Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Blaðsíða 41

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Blaðsíða 41
Jónas Halldórsson, hreppstjórí í Hrauntúni. að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. í hlóðaeld- húsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt elds- neyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrís- kösturinn sem dreginn var heim um haust- ið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu. Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einusinni fékk ég fylgja Jón- asi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafna- björgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkju- garði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922. Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu. Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerru- vegi sem kom seinna en hér er frá sagt. Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mik- ill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. í staðinn fyrir túngrös- in hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjá- bakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamb- urmosi. Nú er þarna allt í kafi af birki- skógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógar- kots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mann- hæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svip- aðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár. hofmannaflöt Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagð- ur. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur. Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæð- urnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stund- um glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gil- inu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hraun- inu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum. A meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðar- kvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima. Fuglar Og Ferfætlingar Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas tal- aði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það. í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tenn- urnar í greyinu. Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvit- að sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú. Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hin- ir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum. haustar að í HRAUNTÚNI Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kalda- dal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistar- tíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þing- valla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst. Hundurinn Skrámur barðist við tilfinn- ingar sínar. Hann langaði að elta sumar- leikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem | gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, I einmana og þögull að vanda. Sjá grein um hátíðina í Bayreuth á bls. 12. Söguþráður Niflunga- hringsins Hringur Niflungsins — óperuflokkur til flutnings á þrem dögum og einu sfð- degi. Svo nefnir Richard Wagner sjálfur verk sitt „Der Ring des Nibelung- en“, sem samanstendur af fjórum óperum í fullri lengd: Rínagullið (das lthcingold), Valkyrjan (die Walkiire), Siegfried og Ragnarökkur (Götter- dámmerung)* Hóf Wagner að semja þetta tröllaukna verk um 1848 og tók það hann um aldarfjórðung að Ijúka verkinu. Söguþráðurinn er flókinn og studdist skáldið við Nifl- ungasögnina sem og fleiri germanskar, norrænar og grískar fornsögur. Fjallar verkið um Rínargullið, fjár- sjóð í Rín, sem gætt er af Rínardætrum. Alberich stelur gullinu og smíðar úr því hring, sem á að færa honum alræði. Wotan, sem er æðstur guðanna, rænir hann hringnum en missir djásnið síðan til risanna Fasolt og Fafner í laun fyrir byggingu Walhall. Við missi hringsins lætur Al- berich þá bölvum fylgja hringnum að hann verði al- tíð eiganda sínum að aldur- tila. Fafner drepur Fasolt og umbreytist í dreka mik- inn og leggst á hringinn auk annars gulls. Tvíburarnir Siegmund og Sieglinde, börn Wotans og Erda hitt- ast af tilviljun, játa hvort öðru ákafa ást sína, sem ber skjótan ávöxt þótt skamvinn sé, en bæði deyja eftir umtalsverðar hörm- ungar og mótlæti. Valkyrj- an Briinnhilde, dóttir Wot- ans, brýtur gegn boði foður síns er hún veitir Siegmund lið í bardaga þrátt fyrir bann föður síns og refsar Wotan dóttur sinni með því að leggja hana í dvala á Valkyrjuklettinum með vaf- urloga sem skjöld. Barn systkinanna, mun- aðarlcysinginn Siegfried, elst upp hjá svartálfinum Mime, sem girnist hring- inn, sem Fafner gætir. Ofurhuginn Siegfried drep- ur bæði drekann og fóstra sinn Mime og tekur úr sjóði Fafner hringinn og huliðs- hjálm. Að ráði skógarfugls heldur hinn hjartahreini Siegfried síðan á fjöll til að huga að Briinnhilde. Á leið- inni þangað slær í brýnu milli ofurhugans og Wotan. Hefir Siegfried betur og hreppir meyna. Eftir unaðs- nótt á fjöllum skiljast þau að sinni meðan Siegfried heldur til hallar Gibichunga þar sem ráða Gunter og systir hans Gutrune auk hálfbróðursins Hagen, sem raunar er sonur Alberich, sem enn þráir hringinn. Byrla þau þrjú Siegfried óminnisdrykk og fellir hetj- an hug til Gutrune, en sam- þykkir síðan að vinna Briinnhilde fyrir hönd hins nýja fóstbróður síns Gunt- er. Fcllur Bríinnhilde heit- rofið þungt og eftir mis- skilning og brigsl gerir hún samsæri með þeim Gunter, sem þykist svikinn af fóstbróður sínum og Hagen sem sækist eftir hringnum, um að ráða Siegfried af dögum. Fellir Hagen síðan Siegfried, en Briinnhilde fylgir ástmegi sínum á bál- ið, sem gleypir bæði himinn og jörð og ferst einnig Walhall í logunum. Rín flæðir yfir bakka sína og dætur hennar ná aftur gull- inu. Tjaldið. Tónlistin er margslungin og að miklu leyti samofin úr þeim, sem fylgja ákveðn- um viðburðum, hugtökum og persónum. Notar Wagn- er symfóníuhljómsveit í fullri stærð og bætti raunar við hljóðfærum. Þannig eru t.d. hörpurnar átta og bassatúburnar fleiri en er að venjast. Wagner samdi verkið í öfugri tímaröð. Ragnarökk- ur fyrst, en síðast Rínar- gullið. Fyrstu drögin mun hann hafa lagt um 1848, en smiðshöggið á tónsetning- una rekur hann ekki fyrr en um aldarfjórðungi síðar. ’ Sennilega notar Wagner vísvitandi afbakaða þýð- ingu á ragnarök: Götter- dámmerung. LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 22. DESEMBER 1984 41

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.