Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Blaðsíða 61
Svar við aðfinnslum.
I. Gagnrýni almenns eðlis.
Hér að framan hefur A. J. Johnson1) ritað um staðháttalýsingar í
Njálu og þann kafla bókar minnar um söguna („Um Njálu I“), sem
fjallar um þetta efni.2) Við þessa ritgerð sýnist mér vera heldur en
ekki margt að athuga, og get ég ekki látið hjá líða að benda á sumt
af því. Hér kennir greinilega stefnu, sem ekki mundi verða til bóta
í íslenzkum sagnavísindum, ef hún fengi að vera óáreitt, og mun ég
brátt koma að því nánar. Hér við bætist, að A. J. J. flytur mál sitt af
miklu kappi, svo miklu, að honum skýzt stundum yfir það, sem er
fyrsta skylda í öllum fræðilegum umræðum: að fara skilyrðislaust
rétt með orð andstæðinga sinna. Þessum hörðu orðum mínum mun ég
finna stað síðar í þessu andsvari. Þetta og enn aðrir annmarkar á
fræðimennsku A. J. J. gætu latt mann að hafa fyrir að svara, en þar
sem ritgerðin er tekin upp í Árbók Fornleifafélagsins og henni þannig
sýndur nokkur sómi, kynni að vera, að einhver, sem ekki þekkti rit
mitt, léti glepjast af henni; þótti mér því viðsjárvert að láta henni
ósvarað.
Ég vil þá um leið grípa tækifærið að svara grein Skúla Guð-
mundssonar: „Athugasemdir við bók drs. Einars Ól. Sveinssonar,
Um Njálu I“, sem birtist í Árbók Fornleifafélagsins síðastliðið ár.
Margt er kynlega líkt í báðum þessum greinum, en þar sem rök-
semdir Skúla Guðmundssonar3) eru yfirleitt veigaminni, gef ég mig
minna að hans grein, nema þar sem hún hefur eitthvað fram yfir.
Annars vil ég taka það fram, að málaflutningur hans er í alla staði
1) Nafn hans hér á eftir skammstafað A. J. J.
2) Ritstjóri Árbókarinnar hefur gefið mér kost á að svara þessari grein
þegar í sama hefti, og kann ég honum þakkir fyrir. Sama vænti ég félags-
menn geri, þar sem þeir fá þessar umræður í einu og þurfa ekki að bíða,
ef til vill árum saman, eftir svari.
3) Skammstafað hér á eftir Sk. G.