Morgunblaðið - 30.06.1996, Blaðsíða 29
28 SUNNUDAGUR 30. JÚNÍ1996
MORGUNBLAÐIÐ
MORGUNBLAÐIÐ
SUNNUDAGUR 30. JÚNÍ1996 29
piinrgwMalii
STOFNAÐ 1913
UTGEFANDI
FRAMKVÆMDASTJÓRI
RITSTJÓRAR
Árvakur hf., Reykjavík.
Hallgrímur B. Geirsson.
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
AÐ LOKNUM FOR-
SET AKOSNIN GUM
ÞEGAR þetta tölublað Morgun-
blaðsins kemur fyrir augu les-
enda er ýmist skammt í að kjörstöð-
um vegna forsetakosninga verði
lokað eða að úrslit í kosningunum
liggja þegar fyrir. Þótt mörgum
hafi þótt mikil harka í kosningabar-
áttunni að undanförnu er það senni-
lega rétt, sem fram kom hjá einum
frambjóðendanna í sjónvarpsum-
ræðum í fyrrakvöld, föstudags-
kvöld, að þrátt fyrir allt hafi kosn-
ingabaráttan verið hófsamari en
oftast áður.
Þeim, sem muna forsetakosning-
arnar 1952, ber saman um, að þær
séu hinar hörðustu, sem háðar hafa
verið til þessa. Þar kom margt til.
Stjórnmálabaráttan var þá gífur-
lega hörð á dimmustu dögum kalda
stríðsins. Stjórnmálaflokkar klofn-
uðu í afstöðu til frambjóðenda. Allt
stuðlaði þetta að harkalegri kosn-
ingabaráttu.
Forsetakosningarnar 1968 voru
einvígi milli tveggja frambjóðenda
og mótuðust að hluta til af því. Þær
fóru einnig fram á miklu umróta-
tímabili, sem gekk yfir öll Vestur-
lönd og teygði anga sína hingað
eins og til annarra landa í þessum
heimshluta.
í því návígi sem hér ríkir eru
kosningar, sem snúast í svo ríkum
mæli um einstaklingana sjálfa, sem
í framboði eru, eins og forsetakosn-
ingar gera, óhjákvæmilega mjög
harðvítugar. Umtalið um einstaka
frambjóðendur manna á meðal
verður stundum grimmt og þess
hefur gætt í vaxandi mæli síðustu
daga, að baráttuaðferðirnar hafa
ofboðið ýmsum.
Auglýsingar, sem beint var gegn
einum frambjóðenda og birtust hér
í blaðinu á fimmtudag og föstudag,
hafa verið mikið til umræðu. í for-
ystugrein Morgunblaðsins í fyrra-
dag var gerð grein fyrir afstöðu
blaðsins til birtingar þeirra og skal
ekki endurtekið hér.
Á hinn bóginn eru það ekki ein-
ungis þessar auglýsingar, sem hafa
valdið stjórnendum Morgunblaðsins
áhyggjum síðustu daga heldur ekki
síður talsmátinn í þeim aðsendu
greinum og bréfum, sem blaðinu
hafa borizt undanfarnar vikur. Við
birtingu þessara greina og bréfa
hefur ritstjórn Morgunblaðsins
teygt sig býsna langt og stundum
að yztu mörkum meiðyrðalöggjafar
í þágu tjáningarfrelsis. Það er hins
vegar alvarlegt umhugsunarefni
hvers vegna ekki er hægt að takast
á í kosningum án þeirra stóryrða í
garð andstæðinga, sem einkenna
þessi greinaskrif. Nú skal tekið
fram, að þótt mörgum þyki nóg um
gífuryrði í garð andstæðinga í þeim
greinum og bréfum, sem birzt hafa
í blaðinu hefur Morgunblaðið neitað
að birta allmargar greinar og bréf,
sem hafa farið langt út yfir öll
mörk í þessum efnum. Þegar blaðið
hefur verið sakað um að birta ekki
greinar eða bréf, eins og fram hef-
ur komið hjá einstökum greinarhöf-
undum síðustu daga, er ástæðan í
öllum tilvikum sú að viðkomandi
texti hefur ekki verið birtingarhæf-
ur vegna persónulegra svívirðinga
um andstæðinga greinarhöfunda
eða bréfritara.
Þess hefur gætt, að stuðnings-
menn einstakra frambjóðenda hafi
kvartað undan því, að of fáar grein-
ar hafi birzt til stuðnings þeirra
frambjóðanda en of margar til
stuðnings öðrum og að jafnræðis
hafi ekki verið gætt. Því er til að
svara, að ritstjórn Morgunblaðsins
stjórnar því á engan hátt hversu
margar greinar berast blaðinu til
stuðnings eða í andstöðu við ein-
staka frambjóðendur. Þetta efni er
birt ef það uppfyllir þau skilyrði,
sem að framan voru rædd.
Þá hefur það einnig komið fram,
að lesendur átta sig ekki á því
hvernig aðsent efni er flokkað í
blaðinu og telja af þeim sökum, að
um mismunun sé að ræða á milii
greinarhöfunda. Segja má, að um
fjóra flokka sé að ræða. í fyrsta
lagi almennar aðsendar greinar,
sem birtar eru með mynd af höf-
undi. Gert er ráð fyrir, að þær
greinar fari ekki fram úr ákveðinni
lengd. í öðru lagi Bréf til blaðsins,
sem eru birt í sérstökum dálki og
yfirleitt mun styttri. í þriðja lagi
lengri greinar, sem birtast í sunnu-
dagsblaði í þætti, sem nefnist Skoð-
un. Þar birtast einnig myndir af
höfundum. í fjórða lagi greinar-
gerðir um sérstök málefni en með
þeim eru ekki birtar myndir af höf-
undum, enda eru slíkar greinar-
gerðir oft frá samtökum eða stofn-
unum.
í tengslum við forsetakosningar
voru birt styttri bréf í sérstökum
dálki sem auðkenndur var forseta-
kjöri. Ennfremur aðsendar greinar
auðkenndar forsetakjöri og loks
greinargerðir varðandi forsetakjör,
sem birtust frá nokkrum aðilum og
þá undir sömu formerkjum og aðrar
greinargerðir.
Ástæðan fyrir því að þetta er
rakið hér er sú, að í hita leiksins
hefur fólk ekki áttað sig á þessari
skiptingu og talið af þeim sökum,
að um mismunun á milli greinarhöf-
unda og einstakra frambjóðenda
væri að ræða.
Morgunblaðið hefur hins vegar
lagt áherzlu á tvennt í þessum for-
setakosningum: í fyrsta lagi að
blaðið hefur ekki tekið afstöðu til
einstakra frambjóðenda og í öðru
lagi að blaðið hefur verið opinn
vettvangur fyrir greinar, bréf,
greinargerðir og auglýsingar varð-
andi forsetakjör. í þessum efnum
hefur rík áherzla verið lögð á að
jafnræði ríki á milli allra aðila. Við
það hefur Morgunblaðið staðið og
telur sig geta fært fullgild efnisleg
rök fyrir þeim ákvörðunum, sem
teknar hafa verið um einstök álita-
mál.
Það er ljóst af viðbrögðum fólks
í hvert sinn, sem tekizt er á í kosn-
ingum, ekki sízt þegar um er að
ræða kosningar, sem snúast fyrst
og fremst um persónur, að mörgum
þykir nóg um hversu langt er geng-
ið í slíkum umræðum. Það má vera
nokkurt umhugsunarefni þeim, sem
taka þátt í þeim á opinberum vett-
vangi. í þessum efnum sem öðrum
er almenningsálitið mikið og nauð-
synlegt aðhald.
HVERNIG skyldi
maðurinn muna það
sem meistarinn sagði
ekki? Hann á að gruna
það.
Svo segir í Pétri
Gaut, eftir minni.
Þetta minnir mig á nýtt óbirt
kvæði eftir Kristján Karlsson sem
hann sendi mér og er einskonar
svar við erindi mínu við hann áður,
nokkrum kvæðum. Kvæði Kristjáns
er svohljóðandi:
Því sem drepur á dreif
dagurinn, kvðldið nær
aftur að sópa upp
eins og af vötnum inn
alifugl sem hvarf
hátíðleiki heim
hnappast að um kvöld
allt eins og ævi þín
Eyvindur og verk
„eitthvað sem ekkert var
annað en þetta tvennt
hleðst upp sem merking mín?“
merking mín og þín
„væri ég þetta þvogl?
nei þakka þér fyrir, nei“
jafnvel þín hlýrri hiið?
jafnvel mín verstu verk"
HELGI
spjall
varstu þá aldrei neitt?
„ég er að lokum eitt:
allt sem ég fyrir var
þó ekki þetta tvennt
þakka þér aftur. Nei.
Ekkert sem annar veit
ekkert sem kom í Ijós
ekkert sem eftir varð“
ég er hættur að skilja. En heyr!
Eyvindur getur ekki verið tilvilj-
un. Skáldið notar nöfn í kvæðum
sínum og þau þurfa ekki að merkja
neitt sérstakt en stundum vísa þau
veginn. Hér er nafnið ákjósanlegur
vegvísir þótt skáldið hafi ekki
Fjalla-Eyvind í huga þegar hann
yrkir kvæðið. I því er fjallað um
höfund og annað sjálf, þetta er
auðvitað sama persónan. Hún er
að gera upp við sig, meta í hnot-
skurn tilgang og mikilvægi lífsins;
verk og ævi. En það er ekki höfuð-
atriðið í lífí okkar hvaða lífi við
höfum lifað eða hvaða verk við
höfum unnið. Annað er mikilvæg-
ara, það sem aðrir vita ekki og við
tölum ekki um við aðra. Ekkert sem
annar veit, segir í kvæðinu.
Það skiptir öllu máli, það eitt.
Hvorki titlar né veraldlegt prjál
svonefnt, heldur það sem er satt í
lífi okkar. Það er innsti sannleikur-
inn um okkur sjálf sem einn skiptir
máli þegar upp er staðið. Um hann
er ekki skrifað í minningagreinum
og hann er ekki tíundaður í Sam-
tímamönnum, því enginn þekkir
hann nema við sjálf. Við ein. 0g
um hann er ekki talað, einfaldlega
vegna þess að hann er viðkvæmur
og dýrmætur leyndardómur sem við
eigum ein. Og deilum ekki með
öðrum. Ekki frekar en Fjalla-
Eyvindur sem ræktaði með sér
þennan sannleik án þess hann
fleipraði um það við aðra. Þessi
sannleikur var hvorki ævi hans sem
þótti heldur brösugleg né verk hans
sem voru ekki endilega nein góð-
verk; heldur ástin í brjósti hans sem
allir blésu á. Hún gerði hann að
utangarðsmanni í allra augum en í
augum hans sjálfs var hún kjarninn
í sjálfu uppgjörinu, sannleikurinn
sem allt líf hans snerist um. And-
stæðurnar sem leiddu til einnar nið-
urstöðu.
Það er þessi utangarðsást sem
er fagnaðarerindið í lífi okkar, þessi
einmana sannleikur, án skilnings,
án þjóðfélags — um hann er skáld-
ið að yrkja. Hið þjóðsögulega
hjartalag sem Guð horfir á þegar
hann kveður upp dóminn mikla á
efsta degi. En enginn þekkir for-
sendur þessa dóms nema hann —
og við sjálf. Og það er þess vegna
sem við trúum á Guð. Hann þekkir
okkur og mundi aldrei dæma okkur
á röngum eða óviðkomandi forsend-
um.
M.
REYKJAVIKURBRÉF
BANDARIKIN og KÍNA
náðu um miðjan mánuð-
inn samkomulagi er
kom í veg fyrir við-
skiptastríð milli ríkj-
anna. Bandaríkjastjórn
hafði boðað refsiaðgerð-
ir gegn Kína ef ekki
yrði gripið til aðgerða vegna víðtækra
brota á höfunda- og einkarétti og Kínveij-
ar hótað að svara í sömu mynt. Deila þessi
hafði staðið í rúmt ár en á síðustu stundu
náðist málamiðlun þar sem Kínveijar
skuldbundu sig m.a. til að loka verk-
smiðjum er m.a. framleiddu hugbúnað og
geisladiska í trássi við höfundarétt.
Viðskiptastríð milli Kína og Bandaríkj-
anna hefði haft alvarlegar afleiðingar fyr-
ir heimsviðskipti. Þótt því hafi verið af-
stýrt í bili eru mörg deilumál milli ríkjanna
á viðskiptasviðinu enn óleyst. Pólítískar
deilur vegna hótana Kína í garð Tævan,
vopnasölu og stöðu mannréttindamála
hafa ekki orðið til að auðvelda lausn þess-
ara deilna, ekki síst á kosningaári í Banda-
ríkjunum.
Þá torveldar það alla viðskiptasamninga
við Kína að ríkið á ekki aðild að Heimsvið-
skiptastofnuninni (WTO) og þeim alþjóð-
legu viðskiptasamningum á borð við GATT
er tengjast henni. Óvíst er hvenær af að-
ild Kína getur orðið þó svo að umsókn um
slíkt liggi fyrir.
Kína er fjölmennasta ríki veraldar og
hagvöxtur hefur verið ótrúlegur þar á síð-
asta áratug. Stór svæði ríkisins er varla
hægt að flokka lengur með þróunarríkjum
heldur miklu frekar með „tígrum“ Suð-
austur-Asíu. Flest bendir til að Kína eigi
eftir að verða efnahagslegt stórveldi á
næstu áratugum, bæði vegna hinnar öru
þróunar efnahagsmála sem innlimunar
Hong Kong á næsta ári.
Það fer því að verða brýnt hagsmuna-
mál annarra ríkja að Kínveijar gerist aðil-
ar að hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi
með formlegum hætti. Þar með væri hægt
að skjóta deiluefnum til Heimsviðskipta-
stofnunarinnar í stað þess að hóta við-
skiptastríði.
Eigi það að gerast verða Kínveijar hins
vegar að fylgja þeim reglum sem þar gilda
og búa fyrirtækjum sem stunda viðskipti
í eða við Kína upp á eðlileg skilyrði. Höf-
undaréttardeilan við Bandaríkin er greini-
lega til marks um að nokkur bið verður á
því að Kínveijar verði undir WTO-aðild
búnir. Kínversk stjórnvöld sögðust vera
sammála Bandaríkjamönnum í deilunni en
jafnframt að erfitt væri að hafa eftirlit
með öllu í þetta stóru og fjölmennu ríki
þar sem þróunin væri jafnör og raun ber
vitni. Þótt ýmislegt kunni að vera til í því
má þó á móti benda á að Kínveijar hafa
til þessa ekki verið í vandræðum með að
fylgjast með pólitískri starfsemi í landinu.
Deilan við Kína er hins vegar ekki eina
viðskiptaorustan sem Bandaríkjastjórn
hefur háð upp á síðkastið og má nefna
fjölmörg ágreiningsatriði við Japani í því
sambandi. Á síðasta ári lá við viðskipta-
stríði við Japan vegna innflutnings banda-
rískra bifreiða þangað eh því tókst að af-
stýra á síðustu Stundu.
Á mörgum öðrum sviðum hafa á síðustu
mánuðum komið upp deilur á milli Banda-
ríkjastjómar og annarra ríkja vegna við-
skiptamála þó svo að þær deilur hafi ekki
ávallt vakið jafnmikla athygli og deilurnar
við Kína og Japan. Bandaríkin hafa verið
í forystu í baráttunni fyrir fijálsari við-
skiptum í heiminum og ekki hikað við að
láta hart mæta hörðu þegar svo ber við.
Að undanförnu hafa bandarísk stjómvöld
gagnrýnt Evrópusambandið harðlega fyrir
linkind í samskiptum við ýmis ríki og sagt
sem svo: Þið látið okkur vera í fremstu
víglínu, bijóta múrinn og vera í hlutverki
vonda mannsins. Þegar búið er að ná tilætl-
uðum árangri komið þið, sem ekki hafið
látið styggðaryrði falla í garð viðkomandi
ríkis, og njótið góðs af árangrinum. Þetta
kann vel að eiga við hvað til dæmis Kína
varðar en Bandaríkin hafa síðastliðið ár
sætt töluverðri gagnrýni Evrópuríkja
vegna afstöðu þeirra í viðskiptasamning-
um um þjónustuviðskipti.
Aukinn
skilningur á
þjónustuvið-
skiptum
RISAVAXIÐ skref
í átt að fijálsari við-
skiptum í heiminum
var tekið er sam-
komulag náðist í
Uruguay-lotu
GATT-viðræðn-
anna og með stofn-
un Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Einn mikilvægasti árangur viðræðnanna
var að í fyrsta skipti náðist almennt
rammasamkomulag um þjónustuviðskipti
(GATS) og slík viðskipti felld undir sömu
almennu reglur og vöruviðskipti í GATT-
samkomulaginu og þar með starfsemi
WTO.
Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra
eðlisbreytinga er orðið hafa á hagkerfum
iðnríkjanna á síðastliðnum áratugum. Auð-
sköpun og hagvöxtur byggir ekki lengur
á hefðbundinni framleiðslu öðru fremur
heldur miklu frekar þjónustuviðskiptum
af ýmsu tagi. í mörgum iðnríkjum er talið
að þjónustuviðskipti standi nú bak við
60-80% vergrar þjóðarframleiðslu og at-
vinnusköpunar. I Bandaríkjunum starfa
nú átta af hveijum tíu við þjónustuvið-
skipti. Fyrir tuttugu árum sjö af hveijum
tíu. Þá verða langflest ný störf til innan
þjónustugeirans. Svo aftur sé tekið dæmi
af Bandaríkjunum þá urðu á síðasta ári
til tæplega 1,7 milljónir nýrra starfa í þjón-
ustugeiranum á sama tíma og framleiðslu-
störfum fækkaði um tæplega 150 þúsund.
Skilin milli þjónustu- og framleiðslu-
starfa verða aftur á móti sífellt óskýrari,
ekki síst vegna örrar tæknivæðingar og
nýrrar tölvutækni. Fjölmargir starfsmenn
í hefðbundnum framleiðslugreinum, svo
sem bílaiðnaði eða framleiðslu heimilis-
tækja, stunda í raun fyrst og fremst þjón-
ustuviðskipti. Tækniframfarir og hagræð-
ing gera að verkum að sífellt færri hendur
þarf til við sjálfa framleiðsluna.
Þessarar þróunar gætir einnig í íslensk-
um frumatvinnugreinum, sjávarútvegi og
landbúnaði.
Sú alþjóðavæðing sem átt hefur sér stað
í efnahagslífi heimsins síðustu ár hefur
fyrst og fremst verið á sviði þjónustuvið-
skipta. Fjármagns- og verðbréfamarkaðir
tengjast í gegnum tölvunet. Pappírslaus
viðskipti eru stunduð ríkja á milli. Hugbún-
aður og aðrar upplýsingavörur flæða um
heiminn óháð landamærum um ljósleiðara
og gervihnetti.
Forsenda þessa hefur verið aukið frelsi
í þjónustuviðskiptum og forsenda þess að
alþjóðlega upplýsingaþjóðfélagið verði að
veruleika er að þjónustumarkaðir verði
opnaðir í auknum mæli frá því sem nú er.
Þróunin á
vettvangi
GATT
Laugardagur 29. júní
Morgunblaðið/Ásdís
LANGT ER SÍÐAN
fyrstu tilraunir til
að ná almennu
samkomulagi um
þjónustuviðskipti
hófust. Robert
Strauss, þáverandi viðskiptafulltrúi
Bandaríkjanna, gerði árangurslausa til-
raun til að fá þjónustuviðskipti inn í Tókýó-
lotu GATT-viðræðnanna á síðari hluta átt-
unda áratugarins. Þótt hann hafi ekki
haft erindi sem erfíði varð umræðan í
kringum þetta kveikjan að miklu átaki
hagsmunaaðila á sviði þjónustuviðskipta
um allan heim.
Á fyrri hluta níunda áratugarins fóru
hjólin að snúast hraðar samhliða auknum
skilningi á mikilvægi þessa geira. Þjón-
ustuviðskipti voru hluti af fríverslunar-
samningi Bandaríkjanna og ísrael árið
1985 og við upphaf Uruguay-lotunnar
árið 1986 var samþykkt að þjónustuvið-
skipti ættu að vera hluti af GÁTT. Innan
Evrópusambandsins beindu menn einnig
augunum að þjónustuviðskiptum í auknum
mæli og þau voru snar þáttur í áformum
um hinn innri markað er varð að veruleika
árið 1993.
Þetta hafði bein áhrif á okkur íslend-
inga er við gerðumst aðilar að hinu Evr-
ópska efnahagssvæði og fjórfrelsinu,
fijálsu flæði vöru, fjármagns, vinnuafls
og þjónustu. Aukið frelsi í t.d. trygginga-
og bankaviðskiptum hér á landi má því
ekki síst rekja til þessarar þróunar.
í samkomulagi Bandaríkjanna, Kanada
og Mexíkó um myndun fríverslunarsvæðis
í Norður-Ameríku (NAFTA) voru víðtæk
ákvæði um aukið frelsi þjónustuviðskipta.
Eftir að samkomulag náðist um nýtt
GATT-samkomulag var ákveðið að halda
áfram viðræðum um tiltekin svið þjónustu-
viðskipta. Má þar nefna fjármagnsvið-
skipti, sjóflutninga og fjarskiptamál. Eru
þessar viðræður í raun áfram hluti af
Uruguay-lotunni og því ótengdar hug-
myndum um viðræður á nýjum sviðum,
t.d. varðandi samkeppnislöggjöf og um-
hverfismál.
Ríkisrekin einokunarfyrirtæki eru
markaðsráðandi í flestum ríkjum í síma-
og fjarskiptamálum og því nauðsynlegt
að finna pólitíska lausn á því sviði. Hófust
viðræður um víðtækan fjarskiptasamning
í maí 1994 og var stefnt að því að ná
samkomulagi fyrir 30. apríl á þessu ári. Á
síðustu stundu tilkynntu hins vegar Banda-
ríkjamenn að þeir teldu þau tilboð er fyrir
lægju ófuflnægjandi. Voru tilboð Asíuríkja
sérstaklega tilgreind í því sambandi en
annaðhvort uppfylltu þau ekki kröfur
Bandaríkjastjómar eða höfðu hreinlega
ekki verið lögð fram.
Bandaríkin hafa verið gagnrýnd harð-
lega fyrir afstöðu sína í þessu máli og
færð hafa verið sterk rök fyrir því að til-
boð margra þróunarríkja hafi í raun verið
ótrúlega hagstæð miðað við aðstæður. Nær
ekkert þeirra hafi í hyggju landvinninga
í fjarskiptamálum og því skiljanlegt að þau
séu hikandi við að opna eigin markaði upp
á gátt fyrir öflugri erlendri samkeppni.
Þær röksemdir eiga þó ekki við um auðug
ríki á borð við Singapore og Suður-Kóreu.
Donald S. Abelson, aðalsamningamaður
Bandarílq'astjómar í íjarskiptamálum,
sagði í nýlegu viðtali við Morgunblaðið að
heimurinn gæti misst af einstöku tækifæri
ef ekki næðist samkomulag fyrir 15. febr-
úar á næsta ári.
Fjarskiptamarkaðurinn í heiminum velt-
ir 513 milljörðum dollara á ári eða sem
svarar um 34 þúsund milljörðum íslenskra
króna, að mati WTO. Velta upplýsingaiðn-
aðarins í heiminum er nær þrisvar sinnum
meiri eða 1,3 milljarðar dollara á ári. Þarna
er því um gífurlega hagsmuni að ræða.
Abelson segir í viðtalinu að það væru
ekki síst fyrirtæki í Asíu er hefðu mestan
hag af auknu frelsi þó_ svo að þau reyni
að sporna gegn því. „Ég held að það sé
útbreitt viðhorf hjá ríkisstjórnum þessara
landa að þær telja sig geta komist upp
með að gera minna en aðrir. Þetta eru
mjög verndaðir markaðir. Ástæða þess að
þeir geta fylgt þessari stefnu er að þetta
eru sveigjanlegir markaðir og þeir hafa
þegar þá fjárfestingu, sem þeir telja æski-
lega, án þess að skuldbinda sig gagnvart
öðrum ríkjum,“ segir Abelson.
Það er athyglisvert að það var einnig
afstaða Asíuríkja er kom í veg fyrir að
samkomulag næðist um fjármagnsvið-
skiptasamning en þeim viðræðum hefur
verið frestað fram á næsta ár. Fjármagns-
markaðir þessara ríkja eru í mörgum tilvik-
um mjög lokaðir fyrir erlendri samkeppni
og er Japan líklega besta dæmið þar um.
Þetta kann að þjóna hagsmunum peninga-
stofnana en ekki fyrirtækjum og einstakl-
ingum er hafa þar með ekki aðgang að
hagkvæmustu eða fullkomnustu kostunum
hveiju sinni. Að mati Alþjóðabankans
verða Asíuríki á næsta áratug að fjárfesta
í samgöngumannvirkjum fyrir um 1,5
milljarða dollara og verður þorri þess fjár-
magns að koma úr bankakerfinu en ekki
alþjóðlegum lánastofnunum á borð við
Alþjóðabankann. Það ætti því ekki síst að
vera hagur Asíuríkja að eiga aðgang að
sem hagkvæmustu fjármagni.
Einnig hefur gengið erfiðlega að ná
niðurstöðu í samningaviðræðum um sjó-
flutninga og hættu Bandaríkjamenn þátt-
töku í viðræðunum í maímánuði. í raun
er það því tregða Bandaríkjastjórnar, hvort
sem hana má réttlæta eður ei, sem komið
hefur í veg fyrir árangur í öllum helstu
þáttum GATS-viðræðnanna.
Horfttil
framtíðar
VON MARGRA ER
sú að auðveldara
muni reynast að ná
samkomulagi í
GATS-viðræðunum
á næsta ári þegar forsetakosningarnar í
Bandaríkjunum eru yfirstaðnar.
En sú staðreynd að erfiðlega hefur
gengið að ljúka þeim samningaviðræðum,
er hér hafa verið raktar, hefur hins vegar
vakið upp spurningar um hvort æskilegt
sé að hefja nýja umfangsmikla viðræðu-
lotu í anda Uruguay-lotunnar.
Þeirri skoðun hefur m.a. verið varpað
fram af Leon Brittan, sem fer með við-
skiptamál innan framkvæmdastjórnar Evr-
ópusambandsins, en hann hefur hvatt til
að ný viðræðulota verði hafin árið 1999.
Niðurstaða í þeim viðræðum gæti legið
fyrir árið 2010. Sumir vilja hins vegar
horfa lengra fram á veginn og hafa til að
mynda Ian Lang, viðskiptaráðherra Bret-
lands, og Renato Ruggiero, framkvæmda-
stjóri WTO, lagt til að stefnt verði að því
að koma á frjálsum heimsviðskiptum árið
2020. Það væri æskileg „framtíðarsýn til
lengri tíma“, svo notuð séu orð Lang í
ræðu er hann hélt hjá bresk-ameríska
verslunarráðinu í London í aprílmánuði.
Á sama tíma vara menn við því að ekki
megi einblína það mikið á háleit framtíðar-
markmið að menn missi sjónir af umfangs-
minni, en engu síður brýnum verkefnum
á viðskiptasviðinu.
Aðildarríki samtaka ríkja í Asíu og
Kyrrahafí hafa ákveðið að mynda svæðis-
bundið fríverslunarsvæði fyrir árið 2020.
Sú hætta er vissulega til staðar, líkt og
m.a. Ruggiero hefur ítrekað bent á, að
heimurinn muni á næstu áratugum skipt-
ast í tvö til þijú viðskiptasvæði, bundin
við ákveðnar heimsálfur, sem hvert fyrir
sig hefði tilteknar reglur og innbyrðis frí-
verslun en byggði á móti upp hindranir
gagnvart ytri viðskiptum. Slíkt væri
hættulegt, ekki síst fyrir smáríki á borð
við ísland, sem háð er útflutningi og bygg-
ir á mörkuðum í jafnt Evrópu, Bandaríkj-
unum sem Asíu.
„Þetta hafði bein
áhrif á okkur Is-
lendinga er við
gerðumst aðilar
að hinu Evrópska
efnahagssvæði og
fjórfrelsinu,
frjálsu flæði vöru,
fjármagns, vinnu-
afls og þjónustu.
Aukið frelsi í t.d.
trygginga- og
bankaviðskiptum
hér á landi má því
ekkisíst rekjatil
þessarar þróun-
ar.“