Morgunblaðið - 21.04.2001, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 LAUGARDAGUR 21. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FUNDUR var haldinn á fimmtudag á vegum
MÍR, Menningarsambands Íslands og Rúss-
lands. Var tilgangur hans að minnast þess að
40 ár eru nú liðin frá því að rússneski geim-
farinn Gagarín fór fyrstur manna út í geim-
inn. Matthías Johannessen var meðal þeirra
sem töluðu á fundinum og minntist hann m.a.
heimsóknar Gagaríns til Íslands. Vakti heim-
sóknin mikla athygli á sínum tíma.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fyrstu geimferðarinnar minnst
ÁSLAUG Ásgeirsdóttir varði
doktorsritgerð sína í stjórnmála-
hagfræði 21. ágúst sl. við Wash-
ington University í St. Louis í
Bandaríkjunum. Ritgerðin ber tit-
ilinn „Oceans of Trouble: Co-
operation and Conflict over Fish-
ing Resources in the North Atl-
antic and the Barents Sea“, Vandi
á hafi úti: Samvinna og átök um
fiskveiði-
auðlindir í Norð-
ur-Atlantshafi
og Barentshafi.
Hún fjallar um
samstarf og mis-
sætti Íslendinga
og Norðmanna í
fiskveiðimálum
síðastliðin 20 ár.
Skipst hafa á
skin og skúrir í
þessum sam-
skiptum. Samningaviðræður þjóð-
anna um fiskveiðar hafa verið erf-
iðustu deilumál þessara tveggja
þjóða á undanförnum árum. Rann-
sóknir á verkefninu fóru fram á
Íslandi haustið 1998 og í Noregi
sumarið 1999. Til rannsóknanna
naut Áslaug styrkja frá Rann-
sóknarráði Íslands, Vísindasjóði
NATO, Búnaðarbanka Íslands,
Thor Thors-sjóðnum og Washing-
ton University.
Tilgangur verkefnisins var tví-
þættur. Í fyrsta lagi að sannreyna
og styrkja kenningar í stjórn-
málafræði um áhrif innanlands-
stjórnmála á niðurstöður al-
þjóðlegra samninga. Í öðru lagi
var markmiðið að rannsaka sam-
skipti Íslendinga og Norðmanna á
þessu umdeilda sviði. Efnislega
fjallar ritgerðin um sjö samninga,
sem Íslendingar, Norðmenn og
aðrar þjóðir hafa undirritað und-
anfarin 20 ár. Markmiðið með
samningunum er að stýra veiðum
úr deilistofnum. Stjórnun veiðanna
miðar að því, að fyrirbyggja
„áníðslu sameiginlegra auðlinda“.
Samningarnir ná til fjögurra fiski-
stofna, þorsks, úthafskarfa, loðnu
og síldar. Fyrsti samningurinn var
undirritaður árið 1980, en síðasti
samningurinn árið 1999. Nið-
urstöður verkefnisins sýna að
samningar um veiðar úr deilistofn-
um byggjast á þremur forsendum:
rétti strandríkja til veiða, vís-
indalegri skiptingu stofnanna milli
ríkja og sögulegum rétti til veiða.
Áhrif þessara þátta á endanlega
skiptingu deilistofns, milli þeirra
þjóða sem taka þátt í samninga-
viðræðunum, byggjast á svigrúmi
einstakra samninganefnda til sam-
komulags. Svigrúm samninga-
nefnda ræðst af tvennu, stjórn-
málum innanlands og jafnvel enn
frekar af áhrifum hagsmunahópa á
samningaferlið. Niðurstöður rit-
gerðarinnar benda til þess að
áhrif hagsmunahópa í Noregi hafi
farið minnkandi undanfarin 20 ár
og leitt til þess að þeir hafi nú
minni ítök í samninganefndum
Norðmanna en fyrr. Íslensk hags-
munasamtök hafa á hinn bóginn
sterk ítök í stjórnkerfinu og benda
rannsóknir til að það hafi þau
áhrif að yfirleitt séu samningar
okkar við Norðmenn hagstæðir Ís-
lendingum.
Áslaug fæddist árið 1966. Hún
lauk stúdentsprófi frá MR árið
1986 og BJ-gráðu í blaðamennsku
frá University of Missouri í Col-
umbia í Bandaríkjunum árið 1990.
Áður en hún hóf framhaldsnám í
Bandaríkjunum vann hún sem út-
litshönnuður og blaðamaður á
Morgunblaðinu í fjögur ár. Hún
gegnir nú rannsóknarstöðu við
Harvard-háskóla í Bandaríkj-
unum. Foreldrar Áslaugar eru
Albína Thordarson arkitekt og
Ásgeir Höskuldsson tæknifræð-
ingur, en hann lést árið 1977.
Stjúpfaðir hennar er Ólafur Sig-
urðsson varafréttastjóri.
Fólk
Doktor í
stjórnmála-
hagfræði
Áslaug
Ásgeirsdóttir
GEIR H. Haarde fjármálaráðherra
átti fund á fimmtudag í Brussel með
fjármálaráðherra Belgíu, Didier
Reynders, og tveimur meðlimum
framkvæmdastjórnar ESB, þeim
Frederik Bolkestein sem fer með
skattamál og málefni innri markað-
arins og Pedro Solbes Mira sem fer
með efnahags- og peningamál. Enn-
fremur átti fjármálaráðherra fund
með Knut Almestad, forseta ESA,
og William Rossier, aðalfram-
kvæmdastjóra EFTA. Á fundunum
var staða efnahagsmála innan ESB-
ríkjanna rædd og ýmis sérstök mál-
efni er varða skatta- og lífeyrismál.
Þá var staða evrunnar til umfjöll-
unar.
Geir H. Haarde sagði í samtali við
Morgunblaðið að fundirnir hefðu
verið ánægjulegir og gagnlegt væri
að hitta þessa aðila til að skiptast á
skoðunum. Geir sagði fundina hafa
verið á almennum nótum þar sem
farið var m.a. yfir ýmsa hluti varð-
andi skatta- og lífeyrismál og stöðu
evrunnar. Að sögn Geirs kemur það
til góða fyrir Íslendinga að þessir
aðilar setji sig inn í íslensk málefni,
eins og þeir gera jafnan þegar slíkir
fundir eru haldnir.
Geir segir athyglisvert að varð-
andi umræðuna um skattamál hugsi
menn á svipuðum nótum. „Að því er
virðist er mjög rík tilhneiging í þess-
um löndum og innan Evrópusam-
bandsins til að hugsa um það hvern-
ig hægt sé að gera umhverfið betur
samkeppnisfært fyrir fyrirtæki, sem
er það sama og við erum að íhuga
hérna heima.“
Fyrsti fundur ráðherra var hald-
inn með fjármálaráðherra Belgíu en
þar íhuga menn ýmsar umbætur í
skattamálum. Að sögn Geirs er
staða þeirra að mörgu leyti frá-
brugðin stöðu Íslendinga, belgíska
ríkið hefur safnað skuldum í 50 ár
þannig að skuldir ríkisins eru meira
en 100% af landsframleiðslunni.
Engu að síður eru yfirvöld þar að
huga að skattalækkunum til þess að
koma til móts við atvinnureksturinn,
þar sem fyrirtæki hafa verið að
hverfa úr landi.
Engin áform um að
taka upp evruna
Fjármálaráðherra segist hafa
rætt mikið um lífeyrismál við Bolke-
stein en í mörgum löndum Evrópu
eru stórfelld vandamál í uppsiglingu
varðandi lífeyrismál. „Þarna eru
stórfelld vandamál í uppsiglingu
víða, þau eru mikil tímasprengja og
við höfum algera sérstöðu varðandi
það hvernig við höfum komið okkar
lífeyrismálum fyrir. Stóru löndin
langflest; Frakkland, Ítalía, Spánn
og Þýskaland, eru með ófjármagnað
kerfi sem þau vita ekkert hvað þau
eiga að gera við eftir 10 til 20 ár. Þá
ná endar ekki saman og þá er ann-
aðhvort að skerða réttindin eða
skattleggja fyrir því sem upp á vant-
ar. Það er vandamál sem enginn vill
þurfa að horfast í augu við.“
Á fundunum kynnti ráðherra sér
stöðu mála varðandi evruna en nú er
í fullum gangi undirbúningur að því
að koma seðlum og mynt í umferð
um næstu áramót. Aðspurður sagði
Geir að stjórnvöld á Íslandi hefðu
ekki í hyggju að taka upp evruna,
það hefði verið kannað þegar hún
kom til skjalanna árið 1999 og engar
forsendur hefðu breyst síðan þá.
Hins vegar sagði Geir að rétt væri
að benda fólki hérlendis, sem á seðla
frá þessum löndum eins og þýsk
mörk og franska franka, á að skipta
þeim í aðra gjaldmiðla á þessu ári
eða snemma á næsta ári. „Fólk sem
liggur með þessa seðla hér heima
getur brunnið inni með þá,“ sagði
ráðherra.
Fjármálaráðherra á fundi með aðilum frá Evrópusambandinu í Brussel
Áhugi ríkjandi á lækkun
skatta á fyrirtæki
Reuters
Geir H. Haarde fjármálaráðherra heilsar Didier Reynders, fjármálaráð-
herra Belgíu, fyrir fund þeirra í Brussel á fimmtudag.
LÖGREGLUFÉLAG Reykjavíkur í
samvinnu við forvarna- og fræðslu-
deild lögreglunnar í Reykjavík hef-
ur gefið út bæklinginn „Það er far-
sælt að fylgja lögunum“.
Í bæklingnum eru unglingar
minntir á gildi þess að hafa hreint
sakavottorð og rakin eru dæmi um
afbrot sem skráð eru í sakaskrá.
„Atvinnurekendur hafa í auknum
mæli óskað eftir sakavottorði þegar
fólk sækir um vinnu. Í sumum at-
vinnugreinum er þess krafist að fólk
geti framvísað hreinu vottorði.
Sama er að segja um ýmsar mennt-
astofnanir hérlendis sem erlendis.
Það sem skráð er á sakavottorðið
fyrnist ekki heldur fylgir einstak-
lingnum alla ævi,“ segir í bæklingn-
um.
Þar segir að sakavottorðið sé
einnig notað af dómstólum til að
ákvarða refsingu en síbrotamenn fá
þyngri refsingar en þeir sem brjóta
af sér í fyrsta skipti.
Bæklingurinn verður sendur til
allra unglinga í Reykjavík, á Sel-
tjarnarnesi og í Mosfellsbæ sem
fæddir eru árið 1985 og eru nú að
ljúka grunnskólanámi.
Nýr bæklingur
ætlaður unglingum
ALÞINGI kemur saman til
þingfundar á mánudag eftir
tveggja vikna páskahlé. Hefst
fundur kl. 15 og á dagskrá eru
óundirbúnar fyrirspurnir til ráð-
herra auk atkvæðagreiðslu og
umræðu um nokkur mál.
Magnús Stefánsson mun taka
sæti Ingibjargar Pálmadóttur
sem annar þingmaður Vestur-
lands fyrir Framsóknarflokk, en
Ingibjörg hefur sem kunnugt er
sagt af sér ráðherradómi og
þingmennsku.
Samkvæmt starfsáætlun Al-
þingis er gert ráð fyrir að
nefndastörfum ljúki 7. maí nk.
og almennar stjórnmálaumræð-
ur, sk. eldhúsdagsumræður,
verði miðvikudaginn 16. maí.
Þingslit eru áætluð 18. maí nk.
Þing kemur saman á ný á mánudag
Nýr þingmaður
tekur sæti