Morgunblaðið - 16.03.2001, Blaðsíða 34
LISTIR
34 FÖSTUDAGUR 16. MARS 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TVÆR málverkasýningar voru
opnaðar í sölum Listasafns Akur-
eyrar um síðustu helgi og í báðum
tilvikum staðarmenn sem hlut eiga
að máli.
Kristinn G. Jóhannsson, sem sýn-
ir dúkristur í miðsal og málverk í
austursal hefur víða komið við,
lengstum verið myndmenntakennari
og skólastjóri á Ólafsfirði, telst þó
Akureyringur í húð og hár, þá hefur
hann einnig fengist við pistlaskrif.
Samhliða þessum störfum hefur
Kristinn alla tíð verið virkur á sýn-
ingavettvangi, þó aðallega norðan
heiða. Sitthvað hefur þó borið fyrir
augu okkar sunnanmanna, og hefur
það þótt litrík en brotin framleiðsla
sem erfitt var að henda reiður á,
jafnvel merkjanlegt að um íhlaup frá
brauðstriti væri að ræða. En und-
anfarin ár hefur Kristinn alfarið get-
að helgað sig skapandi athöfnum og
má greina stökkbreytingu á vinnu-
brögðunum, þó fremur þróun sem
loks hefur fundið sína eðlisbundnu
leið án óskyldra hremminga. Þótt
myndmenntakennarar úti á lands-
byggðinni hafi yfirleitt betra næði til
myndsköpunar en við á höfuðborg-
arsvæðinu eru bein tengsl þeirra við
myndlistina að vonum sýnu minni.
Hér verða greind þau gömlu
sannindi, sem kerfiskarlar á út-
skerinu geta ómögulega skilið, að
myndlistarmenn þurfa skilyrðislaust
að vera virkir í list sinni til að njóta
sín til fulls í kennslu ef ekki er nær-
vera þeirra óæskileg og til óþurftar.
Skólastofnanir eiga ekki að vera
hemill á sköpunargáfu myndlistar-
manna, heldur eiga þeir að geta
miðlað henni jafnharðan og beint í
æð, ferskri og ómengaðri.
Þetta, að hérlendir málarar
blómstri þegar þeir eru hættir
kennslu og komnir á eftirlaun, er
svo sem engin nýlunda, nærtæk
dæmi héðan af mölinni eru þeir Sig-
urður Sigurðsson og Kjartan Guð-
jónsson. Og nú bætist einn Norð-
lendingur í hópinn og svo um munar
því sjaldan hef ég orðið vitni að við-
líka framförum, næstum ekki hjá
ungu fólki.
Dúkskurðarmyndirnar eru þó
saga út af fyrir sig, gerðar svo
snemma sem árið 1982, er Kristinn
var enn á fullu við kennslu, þó freist-
andi að álykta að hann hafi verið í
leyfi. Minnist þess ekki að hafa borið
þær augum fyrr, eða kannski eru
þær svo vel upp settar á safninu og
hafa ekki notið sín sem skyldi áður.
Alla vega er um vinnsluferli að ræða
sem vert er fyllstu athygli í senn
þjóðlegt sem með alþjóðlegu svip-
móti. Föngin sótt í rúmteppi, fjalir
og prjónales, mynstrunum raðað
saman með ýmsum hætti og dúk-
urinn mismikið skorinn í þá veru að
fram kemur mjúkt tónaspil sem er
hrein viðbót. Afar vel að verki staðið
einkum sótti ein myndin mjög á
sjóntaugar mínar, Gömul hurð, nr. 5
á skrá.
Það er í senn gerjun og hreyfing í
málverkunum sem fylla Austursal-
inn, mynda þó mjög samstæða heild.
Mikið að gerast á myndfletinum, en
haldið í horfinu með mjúkum línu-
legum formunum, trosnuðum vef-
um, er liðast um og skera myndflöt-
inn ásamt heitum og köldum litum
er vinna saman, binda og móta svip-
mikla heild. Erfitt að gera upp á
milli, en helst voru það myndir nr. 2,
4 og 6 í myndaröðinni; Garðljóð um
haust, og 3, 9 og 11 í Garðljóðum um
vetur, sem sóttu á fyrir heildstæð
vinnubrögð. Telst mikil list að beisla
á þann veg hraðann og hef ekki séð
það takast jafn vel áður í vinnulagi
Kristins. Hér er um fínlega útgáfu
af úthverfu innsæi að ræða, skyn-
ræn náttúruhrif af hárri gráðu…
Jónas Viðar er af allt öðrum og
yngri árgangi, listrænt uppeldi hans
af öðrum toga, námið lengra, mark-
vissara, og víðtækara. Hann telst
landslagsmálari af þeirri kynslóð
sem tekið hefur ljósmynda- og tölvu-
tæknina í þjónustu sína. Og jafn-
framt því að reyna á þanþol hefð-
arinnar eins og það heitir, sækist
Jónas eftir því að beisla þær sam-
félagslegu aðstæður sem við búum
við. Allnokkuð síðan menn urðu var-
ir við slík vinnubrögð í málverkum
núlistamanna, eru sosum ekki yfrið
frábrugðin þeim sjónrænu göldrum
sem fyrri alda málarar beittu áður
en þeir fóru að mála milliliðalaust á
dúkana, eða eftir skissum, á seinni
hluta nítjándu aldar. Stafræna
myndavélin er bara mun hraðvirk-
ari, og að viðbættu útskrifti úr tölvu
eru menn komnir langleiðis að
markinu. Þetta er vísast leyndar-
dómurinn að baki ýmsum tækni-
göldrum sem verða á vegi manns, er
svo sem ekkert verra, hér skiptir
hugmyndin og árangurinn öllu alveg
eins og þegar pensillinn og eða skaf-
an eru á lofti.
Jónas Viðar kann auðsjáanlega
sitt fag og hefur þegar náð umtals-
verðum árangri þótt hann teljist á
byrjunarreit ferils síns. Sýnir fjögur
stór málverk í Vestursal og tuttugu
lítil sem öll eru unnin á þessu ári,
nefnir þau öll, Portrait of Iceland, og
að auk hefur hann sett upp vinnu-
stofu með öllum sínum græjum í
gamla kæliklefa Mjólkursamlagsins.
Áhrifamáttur stóru myndanna er til
muna meiri en þegar hann sýndi
þær í Hafnarborg í fyrra, einkum
fyrir lýsinguna og þá sérstöku nálg-
un sem rýmið býður upp á.
Eðlilega minna vinnubrögð lista-
mannsins á sitthvað sem sést hefur
áður, til að mynda málverk hins
norska Patriks Huse, en Jónas Við-
ar er sem óðast að fanga sinn tón. Í
hinu markvisst útfærða málverki af
Hengilfossi, minna taktarnir sömu-
leiðis eitt augnablik á ameríska mál-
arann Ad Reinhardt, en einungis
vegna þess að formið skýrist eftir
því sem skoðandinn horfir lengur á
það.
Mjög lifandi framsetning ungs
málara sem kemur til dyra eins og
hann er klæddur, hefur engu að
leyna, og þó…
Listasafnið
Aðkoman á listasafnið er allt ann-
ar handleggur frá því sem var og til
muna hlýlegri, gerir að verkum að
hvers konar myndverk njóta sín
mun betur á veggjunum. Hefur að
vísu færst í aukana, að virkja hrjúf-
leika steinsteypunnar í hinum ýmsu
safnabyggingum nútímans, en kem-
ur misvel út, einkum ef um sígilda
miðla er að ræða. Á stundum eru
listasöfnin líkust verksmiðjum, eða
húsarústum sem flikkað hefur verið
upp á en það gengur ekki upp nema
um hreyfanlegt rými sé að ræða þ.e.
stór færanleg skilrúm sem skapa
sveigjanlega stemmningu. Áráttan
sækir til auðra verksmiðju- og íbúð-
arhverfa sem listamennirnir sjálfir
hafa yfirtekið hin síðari ár og hresst
heldur betur upp á, svo sem Soho í
New York og Berlin Mitte, svo ein-
hver séu nefnd. Hins vegar gengur
það síður upp þá arkitektar reyna að
feta í fótspor þeirra einkum fyrir þá
sök að glæsilegur arkitektúrinn vill
yfirgnæfa listaverkin sem eru þá í
statistahlutverki.
Safnið á Akureyri var afar hrátt í
upphafi, en í uppsetningu sem þess-
ari nálgast það að vera ævintýri,
flikkað hefur verið upp á gólf sem
veggi og við það hafa allir salirnir
fengið sitt sérstaka svipmót sem
skapar lífrænan sveigjanleika. Má
vera auðséð að mikill hugur liggur
að baki framkvæmdunum, einnig
klárt að Hannes Sigurðsson, list-
sögufræðingur og sýningarstjóri, sé
að gera stóra hluti norðan heiða. Var
líka kraftaverk að hann kom mér
norður þótt allir málmfuglar væru
meira en fullsetnir, en er annað mál.
Rabbaði lengi við hugumstóran um
framtíð safnsins er leið á opnunina
og kom í ljós að hann hefur yfirmáta
mikinn metnað fyrir hönd þess og
ásýnd Akureyrar um leið. Hef frá
upphafi og endurtekið vakið athygli
á mikilvægi þess að taka efri hæðina
í notkun en gerði mér naumast ljósa
grein fyrir réttu umfangi hennar
fyrr en á dögunum. Í stuttu máli er
um draumarými hvers listasafns að
ræða, hátt til lofts og vítt til veggja
og yrði tvímælalaust ómæld lyfti-
stöng fyrir miðbæjarkjarna Akur-
eyrar ef hæðin öll yrði nýtt undir
safnið. Liggur við að mann sundli
við að ímynda sér alla möguleikana
og einkum með þennan hugmynda-
ríka og stefnufasta brimbrjót í fyr-
irsvari. Fái hlutirnir að þróast og
hugmyndir Hannesar Sigurðssonar
að rætast er ekki í efa að fólk frá
höfuðborgarsvæðinu muni ekki síð-
ur gera sér ferð til Akureyrar á vit
myndlistarviðburða en til að mynda
leiklistarviðburða. Og öllu máli
skiptir að draga lærdóm af söfnum
ytra og hafa hendurna óbundnar til
allra framkvæmda.
Ljósmynd/Bragi Ásgeirsson
Kristinn G. Jóhannsson; Garðljóð um vetur, olía á léreft.
Jónas Viðar; Portrait of Iceland, olía á léreft, 2001.
Garðljóð og svipmót landsins
MYNDLIST
L i s t a s a f n A k u r e y r a r
Opið alla daga frá kl. 13–18.
Lokað mánudaga. Til 15. apríl.
Aðgangur 300 krónur.
MÁLVERK –
KRISTINN G.
JÓHANNSSON,
JÓNAS VIÐAR
Bragi Ásgeirsson