Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1962, Síða 26
32
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
þéttum, að lauslega áætlað myndu vera um 50 röggvar um þveran
feld á stærð við vararfeld, verður helzt ályktað, að röggvarvefnaður-
inn frá Heynesi sýni einhverja þá gerð röggvarefnis, sem höfð var í
betri feldi og hafnarfeldi.
IV. Flosvefnaður utan íslands.
Að lokinni athugun á íslenzkum heimildum um röggvarvefnað
og samanburði á þeim og pjötlunni frá Heynesi, þótti rétt að kanna,
hvort finna mætti erlendar heimildir um sams konar eða hliðstæðan
vefnað. Einkum virtist fróðlegt að athuga, hvort vararfeldanna ís-
lenzku fyndist getið, en einnig hvort unnar hefðu verið annars staðar
og á öðrum tímum röggvarofnar yfirhafnir eða aðrar flíkur úr slíku
efni. Leit að heimildum, einkum leit að eins hnýttu flosi, varð þó
umfangsmeiri en ætlað var í upphafi, og barst ef svo má að orði
komast, allt aftur til daga Súmera austur í Mesópótamíu.
Frá tímum Súmera til loka þjóðflutninganna miklu.
Við uppgröft í fornborginni Susa, ekki fjarri Persaflóa, hafa
komið í leitirnar leifar af mismunandi fíngerðum hörefnum, sem
vafið hafði verið utan um koparöxi. Þessar leifar, sem líklega eru
frá því um 3300 til 3000 f. Kr.,1 eru álitnar elztu vefnaðarleifar,
sem fundizt hafa í heiminum.2 í uppgröftum hjá Tell Asmar og
Khafaje í Mesópótamíu, frá því um 3000 til 2500 f. Kr., hafa fundizt
styttur af mönnum, klæddum ýmsum búningum. Eru sumir þessara
búninga sléttir, bryddir kögri eða borðum með laufaskurði. Aðrir
eru með röggvuðu yfirborði, og var áður fyrr álitið, að fyrirmyndir
þeirra hefðu verið gerðar úr skinnfeldum. í konungagröfunum hjá
Ur,3 frá tímabilinu 2432 til 2357 f. Kr., fundust hins vegar leifar af
dúk með einskeftuvend og löngum röggvum, „ . . . sem hefði getað
verið ofin eftirlíking ullarreyfis . . . “4 Þegar vitað er um þennan
fund og það, að vefnaðarlistin var þekkt með Súmerum fyrir eða
um 3000 f. Kr., má ætla, að fyrrnefndir búningar og eins yngri
búningar með svipuðu útliti hafi verið úr ofnum efnum engu síður
en úr dýrafeldum (9. mynd). Vefnaðarleifarnar frá Ur urðu því
miður að dufti, þegar komið var við þær, og varð því ekki vitað,
með hvaða hætti röggvarnar voru festar í grunninn. Engar aðrar
leifar af flosuðum dúkum hafa fundizt í uppgröftum í Mesópótamíu.
Hins vegar hefur fundizt talsvert af flosofnum efnum í Egypta-