Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Síða 84
88
aðskildar, og því síður tveir bæir langt hvor frá öðrum. Tvískipt-
ing bæjarins hefði því átt að verða eftir aldamótin 1700, þegar
óskyldir eigendur og ábúendur fóru að eiga í hlut. Væri því ekki
útilokað, að Björn Guðmundsson, sem leigir jarðarhluta Ólafs um
1705 og býr þar lengi síðan, hafi með tilstyrk ólafs byggt fyrir sig
og þá fært sinn bæ á hinn nýja stað. Það gæti einnig komið til
greina, að þegar Páll Vídalín þurfti að byggja upp sinn brunna
bæjarhluta, þá hefði hann fært hann á núverandi stað, en bær
sá, er fylgdi Ólafs hluta og ekki brann, staðið áfram og síðan
verið byggður að nýju á forna bæjarstæðinu. Enn gæti hugsazt,
að Snæbjörn Hallsson, sem um tíma mun hafa átt 30 hundr. úr
Lækjamótinu. hefði fært sinn hluta bæjarins milli 1750 og 1770.
Loks kemur að þeirri úrlausninni, sem ef til vill er sennilegust,
þeirri, að Jón Jónsson, sem eignaðist allt Lækjamót um eða
skömmu eftir 1792 og bjó þar einn, hafi byggt upp bæinn nálægt
aldamótum 1800 og alflutt hann þangað, sem hann er nú.
Að svo komnu verður ekki nær þessu komizt en svo, að bærinn
fyrir helming jarðarinnar hafi ef til vill verið fluttur á árunum frá
um 1700 til 1770, en að öllu leyti ekki fyrr en á næstu árum öðru
hvoru við aldamótin 1800.
Ekki hefur mér tekizt að finna nein örugg merki þess, hvar
kirkja Þorvalds víðförla hefur staðið og svo sennilega hálfkirkjur
þær á sama stað, sem héldust svo lengi fram eftir öldum á Lækja-
móti. Segir svo um Lækjamótskirkju í Jarðabók Árna Magnússonar
og Páls Vídalíns 1706: „Hér hefur að fornu hálfkirkja verið, og
stóð húsið í voru minni. Enginn minnist hér hafi verið tíðir veittar,
og er nú húsið af fallið“. Eflaust hefur kirkjan ekki verið byggð
upp síðan.
Þegar eg kom að Lækjamóti, var að mestu búið að slétta úr
rústum skammt norðan við gamla bæjarstæðið, og er þar nú dálítill
bungumyndaður hóll eftir. Þykir mér ekki ósennileg tilgáta, að þar
hafi kirkjurnar staðið, en að kirkjuhólsnafnið á öskuhólnum hafi
myndazt eða flutzt til, eftir að bærinn var færður. Gat verið sú orsök
til þess, að heiman frá yngra Lækjamótsbæ að sjá er öskuhóllinn
hið eina af rústunum, sem mikið ber á, en litla hólsins norðan við
rústirnar gætir ekki. Hafi hann einhvern tíma heítið Kirkjuhóll, gat
hugsazt, að nafnið hefði flutzt á þann hólinn, sem menn stöðugt
höfðu fyrir augunum og lá svo mjög í námunda við hið sögumerka
kirkjustæði.