Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Qupperneq 20
24
I landi Guðlaugsvíkur í Hrútafirði hefur verið hjáleiga, kölluð
Guðlaugskot. Það væri fjarstæða að ætla, að kotið drægi nafnið líkt
og víkin beint af Guðlaugi Iandnámsmanni. Það er vitaskuld hið sama
og Guðlaugsvikurkot. Það getur þó vel verið, að víkin sé ekki held-
ur kennd beint við þennan Guðlaug. Hann kvað hafa brotið skip
sitt við Guðlaugshöfða, sem er litlu utar, og verið þá myrtur, svo
að gera má ráð fyrir því, að víkin hafi með réttu heitið Guðlaugs-
höfðavík. Hún er þó þegar í Landnámabók kölluð Guðlaugsvík.
Eyvindarfjörður á Ströndum er kenndur við Eyvind Herröðarson,
sem þar nam land. Ain, sem fellur í fjörðinn, heitir Eyvindarfjarðará
og dalur hennar Eyvindarfjarðardalur. En langt inni í dalnum eða
upp úr botni hans eru smávötn, sem kölluð eru Eyvindarvötn. Það
er ólíklegt, að þau dragi nafnið beint af landnámsmanninum, og
miklu líklegra, að þau hafi í upphafi verið kölluð Eyvindarfjarðardals-
vötn eða Eyvindarfjarðarárvötn, en seinna verið felldir úr nafninu
tveir innri liðirnir. Á svipaðan hátt virðist nafnið Dýrahvilft, sem
merkt er á uppdrættinum í botni Dýrafjarðar, hafa verið stytt úr
Dýrafjarðarbotnshvilft eða því um líku. I slíkum tilfellum liggur mjög
nærri að tengja öll nöfnin beint við landnámsmennina og geta þess
til, að Guðlaugur hafi verið myrtur, þar sem nú heitir Guðlaugskot,
eða hann hafi átt þar í seli, að Eyvindur hafi verið heygður upp frá
Eyvindarvötnum, vitaskuld til þess að geta litið yfir allt landnám
sitt, og að Dýri hafi átt bústað í Dýrahvilft, eða þá svipað. Eg tel
sennilegt, að nafnastyttingar af þessu tæi muni víða hafa villt menn
til þess að hugsa upp skýringar, sem enginn fótur er fyrir.
Þar sem fyrri nafnaliðirnir eru nöfn áa, kemur þó einnig annað til
sögu, sem gat átt drjúgan þátt í styttingunum. Urriðaárborg gat hæg-
lega orðið að Urriðárborg, svo stytt Urriðarborg og síðast Urriða-
borg, án þess að liðurinn ár hafi hreint og beint verið felldur innan
úr. Þannig er Laxármýri í Tjörneshreppi orðið að Laxamýri. Líkt
getur verið með nafnsmyndirnar Húsárdalur og Húsadalur í Ófeigs-
firði. Eignarfalls-r vill víða vera laust inni í nöfnum og falla niður,
svo sem þegar má sjá á nafni höfuðstaðarins, sem var Reykjarvík
í gamla daga, en er nú Reykjavík. Til þessa má tína saman ótal
dæmi. f örnefnaskránum er í þessu mikil óreiða, og mörg nöfn
stöfuð bæði með r og án þess. Af þessu stafar töluverður ruglingur,
og það alls ekki í skránum einum, og ekki sízt þar, sem nöfn áa
eiga í hlut. Sumstaðar ber á þessu þegar snemma á öldum. Það eru
jafnvel allmörg dæmi þess, að dalir sýnast vera kenndir við nöfn
áa og þessar ár samt aftur við óstyttu nöfn dalanna. Á norðvestur-