Morgunblaðið - 22.01.1994, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 22.01.1994, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. JANUAR 1994 33 miður alltof oft bæði ótímabært og skyndilega. Og þannig var með Lilju Kristjánsdóttur í Bæ, tengdamóður mína, sem varð bráðkvödd í húsi sínu 14. janúar sl. með ótrúlega lík- um hætti og dauða manns hennar, Halldórs Þórmundssonar, bar að fyrir 24 árum síðan. Lilja kom ung að Bæ, aðeins 18 ára. Kom hún eins og svilkonur hennar í Bæ sem kaupakona til Þórmundar Vigfússonar og gekk skömmu síðar að eiga Halldór son hans. Hófu þau búskap í Bæ 1948 og bjuggu alla tíð félagsbúi við Ólaf bróður Halldórs og konu hans Auði Þorbjarnardóttur. Þótti mörg- um sá búskapur ganga með ólíkind- um vel og undruðust hvernig þeir bræður gátu verið sem einn maður. Bú þeirra var lítið en afurðagott. Hirtu þeir það af sérstakri natni og framfleytti það tveimur nægju- sömum heimilum. Lilja brá búi fljótlega eftir að hún missti mann sinn síðsumars 1969. Syrgði hún mann sinn mjög enda lést hann á góðum aldri frá ungri dóttur og að ýmsu leyti erfiðum aðstæðum á heimili. Þau eignuðust þrjár dætur sem eru: Ólöf Helga, búsett á Hellissandi, hún á fjögur uppkomin börn; Þorbjörg, dvelur í Reykjavík, og yngst er Sigrún, bú- sett í Árnesi í Gnúpvetjahreppi og á hún tvö ung börn. Lét hún sér mjög umhugað um dætur sínar og börn þeirra og var óþreytandi að veíja þau ástúð og umhyggju. Sakna þau nú ömmu sinnar sáran að vonum. Haustið 1970 réðst Lilja að mötu- neyti Kleppjárnsreykjaskóla og starfaði þar til dauðadags. Virðingu sína og þakklæti fyrir trúmennsku og ráðdeild sem einstök var sýnir skólinn með því að standa fyrir erf- isdrykkju við útför hennar. Lilja var fædd í Dalsmynni í Eyjahreppi 9. maí 1929. Hún var Snæfellingur í húð og hár, dóttir Kristjáns Jónssonar sem þar bjó, en síðast var skattstjóri á Akra- nesi, og konu hans Þorbjargar Kjartansdóttur. Voru þau hjón bæði vel gefnar og vel gerðar manneskj- ur. Lilja átti því ekki langt að sækja þá kosti sem prýddu hana mest. Hún var sögð fríð kona ung en það sem mér þótti mest til um var að hún var bráðgreind og sérlega ánægjulegur viðmælandi um ótrú- legustu hluti. Námsgáfur hafði hún skarpar og þrátt fyrir stutta skóla- göngu var hún víðlesin og ótrúlega vel að sér, Hún hafði ákveðna lund sem sumir kalla snæfellska. En virðing hennar og tillitssemi við aðra og umhverfi sitt leiddu hjá öllum árekstrum. Hún var fremur dul og fáskiptin en ævinlega hlý og holl þeim sem áttu við hana skipti. Hún kom sér alls staðar vel. Flestir virtu hana mikils og mátu sem kynntust henni og margir lof- uðu enda lagði hún aldrei illt til nokkurs manns og tók upp hanska þar sem á hallaðist eða fór á hlið- ina. Ungviði og þeir sem minna máttu sín leituðu gjarnan skjóls og skilnings hjá henni. Hún var ábyrgðarfull og hafði gát og hemil á þar sem farið var með gamanmál eða ábyrgðarlítið tal. Síðustu dægur hefur komið fram að margir syrgja Lilju og enn fleiri munu sakna hollvinar og mætrar konu. Sjálfur sakna ég konu sem mér fannst ævinlega gott að eiga við orðræður og átti með margt sameiginlegt um ævina og þáði vin- áttu hennar og ráð og margvíslegan stuðning og er fyrir það þakklátur. Blessuð sé minning Lilju. Ólafur Jens Sigurðsson. Fregnin um lát Lilju var mikið áfall fyrir okkur öll og eins og málshátturinn segir: „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“. Við komum í skólann á mánu- dagsmorgni og þá fundum við fyrst fyrir hve stórt hlutverk hún hafði í skólanum. Hún var alltaf til stað- ar og munum við sakna hennar sárt. 10. bekkur veturinn ’93-’94 Kleppjárnsreykjaskóla, Borgarfirði. Þórdís Þorbjarnar dóttir - Minning Fædd 12. apríl 1916 Dáin 13. janúar 1994 Við andlát Þórdísar Þorbjarnar- dóttur frá Neðranesi í Stafholts- tungum leitar margt á hugann frá liðinni tíð og meira en hálfrar aldr- ar vináttu við hana og hennar fólk. Þegar ævin lengist er það eitt af lögmálum lífsins að fækkar í frændgarði og vinir hverfa á braut; söknuður býr um sig í huga þeirra sem eftir eru, en eigi má sköpum renna því eitt sinn skal hver deyja. Þórdís hafði náð tæpum meðalaldri íslenskra kvenna, sem mun sá hæsti í heimi, en fyrir nokkru kom brestur í heilsu hennar og varð henni hvíldin nú líknsamleg. Leiðir okkar lágu fyrst saman er ég vorið 1928, rétt ófermd, fór til sumardvalar á heimili foreldra hennar. Þórdís var þá liðlega tvítug og tókust með okkur góð kynni, við urðum mátar og hélst svo æ síðan. Ekki var það tilviljun að mér var ætluð sveitadvöl hjá fjöl- skyldunni í Neðranesi. Vinsamleg samskipti höfðu verið milli þess fólks og minna venslamanna og má rekja þau aftur til ársins 1893 þegar ráðist var í að brúa Hvítá við Kljáfoss. Til verka þar var meðal annars fenginn steinsmiður úr Reykjavík er lært hafði iðn sína af dönskum smiðum þá Alþingis- húsið reis. Má enn sjá skáhallt við brúna, sem nú er á umræddum stað, vel mótaða hleðslu úr til- höggnu gijóti og eru það leifar hins gamla verklags. Kynni tókust milli aðkomumanna og búenda í næsta nágrenni. Skipuðust mál svo að steinsmiðurinn, Sigurður Frið- riksson, réð Björgu dóttur sína í kaupavinnu að Síðumúlaveggjum og stálpaðan son sinn, Kristin, síð- ar múrarameistara, sem núninga- dreng á sama bæ en aðra dóttur, Kristínu að nafni, til hjónanna á Brúarreykjum, þeirra Sigríðar Bjarnadóttur og Halldórs Jónsson- ar. Tengslin er þarna mynduðust við Brúarreykjafólkið hafa síðan rakið sig fram á þennan dag og mun nú fjórða eða fimmta kynslóð koma til skjalanna; en þarna var ég að koma inn í þá röð því yngsta dóttirin frá Brúarreykjum var orð- in húsfreyja í Neðranesi. Fyrir kaupstaðarbarn var það mikill viðburður að koma í sveit- ina. Borgarfjarðarhérað var bú- sældarlegt, víða reisuleg íbúðarhús og trjágarður hjá, ræktuð tún og engi afgirt, vegir allgóðir á þess tíma mælikvarða og brúaðar flest- ar ár þar sem lax gekk í torfum; víða var hiti í jörðu. Neðranes stendur á bökkum Þverár skammt ofan við ármótin þar sem hún fell- ur í Hvítá og á land að báðum ánum. Þverá fellur þarna í stórum bugðum milli grasigróinna vall- lendisbakka, undirlendi er allnokk- uð og víður fjallahringur. Eirík- sjökull, Ok og Langjökull blasa við, svo og Skarðsheiði og Hafnar- Qall, vestur á Mýrum blámar fyrir múlunum og í norðri gnæfir Baula líkt og vættur yfir héraðinu. Á þessum tíma lá leiðin heim að Neðranesi um hlaðið á Hamraend- um og niður á árbakkann; fylgst var með mannaferðum frá bænum og báti hrundið fram þegar gestur var í sjónmáli, þurfti aldrei lengi að bíða feijumanns. Á síðari tímum er jörðin komin í akvegasamband og þá farið hjá Kaðalstöðum og Efranesi í endastöð á hlaðinu í Neðranesi. Þórdís fæddist í Neðranesi 12. apríl 1916, önnur í röðinni af þrem- ur börnum hjónanna Þórdísar Hall- dórsdóttur (1884-1976) og Þor- bjarnar Sigurðssonar (1875- 1942). Elstur var Sigurður, fæddur 1915, og yngstur systkinanna Halldór, fæddur 1921. Þórdís Hall- dórsdóttir móðir þeirra var sem fyrr er fram komið frá Brúarreykj- um, yngst sex systkina; elstir voru Jón og Bjarni er fórust í blóma lífsins, báðir 1896, með báti sem þeir reru á frá Akranesi. Kristrún lærði karlmannafatasaum og starfaði á klæðskeraverkstæði í Reykjavík en lést þar á besta aldri, Guðmundur var lærður smiður og hann og systirin Guðrún, sem hvor- ugt giftust, störfuðu í sínu heima- héraði og voru seinustu æviárin hjá systur sinni í Neðranesi. Ættir hjónanna í Neðranesi, Þórdísar Halldórsdóttur og Þor- bjarnar, koma saman og voru þau bæði komin af Halldóri Pálssyni bónda og fræðimanni á Ásbjarnar- stöðum. Faðir Þorbjarnar var Sig- urður Þorsteinsson frá Glitstöðum, en móðir hans, Þórdís, var dóttir Þorbjarnar hins ríka Sigurðssonar á Helgavatni í Þverárhlíð, lengra fram ættaður frá Lundum í Staf- holtstungum og er sá ættleggur við þann bæ kenndur. Bjuggu for- eldrar Þorbjarnar í Neðranesi fyrst á Dýrastöðum í Norðurárdal en síðar á Höll í Þverárhlíð og þar lést faðir hans 1881. Þórdís móðir hans flyst svo árið 1887 með síð- ari manni sínum að Neðranesi og búa afkomendur hennar þar enn. Systkini Þorbjarnar í Neðranesi voru Þorsteinn bóndi á Hamri í Þverárhlíð, Margrét ljósmóðir, gift Ólafi Guðmundssyni bónda á Sámsstöðum í Hvítársíðu, Halldóra ljósmóðir, gift Jóhanni Björnssyni frá Svarfhóli hreppstjóra á Akra- nesi, Ragnhildur, gift Jóni Sig- mundssyni gullsmið í Reykjavík og Sigríður er lærði suma og starfaði við það í Borgarfirði og síðar í Reykjavík. Síðari maður Þórdísar eldri Þorbjarnardóttur var Þor- steinn Eiríksson einnig af Lunda- ætt og komust upp þrír synir þeirra; Sigurður bóndi á Brúar- reykjum, Eiríkur bóndi í Gerðum í Garði og Ólafur verslunarmaður í Sandgerði. Þorbörn Sigurðsson á Helgavatni var talinn einn auðug- asti bóndi í Borgarfirði í þann mund er Þórdís dóttir hans giftist 1866 og hefur hann gert dóttur sína vel úr garði í búskapinn sam- anber kaupmálabréf þar um; einn- ig bjó hann vel í haginn fyrir börn sín, samtímis sátu þijú þeirra hlið við hlið á góðbúum í Staflioltstung- um: Ólafur á Kaðalstöðum, Ólöf á Efranesi og Þórdís í Neðranesi. Þórdís yngri Þorbjarnardóttir og bræður hennar, Sigurður og Hall- dór, ólust upp á foreldraheimilinu í Neðranesi við gott atlæti og umönnun. Með fjölskyldunni ríkti eindrægni, iðjusemi var í heiðri höfð og hófstilling á öllum sviðum. Jörðin var að hætti tímans vel húsuð og á heimilinu menningar- bragur. Heimilisfaðirinn, Þorbjörn Sigurðsson, hafði þann lífsstíl að vera glaður og reifur hveija stund og kunni þá list að halda öllu í jafnvægi; gestakomur voru tíðar og gestrisni mikil, öllum var vel tekið og þeim lagt lið er þurfti. Þorbjörn naut trausts sveitunga sinna og starfaði að málefnum síns sveitarfélags. Húsmóðirin, Þórdís Halldórsdóttir, var grönn og bein- vaxin, kvik á fæti og glöð í bragði, jók hún oft gleði daglega lífsins með því að syngja við störf sín og kunni fjölda kvæða og lög við þau. Heimilið var vel búið og snyrti- mennska og reglufesta í hvívetna; búið var að sínu, gert vel við fólk í mat og drykk og höfðinglegar móttökur við gesti og á hátíðar- stundum. Sé ég í hendi mér hversu gott hefur verið að sækja þau hjón heim, njóta risnu þeirra og vera þátttakandi í fjölbreyttum sam- ræðum um menn og málefni. Þor- björn varð ekki langlífur en Þórdís Halldórsdóttir náði hárri elli og er ég lít nú yfir farinn veg er efst í huga mér óbilandi tryggð hennar og ræktarsemi við mig og fjöl- skyldu mína. Að loknu barnaskólanámi í sinni heimabyggð fóru systkinin öll til framhaldsnáms. Sigurður var á gagnfræðaskóla í Reykjavík og lauk þaðan prófí, starfaði hann síðan á búi foreldra sinna og tók við búinu í Neðranesi við lát föður síns 1942. Eiginkona hans er Jór- unn dóttir hjónanna Þorkötlu Gísladóttur ljósmóður og Jóhanns Símonarsonar er bjuggu á Litlu- Fellsöxl í Skilamannahreppi. Jór- unn hafði lært fatasaum og enn- fremur garðyrkju og stundaði hvort tveggja fyrir giftingu. Þeim Sigurði varð fjögurra sona auðið og komust tveir þeirra upp: Þor- björn, f. 1947, og Þórir Gunnar, f. 1949. Hafa þeir starfrækt að mestu óslitið félagsbú í Neðranesi ásamt móður sinni eftir lát Sigurð- ar 1988. Halldór lauk námi við lagadeild Háskóla íslands og hefur starfað sem dómari, í fyrstu við Sakadóm Reykjavíkur og síðar Hæstarétt íslands, um skeið for- seti réttarins. Hann er kvæntur Hildi Solveigu dóttur hjónanna Margrétar Árnadóttur frá Höfnum á Skaga og Páls V. Bjarnasonar sýslumanns í Stykkishólmi. Heim- ili þeirra Halldórs og Hildar hefur lengst staðið á Stýrimannastíg 6 hér í borg. Þórdís Þorbjarnardóttir nam við Héraðsskólann í Reykholti og lauk þaðan prófi eftir tveggja vetra nám. Starfaði hún um sinn á búi foreldra sinna en með hléum þó er hún dvalist í Reykjavík. Þar kom að hún tók fast starf við sauma og lengst á verkstæði Guðmundar Guðmundssoanr dömuklæðskera í Kirkjuhvoli. Margar vandaðar flík- ur sérhannaðar og sniðnar og saumaðar eftir máli fóru þar um- hendur Þórdísar meðan hún vann hjá hinum eftirsótta klæðskera; liandbragð hennar var vandað og eftir því leitað þegar vel skyldi gera og mikið var í húfi. Árið 1950 giftist Þórdís eftirlifandi manni sínum, Guðmundi, syni hjónanna Pálmínu S. Guðmundsdóttur og Hjartar Þorvarðarsonar sem bjuggu á Litla-Felli í Borgar- hreppi, en áttu ættir að rekja í Dalasýslu. Heimili Guðmundar og Þórdísar stóð í Reykjavík og lengst að í Selvogsgrunn 29; hann sinnti löggæslustörfum á yngri árum, síðan framkvæmdastjórn og all- mörg seinustu starfsár sín var hann einn af bankastjórum Seðla- banka íslands. Þeim hjónum varð ekki barna auðið en börn hændust mjög að þeim og voru aufúsugestir hvort sem var á heimili þeirra hér í borg eða sumarhúsinu í landi Neðraness suður á bökkum Hvítár á undur- fögrum stað við svokallaða Hörðu- hóla. Þar hafa þau stundað tijá- rækt um allmörg ár og er nú vax- inn þar víðáttumikill skógarlundur. Þeim hjónum hefur fylgt hinn fyrri háttur, hjá þeim hefur verið gest- kvæmt enda þau gestrisin með afbrigðum; heimili þeirra menning- arlegt og friðsælt, líkast vin í anna- sömum erli dagsins og mörgum verið það eftirsóknarvert að setjast inn til þeirra og eiga þar góða stund yfir veitingum og innihalds- ríkum samræðum. Á ég í sjóði minningar um margar slíkar stundir. Okkur Þórdísi var það ætíð ánægja að deila geði og gerðum ( margt saman sem skemmtun var að; fundum við meira að segja upp á því að fara í kaupavinnu saman sumarið 1946 og dvöldumst á Fossi á Síðu hjá stórbændum þar og skylduliði þeirra, miklu ágætisfólki sem naut afbragðs kunnáttu Þór- dísar við sveitastörfin en keypti líklega köttinn í sekknum varðandi mína heyskaparvinnu. Rifjuðum við oft upp atburði frá því sumri og komum aldrei fyrir okkur öðru veðurlagi en sólskini og blíðu og stoltum og fjörugum gæðingum sem við fengum til útreiða um helgar. Átti ég hauk í horni þetta sumar þar sem Þórdís var með ráðgjöf og kunnáttu — og hefur sú verið reynd mín öll ár síðan. Fyrir ekki löngu sátum við á tali og ræddum ýmislegt nýtt og gamalt. Heilsa hennar var orðin afar tæp og lét hún hugann reika til baka og mælti eitthvað á þá leið: Að árin hefðu verið góð og skemmtileg. Tók hún þá meðal annars til þau ár sem maður henn- ar starfaði við Seðlabankann og fór þá tíðum að hinni konunglegu myntsláttu í Enlgandi þegar slegn- ir voru íslenskir peningar. Þórdís fylgdi honum jafnan á þeim ferðum og féll henni vel i Lundúnaborg, að fara sinna ferða í borginni, koma á söfn og sýningar og anda að sér mannlífinu, sækja leikhúsin og tónleikana. Þórdís var í meðallagi að hæð og samsvaraði sér vel, fríð sýnum og hélt sér vel uns veikindi og vanlíðan buguðu lífsþrótt hennar. Hún var vönduð til orðs og æðis og mátti treysta henni í hvívetna, frábitin sýndarmennsku og valdi sér hljóðlátu leiðina í lífinu. I minn- ingu ömmu hennar og alnöfnu er lést í Neðranesi árið 1927 var rit- að: Hún var kona heil í lund. Þau orð vil ég gera að mínum og heim- færa á vinkonu mína Þórdísi yngri Þorbjarnardóttur frá Neðranesi; það er fjársjóður sem mölur og ryð fá ekki grandað að kynnast fólki á borð við hana. Hvíli hún í friði — samúð mín og minna er hjá hennar nánustu. Björg Einarsdóttir. í dag, föstudaginn 21. janúar, fer fram útför Þórdísar Þorbjörns- dóttur, eiginkonu Guðmundar Hjartarsonar fýrrum bankastjóra. Nokkur kveðjuorð viljum við Fjóla senda við útför hennar með innilegu þakklæti fýrir trygga og góða vin- áttu við okkur. Þegar við, sem undir þessar línur skrifum, fluttum að mestu dvalar- heimili okkar til Reykjavíkur, kynntumst við fyrst náið þeim Þór- dísi og Guðmundi. Þau urðu okkar beztu vinir og gott samband varð á milli heimila okkar. Þórdís var mjög sérstök kona. Hún var hógvær og lét heldur lítið á sér bera. En hlýhugur hennar leyndi sér ekki og trygglyndi í öllum greinum þegar til hennar var leitað. Við hjónin áttum margar ánægjustundir á heimili þeirra Þór- dísar og Guðmundar, og skipti þá ekki máli hvort við komum til þeirra á Selvogsgrunni í Reykjavík, eða í vinalegan bústað þeirra í Borgar- firði. Þórdís var ættuð frá Neðra-Nesi í Stafholtstungum í Mýrasýslu. Tengsl hennar við sveitina og það fólk sem býr í sveitum landsins kom oft og vel fram. Hún fann til með því fólki og skyldi kjör. þess og aðstöðu. Þegar um þau mál var talað kom skýrt fram trygglyndi hennar og ræktarsemi við æsku- stöðvarnar. Vegna mikils samstarfs okkar Guðmundar þar sem lejðir okkar lágu saman í stjórnmáfum og á mörgum öðrum sviðum, varð kynn- ing okkar Fjólu við Þórdísi miklu meiri en annars hefði orðið. Við Fjóla minnumst Þórdísar sem mætrar konu og góðs vinar. Með þakklæti í huga kveðjum við haria hinstu kveðju um leið og við vottum vini okkar Guðmundi og öllum að- standendum Þórdísar samúð okkar. Lúðvík Jósepsson og Fjóla Steinsdóttir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.