Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Side 11
Jólasaga
EFTIR BJÖRN BJARMAN
frá bænum
við Pollinn
MYND:
BRAGI ÁSGEIRSSON
— Vertu nú góði drengurinn hennar mömmu og pass-
aðu hana systur þína.
Og auðvitað er hann góði drengurinn hennar mömmu,
þó hún geti ekki skilið að sex ára strákur þarf að leika
sér og að hinir strákarnir hlæja að honum og gera grín
að honum, þegar hann kemur með stelpu í eftirdragi.
Eini ljósi punkturinn í tilveru drengsins er hann afi.
Afi á heima hinum megin við götuna og amma drengs-
ins býr þar líka. Annars er amma ekkert sérstök, bara
gömui kerling, feit einsog tunna með gráar fléttur og
talar einsog allir séu heyrnarlausir í kringum hana.
Afi vinnur í banka. Ekki í Júlla banka, sem er rétt hjá
húsinu þar sem drengurinn á heima. Afi vinnur i
Bjarna banka fyrir neðan Sigurhæðir þar sem gamla
skáldið bjó.
Stundum fær drengurinn að fylgja afa í bankann
sinn. Þá talast þeir við einsog fullorðnir menn. Dreng-
urinn spyr. Afi svarar.
— Afi, til hvers eru bankar?
— Þar eru geymdir peningar.
— Er ekki hægt að geyma peningana heima hjá sér?
— Jú, en ef þú geymir þá í banka, þá verða peningarn-
ir fleiri eftir því sem þú geymir þá lengur þar.
— Vaxa þá peningarnir í bankanum einsog grasið á
túninu hennar frú Ragnheiðar hans Júlla banka?
— Bankinn lánar líka fólki peninga.
— Ég trúi því ekki að hann Júlli banki láni peninga,
hann er svo nískupúkalegur á svipinn. Bjarni þanki er
allt öðru vísi, hann er með bros í augunum og gefur mér
stundum fimmaur.
— Þú skilur þetta betur þegar þú stækkar.
Það er svo margt sem drengurinn á að skilja þegar
hann verður stór. En það tekur langan tíma að verða
stór einsog fullorðna fólkið.
Oft áður en afi kemur úr vinnunni hjá Bjarna banka
fer drengurinn yfir götuna og bíður hjá ömmu. Amma
vagar um einsog gamla gæsin hennar frú Ragnheiðar
hans Júlla banka, og svo kallar hún eitthvað út í heim-
inn án þess nokkur hlusti á hana. Amma skammar
drenginn aldrei nema ef hann gleymir að fara úr skón-
um í forstofunni. Meðan drengurinn bíður eftir afa fær
hann að fletta albúmi þar sem eru myndir af körlum og
kerlingum, sem hann þekkir ekki meir en karlinn í
tunglinu. Stundum gefur amma drengnum kleinu.
Þegar afi kemur heim, klappar hann drengnum á
kollin og segir við ömmu:
— Komdu sæl, heillin mín.
Það hnussar í ömmu og svo segir hún kannski eftir
dálitla stund:
— Viltu kaffidropa áður en við borðum kvöldskatt-
inn?
Alltaf svarar afi því sama:
— Vertu ekki að hafa fyrir mér, heillin góð. Við
karlmennirnir höfum í nógu að snúast.
Afi er eina manneskjan í heiminum sem kallar dreng-
inn karlmann.
Þegar afi hefur farið úr frakkanum, tekið ofan kúlu-
hattinn og sett stafinn útí horn, fer hann inn í stofu og
sest í stólinn sinn undir gömlu klukkunni. Drengurinn
sest í fangið á afa, fiskar litlu, svörtu greiðuna upp úr
vinstra vestisvasanum og greiðir á honum yfirvarar-
skeggið.
Ef afi drengsins væri ekki haltur og þyrfti að nota
staf, gæti enginn séð að hann væri eldri en pabbi
drengsins sem er þó alls ekkert karlalegur.
Þegar drengurinn er búinn að greiða yfirvararskeggið
á afa þá sest hann á skammelið hennar ömmu og hlust-
ar.
Afi segir sögur og ævintýri. Afi kann aragrúa af
sögum og drengnum er alveg sama þó hann heyri sömu
sögurnar aftur og aftur. Meðan drengurinn hlustar
breytist stofan og allt í kringum hann og hann sjálfur
líka.
Einn daginn er sex ára karlmaðurinn orðinn að ridd-
ara og kálar eldspúandi dreka. Annan daginn er hann
kóngssonur að frelsa prinsessu úr álögum. Stundum er
hann Gunnar á Hlíðarenda með bogann og atgeirinn.
Og þegar sögurnar ná hámarki er drengurinn sjálfur
Grettir Ásmundarson að verjast í eyjunni.
Stofan þeirra afa og ömmu er margbreytilegur heim-
ur og þar gerast ótrúlegustu atburðir sem enginn fær
lýst.
Áður en drengurinn fer heim á kvöldin kemur hann
aftur niður á jörðina og stofan er bara venjuleg stofa og
klukkan á veggnum tifar rétt einsog hún gerði í gær.
Afi lætur drenginn lesa fyrir sig sunnudagsblaðið. í
blaðinu lærir drengurinn nöfn á frægum körlum bæði
innlendum og útlendum, og hann þarf að spyrja, því
maður verður líka að skilja þegar maður les.
— Er Hriflu-Jón afskaplega vondur maður?
— Ætli hann sé nú ekki einsog fólk er flest.
— Drepa kommúnistarnir í Rússlandi lítil börn?
— Varla trúi ég því.
— Eru Ólafur Thors og Magnúsarnir bestu menn í
öllum heiminum?
— Það held ég nú sé of mikið sagt.
— Á Ásgeir einn að stjórna hátíðinni á Þingvöllum
næsta sumar?
0, ætli hann fái ekki einhverja í lið með sér.
— Afi hvað er kreppa?
— Það er of langt að útskýra það vinur, eigum við
ekki að láta það bíða til morguns?
— Af hverju er fólk að fara í verkfall?
— Ætli það sé ekki til að það fái hærra kaup til að
lifa af.
Svona skiptast þeir á spurningum og svörum meðan
sunnanblaðið er lesið. Það er meira en ár síðan drengur-
inn lærði að lesa í fanginu á afa. Það bara gerðist
einhvern veginn en drengurinn veit ekki hvernig.
Drengurinn og afi eiga saman ógurlega mikið leynd-
armál. Meir að segja amma veit það ekki, þó hún vilji
allt vita.
Þannig er að um hádegið á mánudögum þegar dreng-
urinn er búinn að borða þá skreppur hann yfir götuna
til að hitta afa áður en hann fer aftur í Bjarna banka.
Þegar drengurinn kemur yfir er afi oftast nær annað-
hvort að fara í frakkann sinn eða að seta á sig kúluhatt-
inn. Amma þvær upp í eldhúsinu ög talar hátt við sjálfa
sig. Afi tekur eina krónu og tuttuguogfimm aura upp úr
einum vestisvasanum, beygir sig yfir drenginn og hvísl-
ar:
— Viltu vera svo vænn að kaupa fyrir mig einn pakka
af smallskroi og geyma það fyrir mig til kvöldsins. Þú
mátt eiga afganginn fyrir sjálfan þig:
Svo tekur afi stafinn sinn og drengurinn og hann
fylgjast að hönd í hönd alla leið inn að B-deildinni hans
Ryel með stóra nefið.
— Drengurinn kaupir munntóbakspakkann í búðinni
við hliðina á Júlla banka. Pakkinn kostar eina krónu og
fimmtán aura. Afgangurinn fer alltaf í gott. Stundum
þrjár súkkulaðikaramellur og einseyringsstykki fyrir
afganginn. Stundum stórt kramarhús fullt af bolsíum.
Já, og stundum konfekt. og allt mögulegt.
Munntóbakspakkann felur drengurinn í litlu, hvítu
kommóðuskúffunni hennar mömmu þangað til afi kem-
ur heim úr vinnunni.
Afi drengsins tyggur munntóbak, sem drengnum
finnst svo sem alls ekkert fínt, en afi gerir það svo
fallega að enginn tekur eftir því.
Allt í einu eru jólin á næsta leiti. Drengurinn hættir
að ganga í skólann. Snjór á götunum og sveitakarlarnir
koma með mjólkina í bæinn á sleðum sem hestar draga.
Sumir hestarnir eru svo sterkir að þeir draga fjóra eða
jafnvel fimm sleða og strókarnir rjúka fram úr nösun-
um á þeim einsog gufan úr strompunum á stóru skipun-
um.
Drengurinn sér að pabbi er dularfullur á svipinn og
alltaf að hvísla einhverju að mömmu, og þá veit dreng-
urinn að pabbi er búinn að kaupa jólagjafirnar. Mamma
er afskaplega feit og þreytt og alltaf að baka alls konar
kökur, tertur og brauð og svo kemur laufabrauðsdagur-
inn og þá er drengurinn viss um að ekkert hefur
gleymst.
Á Þorláksmessu um hádegið skýst drengurinn yfir
götuna til að hitta afa, því hann veit að afi þarf að hafa
skrotóbak yfir jólin. Afi er búinn aö taka niður stafinn
þegar drengurinn kemur og þeir leiðast út á götuna og
þá segir afi:
— Þú ætlar að vera vænn og kaupa fyrir mig small-
skro og einhverja jólagjöf fyrir afganginn.
Og afi réttir drengnum tveggja krónu pening.
Drengnum verður svo mikið um þessa stórgjöf að hann
sleppir hendinni á afa og stendur einsog glópur á
gangstéttinni og horfir á eftir afa þar sem hann gengur
beinn í baki inn Bótina á leið sinni í Bjarna banka.
Fyrst kaupir drengurinn munntóbakið og kemur því
fyrir á sama stað og alltaf áður. Afgangurinn af tveggja
krónu peningnum er áttatíuogfimm aurar. Drengurinn
hefur aldrei átt svona mikla peninga. Hann gengur inn
Bótina með hægri höndina í buxnavasanum og í lófan-
um hefur hann þrjá tuttuguogfimmeyringa og einn tí-
aur.
Drengurinn stansar fyrir framan gluggann á B-deild-
inni og horfir á alla dýrðina sem þar er útstillt. Allt í
einu man hann eftir jólatrénu í snjónum á bak við húsið
heima. Vantar ekki stjörnu á það? Og þarna er stór og
falleg stjarna.
Drengurinn fer inn í búðina og spyr búðarkonuna:
— Hvað kostar jólastjarnan sem er þarna út í glugg-
anum?
— Hún kostar eina krónu.
— Ég á bara áttatíuogfimm aura.
— Ég skal selja þér jólastjörnuna á áttatíuogfimm
aura segir búðarkonan og brosir.
Drengurinn stendur drykklanga stund fyrir utan búð-
ina með jólastjörnuna innpakkaða í skrautpappír. Hann
er svo montinn að hann hefur næstum gleymt hvernig á
að ganga. Þegar hann kemur heim læðist hann inn í
stofu án þess mamma sjái hann og felur stjörnupakk-
ann undir dívaninum.
Aðfangadagur jóla og drengurinn er vakinn með
kossi. Þegar hann lítur upp sér hann að það er pabbi
sem hefur vakið hann. Pabbi er eitthvað öðruvísi en
vanalega, hlýja og samúð í andlitinu en vantar jólagleð-
ina í augun.
— Hann afi þinn dó í gærkvöldi. Hann varð bráð-
kvaddur.
Drengurinn getur ekki komið upp orði, kökkur í háls-
inum og hann finnur að tár eru í augnkrókunum.
— Bráðkvaddur, hvað er það pabbi?
— Það er þegar fólk dreyr allt í einu án þess að hafa
legið lengi veikt.
— Verða þá engin jól?
— Jú, jú vinur og við skulum reyna að gleðjast yfir
því að afi þurfti ekki að þjást lengi.
— Getur guð kannski ekki haldið upp á jólin nema að
hafa afa hjá sér?
Pabbi svarar ekki en brosir ofurlítið og þá finnst
drengnum að nú sé hann orðinn dálítið fullorðnari í
augum pabba en áður.
Þegar drengurinn er kominn á fætur og búinn að
drekka mjólkina sína fer hann yfir götuna til ömmu.
Amma talar ekki eins hátt og vanalega og kyssir
drenginn á kollinn.
— Það var skjótt um hann afa þinn, góðurinn minn.
Hann brá sér á klósettið rétt fyrir hættur og ég þurfti
að fá mann hér á hæðinni fyrir ofan til að brjóta upp
hurðina og þá var hann allur, blessaður maðurinn.
Hann afi þinn var fjarska góður maður og það veit hún
ég best, hróið mitt.
Drengurinn skilur ekki allt sem amma segir og hon-
um bregður, þegar hann sér táralæk bugðast niður
hrukkóttar kinnarnar. Honum hefur aldrei dottið í hug
að svona gamalt fólk kunni að gráta. Hann finnur til í
maganum, lítur niðrá tærnar á sér og getur ekkert sagt.
Þegar drengurinn kemur aftur heim er pabbi að
skreyta jólatréð.
— Ætlarðu ekki að hjálpa mér vinur? spyr pabbi.
Drengurinn fær aftur kökk í hálsinn en reynir að
vera stór og snýr sér undan til að pabbi sjái ekki tárin.
— Pabbi, ég ætla að gefa okkur öllum svolitla jóla-
gjöf. Drengurinn leggst á magann, skríður undir dívan-
inn, nær í skrautpakkann og réttir pabba.
Pabbi tekur drenginn í fangið, kallar á mömmu og
segir:
— Viltu bara sjá hvað hann sonur okkar er mikill
höfðingi. Mamma og pabbi þakka drengnum og eru
bæði glöð í alvörunni.
Loks koma sjálf jólin og drengnum finnst þetta hálf-
gerð platjól. Það eru jólagjafir, góður matur, súkkulaði
með rjómafroðu og margar kökur, dansað í kring um
jólatré og sungnir sálmar, en samt er einsog fullorðna
fólkið sé alls ekki að halda jól.
Þegar gestir koma daginn eftir aðfangadagskvöldið
eru allir alvarlegir og hvíslast á út í horni. Enginn
minnist á jólastjörnuna.
Einhver segir:
— Ekki má líkið standa uppi fram yfir áramót. Maður
veit aldrei um veðrið.
Annar hvíslar:
— Og konan alveg komin að falli.
Auðvitað skilur drengurinn ekki allt sem fullorðna
fólkið er að pískra og svo eru jólin allt í einu búin og
aftur hvundags.
Þegar drengurinn vaknar daginn eftir jólin, skynjar
hann að eitthvað hefur gerst meðan hann svaf. Hann
finnur sömu lyktina og hann fann þegar litla krílið með
rauða hárið kom frá guði.
Pabbi er ekki í vinnunni og konan sem hjálpar
mömmu til að láta lítil börn sjúga er komin.
Pabbi kemur til drengsins og segir:
— Nú er komin ein systirin í viöbót.
Drengurinn getur ekkert sagt, kúrir sig niðrí koddann
og volar í sængina sína.
— Hvað er eiginlega að honum guði?
Drengurinn er úti allan daginn, kemur ekki heim fyrr
en um kvöldmat og enginn skammar hann.
Eftir matinn þegar pabbi er að hjálpa drengnum að
þvo sér, þá stynur drengurinn því upp sem hann hefur
verið að hugsa um allan daginn:
— Heyrðu pabbi, er ekki hægt að senda þetta nýja
kríli aftur til guðs með honum afa og fá strák í staðinn?
LESBOK MORGUNBLAÐSINS 22. DESEMBER 1984 11