Morgunblaðið - 06.01.2001, Page 22
ERLENT
22 LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Utanríkis-
ráðherra
verður
sendiherra
KNUT Vollebæk, fyrrverandi
utanríkisráðherra Noregs, var
útnefndur sendiherra Noregs í
Bandaríkjunum í gær og mun
hafa aðsetur í Washington.
Vollebæk, sem verið hefur
starfsmaður norsku utanríkis-
þjónustunnar langa hríð, var
utanríkisráðherra í ríkisstjórn
Kjells Magne Bondevik frá
1997 þar til núverandi ríkis-
stjórn tók við í mars í fyrra.
Hann mun taka við sendiherra-
embættinu 1. mars. Vollebæk
gegndi mikilvægu hlutverki í
átökum í Evrópu 1999 þar sem
Noregur fór með formennsku í
Öryggis- og samvinnustofnun
Evrópu (ÖSE) 1999, árið sem
NATO sagði Júgóslavíu stríð á
hendur og Rússar hófu á nýjan
leik stríð í Tsjetsjníu.
Jospin
hyggst segja
af sér
FRANSKA dagblaðið Le
Monde greindi frá því í gær að
franski forsætisráðherrann
Lionel Jospin hefði í hyggju að
láta af embætti í byrjun næsta
árs og bjóða sig fram í forseta-
kosningum sem fara fram í maí
2002. Blaðið sagði heimildar-
mann sinn fyrir tíðindunum
vera nákominn forsætisráð-
herranum, en ætlun Jospin
með afsögninni væri að koma í
veg fyrir þann rugling sem hef-
ur skapast þegar sitjandi for-
sætisráðherra hefur samhliða
verið í forsetaframboði. Þrátt
fyrir að Jospin hafi ekki enn
gefið út yfirlýsingu um að hann
ætli í framboð er almennt talið
að sú sé ætlun hans. Hann mun
þá etja kappi við núverandi for-
seta, Jacques Chirac, sem búist
er við að gefi kost á sér á ný.
Risatúnfisk-
ur á metverði
Á fyrsta uppboði ársins á fisk-
markaðnum í Tókýó í gær var
túnfiskur sleginn hæstbjóð-
anda á metverði, 20,2 milljón-
um jena eða sem svarar tæp-
lega 15 milljónum ísl. króna.
Fiskurinn, sem er 202 kíló, var
veiddur í lok síðasta árs norður
af Japan. Kaupandinn kvaðst
hafa viljað kaupa hágæða tún-
fisk en í Japan er túnfiskur að-
allega notaður í sushi.
Clark til
Íraks
FYRRVERANDI dómsmála-
ráðherra Bandaríkjanna,
Ramsey Clark, hyggst fara fyr-
ir flugleiðangri til Bagdad í
næstu viku til að ögra við-
skiptabanni Sameinuðu þjóð-
anna gegn Írak. Clark flýgur til
Íraks ásamt 50 öðrum and-
stæðingum viðskiptabannsins,
flestum nemendum og kennur-
um í háskólum. Þeir taka með
birgðir til landsins og mun
ferðin farin á þessum tíma til
að minnast þess að tíu ár eru
nú liðin síðan Bandaríkin lýstu
yfir stríði á hendur Írak. Clark
hefur komið nokkrum sinnum
til Íraks eftir Persaflóastríðið
og var í Bagdad fyrir ári þegar
hann fór fyrir flokki banda-
rískra mannúðarsamtaka sem
færðu landinu sem svarar 167
milljónum ísl. króna.
STUTT
HAROLD Shipman, fyrrverandi
heimilislæknir í Bretlandi, er talinn
hafa myrt allt að 265 af sjúklingum
sínum, samkvæmt skýrslu sem
breska stjórnin birti í gær.
Shipman hefur þegar verið
dæmdur í 15 sinnum ævilangt fang-
elsi fyrir morð á 15 öldruðum kon-
um sem hann sprautaði með ban-
vænum skammti af heróíni.
Eigi Shipman 265 morð á sam-
viskunni er hann einn af verstu rað-
morðingjum heims. Aðeins einn
maður er talinn hafa framið fleiri
morð á síðustu áratugum, en það er
Kólumbíumaðurinn Pedro Arm-
ando Lopez, sem kallaður var
„Skrímslið í Andesfjöllum“. Lopez
er talinn hafa myrt 300 ungar stúlk-
ur í Kólumbíu, Perú og Ekvador en
var aðeins dæmdur sekur um 57
morð árið 1980.
Bresk dagblöð sögðu að í skýrsl-
unni kæmi fram að um 250 sjúkling-
ar hefðu dáið „við grunsamlegar að-
stæður“, auk morðanna fimmtán
sem hann var dæmdur fyrir.
Í skýrslunni er greint frá niður-
stöðum sérfræðinga sem hafa rann-
sakað störf Shipmans á
árunum 1974 til 1998
fyrir breska heilbrigð-
isráðuneytið. Rann-
sóknin hófst í janúar á
síðasta ári, skömmu
eftir að Shipman var
sakfelldur.
Lögregluna hefur
lengi grunað að Ship-
man hafi myrt á þriðja
hundrað sjúklinga
sinna. „Við höfum lesið
skýrsluna og áttum
stóran þátt í undirbún-
ingi hennar. Margar af
niðurstöðum hennar
eru í samræmi við okk-
ar eigin niðurstöður til þessa,“
sagði Bernard Postles aðstoðaryf-
irlögregluþjónn, sem stjórnaði
rannsókn lögreglunnar í Manches-
ter á málinu.
Heilbrigðisyfirvöld gagnrýnd
Bresk dagblöð segja að heilbrigð-
isyfirvöld séu gagnrýnd harðlega í
skýrslunni fyrir að hafa ekki tekið
eftir því fyrr að dauðsföllin meðal
sjúklinga Shipmans
voru grunsamlega
mörg. Hann hafði orð-
ið uppvís að því árið
1976 að hafa falsað
lyfseðla og misnotað
lyf eftir að hann hóf
störf við læknamið-
stöð í Todmorden,
skammt frá Manches-
ter. Hann var leiddur
fyrir rétt, játaði svikin
og var sektaður um
600 pund en ekki
sviptur læknisleyfinu
þar sem hann var
kominn í meðferð.
Tveimur árum síðar
hóf hann læknisstörf í Hyde, austur
af Manchester, og opnaði sína eigin
stofu.
Í skýrslunni kemur fram að Ship-
man er talinn hafa framið fyrstu
morðin snemma á 20 ára læknisferli
sínum og þeim hafi fjölgað mjög síð-
ustu árin, að sögn The Times. Talið
er að hann hafi svikið út um 1.400
banvæna skammta af heróíni sem
hann hafi sprautað í fórnarlömbin.
Engar augljósar ástæður hafa
fundist fyrir morðunum. Við rétt-
arhöldin kom fram að móðir hans dó
úr krabbameini þegar hann var
sautján ára og dauði hennar var
honum þungt áfall. Sálfræðingar
telja að þessi reynsla hafi orðið til
þess að hann hafi heillast af dauð-
anum. Þeir segja að svo virðist sem
hann hafi fengið einhverja nautn út
úr því valdi sem hann tók sér yfir
lífi og dauða sjúklinga sinna.
Ákærður fyrir fleiri morð?
Breskir saksóknarar sögðu í maí
að þeir hefðu nægar sannanir til að
ákæra Shipman fyrir 23 morð til
viðbótar þeim 15 morðum sem hann
var sakfelldur fyrir. Þeir ákváðu
hins vegar að gera það ekki þar sem
þeir töldu að hann myndi ekki fá
sanngjarna málsmeðferð fyrir rétti
í ljósi sakfellingarinnar.
Búist er við að nýja skýrslan
verði til þess að fast verði lagt að
breskum yfirvöldum að verða við
kröfum fjölskyldna líklegra fórnar-
lamba Shipmans um að saksækja
hann fyrir fleiri morð.
Ný skýrsla um breskan heimilislækni og raðmorðingja
Talinn hafa myrt allt
að 265 sjúklinga sína
Harold Shipman
London. Reuters, The Daily Telegraph.
ROBERTSON lávarður, fram-
kvæmdastjóri Atlantshafsbandalags-
ins (NATO), hefur heitið því að gefn-
ar verði ítarlegar upplýsingar um
notkun á úranhúðuðum sprengjum
sem bandarískir flugmenn notuðu
gegn skriðdrekum Serba í Bosníu
1994-1995. Mörg ríki hafa lýst
áhyggjum sínum af því að hermenn
sem sinnt hafa friðargæslu á Balk-
anskaga hafi orðið fyrir heilsutjóni
vegna áhrifa af leifum úr sprengjun-
um er mengað hafi jarðveg og vatn.
Hefur sums staðar verið ákveðið að
láta kanna vandlega heilsufar mörg
þúsund manna til að reyna að taka af
allan vafa en sérfræðingar benda á að
vandinn sé að ekki sé vitað hvers beri
að leita.
Þýskur þingmaður úr röðum jafn-
aðarmanna, Hermann Scheer, varaði
við því þegar vorið 1999 að notaðar
væru úransprengjur í loftárásunum á
stöðvar Serba. Hann segir að NATO
beri skylda til að hreinsa þegar í stað
landssvæði sem hafi mengast og láta
kanna heilsufar fólks sem hafi komist
í snertingu við sprengjuleifar. Mest
hætta er talin á að geislavirkt ryk hafi
mengað jarðveg og vatn. Notað er
svonefnt rýrt úran í sprengjurnar en
geislavirkni þess er 40% minni en í
auðguðu úrani sem notað er í kjarn-
orkusprengjur og brennt í kjarnorku-
verum. Sprengjurnar geta rofið bryn-
vörn skriðdreka vegna þess hve
eðlisþungt úran er.
Faraldsfræðilegrar
rannsóknar þörf
Finnskur sérfræðingur, Wendla
Paile, fullyrti í gær að geislun frá
rýrðu úrani í sprengjum væri svo lítil
að útilokað væri að hún gæti valdið
hvítblæði. Í skýrslu sem gerð var fyr-
ir Rand-stofnunina bandarísku sagði
á hinn bóginn að þótt geislunin væri
lítil gæti hún hugsanlega valdið
heilsutjóni. Hins vegar væri talið að
málmeitrun af völdum úransins væri
mun líklegri til að vera heilsuspillandi
en geislavirknin.
Talsmaður Williams Cohens, varn-
armálaráðherra Bandaríkjanna,
sagði í gær að sérfræðingar ráðu-
neytisins hefðu rannsakað áhrifin af
úransprengjuleifum frá því að slík
vopn voru notuð fyrst sem var í Flóa-
bardaga 1991 gegn herjum Saddams
Husseins. Engar sannanir hefðu
fundist fyrir því að sprengjuleifarnar
gætu valdið sjúkdómum í fólki. Tals-
maðurinn, Kenneth Bacon, sagði að
forsenda þess að hægt væri að fjalla
um málið hlyti að vera faraldsfræði-
leg rannsókn sem sýndi fram á að
tíðni hvítblæðis meðal þeirra sem
gegnt hefðu skyldustörfum á Balkan-
skaga væri óvenju há. Slík könnun
hefði ekki verið gerð enn þá.
Átta látnir úr hvítblæði
Alls hafa sjö ítalskir hermenn og
einn Rauðakrossliði, er allir störfuðu
á Balkanskaga, látist úr hvítblæði.
Nokkur tilvik hafa einnig greinst í
Frakklandi, Bretlandi og víðar en
ekki er ljóst hvort hægt er að fullyrða
að orsökin sé að umrætt fólk hafi orð-
ið fyrir geislavirkni eða eitrun frá
sprengjuleifum.
Stjórnvöld í Serbíu og Svartfjalla-
landi, sem mynda sambandsríkið
Júgóslavíu, segja að á nokkrum svæð-
um í löndunum tveim sé mengun
vegna geislavirkni og eitrunar frá
ryki og brotum úr sprengjunum.
Fréttastofan Beta í Belgrad hafði eft-
ir Milan Zaric, ofursta í her Júgóslav-
íu, að gerð hefði verið könnun á
heilsufari fólks á svæðinu og ekki
hefðu fundist nein merki um heilsu-
tjón sem rekja mætti til mengunar-
innar.
Notkun úransprengjanna hefur
ekki farið leynt því að þegar í fyrra
skýrðu Bandaríkjamenn frá því að
þeir hefðu skotið alls 18.000 slíkum
sprengjum á skotmörk í Kosovo-
stríðinu vorið 1999 og 31.000 sprengj-
ur hefðu verið notaðar gegn Bosníu-
Serbum í grennd við Sarajevo og víð-
ar í Bosníu 1994-1995. Nokkur ríki
eiga sprengjur af þessu tagi en
Bandaríkjamenn munu vera eina
þjóðin sem hefur notað þær.
Reuters
Ítalskur friðargæsluliði í borginni Pec í Kosovo. Fulltrúar aðildarríkja
NATO munu í næsta viku ræða um vaxandi ótta við að geislavirkni og
eitrun frá sprengjuleifum eftir loftárásir bandalagsins gegn Serbum
hafi valdið gæsluliðum og fleira fólki heilsutjóni á Balkanskaga.
Heita ítarlegri
skýrslu um úr-
ansprengjur
Brussel, Washington, París, Berlín. AP, AFP.
ÁSTRALÍA og Nýja-Sjáland til-
kynntu í gær að innflutningur á
nautakjötsafurðum frá 30 Evrópu-
löndum verði bannaður vegna
hættunnar á kúariðusmiti og þeim
sjúkdómum sem því fylgja. Bannið
tekur gildi á mánudag. Ástralska
matvælaeftirlitið sagði í gær að
það ráðlegði kaupmönnum að taka
nú þegar allar kjötvörur frá Evr-
ópu úr hillum.
Ástralía og Nýja-Sjáland fram-
leiða sjálf nær allt nautakjöt sem
neytt er í þessum löndum, en um
eitt þúsund tonn af nautakjötsaf-
urðum eru þó flutt inn frá Evr-
ópuríkjum ár hvert. Vörur sem nú
verða teknar úr umferð eru t.d.
kjötkraftur og súpa frá Belgíu,
kæfa frá Króatíu, saltkjöt og pyls-
ur frá Danmörku, niðursoðið kjöt
og kálfakjöt frá Frakklandi og
pylsur og fyllt pasta frá Þýska-
landi.
Markmið bannsins eru að
hindra útbreiðslu kúariðu til Ástr-
alíu og Nýja-Sjálands, sem eru að
mati ástralska matvælaeftirlitsins
tvö af einungis fimm löndum í
heiminum sem eru algerlega laus
við hættu á kúariðu.
Kúariðufár hófst í Bretlandi á
níunda áratugnum. Útflutningur á
bresku nautakjöti var bannaður af
Evrópusambandinu 1996 eftir að
tengsl kúariðu og creutzfeldt-jak-
ob sjúkdómsins, sem veldur ban-
vænni heilarýrnun í mönnum,
urðu ljós. Þrátt fyrir að ESB hafi
aflétt banninu 1999 hafa mörg
lönd, þar á meðal Ástralía og
Nýja-Sjáland áfram takmarkað
innflutning á kjöti frá Bretlandi.
Bannið nú kemur í kjölfar frétta
af kúariðutilfellum víðar í Evrópu
síðastliðið haust.
Ástralía og Nýja-Sjáland
Banna innflutning
á evrópskum
nautakjötsafurðum
Sydney. AFP.