Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1955, Side 81
TÓFTIR I SNJÓÖLDUFJALLGARÐI
85
þar eð föksandurinn sléttar strax yfir þær. Ekki er því að leyna, að
varasamt hefur verið að stunda veiðar við vötnin, ef byggðamenn
hafa verið þar samtímis. Hins vegar er okkur svo ókunn veiðisaga
vatnanna á fyrri öldum, að ekki tjóar að fara lengra út í þá sálma.
Ekki er hægt að sanna né afsanna þessa skoðun mína af þeim hlut-
um, sem í kofunum fundust. Öll beinin gætu verið nestisbein, en þar
eð bein eru góður eldsmatur, má gera ráð fyrir, að þeim hafi flestum
verið brennt. Auk þess gátu menn verið þarna í felum, þó þeir væru
nestaðir úr byggð. f skútarjáfrinu fundust eins og fyrr segir nær
80 berghöld. Mér virðist sum þeirra hljóti að hafa verið gerð til að
þurrka á þeim kjöt, en þó er hugsanlegt, að þau hafi aðeins verið
notuð til að geyma þar hangikjöt, flutt þangað úr byggð.
Samkvæmt stærð kofanna og mannvirkja í skútanum finnst mér
eðlilegt að ætla, að þar hafi hafzt við tveir til fjórir menn. Þeir hafa
búið þar í rúmgóðum húsakynnum, verið vel búnir að tólum og öðr-
um áhöldum, svo sem netjum. Og þeir hafa búið þar alllengi, eins og
sést á hinni 10 sm þykku gólfskán og því, hve mannvirkin eru mikil
á staðnum. Loks má sjá, að þeir yfirgefa staðinn án alls flausturs og
ætla sér að koma aftur, svo sem netjakubbarnir sýna, eða vísa öðrum
á kofana, enda þótt ekki yrði úr því.
Guðmundur Árnason í Múla á Landi segir í Árbók Ferðafélags ís-
lands 1940: „1918 spjó Katla svo mikilli ösku yfir vatnasvæðið, að
nærri kæfði allan gróður. Þá þvarr veiði svo í vötnunum, að eigi
fékkst nema einn og einn „gamall horslápur“, en beinagrindur lágu
með löndunum. Eftir 4—5 ár fór að votta fyrir ungviði og fór svo
vaxandi næsta áratug. Þó telja Vatnamenn, að silungur hafi enn ekki
náð sér að stærð og gæðum. Hann virðist eiga fremur erfitt upp-
dráttar, því að reynslan hefur ætíð verið sú, að sé veiði stunduð í
stórum stíl, t. d. 30 hestburðir í nokkur ár, þá hefur veiðin þorrið að
miklum mun. Kom þá friðun af sjálfu sér“.
Á 18. öld var veiði mjög lítið stunduð í Veiðivötnum eins og þeir
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson og Sveinn Pálsson vitna. Eggert
kennir um slóðaskap, en ætli skýring Guðmundar í Múla sé ekki skyn-
samlegri? Að minnsta kosti voru eldgos bæði mikil og tíð á 18. öld
í Öræfajökli, Vatnajökli, við Laka, í Heklu og Kötlu, og má ætla, að
nokkrum sinnum hafi þá orðið verulegt öskufall í Veiðivötnum. Ekki
er heldur fjarstæða að ætla, að íbúar kofanna í Snjóöldufjallgarði
hafi neyðzt til að leita í burt þaðan vegna öskufalls, sem eyðilagt hafi
veiði í vötnunum. Einhvern tíma síðar, þegar öskulög hjá Veiðivötn-