Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Page 44

Lesbók Morgunblaðsins - 22.12.1984, Page 44
Silfurnælan Bernskuminning eftir HÖSKULD SKAGFJÖRÐ g var 12 ára snáði og átti heima á góðu sveitaheimili á Norðurlandi. Ég var frekar lítill eftir aldri, en býsna kartinn og frekar áhugasamur við það sem ég gekk að. Samt var mér nú ekki alveg sama hvað ég var látinn gera. Best kunni ég við mig að snú- ast kringum ærnar á vorin, eftir að þær fóru að bera, enda byrjaði þá sérstakur kapituli í búskapnum heima. Besti vinurinn minn hann Snati var allt- af með mér og var stundum að sjá á hon- um eins og hann hafi hlakkað til að vera kominn í skemmtilega vinnu, eftir hvíld vetrarins. Ærnar voru hafðar heimavið um sauðburðinn, eftir að þær höfðu borið voru þær smátt og smátt reknar út í Lambhöfða. Þar var sumarbeitin og þar voru þær frjálsar og þar leið þeim vel. Pyrst var rekið gegnum flæðiengið síðan kom Stóramöl sem skildi að sjó og vatn. Þetta var langur malarkambur frekar illur yfirferðar, með ægisorfnum steinum, sem líktust hver öðrum, en enginn þeirra var eins. Maður varð að fara hægt og gætilega með reksturinn, því lömbin áttu það til að festa litlu klaufirnar sínar á milli steina og kom fyrir að þau þurftu að taka dálítið á til að losna. Eftir þessu varð ég að hafa huga á. Snati var þarna í sínu aðal hlut- verki og gætti þess vel og vandlega að eng- inn færi úr hópnum eða færi neinn útúr- dúr. Best var fyrir okkur að halda sig sem næst vatninu, þar voru líka grasgeirar á stöku stað, og það kunnu lömbin vel að meta þau tóku á sprett og hoppuðu upp í loftið af ánægju. Lambhöfði er hár og snarbrattur, þar mætist grjót og gróður í miðjum brekkum. Þegar við vorum komnir upp settumst við Snati niður og borðuðum nestið okkar, en lömbin stukku undir mömmur sínar og fengu sér ærlegan mjólkursopa. Ég lét Snata um það að koma kindunum upp á Lambhöfðann. Samt kom það nú fyrir að ég fór sjálfur upp, sérstaklega þegar veðr- ið var gott, því útsýnið var fagurt þar uppi í hvaða átt sem litið var. í brekkunum skammt frá uppgöngunni var allstór gróðrarblettur og þar var smá reitur og í honum uxu villt jarðarber, þau urðu ekki fullvaxin fyrr en seint að sumri. Oft hugaði maður að hvernig sprettunni liði svona til forvitni. Við krakkarnir máttum tína uppí okkur, en það voru óskráð lög að enginn mátti tína í ílát nema móðir mín, þetta var hennar einkareitur. Það var þess vegna siður hjá henni að fara út í brekkurnar síðla sumars, með tveggja potta fötu og tína. Oftast kom hún heim með fulla fötu af fallegum stórum jarðar- berjum. Einu sinni sem oftar fór mamma út í Lambhöfða til að tína, hún valdi sér ævinlega gott Veður og var einsömul, hún vildi ekki hafa okkur strákana með, vissi sem var að þá yrði kannski ekki eins hátt í fötunni er heim kom. Við skildum mömmu. Svo var það einu sinni er hún kom heim úr slíkri ferð, sá ég að hún var ekki eins glöð og venjulega; líklega hafði eitthvað sérstakt komið fyrir, enda var það líka. Hún hafði nefnilega tapað brjóstnælunni sinni, sem hún hafði fengið í afmælisgjöf. Þetta var falleg silfurnæla og meir að segja ágrafin. Það fyrsta sem ég gerði var að bjóða henni að fara út eftir morguninn eftir og leita. Ég vissi nákvæmlega hvar berin voru tínd. Mamma þóttist vera alveg viss um að hafa tapað nælunni þegar hún var að tína ’jerin. Eg stóð við orð mín og labbaði út í Lambhöfða strax daginn eftir, en ekki fann ég næluna. Ég leitaði eins vel og skipulega og ég gat, ég held að ég hafi farið einar fjórar ferðir með stuttu milli- bili, en allt kom fyrir ekki, ég gat hvergi fundið næluna. Nú fór að hausta og allra veðra von. Allir voru nú hættir að hugsa og tala um næluna. Þó gat ég ekki stillt mig um það einu sinni þegar við vorum að borða að láta þess getið hvar ég héldi að hún væri niðurkomin. Allir við borðið mændu á mig þegar ég kom með þá skýringu, að líklega hefði huldukona fundið hana og bætti því við að allir vissu að huldufólk byggi í Lambhöfða. Mamma sagði og brosti að það væri bara gaman ef einhver gæti haft gagn og gaman af henni. Pabbi var nú aldeilis ekki á sama máli, hann spurði okkur, hvort við vissum ekki að hrafninn væri sérlega gefinn fyrir að ná sér í smá- hluti sem glittir á; hann hefði vel getað fundið hana og flogið svo með hana út í buskann. Veturinn kom með sína snjóa sem hlóðust á jörðina. Lambhöfði var hvít- ur allan veturinn. Svo kom blessað vorið á sínum tíma. Snjóa leysti og lækir runnu til sjávar. Sauðburður var í aðsigi. Ég hélt mínum gamla sið og rak í Lambhöfða hóp eftir hóp svona eftir því hvernig sauðburð- ur gekk. Ekkert markvert skeði í fyrstu ferðum, nema hvað Snati var farinn að fá sér sundspretti í vatninu, sérstaklega þeg- ar heitt var í veðri. Svo var það einn sól- fagran vormorgun að við löbbuðum með nokkrar lambær, sem búið var að taka frá og tilbúnar voru að fara á sumarbeit. Fjármaðurinn, glöggur maður og gæt- inn, hafði grun um að nokkrar óbornar ær hefðu stolist út í Lambhöfða. Það reyndist líka rétt hjá honum. Okkur gekk vel yfir Stórumöl, og þegar út í brekkurnar kom ákvað ég að fara alla leið upp. Veðrið var yndislega fagurt og mikill hiti. Og nú var að komast upp; þar mundum við hvíla okkur, borða nestið okkar og njóta þess að vera til. f þessum hita gengu ærnar silalega og lömbin voru furðanlega dugleg að ganga á brattann. Ég fór úr peysunni minni og kastaði henni í grasið, en á nestinu hélt ég. Snati dinglaði rófunni í hvert skipti sem ég horfði á hann; hann vissi hvað var í malpokanum. Þegar upp á brún kom heyrði ég ein- kennilegt hljóð, sem ég gat eiginlega ekki greint hvað var. Hvað gat þetta eiginlega verið? Ég var góða stund að átta mig á þessu; svo rölti ég á hljóðið, en þurfti að fara yfir smá hæð, og þegar ég kom í hall- ann hinum megin blasti við mér sjón, sem ég gleymi aldrei. Þarna í slakkanum lá kind sem var að bera, en lambið vildi ekki koma. Hún hljóðaði óskaplega sárt og var auðsjáanlega yfirkomin af þreytu. Mér fannst snöggvast sem ég missti mátt í fót- unum, en það gat nú bara verið hugarburð- ur. Ég flýtti mér á staðinn. Þetta var afar falleg kind, snjóhvít á lagðinn, gulbrún í framan með hreinleg og vel löguð horn. Hún hafði stolist út í Lambhöfða. Þetta var tvævetla sem var að bera sínu fyrsta lambi. Ég stóð kyrr eitt augnablik og fór að hugsa. Hvað átti ég að gera? Ég hugsaði til þess að einu sinni hafði ég séð fjármann- inn heima hjálpa kind í slíkum tilfellum og það gaf mér vissan styrk. Ég varð að taka ákvörðun; það gæti orðið um seinan að fara heim og biðja um hjálp. í fæðingar- hríðunum hljóðaði vesalings ærin sárt, hún teygði höfuðið fram og upp, síðan lagði hún það máttvana á jörðina. Það hrundu tár niður kinnar hennar, sem vættu sólþurrkað grasið. Ég ákvað að reyna að hjálpa og bretti upp skyrtuerm- arnar mínar; fór á bæði hnén og byrjaði að toga í lappirnar á lambinu, sem komnar voru út ásamt snoppu. Ekki gat ég hreyft lambið neitt að gagni; mér datt í hug að líkast til stæði á hornunum. Ég fór þess vegna með fingur á milli og reyndi að kom- ast fyrir annað hornið. Ég sneri lítið eitt hausnum og þegar annað hornið var komið gekk allt eins og í sögu. Nú togaði ég lamb- ið af öllum mínum kröftum. Ærin gaf frá sér sárt jarm og lambið lá máttlaust í grasinu. Ég hreinsaði slím úr munni þess tók svo hrússa litla upp á afturfótuíium og hristi hann dálítið og þá opnaði karl aug- un. Ég varð fyrir smávegis vonbrigðum að heyra ekkert í lambinu; hafði nefnilega heyrt það hjá ljósmóðurinni, að hún væri alltaf svo ánægð að heyra nýfædd börn reka upp org. Það leið nokkur tími þangað til ærin gat staðið upp. Ég beið spenntur en smávegis dasaður eftir viðureignina og fór nú til kindarinnar og klappaði henni á kinnina og óskaði henni til hamingju með lambið sitt. Brátt stóð hún á fætur og tók til að kara hrússa sinn, sem var að gera tilraun til að standa upp. Mér fannst ég vera orðinn fullorðinn maður; svo hreykinn var ég af þessu öllu saman. Snati minn lá þarna rétt hjá mér og sleikti sólskinið og virtist ekki hafa áhýggjur af neinu. En hvernig sem á því stóð hafði ég enga lyst á nestinu mínu, svo Snati fékk það eins og það lagði sig. Ég settist á þúfu og sá þegar lambið fékk sér sinn fyrsta mjólkursopa, en ég sá meira. Hvað var þetta sem lá í grasinu rétt við hliðina á mér? Nú var ég aldeilis agn- dofa. Lá ekki silfurnælan hennar móður minnar þarna uppi á lítilli þúfu. Ég ætlaði tæpast að trúa mínum eigin augum. Ég tók hana upp; það var engum blöðum um það að fletta, þetta var nælan hennar mömmu, sem búin var að vera týnd frá því í fyrra- sumar. Ég hugleiddi hvort þetta væri þakklæti frá Guði fyrir það verk sem ég hafði unnið í dag. Eða hafði álfkonan vilj- að skila nælunni aftur. Nú varð ég að flýta mér heim og segja tíðindin. Þetta var nú meiri dagurinn. Ég stökk í lækjarsprænu og þvoði mér um hendurnar. Tók svo peys- una mína og batt hana um mig miðjan og rölti af stað heimleiðis. Nú snerust hugs- anirnar í kollinum á mér. Ekki kom það til mála að segja stærri strákunum frá kind- inni, nei aldeilis ekki, þeir mundu bara stríða mér, ég þekkti þá kalla, en mömmu varð ég að segja allt. Við löbbuðum Stórumöl og það sem næst vatninu. Snati var ýmist langt á eftir mér eða undan, stundum stansaði hann og glápti á fuglana á vatninu, en allt í einu tók hann sprett og vippaði sér útí og fékk sér sundsprett. Snati synti alltaf hunda- sund, hvernig sem ég var búinn að segja honum að fara nú að synda eins og maöur. Þegar ég kom heim var mamma ein inní eldhúsi, allir aðrir voru við vinnu úti í góða veðrinu. Ég á varla orð til að lýsa því hvað mamma varð glöð og um leið hissa þegar ég rétti henni næluna hennar. Hún faðmaði mig að sér og þakkaði mér fyrir með þeim orðum að hún hefði oft hugsað sem svo að ef nælan kæmi í leitirnar, þá kæmi ég með hana. Allt í einu snéri hún sér að mér og sagði: Mér finnst þú eitthvað svo dularfullur drengur minn. Ég vissi í fyrstu ekki hvað ég átti að segja, en muldr- aði eitthvað á þá leið að það væri nú kannski von. Svo sagði ég henni alla söguna eins og hún lagði sig, en bað hana að vera ekki að segja strákunum frá þessu. Mamma tók í báðar hendur mínar og sagði: Mér þótti mjög vænt um að þú skyldir finna næluna mína, en ennþá vænna að þú skyldir hafa kjark í að hjálpa kindinni. Þetta er mikill happadagur fyrir þig. Ég klóraði mér í kollinum og sagði: En mamma, heldurðu ekki að álfkonan hafi viljað skila þér næl- unni þinni aftur og sett hana þarna á þúf- una hjá mér? O, ætli það vinur minn; ég hugsa að hann pabbi þinn eigi kollgátuna sagði mamma brosandi. Já nú skil ég, það er hann krummi gamli. HÖSKULDUR SKAGFJÖRÐ er leik- ari í Reykjavík

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.