Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1972, Blaðsíða 175
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1971
175
H úsaf riMnarnefnd.
Húsafriðunarnefnd tók á fundum sínum fyrir ýmis gömul hús víða
um land og gerði tillögur til friðlýsingar. Þrír nefndarmenn, Þór
Magnússon, Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson ferðuðust
til Akureyrar hinn 9. ágúst til að kynna sér tillögur Þorsteins Gunn-
arssonar til varðveizlu gamalla bygginga á Akureyri. Er þar einkum
að nefna húsin við Aðalstræti (,,Fjöruna“), Menntaskólann, sam-
komuhúsið gamla og nokkur liús önnur. Tillögur Þorsteins voru síðan
lagðar fyrir bæjarráð, enda athugunin gerð fyrir atbeina þess, en
ákvarðanir um friðun höfðu engar verið teknar um áramót.
Gömlu húsin ofan við Lækjargötu, „Bernhöftstorfan“ svonefnda,
voru mjög í sviðsljósinu þar eð svo virtist sem senn yrði lagt til
atlögu við þessi hús og þau rifin og hafizt handa um byggingu
stjórnarráðshúss á staðnum. Nefndin ítrekaði beiðni sína til stjórn-
arvalda um endurskoðun þeirrar ákvörðunar og lagði fram rök sín
fyrir varðveizlu húsanna á sínum stað, en undirtektir yfirvalda
þar að lútandi voru nánast sagt engar. Er þó hér um að ræða einu
samstæðu húsaröðina í Reykjavík frá því um miðja síðustu öld, hús,
sem alla tíð hafa sett mikinn svip á Reykjavík og eru eitt bezta dæmi
um fyrstu gerðir timburhúsa, sem risu í íslenzkum kaupstað. Hús
þessi eru allt frá um 1835, en þau mynda ásamt Stjórnarráðshúsinu
gamla og Menntaskólanum með Iþöku mjög áberandi og nær óbreytta
byggingarheild í gamla bænum, sem mikil ástæða er til að varðveita.
- Nefna má, að Arkitektafélagið efndi til samkeppni um framtíðar-
notkun þessara húsa og komu þar margar tillögur.
Nefndin fjallaði einnig um tillögur Harðar Ágústssonar og Þor-
steins Gunnarssonar um varðveizlu bygginga í Reykjavík, en þeir
gerðu ítarlega könnun á gamla bæjarhlutanum í Reykjavík fyrir
atbeina borgarráðs í þessum tilgangi. Var nefndin sammála þeim
tillögum og gerði jafnframt tillögur um nokkur hús í viðbót, sem
friðuð skyldu. Mál þetta hefur þó ekki verið afgreitt frá borgarráði.
Nefndin ítrekaði einnig tillögur sínar til menntamálaráðuneytisins
um þau sex hús í eigu ríkisins, sem oftlega hefur vei'ið farið fram
á að friðlýst verði og allir hafa talið sjálfsagt, sem sé Alþingishúsið,
dómkirkjuna, Menntaskólann með íþöku, Stjórnarráðshúsið gamla
og Safnahúsið, en svar hafði ekkert borizt um áramót.
Þá skrifaði nefndin eigendum og forráðamönnum nokkurra húsa
í Reykjavík vegna sérstæðra innréttinga húsanna og bað um, að ekki
yrði lagt í breytingar að nauðsynjalausu.