekjur sínar vegna þess að þær þurfa að hugsa um bömin sín. Þessar konur geta ekki borgað þá húsaleigu, sem nú tíðkast á fijálsum markaði á höfuð- borgarsvæðinu, sem er bersýnilega þijátíu til fjömtíu þúsund krónur á mánuði fyrir litla íbúð. Bezta leiðin til þess að gera ein- stæðum foreldrum og raunar öðr- um, sem við erfið kjör búa, kleift að koma undir sig fótunum er að tryggja þeim viðunandi húsnæði. Og það fer ekkert á milli mála, að það verður ekki gert nema með verkamannabústaðakerfinu. Aðrir kostir eru of dýrir miðað við þau launakjör, sem einstæðar mæður verða yfirleitt að sæta. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram koma í Morgunblaðinu sl. föstudag, hefðu Verkamannabústaðir í Reykjavík þurft að hafa 765 íbúðir til ráðstöf- unar á sl. ári til þess að fullnægja eftirspum í stað þeiira 183 íbúða, sem ráðstafað var. Á sl. ári sóttu 612 einstæðir foreldrar um íbúðir en 155 var úthlutað íbúðum, sem höfðu 268 börn á framfæri sínu. Það er satt bezt að segja ómögu- legt að sjá, hvaða önnur leið er fær til að hjálpa þessu unga fólki til þess að hjálpa sér sjálft en sú að auka svigrúm verkamannabústað- anna. Tryggingabætur eru nú þeg- ar töluverðar, laun einstæðra for- eidra breytast ekki nema í sam- ræmi við aðrar launabreytingar og ekki er fyrirsjáanleg stökkbreyting í þeim efnum á næstunni. Þess vegna eru húsnæðismálin lykillinn að vanda þessa fólks. Hér hafa stjórnmálamenn verk að vinna og þar duga ekki orðin ein. Er lang- skólanám að verða forréttindi? A Isama fylgiblaði Morgunblaðsins er birt frásögn af unglings- dreng, sem býr einn með móður sinni, mikill námsmaður, vinnur með námi með blaðburði og af- greiðslustörfum eftir skóla. Nú er að því komið að þessi drengur taki ákvörðun um að fara í mennta- skóla. Síðan segir í grein í fylgi- blaði Morgunblaðsins sl. föstudag: „Draumurinn er að fara í Mennta- skóla Reykjavíkur, en ef hann hugsar raunsætt er ekki um margt að velja. Hann sér ekki fram á að geta unnið mikið með menntaskóla- námi og þá eru ekki aflögu pening- ar á heimilinu fyrir bókum og öðr- um útgjöldum.“ Getur það verið, að íslenzkt þjóð- félag sé komið á þetta stig í allri okkar velmegun? Að ungur dug- mikill piltur hafí ekki tækifæri til að ganga menntabrautina vegna lítilla efna? Eftir að menntaskóla- námi lýkur tekur Lánasjóður náms- manna, við en hvað um mennta- skólaárin? Eitt er víst: Ef þjóðfélag okkar er á þessari braut verðum við að staldra við og ná áttum. MORG GOÐ TEIKN eru á lofti, ef marka má nýútkomna skýrslu frá World Watch Institute, en þar fjallar aðalfor- stjórinn, Lester R. Brown, ásamt félögum sínum, um ástand og horfur í efnahags- og umhverfismálum næstu 40 árin. Þeir spá því margt eigi eftir að breytast frá því sem nú er. Það sem mér þykir einna merkilegast er sú áherzla sem þeir leggja á endur- vinnslu úrgangsefna, eða sínotkun orku. Það er ein mikilvægasta framtíðarsýnin. Þegar ég talaði við aifræðinginn Buckminster Fuller, sem hingað kom sællar minningar, lagði hann einnig einna mesta áherzlu á endurvinnslu og orkunýt- ingu. Buckminster Fuller taldi það ævintýri sem mannkynið ætti fyrir höndum ekki sízt bundið þeirri óhemjuorku sem hvarvetna er geymd um alla vetrarbrautina eins- og segir í Félaga orði. Galdurinn sé sá að leysa hana úr læðingi, beizla hana; nota hana einsog hvítar særingar öllu mannkyni til hags- bóta í framtíðinni. Vindinn sé hægt að beizla án þess nokkum tíma gangi á birgðir og vatnið geti þjón- að mannkyninu á margvíslegan hátt. Shirley Temple, sem hingað kom með Havel Tékkóslóvakíuforseta, sagði við mig í fróðlegri forseta- veizlu, Er alltaf svona mikill vindur á íslandi? Heldurðu það verði áfram svona hvasst? Og einsog eitthvað uggandi. Ég vildi engu spá um íslenzkt veðurfar, en sagði, Komdu aftur í júlí og njóttu landsins(i) Þá brosti hún einsog bamastjama. Og rokið var tekið útaf dagskrá. En semsagt: við höfum nóg af vindi — og eftirsókn eftir vindi(!) Ættum því að huga að vindorku- stöðvum framtíðarinnar. Orka er ails staðar og óþijót- HELGI spjall andi, sagði Buckm- inster Fuller. Af öllum málmum hverfa 86% aftur inní hringrás náttúrunnar og meng- un er óþarfur fylgi- kvilli tækni og iðn- menningar; hana eigi þvert á móti að virkja einsog hveija aðra orku. í Félaga orði segir svo, Allar stjórnmálastefnur byggjast, að sögn Buckminster Fuller, á firrunni um að „það er ekkert til nægilegt og mun aldrei verða“; sem sagt á kenningunni um skortinn og allar þykjast þær hafa beZtu lausnina til að dreifa því sem vantar(!) En nú er samfélag mannsins að uppgötva að tilveran býður ekki uppá skort, heldur gnægð. En það hefur tekið manninn tvær milljónir ára að gera sér grein fyrir því að hugurinn er alit, vöðvarnir ekkert. Hin nýja ver- öld framtíðarinnar „hefur ekkert að gera við hræsni, lygar né skammsýnt arðrán. Hún lætur sér ekkert nægja nema að öll orka al- heimsins sé notuð öllu mannkyni til hagsbóta". Nú segja höfundar skýrslunnar frá World Watch Institute, State of the World, að 2030 verði endur- vinnsla úrgangs og sínotkun orku eitt helzta viðfangsefnið í öllum löndum. Þá minnki notkun jarð- efnaeldsneytis sem sé að breyta jörðinni í einhverskonar gróðurhús, en notkun þess náði hámarki sl. ár, varð um 5,8 milljarðar tonna. Þá bættust 90 milljónir manna við allt- of fjölmennt mannkyn. Nú séu skuldir að drepa fátækt fólk í Afríku og Suður-Ameríkulöndum, afborg- anir af erlendum lánum haldi lífskjörum niðri og fleiri þjáist af næringarskorti en í upphafi 9. ára- tugar. (Meðalfjölskylda á Islandi greiðir rífleg mánaðarlaun í vexti af erlendum skuldum!) Fólksijölgun í Eþíópíu, Indlandi og Nígeríu hafi tvö- eða þrefaldazt og skortur sé víðasthvar. En nú séu menn að vakna af mengunarsvefninum og fólksfjölgun í löndum einsog Kína og Tælandi sé miklu minni en áður var. Nú sé jafnvel hægt að bera þá von í bijósti að mannkynið verði ekki nema 8 milljarðar 2030, heilum milljarði færra en spár Sameinuðu þjóðanna hafa gert ráð fyrir. Og orkumálin verða með allt öðru sniði eftir 40 ár en nú er. Við mununr smámsaman hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis, en leggja áherzlu á endurnýjandi sólar- orku — og líklega fremur en notkun kjarnorku. Nú hefur verið reist 80 megavatta sólorkustöð í eyðimörk- inni austur af Los Angeles og getur hún breytt sólarorku í rafmagn sem kostar 8 sent kílóvattsstundin, eða einungis þriðjung þess sem raf- magnið kostar frá kjarnorkuverum. Það má telja líklegt að Bandaríkin fái 10—20% af rafmagni sínu frá vindaflsstöðvum eftir 40 ár, en nú kostar kílóvattsstund vindorkunnar 6—8 sent og lækkaði um 70% á síðasta áratug. Önnur endurnýjandi orka verður einnig notuð í æ ríkara mæli, ekki sízt vatnsaflið sem nú sér heiminum fyrir 1/5 alls raf- magns sem framleitt er. Að 40 árum liðnum munu menn með sama eldsneyti komast íjórum sinnum Iengri vegarlengd í bifreið en nú er og þá verða heimingi fleiri reið- hjól í notkun. Þau eru núþegar helmingi fleiri en bílar og munu einkum síga á í Asíulöndum. Þegar endurvinnsla úrgangs nær hámarki og sínotkun orku verður ein af hringrásunum í umhverfí okkar munu skógamir fara að dafna aftur, súrt regn, eitraður úrgangur og mengun minnka hvar- vetna og mannkyninu mun ekki stafa hætta af koltvísýringi sem nú er að gjörbreyta veðurfari um heim allan að því er Lester R. Brown og samstarfsmenn hans telja. M. (meira næsta sunnudag.) AÐ HEFUR LENGI verið draumur athafna- og hugsjónamanna, að opinn hlutabréfamark- aður næði að festa rætur hér. Menn hafa litið svo á, að slíkur markaður væri forsenda þess, að svonefnd almenn- ingshlutafélög yrðu að veruleika. Eim- skipafélag íslands hf. var fyrsta raun- verulega almenningshlutafélagið á íslandi og stofnað fyrir 76 árum. Þjóðin öll stóð að stofnun félagsins og lagði með fjárfram- lögum grunninn að fjárhagslegum' styrk þess. Þar með voru flutningar til og frá landinu komnir á ný í íslenzkar hendur en nokkur hundruð árum áður hafði þjóð- in tapað sjálfstæði sínu m.a. vegna þess, að hún réð ekki yfir samgöngum á milli Islands og annarra landa. Eftir stofnun Eimskipafélagsins varð ekki frekari þróun í uppbyggingu almenn- ingshlutafélaga á íslandi eða opins hluta- bréfamarkaðar. En fyrir þremur áratugum hóf Morgunblaðið mikla baráttu fyrir stofnun almenningshlutafélaga, enda höfðu þau gefizt vel erlendis, t.a.m. í Vest- ur-Þýzkalandi. Blaðið skrifaði mikið um almenningshlutafélög í nokkur ár en þau náðu aldrei verulegri fótfestu og enginn opinber markaður með hlutabréf þróaðist á þeim árum. Það var svo ekki fyrr en ungir hugsjóna- menn hófu viðskipti á opnum hlutabréfa- markaði fyrir nokkrum árum, að athyglin beindist á ný að viðskiptum með hluta- bréf. Síðan hafa breytingar á skattalögum orðið til þess, að fólk er nú í fyrsta sinn byijað að líta á kaup á hlutabréfum sem ábatasama ávöxtun spariijár og hafa þessi viðskipti stóraukizt á síðustu misserum, þótt enn séu þær upphæðir ekki háar, sem varið er til kaupa á hlutabréfum. Enginn vafí er hins vegar á, að hlutabréfamarkað- ur mun vaxa mjög á næstu árum og jafnt einstaklingar sem lífeyrissjóðir og aðrir sjóðir Iíta á hlutabréfaviðskipti sem arð- vænlega ávöxtunarleið. Það hefur líka orð- ið til þess að auka trú almennings á hluta- bréfum, að fyrirtækjunum, sem skráð eru á hlutabréfamörkuðum er augljóslega vel stjórnað. Það á ekki sízt við um Eimskipa- félag íslands hf., en þar hefur áreiðanlega verið unnið þrekvirki í stjórnun og hagræð- ingu á sl. áratug, undir forystu Harðar Sigurgestssonar, forstjóra fyrirtækisins. Eftirspurnin eftir hlutabréfum í félaginu er m.a. til marks um þetta. Markmið með hlutabréfaviðskiptum eru margvísleg. Þau eru aðferð einstaklinga og margvíslegra söfnunarsjóða til þess að ávaxta fé. Þau geta verið aðferð eigenda hlutabréfa til þess að losna við hlutabréf í fyrirtækjum á einfaldan og skjótvirkan hátt. Þau geta líka verið sterkur kostur fyrir fyrirtæki, sem þurfa að leita eftir fjármagni til þess að bijóta nýjar leiðir í atvinnumálum eða ráðast í viðamiklar framkvæmdir til að afla þess fjár. Hlutabréfamarkaðurinn á Islandi er ungur og viðkvæmur. Þess vegna skiptir afar miklu máli, hvernig til tekst í upp- hafí og að allur almenningur öðlist traust á þessum viðskiptaháttum. Engir eiga meira undir því en forystumenn í atvinnu- lífi, að þetta traust skapist. Það er forsend- an fyrir því, að hlutabréfamarkaður eflist. Það gæti gjörbreytt allri aðstöðu fyrir- tækja í framtíðinni og veitt auknu ljár- magni í nýja uppbyggingu. Lengi hefur ríkt leynd yfir því, hveijir væru helztu eigendur stórra fyrirtækja í landinu. Þessi leynd hefur m.a. átt þátt í að skapa tortryggni í garð hlutafélaga og viðskipta með hlutabréf. Með breytingum, sem gerðar voru á hlutafélagalögum á Alþingi á sl. ári eru stjórnendur opinna hlutafélaga skyldaðir til að upplýsa opin- berlega um stærstu eigendur, þ.e. þá, sem eiga meira en tíunda hluta hlutafiár. Það var því sérstakt ánægjuefni, að Eimskipa- félag íslands skyldi ríða á vaðið fyrir skömmu og birta Iista yfir 15 stærstu hlut- hafa sína. Sú birting var víðtækari en skylt var samkvæmt lögum og hefur orðið til þess, að fleiri stór fyrirtæki hafa tekið vel beiðni viðskiptablaðs Morgunblaðsins um birtingu á skrá yfir helztu hluthafa. Svo opin umfjöllun um helztu eigendur þeirra hlutafélaga, sem nú eru skráð á hlutabréfamörkuðum er til þess fallin að auka traust almennings á hlutabréfavið- skiptum og skemmtilegt, að fyrsta fyrir- tækið, sem stofnað var af almenningi skyldi verða til þess að bijóta ísinn í þess- um efnum, þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því Eimskip var óumdeilanlega „óskabarn" þjóðarinnar. Nú hefur öll eignaraðild breytzt þar eins og víðar — og fremur hnigið í þá átt, að það verði fjölskyldufyrirtæki. Fjárfesting eða valda- barátta EN UM LEIÐ OG birting slíkra hlut- hafalista er ánægjuleg framför á vettvangi hlutafé- laganna og hluta- bréfamarkaðanna vekja þessar upplýsing- ar óneitanlega upp ýmsar spumingar. Þannig sýnir skrá yfir stærstu hluthafa Eimskipafélagsins, að mikil samþjöppun hefur orðið í eignaraðild að fyrirtækinu á þeim 76 árum, sem það hefur starfað. Að nafninu til eru eigendur um 13.000 ein- staklingar en í raun eiga um 15 aðilar um 40% í félaginu. Það er óhjákvæmilegt, að fólk velti því fyrir sér, hvernig þessi sam- þjöppun hefur orðið. Nú er það svo, að enginn opinn vett- vangur hefur verið til fyrir viðskipti með hlutabréf þar til á allra síðustu árum. Og raunar er óhætt að fullyrða, að árum sam- an var lítil sem engin eftirspurn eftir hluta- bréfum, hvorki í Eimskipafélaginu né öðr- um hlutafélögum. Árum saman töldu eig- endur hlutabréfa, að hlutabréfaeign væri að sumu ieyti fjárhagsleg byrði vegna ákvæða skattalaga. Af þessum sökum er ekki ólíklegt, að samþjöppun á eignaraðild að Eimskipafélaginu hafi orðið með þeim hætti á löngum tíma, að eigendur hluta- bréfa hafi komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því, að félagið keypti bréfin, sem hafa svo verið seld aftur ýmsum af núverandi forráðamönnum fyrirtækisins. Á þessum tíma hafa seljendur vafalaust ekki gert sér grein fyrir því hversu verð- mæt þessi bréf gætu orðið í framtíðinni, eins og nú er komið á daginn, enda engin viðmiðun án verðbréfamarkaðar. Nú þegar hlutabréfaviðskipti eru hafin á opnum markaði er útilokað að stunda viðskipti af þessu tagi með hlutabréf. Á hinn bóginn er sú staðreynd, að slík við- skipti tíðkuðust á árum áður, vísbending um nauðsyn þess, að sett verði í lög hér, eins og í flestum öðrum vestrænum lönd- um, ákvæði, sem banni slík viðskipti og raunar ákvæði, sem banni stjórnendum fyrirtækjanna, sem jafnframt eru hlut- hafar, að notfæra sér vitneskju um innri málefni fyrirtækjanna til þess að hagnast á viðskiptum með hlutabréf í þeim sömu fyrirtækjum. En athygli almennings hefur beinzt að hlutabréfamörkuðunum að undanförnu af fleiri ástæðum en þeim, að hvert hlutafé- lagið af öðru birtir nú lista yfir stærstu hluthafa sína. Augljóst er, að mikil bar- átta stendur yfír á þessum mörkuðum milli nokkurra stórra fyrirtækja. Segja má, að sprenging hafi orðið í þessum við- skiptaheimi, þegar viðskiptablað Morgun- blaðsins upplýsti sl. fimmtudag, að Eim- skipafélag Islands væri tilbúið til að kaupa öll fáanleg hlutabréf í Sjóvá-Almennum og hefði jafnvel boðið áttfalt nafnverð bréfanna. Hlutabréfakaup Eimskipafé- lagsins á undanförnum árum í öðrum fé- lögum, ekki sízt Flugleiðum, hafa vakið umtal, athygli og áhyggjur. Forráðamenn félagsins hafa skýrt þau á þann veg, að félagið vildi fjárfesta í arðbærum atvinnu- rekstri og er ekkert nema gott um það að segja, að öflugt fyrirtæki noti umfram- fjármuni til þess að efla annan atvinnu- rekstur. Það er hins vegar alveg ljóst, að verð á hlutabréfum í Sjóvá-Almennum er kom- ið langt yfír raunhæft markaðsverð. Þessi hlutabréf eru nú skráð á sexfalt nafnverð en áttfalt nafnverð boðið í þau. Þá fer ekki lengur á milli mála, að hér er ekki um eðlileg fjárfestingarsjónarmið að tefla heldur baráttu um völd. Raunar upplýsti REYKJAVIKURBREF Laugardagur 10. marz helzti forsvarsmaður Eimskipafélags ís- lands á stjórnarfundi fyrir skömmu, að fyrirtækið byði svo hátt verð í þessi bréf, þar sem tryggingafélagið hefði keypt veru- legan hlut í skipafélaginu! Þessar sviptingar á hlutabréfamarkaðn- um að undanförnu þýða því í raun, að þeir, sem stjórna Eimskipafélaginu, eru að bjóða í hlutabréf í fyrirtæki, sem er stærsti hluthafi skipafélagsins til þess að veita þeim hinum sama ráðningu fyrir að hafa keypt hlutabréf í fyrsta almennings- hlutafélagi landsmanna! Út af fyrir sig má öllum almenningi standa á sama um slíka valdabaráttu á milli stjórnenda nokkurra fyrirtækja í landinu. Það er mál hluthafa í Eimskipafé- laginu, hvort þeir gera athugasemdir við slíka meðferð fjármuna þeirra á aðalfundi félagsins, sem verður í næstu viku. En hér er fleira í veði en það, hveijir stjórna Eimskipafélagi íslands og hveijir stjórna Sjóvá-Álmennum. Það er alveg ljóst, að vinnubrögð af þessu tagi munu rýra mjög álit fólks á stjórnendum þessara fyrir- tækja og draga úr tiltrú almennings á hlutabréfaviðskiptum. Fái fólk það á til- finninguna að litlir hluthafar verði smátt og smátt leiksoppar nokkurra stórra hlut- hafa í þessum fyrirtækjum er meira en hætta á, að sú trú á almenningshlutafélög- um, sem er að byija að skapast, muni dvína. M.ö.o. að þeir sem sízt skyldi vinni í raun að því að koma í veg fyrir, að hug- sjónin um þátttöku almennings í atvinnu- rekstri verði að veruleika. Þess vegna er ekki úr vegi, að stjórnendur stærstu einka- fyrirtækjanna í landinu, sem hér koma við sögu, doki við og íhugi afleiðingar barna legra átaka af þessu tagi. Stórfyrir- tæki í litlu samfélagi REYNSLA OKK- ar íslendinga er sú, að samfélag okkar á afar erfítt með að þola einum aðila að verða of stór. Fyrir allmörgum árum höfðu menn miklar áhyggjur af útþenslu Sambands ísl. sam- vinnufélaga. Á þeim árum, sem peningar kostuðu minna en ekki neitt og Samband- ið hafði greiðan aðgang að þeirn fjármun um, var útþensla þess ótrúlega mikil. Sam bandið kom við sögu, hvar sem þess var nokkur kostur. Um leið og einstaklingar hófu atvinnurekstur, sem sýndist vera arð bær, hóf Sambandið umsvif á sama sviði og sveifst einskis til þess að koma einkafyr- irtækjunum fyrir kattarnef. Það er ekki nema áratugur eða svo síðan einkarekstr- armenn litu svo á, að Sambandið væri auðhringur, sem þyrfti að koma böndum á. Nú þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af Sambandinu að þessu leyti. Komið er í ljós, að þessi útþensla fyrirtækisins var á sandi byggð og nú er spurning, hvort tekst að koma í veg fyrir gjaldþrot þess. Stjórnendur stórra einkafyrirtækja verða hins vegar að gæta þess, að auð hringur eða einokunarfyrirtæki er ekkert betra frá sjónarhorni samfélagsins, þótt reksturinn fari fram í hlutafélagaformi. Þetta er sagt hér vegna þess, að kaup Eimskipafélags Islands á hlutabréfum í allmörgum fyrirtækjum á undanfömum árum gefa tilefni til að spyija, hvort út- þensla fyrirtækisins sé að verða of mikil fyrir þetta fámenna samfélag. Slík út- þensla eykur ekki samúð almennings, held- ur þvert á móti, eins og forráðamenn SÍS hafa kynnzt. Eimskipafélagið á nú rúmlega þriðjung í Flugleiðum. Morgunblaðið hefur áður gert athugasemdir við þessa miklu hluta- fjáreign félagsins. Miðað við þá samþjöpp- un eignaraðildar og valds, sem orðin er í Eimskipafélaginu sjálfu er ljóst, að örfáir einstaklingar ráða að verulegu leyti öllum samgöngum til og frá Islandi á sjó og í lofti! Nú má færa sterk rök fyrir því, að nauðsynlegt sé, að í eigendahópi Flugleiða séu nokkrir öflugir aðilar til þess einfald- lega að skapa festu í rekstri fyrirtækisins. En staðreynd er sú, að rekstur Flugleiða er svo viðamikill og þar eru svo miklir fjár- munir í húfi, að hvorki Eimskipafélag ís- lands né nokþrir aðrir hluthafar hafa bol- magn til þess að hlaupa þar undir bagga ef eitthvað bjátar á. Ekki eru mörg ár liðin frá því, að Flug- leiðir stóðu mjög höllum fæti. Þá sátu í ríkisstjórn íslands menn, sem voru félaginu mjög andsnúnir. Fyrirtækið leitaði ekki eftir ríkisaðstoð en tók við henni, þegar hún var boðin fram. Morgunblaðið tók þátt í þeirri baráttu fyrir lífí félagsins. Flugleiðir hafa nú lagt út í meiri fjárfest- ingu en nokkurt íslenzkt fyrirtæki í einka- eign hefur ráðizt í. Forráðamenn þess eru sannfærðir um, að þessi fjárfesting heppn- ist en staðreynd er engu að síður, að þeir taka mikla áhættu. Ef ófyrirsjáanleg óhöpp verða eða vélarnar, sem fyrirtækið er að kaupa, lækka í verði er hætta á ferð- um. Og þá er spurning, hvort fyrirtækið getur haldið sjálfstæði sínu. Ef svo illa færi, sem allir íslendingar vona að verði ekki, mundi fyrirtækið geta leitað til þriggja aðila: til erlendra flugfélaga, sem þýddi, að við íslendingar værum að byija að missa stjórn á samgöngum okkar við önnur lönd, til íslenzka ríkisins, sem gæti leitt til þess, að þetta glæsilega einkafyrir- tæki yrði undir hælnum á íjandsamlegri ríkisstjórn, og til almennings í landinu um aukin hlutafjárframlög. Það yrði engin hvatning fyrir fólk að leggja fram nýtt hlutafé í Flugleiðir að standa frammi fyrir því, að félaginu væri stjórnað af örfámenn- um hópi manna, sem stýrði bæði Eimskipa- félaginu og Flugleiðum, tveimur stærstu fyrirtækjum landsmanna með þó nokkra einokun í samgöngum. Það eru sjónarmið af þessu tagi, sem forráðamenn Eimskipafélags íslands hf., Flugleiða hf. og fleiri stórra fyrirtækja, sem nú gerast athafnasöm á hlutabréfa- markaði, verða að horfast í augu við, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Enginn er eyland. Fari svo, að samfélaginu þyki nóg um fámennisveldið í þessum stóru einka- fyrirtækjum geta þau staðið frammi fyrir óþægilegum aðgerðum stjómvalda. Eim- skipafélagið kann að verða spurt, hvers vegna það lækki ekki flutningsgjöldin til og frá landinu úr því, að það hefur svo mikla fjármuni aflögu til kaupa á hluta- bréfum í öðrum fyrirtækjum. Það mundi auka kaupmátt í landinu. Flugleiðir geta staðið frammi fyrir því, að keppinautinum Arnarflugi verði afhentar fleiri flugleiðir o.s.fi-v. ÞEIR SEM HAFA Hup-siónin byggt U-Pp atvinnu- nugbjomii lífið á Islandj hafa gert það af dugnaði, útsjónarsemi og hug- sjón. Einkarekstrarmenn hafa átt sér þá hugsjón, að allur almenningur yrði virkur þátttakandi í þessu atvinnulífi, legði fram sparifé sitt og nyti afrakstursins og hefði beina hagsmuni af því, að atvinnurekstur- inn gangi vel og að fyrirtækin hagnist og noti þann hagnað til þess að byggja upp starfsemi sína, þjóðinni allri til hagsbóta. Það má ekki drepa þessa hugsjón í fæðingu og afskræma hana vegna valda- baráttu í toppnum á nokkrum stórum og vel reknum fyrirtækjum, þar sem menn sjást ekki fyrir í baráttu sinni fyrir því að auka enn völd sín, auð og áhrif. Morgun- blaðið hefur í 77 ár barizt fyrir einkafram- takið og verið málsvari þess. Það mun blaðið verða áfram. En það mun ekki gagn- íýna Samband ísl. samvinnufélaga í öðru orðinu fyrir útþenslu og einokunartilhneig- ingu en horfa fram hjá því, ef hið sama gerist í einkarekstrinum. Nú má vel vera, að hér séu að verða til svo stór og öflug fyrirtæki, að þau hafí ekki olnbogarými til að nýta styrk- leika sinn í okkar litla samfélagi og það sé að einhveiju leyti skýringin á þessum hlutabréfaleik. Þess vegna er sennilega kominn tími til að auðvelda íslenzkum fyr- irtækjum að fjárfesta erlendis. Þá geta stór og vel rekin fyrirtæki á borð við Eim- skipafélagið og fleiri fengið útrás fyrir styrk sinn, athafnaþrá og sköpunarkraft með því að láta til sín taka í atvinnulífí á erlendum vettvangi, eins og nokkur stór fyrirtæki á öðrum Norðurlöndum hafa gert. Fjárfestingar fínnskra fyrirtækja í öðrum löndum hafa t.d. vakið athygli um allan hinn vestræna heirn og þær hafa heppnast vel. Hið sama má segja um bæði Svía og Norðmenn og Dani að ein- hveiju leyti. í stað þess að skapa úlfúð hér innan- lands með barnalegri valdabaráttu innan nokkurra fyrirtækja á að gera hinum nýju athafnamönnum kleift að spreyta sig á erlendum vettvangi með auknum umsvif- um þar. Þannig færðu þeir líka björg í bú og-þar fengju þeir verðugri verkefni en. þau, sem hér hafa verið gerð að umtals- efni, ef vel tækist til. „Það má ekki drepa þessa hug- sjón í fæðingu og afskræma hana vegna valdabar- áttu í toppnum á nokkrum stórum og vel reknum fyrirtækjum, þar sem menn sjást ekki fyrir í bar- áttu sinni fyrir því að auka enn völd sín, auð og áhrif. Morgunblaðið hefiir í 77 ár barizt fyrir einka- framtakið og ver- ið málsvari þess. Það mun blaðið verða áfram. En það mun ekki gagnrýna Sam- band ísl. sam- vinnufélaga í öðru orðinu fyrir út- þenslu og einok- unartilhneigingu en horfa fram hjá því, ef hið sama gerist í einka- rekstrinum.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.