Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Blaðsíða 32

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Blaðsíða 32
frosinni sveiflu til að gefa stúlkunni ímyndaða hreyf- ingu. Lyklamerki liggur einnig þarna og pilturinn veltir fyrir sér hvort sýslumaður hafi litið í glerið og snúið merkinu eða látið hreppstjórann um það. Hvert er samband yðar við þessa menn? spyr sýslu- maður og á við Bosolino og litla höndlarann. Ég er bílstjórinn þeirra, segir pilturinn. Humm, segir sýslumaður. Pilturinn telur víst að ritari muni bóka hummið. Svo heldur sýslumaður áfram. Yður er væntanlega kunnugt hvað hér hefur gerst. Ákært er út af sölu á smyglvarningi. Þér vitið væntan- lega hvaða smygl þetta er? Nei, segir pilturinn. Ég veit ekkert um smygl, enda hef ég ekki spurt hvaða vöru er verið að selja. Og þótt mér hefði verið sagt það, þá hefði ég ekki vitað nema varan væri tollafgreidd, nema spyrja sérstaklega að því. Og þetta er það langt úti á landi að maður spyr ekki svoleiðis spurninga. Eg kem því af fjöllum. Svoooo, segir sýslumaður og syngur orðið. Þér eruð starfsmaður þeirra og þér hljótið að vitað hvað þeir hafa fyrir stafni. Piltinum finnst þetta erfitt. En hann verður að segja eitthvað til að bera af sér samsekt í smyglmáli, sem honum kemur ekkert við. Hann leitar í huganum að einhverri átyllu hversu fáránleg sem hún kynni að vera. Þetta er misskilningur, segir hann. Ég var fenginn til að keyra. Annars hef ég verið að safna gögnum í leikriti sem ég ætla að skrifa. Honum dettur í hug að nú hafi hann kannski talað sig of sleipan. Leikrit, hvaða leikrit?, segir sýslumaður. Ja, það er nú ekki orðið til enn, segir pilturinn. Um hvað á leikritið að vera? segir sýslumaður. Pilturinn ókyrrist í sæti sínu og hefur ekki hugmynd um hverju hann á að svara. Hann lítur niður á hendur sínar, sem eru svolítið pempíulegar af langvarandi að- gerðarleysi. Ég er að spyrja yður, segir sýslumaður. Mér er nú ekki vel við að tala um verk mín áður en þau birtast, segir pilturinn og minnist þess allt í einu að hafa heyrt svona svar haft eftir miklum snillingi. Það hlýtur að verka gáfulega, hugsar hann, af því menn á svona stöðum gátu verið bókmenntalegir. Ég get skilið það, segir sýslumaður. En það er betra fyrir yður ef þér getið tilgreint efnið. Pilturinn vonar að sýslumaður sjái ekki hvað honum líður. Það eru harðir kostir að þurfa að tilgreina efni. Hann hafði haldið að dygði að segjast vera að skrifa. Efni er af mörgum toga, hugsar hann. Og það hlýtur að hafa gerst eitthvað í þessum landshlutum sem sýslu- manni er kunnugt um. Eins og annarsstaðar hljóta menn að hafa verið drepnir í fjárhúskróm, eða þá að börn hafa verið borin út löngu fyrir varnir, sem ekki flokkuðust undir smygl. Skipreika menn hafa verið rændir í fjöruborði og hent í sjóinn aftur. Og skammt undan hafði ung, brúneyg stúlka skorið sig á háls á tóftargarði og kallað um leið: Er ég ekki falleg núna? Já, það er nú það. Pilturinn er búinn að skoða iðjuleys- ishendur sínar góða stund. Svo segir hann lágt og var- færnislega, eins og hann vili prófa hvort sýslumaður sé að sperra eyrun: Miklabæjar Sólveig. Ritarinn lítur upp, tekur dósir sínar i snarhasti og fær sér í nefið. Hann er líklega í þjóðfræðum. Svo leggur hann pennann frá sér og snýr sér að sýslumanni. A að bóka þetta? Já, segir sýslumaður. Mætti kveður sig vera að vinna að gagnasöfnun vegna leikrits um Miklabæjar Sólveigu. Piltinum léttir. Hann er eins fjarri smygli og hann getur orðið. Honum hefur tekist að rjúfa hina ströngu línu yfirheyrslunnar og sýslumaður víkur að honum nokkrum einskisnýtum spurningum áður en hann lætur hann skrifa undir framburðinn og segir að hann megi fara. Bosolino og litli höndlarinn bíða enn, þegar hann kemur fram fyrir. Hreppstjórinn sér til þess að þeir geta ekki talast við. Þeir eru kallaðir inn aftur. Síðan er þeim sagt að fara til herbergja sinna, en hreppstjórinn biður piltinn að koma með sér. Hann þarf að láta opna bílinn svo hann geti leitað. Þegar hann hefur hirt það sem eftir var af smygli í bílnum, lætur hann piltinn skipta um herbergi við litla höndlarann og flytja inn til Bosolino. Þeir tveir eru bæði reiðir og hræddir og litli höndlarinn sendir Bosolino heiftúðugt augnaráð. En það gerir enga stoð. Bosolino hefur þegar kjaftað frá. Pilturinn þykist sjá það á litla höndlaranum sem fer með titrandi hendur inn í herbergi sitt og er lokaður inni. Nú gengur í garð tími þegar allar lindir tungunnar eru uppþornaðar. Bosolino eyðir því sem eftir er dagsins á rúmi sínu. Hann ýmist situr eða leggst út af og tyggur vindilinn. Litli höndlarinn er aftur á móti athafnasam- ari yfir í hinu herberginu. Hann virðist hafa samband við umheiminn um glugga. Og þótt hann sé reiður bank- ar hann í vegginn til að láta vita að sýslumaður hefUr óskað eftir rannsóknarlögreglu að sunnan. Eftir það liggur Bosolino lengi í rúmi sínu með lokuð augun þótt hann sofi ekki. Seint um kvöldið bankar litli höndlarinn aftur í vegginn. Sýslumaðurinn í næsta héraði hefur fengið skipun um að gera húsleit hjá Bosolino. Eftir það er lítill friður til að dorma. Bosolino æðir um gólfið eins og hann hafi meltingartruflanir og bryður vindilstúf- inn. Það er komið undir miðnætti þegar hann stansar og hvessir augun á piltinn. Þú verður að fara yfir fjallið, segir hann. Þú verður að fara í nótt, þegar menn eru hættir að rápa hér um Hótelið eins og höfuðsóttarkindur. Og þú verður að segja konunni að fela draslið. Hann otar vindilstúfnum að piltinum meðan hann talar. Síðan tekur hann velkt- an klút úr vasa sínum og þerrar ennið og í kringum nasavængina. Þú verður að vera kominn aftur fyrir dögun, segir hann. Fela það hvar?, segir pilturinn. Fela það bara, segir Bosolino. Heyrirðu það, fela það einhversstaðar í helvítinu strax í nótt. Þeir eru árrisulir þessir skrattar. Það eru nú meiri andskotans lætin út af þessu drasli. Svo verður hneyksli þegar kerlingin játar. Kerlingin?, segir pilturinn og er búinn að gleyma hvernig góssinu var smyglað til landsins, af því hann er með hugann bundinn við ferðina yfir fjallið. Þessi sem kom með smyglið frá Ameríku, segir Bosol- ino. Líklega er hún svo ginnheilög, að þeir detta bara ofan í hana. í svarta myrki skömmu eftir miðnættið opnar piltur- in gluggann á herbergi þeirra og vippar sér út fyrir. Hann hafði fært bílinn á bak við húsið eftir að hafa aðstoðað hreppstjórann. Bosolino lokar glugganum til hálfs á eftir honum og horfir á hann hverfa út í húsa- sundið. Þegar hann heyrir í bílvélinni og síðan snarka í mölinni undan hjólunum, hallar hann sér út af í rúmið og bíður. Það er ekki mikils að vænta af því að aka yfir fjall um nótt. Ljóskeilurnar skera myrkrið án afláts og vegurinn er harður og þurr eftir fyrstu frostin og það er lítið ryk, sem er gott af því sveitabíll gleypir loft eins og ryksuga, svo menn snýta svörtu eftir skammar vegalengdir ef raki jarðar og svali haustsins er ekki til að binda. Pilturinn syngur sér til hugarhægðar og prófar vélar- aflið með því að pína tíkina í brekkunum upp á fjallið. Á leiðinni niður af því hirðir hann ekki um að stíga á hemlana og það er stundum mikil ferð á honum, en hún skiptir hann engu. Hann syngur bara þeim mun hærra. Að tveimur tímum liðnum er hann kominn í hlað hjá bensínstöðinni. Þaðan gengur hann eftir þröngum stíg heim að íbúðarhúsinu, þar sem allt er í myrkri og fólk í fastasvefni. Hann stansar á hlaðinu og horfir eftir hús- hliðinni og veltir fyrir sér hvar svefnherbergið er, af því hann vill ekki vekja íbúana með þetta leyndarmál á tungunni. Það er aðeins handa konunni. Hún hlýtur að hafa einhverjar áhyggjur á sinninu vegna þess að hún sefur laust. Hann hefur varla komið við rúðuna þegar hún er risin upp einhversstaðar inni í dimmu herberginu til að líta út um gluggann. Dauft ljósið frá kúplum bensíntankanna varpar draugalegri birtu um hlöð og húsveggi og á andlit konunnar innan við rúðuna. Hár hennar er úfið eftir svefninn og nátt- kjóllinn hefur sigið út af vinstri öxlinni. Hún er að toga í hlirann meðan hún er að koma piltinum fyrir sig og átta sig á, að hann er ekki venjulegur næturhrafn að kvabba um bensín. Henni kemur á óvart að sjá hann þarna þegar hún hefur þekkt að þetta er aðstoðarmað- urinn sem þeir fengu áður en þeir lögðu í ferðina. Maður hennar er sýnilega ókominn. Hann hefur lykla. Piltur- inn bendir henni til dyranna. Þau heilsast og hún víkur fyrir honum svo hann kom- ist inn í ganginn. Síðan lokar hún dyrunum, en þegar hann sér að kveikt hefur verið á útiljósinu seilist hann til og slekkur. Það er nóg að hafa ljós á ganginum við að segja það sem þarf. Hún hefur ekki farið í neitt utan yfir náttkjólinn og henni verður fyrst fyrir að bjóða honum kaffi í eldhúsinu. Hún geymir það í brúsa og það er enn sæmilega heitt, þótt komið sé fram á nótt. Hon- um hlýnar af því að drekka kaffið og af því að sitja inni í húsinu eftir gjóstinn í bílnum. Hann hefur ekki augun af konunni meðan hún er að bjástra við kaffið og hella í bollann hans. Svo leggur hún flata lófana á borðið og hallar sér fram yfir bekkinn og spyr hvort hann sé svangur og vilji eitthvað með kaffinu. Náttkjóllinn sig- ur niður að framan við það að hún lútir og hann heyrir ekki spurningar hennar fyrr en hún endurtekur þær. Nei takk, segir hann, bara kaffi. Hún fær sé sæti gegnt honum og horfir á hann drekka úr bollanum. Er eitthvað að?, segir hún eftir stundarkorn. Nei, ekkert stórvægilegt, segir hann. En þeir hafa verið teknir. Hafa þeir verið teknir?, segir konan og það kennir undrunarhreims í rödd hennar. Það er nokkur þögn, eins og hún sé að átta sig. Fara þeir í fangelsi?, segir hún svo. Nei, segir pilturinn. Ekki út af svona máli. En þeir fá kannski sekt. Og svo er einhver frú fyrir sunnan. Hún flutti þennan varning til landsins. Ég býst við að hún fái fyrir ferðina sé hún ekki heilög. Smygldrottningin, segir konan og brosir, og pilturinn heyrir á þessu að hún þekkir þetta allt, hvaðan smyglið er komið og hver flutti það til landsins. Og honum finnst auðveldara að færa henni skilaboðin fyrst svo er. Hann er ekki að tala við óttaslegna konu sem vex í augum árekstur við yfirvöldin. Hann er að tala við veraldarvana manneskju. Ég var sendur með skilaboð til þín, segir hann. Þú átt að taka góssið og fela það. Við erum í stofufangelsi eins og stendur og það er von á rannsóknarlögreglu að sunn- an. Sýslumaðurinn kemur hér í fyrramálið til að gera húsleit og þá er eins gott að hann vaði ekki í hálsbind- um og lyklakippum. Ég stalst hingað til að láta þig vita. Svo brosir pilturinn til hennar yfir fölrósóttan vaxdúk- inn. Fela það?, segir konan. Hvar á ég svo sem að fela það? Nú veit ég ekki, segir pilturinn, og það kennir hlut- tekningar í röddinni. Þinn höfuðverkur en ekki minn. Svo lýkur hann úr bolla númer tvö og segir: Ég verð að flýta mér aftur í stofufangelsið. Aumingja drengurinn, segir konan og leggur hlýja hönd sína ofan á hægri hönd hans, sem hann lætur hvíla á borðinu. Iss, segir pilturinn og lætur höndina liggja. Þetta er nú ekki stórt mál. Hann vill láta hana trúa að hann sé líka veraldarvanur þótt hann sé aðeins rúmlega tvítug- ur. Dótið er niður í skúr, segir konan. Ég verð að koma því fyrir undir dýnum og teppum uppi á háalofti. Er það öruggt, segir pilturinn. Þangað fer aldrei neinn, segir konan og lofthlerinn er bara sagaður úr loftinu. Það þarf stiga til að komast upp og honum týni ég á eftir. Jæja, segir pilturinn. Hann heyrir að hér eru ráð undir rifi hverju. Ég get víst ekkert hjálpað. Og ég þarf strax til baka hvort eð er. Það gerir ekkert, segir konan og dregur höndina til sín. En það er ekkert rafmagn í skúrnum svo þú ættir að færa kassana með mér að dyrunum áður en þú ferð. Hann leggur af stað yfir fjallið um klukkan hálf fjögur, og þótt honum finnist tíminn naumur fer hann sér hægar á bakaleiðinni. Uppi á háfjallinu sækir á hann svefn og hann finnur allt í einu til þreytu, eins og maður sem er að ljúka langferð. Og hugur hans er að hvarfla til konunnar. Hún fór í vínrauða kápu með svörtum skinnkraga utan yfir náttkjólinn vegna næt- urkulsins. Inni í skúrnum kveikti hún á kerti og kom því fyrir á hvítri undirskál, sem hún setti á pappakassa utan um Shellolíur. Síðan tóku þau góssið og stöfluðu því við dyrnar meðan birtan frá kertaljáoinu flökti heimilislega um bárujárnið í veggjum og þaki. Það kom smám saman einskonar innileiki yfir þau í hálfrökkrinu og hendur þeirra snertust. Stundum fann hann fyrir mjöðmum hennar upp við sig þegar þau voru að bogra, uns þau runnu saman upp við eina kassastæðuna og þögnin og kertaljósið vöktu yfir flýtisverkum þeirra. Það er eins og byrjað sé að grána fyrir degi þar sem fjallgarða ber við himin og hugur hans er alltaf að hvarfla til konunnar. Enginn veit hvort hann kemur aftur eða hvað þau muni segja í viðurvist annarra eftir þessa smyglnótt. Kominn niður af fjallinu æsir hann ferð sína að nýju í kappi við vaxandi skímu. Og það ríkir dauðakyrrð í þorpinu þegar hann nær þangað undir morgun. Fólk fer ekki snemma á fætur og kannski er sunnudagur, hugsar pilturinn meðan han rennir bílnum eftir snarkandi mölinni upp sundið undir hótelgluggan- um. Ljós logar í herbergi þeirra, og þegar hann stígur út stendur Bosolino við gluggann og tyggur vindil sinn. Reykjavík í nóvember 1984.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.