Morgunblaðið - 06.01.2001, Blaðsíða 43
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2001 43
Stefáni fyrst í Arsenal-ferð fyrir
mörgum árum og kom hann mér
strax vel fyrir sjónir og í honum var
að finna traust og hlýju sem hann
margsýndi mér og félögum sínum í
klúbbnum. Ég fól Stefáni, að skrifa
ferðasögu klúbbsins þegar við fórum
í „ferð aldarinnar“ til London að sjá
Arsenal spila haustið 99 sem síðan
yrði gefin í jólablaði klúbbsins. Stef-
án skoraðist ekki undan því en taldi
erfitt að feta í fótspor æviráðins
ferðasöguritara klúbbsins, Hjálmars
Arinbjarnar, sem ekki komst með í
ferðina.
Það er þó skemmst frá því að
segja að Stebba fórst þetta verulega
vel úr hendi og leysti af hreinni snilld
svo eftir var tekið, þar sem einmitt
hans skemmtilegi húmor og heims-
borgaralega yfirsýn fékk notið sín.
Við hjónin ásamt fleiri félögum nut-
um samvistar við hann á fríkvöldum í
flestum ferðunum sem hann fór í,
þar sem hann leiddi okkur inn á
framandlega veitingastaði þar sem
hans hógværi heimsborgari fékk
notið sín. Ekki lét hann sitt eftir
liggja er við heimsóttum indverska
veitingastaðinn í London sem félags-
menn Arsenal-klúbbsins heimsækja
alltaf þar sem sungin voru ættjarð-
arlög í bland við létt þjóðhátíðarlög.
Aftur lágu leiðir okkar saman sl. vor
er við skunduðum mörg saman til
Köben til þess að sjá okkar menn
vinna Evróputitil, en það tókst þó
ekki í það sinnið. En innkoma
Stebba í þá ferð var eins og áður
mjög skemmtileg, hann hafði nefni-
lega unnið heimavinnuna og haft
samband við bróðurson sinn Andrés
sem búsettur var úti og var öllum
hnútum kunnugur og fylgdi hann
okkur víða um Kaupmannahöfn og
að endingu nánast inn á völlinn. Ég
var Stefáni þakklátur fyrir þetta inn-
legg, því miklar róstur voru í mið-
borg Kaupmannahafnar vegna þessa
leiks og því gott að hafa staðkunn-
ugan með sér. Við vorum nánast jafn
gamlir (upp á hár) undirritaður ein-
um sólarhring eldri og við þar með
báðir meyjur sem náðum vel saman,
en ekki sagði hann mér frá manni
sem líktist honum úr hófi fram nema
að einu leyti og átti mjög svipaðan
afmælisdag og fæðingarár og við.
Það var þannig að eitt sinn var ég á
ferð í Vestmannaeyjum og sá þar
Stebba tilsýndar, stökk að honum og
fór að ræða við hann um okkar
helsta áhugamál Arsenal, en þessi
tók lítið undir og fóru því að renna á
mig tvær grímur þar til að hann upp-
lýsir mig um sannleikann.
Þarna var kominn tvíburabróðir
hans og aðeins eitt skildi þá að, hann
hélt með Leeds.
Ég gæti lengi haldið áfram en læt
hér staðar numið en get þó ekki látið
hjá líða að minnast þess er hann
óumbeðinn lagði mér lið í prófkjörs-
baráttu vorið ’99, við Ásdís viljum
þakka honum góð kynni og vináttu.
Það er kannski táknrænt að hans
síðustu spor voru við okkar eftirlæti,
knattspyrnu. Ég vil svo fyrir hönd
allra Arsenal-aðdáenda á Íslandi
þakka honum samfylgdina og votta
fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.
Kjartan Björnsson.
Eftir hádegi á gamlársdag bárust
okkur veiðifélögunum í Elliðaey þau
sorgartíðindi að formaðurinn okkar,
Stefán Erlendsson, hefði orðið bráð-
kvaddur í Íþróttamiðstöð Vest-
mannaeyja aðeins 35 ára gamall.
Okkur félagana, eins og aðra Eyja-
menn, setti hljóða og erum harmi
slegnir og skiljum ekki hvers vegna
Stefán var tekinn frá okkur, langt
um aldur fram.
Eins og margir ungir menn í Vest-
mannaeyjum fékk Stefán snemma
áhuga á lundaveiði og atvikin æxl-
uðust svo að hann gerðist veiðifélagi
í Elliðaey. Það var mikið lán því Stef-
án var jákvæður maður að eðlisfari,
traustur og hrókur alls fagnaðar.
Það var síðan á vordögum á sl. ári að
Stefán var kosinn formaður félags-
ins.
Það var góð prófraun á nýjan for-
mann að leiða árshátíð Félags bjarg-
veiðimanna og það var ekki mikið
vandamál, enda átti hann gott með
að vinna með öðrum og fá aðra til liðs
við sig. Sjálfur átti hann stóran þátt í
skemmtidagskrá, sem að hluta var
frumsamin af honum.
Þegar sól fer að hækka og vor er í
lofti fer að fara fiðringur um úteyja-
karla í Vestmannaeyjum. Þá fer að
styttast í lundann og komið að því að
fara úteyjar og gera ból og veiðistaði
klára fyrir sumarið. Stefán lét sig
aldrei vanta í þessar ferðir. Stefán
hefur undanfarin ár ritað í ferðalok í
dagbók Elliðaeyjar það sem gerst
hafði og hann kunni svo sannarlega
að skrásetja hlutina á sinn hátt og
það var oft endir á góðri ferð, þegar
hann las úr dagbókinni og stílbragð
hans var þannig að allir höfðu gaman
af, jafnvel þeir sem mest var um
fjallað hverju sinni. Það verður erfitt
fyrir okkur hina í vor að fara í þessar
ferðir án Stefáns, sem jafnframt hef-
ur ritað sín síðustu orð í dagbók okk-
ar Elliðeyinga.
Þá mun skorta á hnyttin tilsvör
hans og húmor í trillunni á leið út í
Elliðaey eða á kvöldvökunni.
Stefán var mikill félagsmaður og
vann jafnframt mjög gott og óeig-
ingjarnt starf í þágu íþróttahreyf-
ingarinnar og ljóst er, að þar sem
hann starfaði fór maður sem var
ávallt boðinn og búinn að taka að sér
verk og skila þeim eins og til var ætl-
ast. Skarð félaga okkar, Stefáns Er-
lendssonar, verður vandfyllt á þeim
vettvangi er hann starfaði.
Foreldrum, systkinum og öðrum
aðstandendum sendum við okkar
dýpstu samúðarkveðjur.
Með þessum fátæklegum orðum
kveðjum við þig, kæri vinur, þín
verður sárt saknað.
Veiðifélagar, Elliðaey.
Í dag kveð ég góðan vin minn,
Stefán Erlendsson. Ég kynntist
Stefáni í kringum 1984 ásamt Ólafi
tvíburabróður hans og fleiri góðum
félögum. Stefán var traustur og góð-
ur félagi og vorum við einnig vinnu-
félagar í nokkur ár hjá Netagerðinni
Ingólfi en þar hafði ég einnig unnið
með föður Stefáns, Erlendi Stefáns-
syni, og sannast hið forkveðna að
sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.
Stefán var félagi í Elliðaey og tók
við formennsku þar sl. vor. Það verð-
ur sárt fyrir okkur félagana að vera
án Stefáns því manna duglegastur
var hann að fara út í eyju hvort held-
ur var til veiða eða einhverra ann-
arra erinda. Stefán var líka húmor-
isti mikill og voru kvöldvökurnar í
Elliðaey ógleymanlegar en þá fóru
þeir bræður á kostum. Stefán var
mikill áhugamaður um knattspyrnu
og var mikill Arsenal-maður, eins og
undirritaður, og hittumst við einu
sinni í viku ásamt tveimur félögum
okkar og tippuðum. Stefán hafði oft
lýst fyrir mér ferðum á Highbury
sem hann hafði farið. Hagnað, sem
átti að myndast með getraunum, átti
að nota til að fara eina slíka ferð, en
hún bíður betri tíma. Það var því
ekki að ósekju að fyrir rúmu ári bað
ég Stefán að ganga til liðs við okkur í
Knattspyrnuráði ÍBV og var það
auðsótt mál og mikill fengur fyrir
knattspyrnuna í Eyjum að fá þá
starfskrafta til liðs við sig.
Stefán starfaði mikið fyrir 2. fl.
ÍBV og fór með þeim í flestar ferðir
og einnig voru margar góðar ferðir
með mfl. ÍBV. Við Stefán vorum að
ræða málin á æfingu hjá ÍBV inni í
Íþróttamiðstöð þegar kallið kom og
engu varð við bjargað og var erfitt
fyrir leikmenn og ráðsmenn ÍBV að
horfa á eftir góðum félaga.
Ég kveð þig kæri vinur.
Foreldrum, systkinum og öðrum
aðstandendum sendi ég mínar
dýpstu samúðarkveðjur.
Guðni Hjöll.
Elsku Stefán, nú ert þú farin frá
okkur langt um aldur fram. Þú sem
varst svo fastur þáttur í lífi okkar.
Hann rennur seint úr minni mínu
þessi gamlársdagur og þetta andar-
tak þegar tengdapabbi minn færði
mér þessi hræðilegu tíðindi. Þetta
gat ekki verið satt, þú sem hefur ver-
ið heima hjá okkur mörgum sinnum í
viku í heimsókn eða að horfa á fót-
bolta með Jóa og síðast daginn fyrir
gamlársdag að sjá Arsenal liðið ykk-
ar spila. Og við ætluðum að hittast á
gamlárskvöld eins og við höfum allt-
af gert. En svo er bara allt búið, á
einni svipstundu ert þú tekinn frá
okkur allt of snemma.
En við erum víst ekki spurð að því
þegar kallið kemur. Þær eru ófáar
ferðirnar sem við höfum farið í sam-
an upp á land, erlendis eða út í
Elliðaey. Alltaf varst þú með og
varst oft fyrstur að stinga upp á að
við færum öll sömun saman og
krakkarnir líka, í grillferðir og fjör.
Þú varst svo barngóður að börn voru
aldrei nein fyrirstaða hjá þér þó svo
þú ættir engin sjálfur. Börnin okkar
elskuðu þig og fannst þú alltaf svo
skemmtilegur, og yfirleitt laumuðu
þau sér með pabba sínum ef þau
vissu að það var pizza í matinn hjá
þér á Eurofótboltakvöldunum ykkar
Jóa en fótbolti átti hug þinn allan.
En svona er lífið og við verðum að
reyna að taka þessu með æðruleysi
að þú sért farinn því lífið heldur víst
áfram þó að besti vinur okkar sé far-
inn, en það verður aldrei eins. Við
kveðjum þig með miklum söknuði og
reynum að vera þakklát fyrir þann
tíma sem við fengum að hafa með
þér. Við biðjum góðan Guð að
styrkja foreldra, systkini og að-
standendur þína á þessari erfiðu
stundu.
Þínir vinir,
Júlía, Jóhann, Berglind og
Ragnar Þór.
Okkur langar til að minnast þín
kæri vinur með fáeinum orðum. Við
urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að
kynnast þér fyrir 10 árum í Vest-
mannaeyjum. Það var upphaf að
skemmtilegum samverustundum og
góðri vináttu. Þú varst ríkur af
kímnigáfu, orðheppinn og vinsæll
meðal vina. Til þín var alltaf hægt að
leita þegar eitthvað bjátaði á.
Við sóttumst eftir samveru þinni
og hlökkuðum alltaf til þegar við fór-
um saman með þér og Ólafi bróður
þínum á sumrin í ferðalög eða hitt-
umst við önnur tækifæri. Þá var allt-
af gaman og mikið hlegið enda
varstu hrókur alls fagnaðar.
Við teljum það forréttindi að hafa
kynnst þér, þú auðgaðir líf okkar á
meðan þú lifðir. Elsku Stefán, hafðu
þökk fyrir allt í gegnum árin. Okkar
innilegustu samúðarkveðjur til fjöl-
skyldu og annarra ástvina.
Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.
(Hallgrímur J. Hallgrímsson.)
Ólafur Bjarni Guðmundsson,
Sonja Kristín Jakobsdóttir.
Nei og aftur nei, þetta getur ekki
staðist, minn besti vinur er dáinn
einungis 35 ára gamall og við sem
áttum eftir að gera svo ótalmargt
saman.
Tvíbbunum, eins og við kölluðum
þá, kynntist ég snemma á lífsleið-
inni. Strax eftir gos vorum við farnir
að sparka bolta á barnaskólalóðinni
sem var okkar uppáhaldsiðja með
vinum okkar á þeim árum, ásamt því
að spila á spil.
Seinna bættist síðan við flakk um
fjöllin hér í Eyjum. Er við komumst
á unglingsár varð okkur snemma
ljóst að ekki myndum við gera garð-
inn frægan á knattspyrnuvellinum
en við bættum það upp með ódrep-
andi áhuga á ÍBV og enska fótbolt-
anum, en þar héldum við Stefán upp
á sama liðið sem er Arsenal, en hinn
tvíbbinn með Leeds. Undanfarin ár
hafa verið ofboðslega skemmtileg,
Euro-kvöldin okkar sem voru í kjall-
aranum á Hásteinsveginum; þá eld-
aði Stefán pizzur eða einhverja
skemmtilega skyndirétti sem við
hentum í okkur og drukkum bjór
með, síðan var látið öllum illum lát-
um fyrir framan sjónvarpið. Horft á
enska boltann heima á Illugagötunni
og þegar vel gekk var síminn óspart
notaður til að hringja í vini og kunn-
ingja til að svekkja þá eða þá að sím-
inn hringdi stöðugt hjá okkur þar
sem var gert grín að okkar liði. Þá
fáu leiki sem við sáum ekki saman
vorum við alltaf í símasambandi hvor
við annan hvar sem við vorum í
heiminum. Ég mun aldrei gleyma
söngnum hans Stefáns þegar hann
hringdi í mig ef ég var ekki að horfa
á boltann með honum og okkar menn
skoruðu „one nil to the Arsenal“
söng hann þá í símann. Mikið verður
lífið nú breytt að horfa á boltann
bara einn eða með peyjunum og eng-
inn Stefán, kannski að hann sitji
bara á besta stað á Highbury og
fylgist með hverjum leik hjá okkar
mönnum.
En það er margt að þakka. Við
gátum gert mikið og margt saman á
þessum stutta tíma og er ég þakk-
látur fyrir þann mikla og góða vin-
skap sem þú sýndir mér og Júlíu og
hversu góður og yndislegur þú varst
alltaf við Berglindi og Ragnar Þór.
Ég þakka allar heimsóknirnar heim
til okkar þar sem þú varst hrókur
alls fagnaðar, allar gúrkurnar sem
að við spiluðum. En sérstaklega
þakka ég þér fyrir að vera bara þú.
Að endingu vil ég biðja góðan Guð að
styrkja og vaka yfir Gauju, Ella,
Ólafi og öllum öðrum fjölskyldu-
meðlimum.
Jóhann Freyr Ragnarsson
(Jói Ragg).
Það var okkur sem reiðarslag þeg-
ar okkur barst sú hörmulega frétt að
starfsfélagi okkar og góður vinur til
margra ára væri látinn aðeins 35 ára
gamall. Stefán hóf störf hjá Neta-
gerð Ingólfs 1988 og starfaði sem að-
stoðaryfirverkstjóri hjá fyrirtækinu
síðustu árin. Hann var mjög metn-
aðarfullur starfsmaður sem sýndi
sig best í því að honum var treyst
fyrir mörgum mjög erfiðum og
krefjandi verkefnum. M.a. var hann
sendur til Írlands 1995 og Taiwan
1999 til að hafa yfirumsjón með
verkefnum sem fyrirtækið stóð að og
leysti hann það með miklum sóma.
Stefán var alltaf mjög lífsglaður og
yfirleitt hrókur alls fagnaðar bæði í
vinnunni og eins þegar við félagarnir
vorum að skemmta okkur saman.
Við minnumst þess þegar hann kom
með háðvísur um okkur starfsfélag-
ana sem hann hafði samið sjálfur í
tilefni skemmtunar og auðvitað söng
hann sjálfur manna hæst og hafði
mest gaman af. Það var alltaf stutt í
grínið og stríðnina hjá honum. Við
vinnufélagar vissum að hans aðal
áhugamál voru úteyjarlíf í Elliðaey
og snattið í kringum það og einnig
fylgdist hann með knattspyrnu af lífi
og sál og þá sérstaklega liði sínu í
enska boltanum, Arsenal, en hann
fór nokkrar ferðir utan til að fylgjast
með þeim. Þá var áhugi hans á knatt-
spyrnu það mikill að hann byrjaði að
starfa í knattspyrnuráði ÍBV fyrir
síðasta tímabil. Stefán hafði ákveðn-
ar skoðanir í pólitík og var oft gaman
í Netagerðinni þegar við náðum hon-
um upp í heitar umræður um hin
ýmsu pólitísku mál. Við minnumst
Stefáns sem trausts og góðs félaga
sem var alltaf boðinn og búinn að að-
stoða ef til hans var leitað.
Við vinnufélagar kveðjum þig með
miklum söknuði og minnumst þín
sem mikils og góðs félaga sem við
teljum að hafi verið mikil forréttindi
að fá að vinna með.
Við sendum Gauju og Ella, systk-
inum og öllum ættingjum, okkar
dýpstu samúðarkveðjur.
Samstarfsfélagar hjá
Netagerð Ingólfs.
Fátt mega sín orð, þá mest á reyn-
ir. Svo er og hér við hið óvænta, for-
varalausa, harmsára og ótímabæra
fráfall Stefáns Erlendssonar. Eigi að
síður skal þó festa nokkur orð á blað
til að minnast, sýna samhug og
þakka.
Frá bernsku hans hafa leiðir legið
saman, jafnan á heimili foreldra
hans, sem um áratuga skeið hafa
verið einstakir, nánir vinir okkar
hjónanna. Þar komu strax fram ljúf-
ir kostir Stefáns og örlæti. Fyrir
honum var sem sjálfsagt að víkja úr
rúmi og herbergi fyrir okkur, láta
okkur eftir sæti sitt við fjölskyldu-
borðið og gera heimsóknir okkar,
dvöl og kynni öll sem ljúfust og
ánægjuríkust.
Stefán var hreinskiptinn, ákveð-
inn í sjónarmiðum, en jafnframt
reiðubúinn að sjá og virða viðhorf
annarra. Kostir hans, festa, karl-
mennska hans, hreysti, drenglyndi
og heiðarleiki, voru jafnan ráðandi,
hvar sem hann gekk að störfum eða
íþróttum. Sem knattspyrnuunnandi
frá bernsku votta ég íþróttaráði
Vestmannaeyja samúð, því hér er
skarð fyrir skildi.
Kærir vinir, Elli, Gaua og aðrir
ástvinir. Við sendum ykkur öllum
dýpstu samúðar- og vinarkveðjur.
Guð styrki ykkur, huggi og blessi.
Látið þær björtu og ljúfu minning-
arnar hefja ofar harmi og trega í
vissunni um endurfundina á landi lif-
enda.
Kveðjum okkar fylgja samhljóma
kveðjur frá Líknar- og vinafélaginu
Bergmáli. Sérstakar þakkir fyrir allt
sem þið hafið svo örlátlega gert fyrir
Bergmál.
Blessuð sé minning Stefáns.
Sólveig og Jón Hjörleifur
Jónsson.
Gleðigjafi er orð sem leynir ekki á
sér, en samt geta forsendurnar fyrir
því verið svo misjafnar. Stefán Er-
lendsson var einn af þessum per-
sónuleikum sem leyndu svo á sér, því
þeir sem voru svo heppnir að kynn-
ast honum í leik og starfi, nutu þess
að hann bjó yfir góðum kostum í röð-
um í ríkari mæli en flestir. Hann var
sannkallaður gleðigjafi í þess orðs
bestu merkingu.
Stefán naut sín vel í hópi Bjarg-
veiðimanna og sinnti þar forustu
með glæsibrag í hverju máli sem
hann tók að sér. Hann var boðinn og
búinn að taka að sér verkefni og
hvert erfitt verk vannst honum létt.
Hann var allt í senn duglegur, ráða-
góður, framtakssamur, skemmtileg-
ur og gegnheill drengskaparmaður.
Það er mikið áfall og mikið álag að
missa þannig félaga svo ógnarlega
langt fyrir aldur fram. Stefán var
Ellireyingur af lífi og sál enda for-
maður þess svipmikla og tilþrifa-
mikla hóps með glæsibrag.
Stefán skar sig úr fyrir margt,en
fyrst og fremst fyrir það hve jarð-
bundinn hann var og tillitssamur, því
þrátt fyrir lensku galgopaháttar og
prakkaraskaps í samfélagi okkar út-
eyinga þá gekk hann aldrei of langt
þegar menn slógu á létta og liðuga
strengi svo sem háttur er úteyinga.
Honum fór svo vel að vera hrókur
alls fagnaðar, því hann var mikill
húmoristi, en um leið svo fjölfróður
og skynsamur. Hann hafði þau áhrif
að mönnum leið vel í návist hans og
menn hegðuðu sér um leið betur en
vonir stóðu til. Þannig var hann boð-
beri hins góða til félaga sinna í lífsins
melódí. Mörg var stundin skemmti-
leg með honum og Ólafi bróður hans
þegar þeir leikarar af Guðs náð tóku
lotur sem voru hreint frábærar, lot-
ur þar sem þeir túlkuðu menn og
málefni á sinn hátt. Það fór heldur
ekki á milli mála að þrátt fyrir glens-
ið og gamnið var djúpvitur hugsun á
bak við allt sem þeir gerðu, þroski
sem við félagar þeirra vorum svo
montnir af þótt það væri aldrei talað
um það í sjálfu sér.
Það er auðvelt að sjá Stefán fyrir
sér í góðra vina hópi, hvort sem er á
pallinum við Ellireyjarbólið, inni í
skála eða á öðrum mannamótum þar
sem lífsgleðin var tekin tökum. Það
er hins vegar svo sárt og erfitt að
eiga ekki von á fleiri slíkum lotum
með Stefáni, hlýlega glottinu og
glettninni í auga og hugmyndum og
vangaveltum sem höfðu alltaf festu
og voru uppbyggilegar. Stefán var
þeirrar gerðar þrátt fyrir ungan ald-
ur að geta túlkað hvaða aldur sem
var. Svo vel var hann gerður.
Svo reið aldan yfir óvægin og
grimm og það er ekkert skynsam-
legt svar. Augu Eyjanna gráta sakn-
aðartárum og berginu blæðir blíðs-
árum klið. En minningin er eins og
vorið, minningin kallar á þökk og
gleði fyrir góðan dreng, hlýjar og
nærir þegar söknuðurinn særir.
Góður Guð varðveiti og hlúi að ást-
vinum Stefáns og félögum hans
heima og heiman. Megi góðar minn-
ingar vagga vinum hans eins og
vindurinn vaggar hvanngrænu gras-
inu í hásumri Elliðaeyjar. Þannig
bylgjast lífið sjálft og þannig var
Stefán sjálfur hinn magnaði en lát-
lausi gleðigjafi.
Árni Johnsen.
Fleiri minningargreinar um Stef-
án Erlendsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.