Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1928, Page 88
88
hólmi, en kvíslin Hrauneyjakvisl. Ofan-við fossinn eru margir smá-
hólmar í ánni, nafnlausir, nema sá neðsti og stærsti; — einn smáhólmi
eða sker mun vera á milli hans og fossins —. Þessi hólmi heitir
Egilshólmi. Tilefni til nafns þessa var þetta: Eitt haust nálægt 1855
voru, sem oft ber við, kindur í hólmanum. Til þess að komast í
fremstu eða neðstu hólmana, verður að fara fyrst í þá efri, og svo
hvern af öðrum og er þó ófært, ef áin er mikll. Áin mun hafa verið
nokkuð mikil i þetta sinn, en þó komust menn út í hólmann og náðu
kindunum; en þá þótti einum manninum krókur að fara upp á móti
aftur og ætlaði að ríða beint til iands, en það fór svo, að hann misti
undan sér hestinn og bar þá báða niður ána; hestinn, sem þá var dauð-
ur, bar að steini, en maðurinn hafði ólarsvipu í hendinni og gat krækt
henni í beizlistauminn og komst með því móti á steininn og gat haldið
sér þar á meðan tjaldsúla og reipi var sótt í tjaldstað Hrauneyja-
manna; var súlan látin bera til hans og bjargað á þann hátt. Mað-
ur þessi hét Egill Jónsson og var þá vinnumaður í Snjallsteinshöfða').
— Sunnan-við Hrauneyjakvísl eru á dálitlu svæði þéttir grjóthólar
með djúpum lautabollum á milli. Þetta svæði er nefnt Katlar. Þegar
kemur vestur fyrir Hrauneyjar, er nafnlaust svæði vestur að gras-
spildu, er liggur frá Tungnaá suður á hraunið; hún heitir Sultarfit.
Önnur grasspilda nokkru vestar samhliða nokkrum stærri heitir
Ferjufit. Við nyrðri enda hennar er ferjustaður á Tungnaá yfir á
Holtamannaafrétt; hann er nefndur Hald. Enn vestar, þar sem Tungnaá
og Þjórsá koma saman og neðar við þær, er grasgeiri, sem heitir
Vaöfit. Nokkru fyrir austan geira þennan, er vað á Tungnaá, en hefir
ekki verið farið í áratugi. Að líkindum hefir fitin verið miklu stærri
þegar hún fékk nafnið. Frá Vaðfit niður með Þjórsá að Rangárbotn-
um heitir einu nafni Árskógar. Bendir það nafn til þess, að þar hafi
verið skógur, en svo langt sem sagnir ná, hefir svæði þetta verið örblás-
ið. Á móts við árskóga eru tvær eyjar í Þjórsá heita þær Litla-Klofaey,
sú innri, og Stóra-Klofaey, sú fremri; hún er öll vaxin fallegu bírki,
1) Það fylgir sögunni, að þegar Egill var kominn á steinninn hafi fjall-
kongur, Gísli bóndi á Seli i Holtum, sagt: »Fari nú hver í sína leit, nema ef
einhver vill ve-ra manninum til skemmtunar; — hann er dauður hvort sem er«.
En þá hafi Páll bóndi í Borg riðið sem af tók eftir súlunni og reipinu, vaðið
sem hægt var út í ána, svo hægt væri að láta hana bera að steininum. — Það
fylgir og sögunni, að Egill hafi verið nokkuð kenndur, þegar hann reið út í ána,
en verið algáður þegar upp úr kom.
Egill drukknaði í Þjórsá árið 1887 (í Pörtum). Jóhann sonur hans er enn
á lífí í Reykjavík og ef til vill fleiri börn.