Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Blaðsíða 13
A'ií er ljóstæknin notuð tíl að gefa hugmynd
nm Valhöll. Hér er atriði úr Rínargullinu.
138 SÝNINGAR Á HRING
NIFLUNGSINS
Fyrstu hátíðahöldin í Bayreuth hófust
síðdegis þann 13. ágúst 1876 með flutningi
fyrsta hluta „Hringsins", Rínargullsins.
Ludwig II., sem verið hafði viðstaddur
lokaæfingar var fjarri, en margt var þó
stórmenna, s.s. Wilhelm I. Þýskalands-
keisari og Dom Pedro keisari Brasilíu.
Tókust hátiðahöldin stórkostlega og
lauk hinn 30. ágúst.
Fram til þessa dags hafa sýningar á
„Hring Niflungsins" í Bayreuth orðið 138 á
59 sýningarárum. Aðsóknin er gífurleg. Nú
í ár voru á hátiðahöldunum auk „Hrings-
ins“ einnig sýndar óperurnar „Hollending-
urinn fljúgandi", „Parsifal" og „Meistara-
söngvararnir frá Niirnberg". Urðu sýn-
ingar alls 28 á tímabilinu frá 25. júli til 29.
ágúst auk lokaðra sýninga, m.a. fyrir fé-
laga alþýðusambandsins þýska. Var upp-
selt á allar sýningar og hátíðagestir alls
hátt í sextíuþúsund, en komust þó færri að
en vildu og varð að vísa frá um þrjátíu
þúsund að sögn ráðamanna í Bayreuth.
Virðist þar litlu skipta hátt miðaverð, sem
er allt að 2.200 kr. fyrir hverja sýningu.
Sjálf eru hátíðahöldin mjög viðamikil í
framkvæmd og margt um manninn þær 5
vikur sem sýningar standa. Markast sá
stutti tími af sumarleyfum listafólksins
sem fram kemur, þar sem óframkvæman-
legt væri að fá til samstarfs svo stóran hóp
á öðrum árstíma. Mun t.d. hópur einsöngv-
ara í ár hafa verið talinn á sjöunda tug.
Fjöldi starfsfólks er og mikill. Má sem
dæmi nefna að við sýningu eru um 80
starfsmenn við störf að tjaldabaki. Ekki
má við slíka upptalningu gleyma hátíða-
gestunum, sem komnir voru hvaðanæva og
við upphaf sýninga og í leikhléum settu á
svið sýningu ekki síður athyglisverða en
óperurnar ef dæma má af fjölda staðarbúa
sem þyrpist að til að skoða þetta fólk, sem
djásnum skreytt og uppábúið, hvort heldur
á vest- eða austræna vísu gekk hægum
skrefum í trjágarðinum umhverfis bergj-
andi á kampavíni spaklega þenkjandi um
list þá, sem framin var á fjölum þessa
gamla húss.
Byltingarmaður I Dresden
Sviðið er Evrópa í umbrotum á fimmta
áratug 19. aldarinnar. Hásætum er velt,
forn landamæri útmáð og almúginn gerir
sér götuvígi og skekur vopnin.
Richard Wagner er kominn til Dresden
ásamt konu sinni, þar sem hann þrítugur
hafði hreppt stöðu tónlistarstjóra við hið
Konunglega saxneska hirðleikhús þar.
Þangað komu þau hjón frá París þar sem
Niflungahringurinn endar á Götterdammer-
ung, eða Ragnarökum, og er þessi sviðsmynd
þaðan.
Árið 1871 kemur Wagner í fyrsta skipti
til Bayreuth. Hann hafði af afspurn og
alfræðibókum kynnst óperuhúsi því sem
Wilhelmína markgreifynja hafði látið
byggja og vonaðist til að húsið myndi fall-
ið til sýninga á verkum hans, en svo reynd-
ist ekki. Lega bæjarins og stærð féll hins
vegar prýðilega að hugmyndum Wagners
um eigið óperuhús. Fann hann stað í út-
jarði bæjarins á skógi vaxinni hæð sem
honum leist vel á og festi sér. Sama ár
tilkynnir hann opinberlega í Leipzig að
fyrstu hátíðahöldin í Bayreuth muni fara
fram að sumri 1873. Að því vann nú Wagn-
er öllum árum með hjálp konungs síns
Ludwigs II., enda þótt ráðgjöfum hins síð-
arnefnda muni síður en svo hafa litist á
áætlanir skáldsins.
Ekki var nóg með að Wagner litist vel á
Bayreuth til þeirra hátíðahalda og sýninga
á verkum sínum sem hann hafði lengi
dreymt um, heldur ákvað hann, þreyttur á
flökkulífinu, að reisa þar heimili sitt. Fann
hann því stað í jaðri garðs hallar þeirrar,
sem Wilhelmína prinsessa og markgreif-
ynja hafði byggt rúmri öld áður. Var húsið
fullgert á þremur árum og flutti Wagner
inn með fjölskyldu sína vorið 1874. Valdi
hann húsinu nafnið „Wahnfried", sem á
íslensku gæti útlagst Ginningafró.
HORNSTEINN LAGÐUR 1872
Reyndist gestkvæmt i húsi þeirra Wagn-
ershjóna, Richards og Cosimu. Sótti þau
heim fjöldi listamanna, sem og frammá-
manna í efnahagslífi og stjórnmálum þess
tíma. Húsið skemmdist nokkuð í loftárás-
um síðari heimsstyrjaldarinnar en hefir
nú verið endurbyggt í fyrri mynd. Er nú 1
því safn mikið og gott, í minningu Rich-
ards Wagner og verka hans.
Safninu er fyrirkomið í réttri tímaröð
þannig að ganga gestsins um sali og ganga
er ekki einungis ferð í rúmi heldur og
tíma, þar sem ár skáldsins og verk þess
líða hjá. í dagstofunni stendur veglegur
flygill, sem raunar var gjöf frá Steinway
hinum ameríska til Wagners í tilefni
fyrstu hátíðahaldanna í Bayreuth, en þar
eru nú leiknar af tónböndum og skífum
hljóðritanir af verkum Wagners.
En víkjum nú sögunni enn á ný aftur í
aldir og að óperuhúsi Wagners sjálfs.
Þann 22. maí 1872 leggur skáldið hornstein
að húsinu í blýhólk sem vera bar. Til að
halda upp á daginn stjórnaði Wagner svo
sjálfur 9. symfóníu L. van Beethoven í
óperuhúsi markgreifanna, þar í Bayreuth
Wagner hafði sjálfur mjög ákveðnar
hugmyndir um byggingu hússins, er skyldi
reist sem eins konar umgjörð um verk
hans, þó fyrst og fremst óperuflokkinn
„Hring Niflungsins". Segir skáldið í fyrir-
mælum sínum að sparað skyldi eftir föng-
um við gerð sjálfs hússins. Skreytingar
engar og byggt skyldi úr við. Allan sviðs-
búnað og tæki skyldi miða við uppfærslu
listaverksins. Þar skyldi allt vera sem full-
komnast. Wagner bætir því við að söngv-
arar og listafólk muni aðeins fá greiddan
kostnað, en enga þóknun fyrir framlag
sitt. „Sá sem ekki kemur til mín sakir
heiðursins eða af áhuga, þann sama læt ég
sitja heima."
LUDWIG II. BJARGAR MÁLINU
Fjármögnun byggingarinnar reyndist
Wagner erfið. Hann hafði hugsað sér að
selja bréf til fjáröflunar en sú sala gekk
illa. Bárust honum þó peningar víða að,
m.a. frá Khedivanum af Egyptalandi. Þeg-
ar Wagner var nærri gjaldþroti með fram-
kvæmd sína var honum boðið mikið fé ef
hann vildi flytja aðsetur hátíðahaldanna
til Berlínar en hann afþakkaði. Þegar svo
var komið hljóp konungurinn vinur hans
Ludwig II. undir bagga og veitti honum
stórlán til byggingarinnar þannig að húsið
varð fullgert.
Sagt er að við gerð hússins hafi Wagner
haft í huga leikhúsið í Riga, þar sem hann
hafði starfað aldarfjórðungi áður. Þar
mun gólf áhorfendasalar hafa hallað fram
að sviðinu, hljómsveitin verið falin áheyr-
endum og mögulegt að deyfa ljósin í saln-
um, sem var óvanalegt í þá tíð.
í dag stendur „das Festspielhaus" í Bay-
reuth að miklu óbreytt á hæð spölkorn frá
miðborginni. Er í brekkunum trjágróður
og tjarnir; fögur umgerð. Er eitt trjánna
þó deyjandi; hátt og beinvaxið grenitré
með drúpandi lim og gisið barr. Tímanna
tákn, þar sem náttúran er farin að láta á
sjá vegna vaxandi spillingar lofts og vatns.
Sjálft er „das Festspielhaus" fábrotið hið
ytra og klætt tígulsteini. Allir innviðir eru
úr tré og salurinn málaður gráum litum og
ríkir hið innra sami einfaldleiki. Súlnarað-
ir eru með veggjum og á gólfinu mikill
halli fram að sviðinu. Áhorfendabekkir
eru í fátæklegasta lagi, setið er þétt og
rúmar salurinn yfir 1.500 áhorfendur í
sæti að meðtöldu rými í stúkum aftan við
sjálfan salinn. Sjálf er hljómsveitin falin
áheyrendum og er að nokkru leyti komið
fyrir undir leiksviði. Stjórnandinn stendur
þó þannig að hann hefir góða yfirsýn bæði
hvað varðar söngvara og hljómsveit. Sjálf-
ur kallaði Wagner hljómsveitargryfjuna
„hið dulræna hyldýpi", sem skilur að
raunveruleikann (áhorfendur) og hugsjón-
ina (sviðið).
Öll er bygging hússins á þá lund að sem
best megi njóta þeirra verka Wagners sem
eru flutt. Einfaldleiki salar og fyrirkomu-
lag hljómsveitar gerir að fátt glepur augað
frá því sem fram fer á sviðinu við sýningu
auk þess sem hljómburður er með miklum
ágætum.
LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 22. DESEMBER 1984 13