Morgunblaðið - 06.01.2001, Síða 44
MINNINGAR
44 LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Kristinn Sigurðs-son, Strandgötu
26 í Neskaupstað,
fæddist í Reykjavík
25. desember 1935.
Hann lést á Líknar-
deild Landspítalans í
Kópavogi 25. des-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Sigurður Kristins-
son, f. 27.10. 1912, d.
26. 7. 1992, og Sigríð-
ur Helga Jónsdóttir,
f. 25.11. 1910, d. 25.9.
1978. Hálfsystur
Kristins samfeðra
eru Bergþóra, f. 1944, Guðrún
Kristín, f. 1947, d. 1996, og Jórunn,
f. 1953.
16.6. 1999. 4) Rán, f. 26.4. 1976.
Systir Lilju Huldu, Elísabet f. 6.6.
1959, missti föður sinn ung og leit
Kristinn alltaf á hana sem eitt af
börnunum. Eiginmaður hennar er
Fannar Jónsson og eiga þau eina
dóttur, Hrafnhildi, f. 9.7. 1995.
Kristinn fæddist í Reykjavík og ólst
upp hjá móður sinni Sigríði og
ömmu, Sigríði Guðmundsdóttur.
Hann stundaði nám við Austurbæj-
arskólann, við Iðnskólann í Reykja-
vík 1954–56, stundaði vélvirkjanám
í Vélsmiðjunni Héðni 1953–57 og
nám við Vélskóla Íslands 1958–61.
Kristinn var verksmiðjustjóri hjá
Síldarvinnslunni hf. í Neskaupstað
1962–86 en starfaði síðan á skrif-
stofu fyrirtækisins.
Kristinn var virkur félagi í Rot-
aryklúbbi Neskaupstaðar til
margra ára. Hann var forseti
klúbbsins síðasta starfsár.
Kristinn verður jarðsunginn frá
Norðfjarðarkirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Kristinn kvæntist
11.10. 1962 Lilju
Huldu Auðunsdóttur,
f. 27.5. 1944. Foreldrar
hennar voru Auðunn
Þórðarson og Pálína
Ásgeirsdóttir en þau
eru bæði látin. Börn
Kristins og Lilju
Huldu eru: 1) Auður
Helga, f. 8.3. 1963. 2)
Kristín, f. 12.7. 1964,
gift Karli Egilssyni og
eru synir þeirra Egill,
f. 18.3. 1991, og Krist-
inn, f. 29.11. 1995. 3)
Sigurjón, f. 27.3. 1970,
kvæntur Svanlaugu Aðalsteins-
dóttur og eru dætur þeirra Katrín
Lilja, f. 19.11. 1996, og Eva Björg, f.
Með fáum orðum langar okkur að
minnast Kristins Sigurðssonar, vin-
ar okkar og bekkjarfélaga í Vélskóla
Íslands fyrir rúmum fjórum áratug-
um. Við hófum allir nám í skólanum
haustið 1958, urðum samferða
næstu þrjá veturna og lukum prófi
frá rafmagnsdeild vorið 1961. Á
þessum árum unnum við svo með
Kristni í Síldarvinnslunni í Nes-
kaupstað. Það samstarf var allt frá
því að vera eitt sumar upp í nokkur
ár, eftir því hver okkar átti í hlut.
Árin sem Kristinn var í Vélskól-
anum voru ótvírætt uppgangsár í
sögu skólans. Aðsókn var mikil og
uppbygging, t.d. í vélasal skólans,
var í fullum gangi. Í verklegum tím-
um unnum við nemendur ásamt vél-
fræðikennurum að því að setja upp
og standsetja vélar sem skólanum
höfðu áskotnast.
Síðar fengum við að leita að gang-
truflunum í þessum sömu vélum,
stilla þær og aflmæla. Þessi þátt-
taka okkar í því að gera skólann bet-
ur hæfan til að gegna hlutverki sínu
jók kynni okkar nemenda og sam-
heldni. Og þetta færði okkur einnig
nær kennurunum, ekki bara þeim
sem kenndu verklega og fræðilega
vélfræði heldur einnig þeim sem
kenndu tungumál? Við fundum að
hér vorum við í alvöruskóla sem var
að búa menn undir lífið. Að því er
námskröfur varðaði var stökkið upp
í þennan skóla stórt miðað við und-
irbúning þann sem við fengum í iðn-
skóla. Nemendur máttu því hafa sig
alla við í ástundun og heimavinnu til
að heltast ekki úr lestinni.
Kristinn stundaði námið af mikilli
samviskusemi og var góður náms-
maður.
Það var ekki hans verklag að
fleyta sér í gegnum námið með
„páfagaukslærdómi“. Hann vildi
skilja hlutina til hlítar hvort heldur
um var að ræða fræðilega eða verk-
lega þætti námsins og lét sér ekki
nægja neinar yfirborðsskýringar.
Þær kröfur sem Kristinn gerði til
sjálfs sín í náminu reyndust honum
áreiðanlega gott veganesti í starfi
síðar meir.
Þeir okkar sem ekki þekktu
Kristin sem vinnufélaga úr Vél-
smiðjunni Héðni, þar sem hann
lærði vélvirkjun, voru svolitla stund
að átta sig á þessum hægláta pilti.
Við vissum bara að hann bjó „niðri á
Vitastíg“ hjá móður sinni. En eftir
að maður fór að kynnast honum
nánar og hafði orðið honum sam-
ferða nokkrum sinnum áleiðis í bæ-
inn eftir langan skóladag bættist
stöðugt ný vitneskja í „safnið.“ Við
uppgötvuðum brátt að hér var á
ferðinni afar ljúfur og þægilegur
félagi sem allir vildu eiga að vini. Og
húmorinn var alltaf á sínum stað
þegar við átti. Svo kom smám sam-
an í ljós að pilturinn á Vitastígnum
átti sér mörg áhugamál og virtist
ótrúlega víða heima: Hann var bók-
hneigður og vitnaði oft í Kiljan og
Þórberg og hafði á hraðbergi ljóð
Bólu-Hjálmars, Davíðs Stefánsson-
ar og fleiri ljóðskálda. Og á góðum
stundum raulaði hann lagstúfa úr
söngleikjum þeirra Rogers & Ham-
merstein. Það voru ekki síst „stróf-
ur“ úr lögum sem Paul Robeson
hafði sungið. Þennan fræga bassa-
söngvara dáði Kristinn öðrum frem-
ur á þessum árum. Það upplýstist
seinna að það væri grammófónn á
Vitastígnum og að Kristinn ætti dá-
gott plötusafn, þar á meðal plötur
með Paul Robeson. Við stofnuðum
söngkvartett á öðrum vetri okkar í
skólanum og þá var Kristinn auðvit-
að sjálfkjörinn í bassann. Vélskóla-
kvartettinn kom fram á tveimur
árshátíðum skólans.
Þorsteinn Valdimarsson skáld
hjálpaði okkur með raddæfingar
fyrri veturinn.
Atvikin höguðu því þannig að
Kristinn festi rætur í Neskaupstað.
Þar hitti hann Lilju Huldu, sinn
trausta lífsförunaut, og þar uxu
börnin fjögur úr grasi á hlýlegu
heimili þeirra hjóna. – Og Kristinn
helgaði Síldarvinnslunni starfs-
krafta sína þar til yfir lauk. Svip-
myndir frá samverunni með Kristni
í gömlu verksmiðjunni á skólaárum
okkar og næstu árin á eftir eru okk-
ur vissulega hugstæðar en verða
ekki rifjaðar upp hér. Þarna runnu
dagar og nætur oft saman í óslitnar
vinnulotur og lítill tími varð afgangs
til svefns og hvíldar. Við þessar að-
stæður komu vel í ljós sterkustu
þættirnir í fari Kristins, ósérhlífnin,
æðruleysið hvað sem á gekk og svo
skapið góða.
Þau eru ótrúlega sterk og ending-
argóð böndin sem tengja fólk saman
á skólaárum. Þótt fjarlægðir og ólík-
ur starfsvettvangur hafi aðskilið
okkur eftir að samstarfinu í Síld-
arvinnslunni lauk, tilheyrðu Krist-
inn, Hulda og börnin ævinlega þeim
hópi vina og kunningja eystra sem
nauðsynlegt var að halda sambandi
við og heimsækja ef færi gafst.
Minningin um þennan góða dreng
lifir áfram í huga okkar og skóla-
félaganna allra. Við kveðjum Kristin
með söknuði og vottum Huldu,
börnunum og öllum aðstandendum
dýpstu samúð.
Björn Jónsson,
Gunnar Guttormsson,
Hilmar Haraldsson.
Á Þorláksmessukvöld árið 1939
var mér, sjö ára snáðanum, fylgt úr
Þingholtunum inn á miðjan Lauga-
veg í Reykjavík. Það var snjór á
jörðu, dimmt og þungt yfir, enda
heimsstyrjöldin nýbyrjuð og hún
setti, þá þegar, dapran og alvarleg-
an svip á mannlífið. Skammt frá
Kjörgarði (sem nú er) voru mér
fengnir nokkrir bögglar í hendur og
bent hvert ég ætti að fara með þá. Í
tilteknu húsi þar rétt hjá byggi
frændi minn, sem yrði fimm ára á
jóladag, og ég ætti að færa honum
þá frá Kristínu föðurömmu okkar,
sem afmælisgjöf og jólagjöf. Þetta
gerði ég og hitti þá Kristin sjálfan,
fyrsta sinni, Sigríði móður hans,
ömmu og móðursystur, sem tóku
mér af alúð og einlægri hlýju. Þessa
ferð fór ég síðan hverju sinni á Þor-
láksmessukvöld í mörg ár, líklega
allt fram að fermingu Kristins. Við
frændur kynntumst smám saman og
með okkur tókst góð vinátta náinnar
frændsemi, þótt aðstæður væru
óvenjulegar og lítil eða engin tengsl
milli fjölskyldna okkar.
Faðir Kristins var föðurbróðir
minn, en foreldrar hans áttu ekki
samleið í lífinu. Af því leiddi, ein-
hverra hluta vegna, að samskipti
fjölskyldna okkar voru nær engin,
þátt fyrir góðan vilja föðurömmu
okkar. Við það varð ekki ráðið, en
samt var reynt að halda tengslum
við hann og því fagnað, að hann naut
sýnilega hins bezta atlætis hjá móð-
ur sinni og þeim mæðgum öllum. Og
svo leið tíminn, samband fjölskyld-
unnar við Kristin styrktist, er frá
leið, og komst í eðlilegt horf er hann
var nær tvítugu. En á þessum árum
hittumst við frændur tveir af og til
við ýmis tækifæri, t.d. í danshúsum
höfuðborgarinnar, við mikinn fögn-
uð beggja! Síðar lágu leiðir okkar
oftsinnis saman. Eftir að námi lauk í
Vélskólanum lá leið hans austur á
Firði, sem ég skildi ekki fyrr en ég
áttaði mig á því, að Hulda bjó í Nes-
kaupstað. Þar skaut hann rótum,
kvæntist Huldu sinni og eignaðist
með henni fjögur myndarleg og
mannvænleg börn, sem nú eru kom-
in til fullorðinsára. Og þar starfaði
hann sem vélstjóri og verksmiðju-
stjóri hjá Síldarbræðslunni alla tíð,
að bezt ég veit.
Fyrir u.þ.b. þremur mánuðum
kenndi Kristinn lasleika, sem leiddi
til þess, að hann kom suður til nán-
ari rannsókna. Þá kom í ljós, að
hann var altekinn krabbameini. Ég
heimsótti hann á líknardeild Land-
spítalans á aðfangadag jóla og var
hann þá rænulítill. En samt kinkaði
hann kolli og brosti þegar ég tók að
rifja upp bernsku okkar. Daginn eft-
ir var hann allur, á 65 ára afmæl-
isdaginn sinn. Alla ævi var hann
samur og jafn, ljúfur, hlýr og glað-
vær, eins og þau hjón reyndar bæði.
Við frændsystkin hans í föðurætt-
inni kveðjum hann með hryggð í
huga og vottum Huldu og börnum
þeirra einlæga samúð okkar.
Sigurður E. Guðmundsson.
Í dag er kvaddur góður vinur
minn, Kristinn Sigurðsson. Kristinn
fæddist á fyrsta degi jóla fyrir sex-
tíu og fimm árum en dánardægur
hans bar einmitt upp á afmælisdag
hans.
Fundum okkar Kristins bar sam-
an árið 1977 þegar ég hóf störf hjá
útibúi Rannsóknastofnunar fiskiðn-
aðarins í Neskaupstað, en þá háttaði
einmitt svo til að stofnunin var í
leiguhúsnæði í nýreistri bræðslu
Síldarvinnslunnar.
Þegar ég fluttist austur var Krist-
inn verksmiðjustóri í bræðslunni og
því æxluðust mál svo að Kristinn
varð sá maður sem ég kynntist fyrst
af heimamönnum þar.
Kristinn, eða Kiddi í Bræðslunni
eins og hann var oftast kallaður, tók
mér strax ljúfmannlega og sömu
sögu má reyndar segja um alla þá
sem maður kynntist þar.
Þar sem útibú stofnunarinnar var
í bræðslu Síldarvinnslunnar fór ekki
hjá því að samskipti okkar Kidda
urðu mikil. Bæði var það svo að
stutt var á milli okkar í verksmiðj-
unni og þjónustustörf okkar hjá
stofnuninni fyrir Síldarvinnsluna
voru eðlilega hvað mest. Ég kynnt-
ist því Kidda vel á þessum átta árum
sem ég vann hjá R.F. í Neskaupstað
og einna best af þeim mönnum sem
ég hef hitt á lífsleiðinni.
Það skal segjast eins og er að
Kiddi var ekki fljóttekinn, hann var
frekar dulur maður og greindur og
hafði engan sérstakan áhuga á að
láta á sér bera. Einu tók ég fljótlega
eftir í fari hans sem ég hef alltaf
metið mikils í fari manna. Hann var
orðvar maður og þó hann segði mér
ýmislegt um menn og málefni, sem
oft varð á léttu nótunum, þegar við
vorum farnir að kynnast betur, þá lá
honum aldrei illa orð til nokkurs
manns.
Margoft áttum við gott spjall yfir
kaffibolla og ræddum um allt milli
himins og jarðar. Þegar við Kiddi
kynntumst hafði hann verið verk-
smiðjustjóri í um 15 ára skeið í
gömlu síldarbræðslunni og nú í
hinni nýreistu eftir snjóflóðið 1974.
Kiddi hafði í sinni verksmiðjustjó-
ratíð upplifað síldarævintýrið fyrir
austan, þegar hamagangurinn var
hvað mestur á Rauða torginu og
litla gamla verksmiðja Síldarvinnsl-
unnar gekk um tíma næstum allt ár-
ið. Byrjun loðnuævintýrisins þekkti
hann og Norðfirðingar vel enda þeir
með þeim fyrstu til að hefja bræðslu
á loðnu og ég tel mig muna það rétt
að einhvern tíma í kringum 1970
hefði sést bæði brislingur og makríll
í verksmiðjunni, þó í mjög litlum
mæli hafi verið. Vinnslu á kolmunna
höfðu menn kynnst lítilsháttar þó
vinnsla hans hafi verið hvað mest
árin 1977–1980, sem lognaðist
reyndar út af nánast fram til 1997,
þegar stórfelldar framfarir urðu í
þeim veiðum hér á landi.
Kiddi hafði því séð flest og hafði
frá mörgu að segja úr þessum iðn-
aði. Því er ekki að neita að mikið
lærði ég af því að spjalla við hann
um liðinn tíma enda hafði á mörgu
gengið og gekk reyndar á ýmsu á
meðan við störfuðum saman.
Hann hafði einstaklega skemmti-
lega frásagnargáfu. Margar bráð-
skemmtilegar sögur gat hann sagt
af mönnum og málefnum og ýmsum
spaugilegum atvikum úr bransanum
frá liðinni tíð og þá var oft stutt í
hláturinn.
Því miður höfðu hins vegar skipst
á skin og skúrir í starfi hans eins og
svo margra góðra Norðfirðinga í
verksmiðjunni. Sorglegasta atvikið
varð einmitt rétt fyrir jólin 1974, er
verksmiðjan fór í snjóflóði, sem auð-
vitað varð gífurlegt áfall. Ég varð
var við að þetta atvik hvíldi alltaf
þungt á Kidda, enda sagði hann mér
sjálfur að hann hefði aldrei náð sér
eftir það.
Við Kiddi störfuðum saman um
átta ára skeið svo sem áður greinir
en þá fluttist undirritaður til Horna-
fjarðar til þess að þreifa fyrir sér á
sama vettvangi og Kiddi hafði unnið
við. Ég var svo heppinn að geta
fengið mörg góð ráð í veganesti frá
honum auk allrar þeirrar hjálpsemi
sem ég hafði orðið aðnjótandi frá
honum og hans mönnum áður en ég
fluttist þangað ásamt fjölskyldu
minni. Enda var það svo að við höfð-
um jafnan samskipti eftir að ég
fluttist frá Neskaupstað. Kiddi
starfaði sem verksmiðjustóri allt
fram til ársins 1987, en þá hóf hann
störf hjá skrifstofu Síldarvinnslunn-
ar, þá eftir 25 ára starf sem verk-
smiðjustjóri.
Mér finnst ekki ólíklegt að honum
hafi þótt kominn tími til að flytjast á
annan vettvang, þótt hjá sama fyr-
irtæki væri, en á skrifstofunni starf-
aði hann alls um 13 ára skeið, eða
allt þar til sá erfiði sjúkdómur er
varð honum og svo mörgum fleirum
að falli fór að herja á hann s.l. haust.
Í fyrstu leit nokkuð vel út fyrir að
unnt væri að stemma stigu við sjúk-
dómnum, en því miður kom í ljós að
sú barátta yrði mjög erfið og þegar í
lok nóvember var ljóst að þessi orr-
usta myndi enda á aðeins einn veg.
Þegar ég heimsótti Kidda á líkn-
ardeild Landspítalans rétt fyrir jól-
in var hann orðinn mjög máttfarinn,
en gat þó leyft sér að gera að gamni
sínu. Hann vissi þá fyrir löngu að
hverju drægi og tók því með því
æðruleysi og rósemi sem mér alltaf
fannst einkenna hann.
Í veikindum hans var eiginkona
hans, Lilja Hulda, honum ómetanleg
stoð og stytta og stóð eins og hetja
við hlið hans allt þar til yfir lauk. Ég
veit að hann hafði einnig mikinn
styrk að börnum sínum í lokabarátt-
unni enda eiga þau hjónin miklu
barnaláni að fagna.
Elsku Lilja Hulda, Auður, Krist-
ín, Rán og Sigurjón. Ég og Sigga
Fanný sendum ykkur og fjölskyld-
um ykkar innilegar samúðarkveðjur
á þessari erfiðu kveðjustund um leið
og ég þakka Kidda og reyndar ykk-
ur öllum fyrir ánægjulega samferð
og hjálpsemi í gegnum tíðina. Hafið
það hugfast að minning um góðan
mann lifir.
Þórhallur Jónasson.
Æskuvinur minn, skólabróðir og
bekkjarbróðir, Kristinn Sigurðsson,
hefur nú kvatt þessa jarðvist, langt
um aldur fram.
Það var ákveðið að við hjónin
kæmum í afmæli hans og vorum ein-
mitt að koma frá matarboði á jóla-
dag er við ókum suður á líknardeild
í Kópavogi. Við komum of seint,
hann var þá rétt nýlátinn, fyrir 2–4
mínútum. Við hittum fyrir alla fjöl-
skyldu hans, eiginkonu og fjögur
börn og tengdabörn.
Ekki tel ég að ég halli á nokkurn
annan vin eða félaga, þótt ég leyfi
mér að segja það, að kynni okkar
Kristins, allt frá barnæsku til þessa
dags, voru með slíkum ágætum, að
fátítt er.
Aldrei í eitt einasta skipti settist
sól að kveldi svo, að við værum ekki
sáttir, og vil ég færa hans megin
mestan heiður af því, og var það
vegna einstakrar skapgerðar hans
og velvilja, og það til allra, alltaf.
Hann var sannarlega maður frið-
arins, og var gæddur slíkum mann-
kostum, að ég tel óhætt að segja að
slíkir séu æ fáséðari.
Leiðir okkar lágu í ýmsar áttir
eins og gengur í lífinu, hann lærði í
vélsmiðjunni Héðni vélvirkjun og
fór á sjó, réðst til starfa í Neskaup-
stað og varð seinna verksmiðjustjóri
Síldarvinnslunnar hf. þar í bæ og
starfaði þar til æviloka.
Kristinn kvæntist stúlku frá Nes-
kaupstað, og varð þeim fjögurra
barna auðið. Öll eru þau nú upp-
komin og búsett í Neskaupstað og
Reykjavík.
Eftirlifandi eiginkona Kristins er
Lilja Hulda Auðunsdóttir og væri
það kafli út af fyrir sig að lýsa kær-
leika hennar og umhyggju, er hún
sýndi manni sínum á banabeði, en
hún var bæði hjá honum er hann var
á Landspítalanum, deild 11-E, við
Barónsstíg, sem og allan tímann á
líknardeild Landspítalans í Kópa-
vogi.
Tæplega tel ég að hægt sé að auð-
sýna aðra eins mannkosti og Hulda
og börn þeirra og tengdabörn auð-
sýndu Kristni vini mínum á þessum
erfiða tíma.
Ekki kom eitt orð kvartana út af
einu né neinu frá honum svo ég
heyrði enda var það aldrei hans
„stíll“. Hann hinsvegar lofaði mjög
hjúkrunarfólkið bæði á deild 11-E á
Landspítala fyrir frábæra hjúkrun,
og ekki síst alla framkomu þess við
hann. Eitt sinn sagði hann mér:
Maður fær bara aukinn kraft við
hvað þetta elskulega fólk er manni
gott og þægilegt. Þetta á við bæði
lækna sem og annað hjúkrunarfólk.
Ég vil fullyrða að það verða fleiri
sem munu skila þessu einlæga
þakklæti frá Kristni Sigurðssyni
vini mínum. Þetta sama kom einnig
fram hjá honum hvað varðar hjúkr-
unarfólkið á líknardeildinni í Kópa-
vogi. Hafið öllsömul innilegar þakk-
ir fyrir störf ykkar, hlýju og
kærleika í garð allrar þessarar fjöl-
skyldu.
Kæra Hulda, Auður, Kristín, Sig-
urjón og Rán, Karl og Svanlaug,
Guð gaf ykkur mikið, mikið hefur
reyndar einnig verið frá ykkur tekið
nú, en Guð leggur líkn með þraut.
Við getum treyst því.
Megi Guð blessa ykkur öll og
styrkja á þessum erfiðu tímamótum
en sú mikla og fagra minning, sem
þið öll, og einnig við hin sem þekkt-
um þennan góða dreng, eigum eftir í
okkar hjarta, mun milda um síðir
hinn mikla söknuð.
Blessun Guðs sé yfir minningu
Kristins Sigurðssonar.
Leifur E. Núpdal,
Ingibjörg Þ. Hafberg.
KRISTINN
SIGURÐSSON