Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Blaðsíða 79
83
aldar búa þar leiguliðar í tví- og þríbýli, enda ábúandaskipti mjög
tíð. Undantekning frá því er þó um Björn Guðmundsson, sem býr
á helming Ólafs frá 1705—1737, að hann flytzt að Svölustöðum í
Víðidal, og Snæbjörn, son séra Halls Ólafssonar í Grímstungu, sem
bjó þar á 30 hundr. frá því 1755 og fram um 1770.
Um eignarhald á Lækjamóti á þessu tímabili má nokkuð ráða af
nokkrum landamerkja- og lögfestubréfum í mínum vörzlum. Það
sýnist svo, að Páll lögmaður Vídalín hafi áður en langt um leið
einnig náð jarðarhluta Ólafs í sínar hendur, því að 17. maí 1710
lögfestir hann sér alla jörðina Lækjamót með tilteknum landamerkj-
um. Hann endurtekur svo þá lögfestu að viðbættri nánari greinar-
gerð vegna landamerkjaágreinings 11. júní 1714. Ekki er mér ljóst,
hvernig fór um eignarhald á Lækjamóti næistu ár eftir dauða Páls
Vídalíns 1727, hefur sennilega haldizt meðal erfingja hans. Þó sýn-
ist svo sem Snæbjörn Hallsson hafi um tíma (1757—1763) átt
þau 30 hundr., sem hann bjó á af Lækjamóti, og stendur svo um
manntalið 1762. En til er í frumriti kirkjulýst lögfestu- og landa-
merkjabréf Guðmundar Björnssonar bónda í Höfnum á Skaga
(Skagakóngs) fyrir öllu Lækjamóti, dags. 22. júlí 1763. Næst lög-
festir Halldór Bjarnason Vídalín klausturhaldari á Reynistað sér allt
Lækjamót 13. ágúst 1764. Lætur svo Halldór enn lýsa svipaðri lög-
festu 9. júlí 1769.
En nú er skammt að bíða móðuharðindanna miklu 1784—5.
Afleiðingar þeirra hrófluðu víða við ábúð jarða og leiddu til eigenda-
skipta. Fór svo einnig um Lækjamót. Árið 1775 eru tíunduð 268
hundr. í Þorkelshólshreppi, en 1785 aðeins 38 hundr. Var þá á
mörgum bæjum ekkert til að tíunda, þar á meðal á Lækjamóti, og
1786 virðist það vera algjörlega í eyði. Um þessar mundir býr Jón
Jónsson, fátækur maður, á Geirastöðum í Þingeyrarsveit, ásamt
Kristínu Pétursdóttur, konu sinni. Hann virðist hafa flutzt að Lækja-
móti 1792 og kaupir þá sennilega jörðina það ár eða litlu síðar
fyrir lítið verð, þótt lögfesta hans fyrir henni allri sé ekki útgefin
og auglýst fyrr en 21. júní 1794. Þar með var Lækjamót komið aftur
í sjálfsábúð og hefur haldizt svo að mestu síðan.
Jón gerðist brátt gildur bóndi og hefur verið ritfær og greinar-
góður maður, eins og eiginhandar lögfesta hans og landaþrætuskrif
sýna. Hann deyr 1808, 56 ára að aldri, en ekkja hans, Kristín Pét-
ursdóttir, heldur svo áfram búi. Hefur Ebeneser Friðriksson prests á
Borg á Mýrum fljótlega orðið ráðsmaður hennar eða jafnvel eigin-
maður, en upp úr því hefur slitnað, því að Ebeneser flytur burt frá