Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1949, Page 91
93
um 1850. Að vísu mun það ekki hafa verið algengt, að unnið væri
að túnasléttun á fyrri öldum, en Lækjamótsbændur virðast hafa
verið það verkhyggnir að jafna úr mestu misfelium móanna með
því að stinga þúfurnar og nota þær til garðgerðarinnar, enda hef
ég hvergi séð votta fyrir lægðum meðfram görðunum, sem þó hlutu
að hafa komið, ef allt hefði verið tekið hendi næst, annað eins feikna
efnismagn og til þeirra hefur þurft.
Um aldur innan túngarðanna á Lækjamóti verður hér ekki sagt
með fullri vissu, en ýmis rök hníga að því, að meginhluti þeirra sé
mjög forn. Skal í því sambandi bent á eftirfarandi atriði.
Fyrsta túnstæðið innan við garðlag 1 er svo lítið, að ekki er lík-
legt, að lengi hafi verið við það unað, eftir að bú var reist á Lækja-
móti. Innsta garðlagið hlýtur því að vera svo gamalt, að það er
gert áður en túngræðslunni er lengra komið. Hafi Lækjamót, eins
og vikið er að hér að framan, verið meðal fyrstu landnámsjarða
í Víðidal, mætti ætla, að innsta garðlagið væri frá landnámsöld,
en garðlag 2 tæpast svo öldum skipti yngra. Jafnvel svo utarlega í
hringnum, sem á svæðinu milli garðlags 4 og 5 finnst merki til
mikils aldurs. Eg hefi grafið allrækilega í rústina vestan við garð-
lag 4. Kom þá í ljós, að veggirnir hafa verið byggðir á beran ísaldar-
mel, sams konar og nú er utantúns þar skammt fyrir vestan. Nú
er túnjarðvegurinn þarna á melnum rúmlega 30 sm þykkur. Af
rústunum mátti einnig sjá, að húsið hafði síðast eyðilagzt þannig,
að stór fylla af þekjunni hafði fallið inn á gólfið. Torfið í henni
bar það með sér að hafa verið rist á hrísi eða lyngi vöxnu landi,
því að þekjan var ofin leifum af smákvistum. Af því mætti ráða, að
á þeim tíma hafi lítið verið um kvistlaus mýrlendi í námunda við
Lækjamót, fyrst svo torunnið land var notað til torfristu. Nú sést
vart lyngkló í mýri nálægt Lækjamóti, og kvistlendi er þar eflaust
eyðilagt fyrir öldum síðan, eins og það alls staðar hefur eyðilagzt
fyrst í kringum bæi vegna þess, að þar er mestur átroðningur af
búpeningi.
Þá má og það telja, að við rústir þessar varð eg var Ijósleitrar
gosösku, að vísu fínkornaðri og ekki svo mikillar að efnismagni,
sem alþekkt er um hin tvö stóru líparítöskulög hér um slóðir, en
aska þessi hafði auðsjáanlega fokið inn í holurnar milli undirstöðu-
steinanna og geymzt þar alveg niður við beran melinn. Ef tryggt
er, að líparítaska hafi ekki borizt svo að nokkru nemi um Húna-
vatnssýslu síðan í Heklugosinu mikla 1300, bendir þetta mjög til
L