Morgunblaðið - 01.06.2001, Síða 38

Morgunblaðið - 01.06.2001, Síða 38
38 FÖSTUDAGUR 1. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ ÞEGAR Ólympíuleikarnirstóðu yfir í Sydney sl.haust var nokkuð um þaðrætt að leikarnir yrðu teknir af Grikkjum og þeir haldnir á nýjan leik í Sydney. Þar væri öll að- staða fyrir hendi að taka við leik- unum með stuttum fyrirvara. Þess- um vangaveltum var vísað á bug, en forsvarsmenn Alþjóðaólympíu- nefndarinnar fylgjast grannt með framvindu mála í Aþenu og hafa ekki alltaf hrifist af því sem fram fer. Grikkir hafa nú fengið einvala sveit manna m.a. frá Ástralíu til þess að aðstoða sig við undirbúning- inn og svo virðist sem þeir séu að nálgast beinu brautina. Júlíus Hafstein á einn Íslendinga sæti í nefnd á vegum IOC en hann situr í íþrótta- og umhverfisnefnd IOC og hefur gert frá því hún var settt á laggirnar árið 1995. Júlíus var formaður Ólympíunefndar Ís- lands þegar Ólympíuleikarnir fóru fram í Atlanta 1996 og kynntist þá undirbúningi leikanna. Hann hefur því fylgst með undirbúningi þrennra leika og getur því af nokk- urri reynslu sagt hvernig vinna Grikkja kemur honum fyrir sjónir. „Ég kom til Atlanta 1994, tveimur árum fyrir leikana, og mér fannst Bandaríkjamenn hafa allt til þess að halda frábæra leika. Borgin og mannvirkin buðu upp á það, en þrjú til fjögur atriði fóru úrskeiðis þegar á hólminn var komið. Það sem mest kom á óvart var að tölvumál fóru í handaskolum. Á því sviði áttu Bandaríkjamenn að hafa nokkra yf- irburði. Stórfyrirtækið IBM hafði keypt tölvukerfi en tókst ekki að fullvinna það svo öll upplýsingaröfl- un var afar erfið þegar á hólminn var komið. Í Sydney var allt annað upp á teningnum og þessi mál í full- komnu lagi. Í öðru lagi virtist aldrei nást gott samstarf milli lögreglunn- ar í Atlanta og þeirra sem stýrðu leikunum. Það heyrði ég frá lögregl- unni. Fyrir vikið sköpuðust enda- laus vandamál í umferðinni. Svo- kallað innra flutningskerfi leikanna, það sem sneri að gestum, íþrótta- mönnum og fjölmiðlafólki, var í mol- um allan tímann. Að mig minnir þá fékk yfirmaður þessarra atriða hjartaáfall skömmu eftir að leikarn- ir hófust, það bætti ekki úr skák. Þessi mál gengu hins vegar eins og í sögu í Sydney,“ segir Júlíus og telur að eitt atriði hafi þó verið í enn betra lagi í Ástralíu en í Atlanta og það var hvað starfsfólk leikanna í Sydney var miklu betur þjálfað og búið undir að leiðbeina gestum sín- um en var í Atlanta. Ástralar unnu gullverðlaun „Í Sydney voru 48.000 sjálfboða- liðar við störf og þeir kunnu allt sem þeir þurftu að kunna. Auk þess tóku þeir einstaklega vel á móti öllum og voru einstaklega hjálpsamir. Það var alveg sama hvar komið var í Sydney, móttökur og aðstoð var eins og best varð á kosið. Í Atlanta voru sjálfboðaliðarnir ekki eins vel þjálfaðir og höfðu auk þess ekki nægar upplýsingar í höndunum til þess að geta leiðbeint og svarað ein- földum spurningum. Stundum vissu þeir akkúrat ekki neitt. Þegar upp var staðið fannst mér Bandaríkjamenn fara illa með gott tækifæri til þess að halda framúr- skarandi Ólympíuleika. Ástralar lögðu hins vegar allan sinn metnað í leikana, leikarnir og framkvæmd þeirra var þjóðarsómi. Þeir ætluðu að halda leika sem væru nær óað- finnanlegir og þeim tókst það. Á heildina litið unnu Ástralar gull- verðlaun,“ segir Júlíus. Grikkir sóttust eftir að halda Ól- ympíuleikana 1996, en þá voru 100 ár frá því að fyrstu Ólympíuleikar nútímans fóru fram í Aþenu. Þeir töpuðu hins vegar kapphlaupinu, en voru ekki af baki dottnir og fengu ári síðar úthlutað leikunum 2004. Áætlanir komu seint fram „Í byrjun þessa árs lögðu Grikkir loks fram endanlega áætlun um skipulagningu leikanna, rúmum þremur árum eftir að þeir fengu réttinn til að halda þá. Hún kveður á um skipulagningu allra atriða er snerta leikana, hvernig undirbúa skal mannvirkin og svo framvegis,“ segir Júlíus og telur að þessi áætlun hefði átt að vera komin fram fyrir tveimur árum, eða a.m.k. fyrir einu ári. Ýmislegt hefur orðið til þess að tefja fyrir m.a. togstreita á pólitíska sviðinu um nokkur verkefni. Má þar nefna miklar framkvæmdir á svæð- inu við Maraþon, skammt utan Aþenu. „Þar á að breyta landinu verulega og færa það nær upprunalegu horfi. Sett verður upp keppnissvæði fyrir róður og kanóbáta,“ segir Júlíus. Landsvæðinu við Maraþon var breytt verulega snemma á síðustu öld. Það var þurrkað upp og ætlað til landbúnaðar. Sökum þess hversu svæðið er þurrt datt öll ræktun upp fyrir og í staðinn var byggður her- flugvöllur sem nú er hálfgerður ruslahaugur að sögn Júlíusar, en hann kom þangað í ferð sinni með umhverfisnefndinni. „Grikkir ætla að breyta svæðinu og koma þarna upp votlendi á ný með fyrrgreindri aðstöðu til róðurs og búa til nátt- úrulegan garð. Í fjöllunum í þessum dal eru vatnsuppsprettur sem hefur verið veitt í skurði síðan breyting- arnar voru gerðar snemma á síð- ustu öld. Nú á að loka þeim og veita vatninu í stórt vatn og kringum það verður mýrlendi og er vonast til þess að fuglar sæki á ný inn á svæð- ið. Þarna eru Grikkir að vinna á já- kvæðan hátt sem mér líst vel á. Um þessar framkvæmdir ríkir hins veg- ar gríðarlegur ágreiningur í land- inu. Eigi að síður er verið að breyta landinu til hins betra. Eitt ágrein- ingsefnanna er að hluti svæðisins þar sem hinn frægi bardagi um Maraþon fór fram fari undir vatn. Aðrir telja það ósennilegt því á þeim stað sem verið að vinna á núna er meðal annars verið að moka upp fyrir róðraaðstöðunni, þá kemur eingöngu upp sjávarmöl. Þar hefur greinilega verið sjávarbotn fyrir 2.000 til 3.000 árum og bardaginn því vart farið fram á því svæði. Auk þess eru menn ekki alveg vissir ná- kvæmlega hvar bardaginn fór fram á þessu svæði. Þetta er eitt hinna jákvæðu atriða sem komið er allvel á veg og ljóst að Grikkir hafa lokið við í tíma.“ Meiri seinkun kemur ekki til greina Júlíus segir að alþjóðaflugvelli borgarinnar verði lokað og nýr opn- aður talsvert fyrir utan Aþenu. „Við hlið gamla vallarins er verið að búa til garð og með ýmiskonar aðstöðu auk íþróttamannvirkja meðal annars fyrir siglingar. Í nefndinni með mér er meðal annars formaður Alþjóðasiglingasam- bandsins og hann fór með okkur í kynnisferð um svæðið. Lauk hann miklu lofsorði á vinnu Grikkja og taldi það sem þarna verði gert fyrir hans íþrótt vera hið besta mál.“ Júlíus hefur kynnt sér fram- kvæmdaáætlun leikanna til hlítar og segir að Grikkir þurfi ekki að fara út í miklar nýbyggingar vegna leikanna, miðað við marga aðrar þjóðir sem haldið hafa Ólympíu- leika. Þó sé ljóst að Ólympíuþorpið, þar sem 11.000 íþróttamönnum sé ætlað að búa, verði nýtt. „Grikkir hafa sett öll verk á sérstaka tíma- áætlun og ég hef kynnt mér hana meðal annars í gegnum Jacques Rogge, forseta Evrópusambands ól- ympíunefnda, og formann undir- búningsnefndar á vegum IOC. Rogge segir að áætlunin sé í lagi ef hún stenst en það megi engin seink- un eiga sér stað. Meiri seinkun kemur ekki til greina. Því má segja að loksins líti undirbúningurinn ágætlega út á pappírunum. En því er ekki að leyna að menn hafa enn áhyggjur í ljósi þess hægagangs sem verið hefur undanfarin misseri á undirbúningnum,“ segir Júlíus. Mikil loftmengun er viðvarandi vandamál í Aþenu og í því efni er ljóst að Grikkir verða að taka sig saman í andlitinu fyrir leikana. Það sé hins vegar hægara sagt en gert. „Það hefur dregið úr mengun á und- anförnum árum eftir að umferð bíla var mjög takmörkuð í miðborginni. Nú er verið að hætta notkun gömlu strætisvagnanna og skipta yfir í vagna sem eru knúnir áfram með náttúrulegu gasi. Það mun bæta verulega úr skák. Þá er verið að koma upp öflugu neðanjarðarlestar- kerfi sem dregur nokkuð úr umferð bíla þegar það verður komið í fullan gang. Samt sem áður er ljóst að skipu- lag akvega er með þeim hætti að Grikkir ráða ekki við að byggja af- kastamikla aðakvegi til þess að anna þeirri umferð sem verður í kringum Ólympíuleikana. Af þessu deildi ég áhyggjum með fleirum,“ segir Júlíus. Hvergi má reka niður skóflu Aðspurður sagði Júlíus alveg ljóst að Grikkir væru allnokkuð á eftir Áströlum þegar þeir áttu hálft fjórða ár í Ólympíuleika. Grikkir hefðu hins vegar farið þá leið að ráða til sín hóp Ástrala til þess að aðstoða sig við undirbúninginn nú. „Það er mjög skynsamlega gert hjá Grikkjum, það að kalla eftir aðstoð fólks sem nýbúið er að ganga í gegnum alla þætti undirbúnings fyrir Ólympíuleika. Þegar öllu er botninn hvolft þá bendir allt til þess að Grikkjum muni takast að ljúka undirbúningi og halda leika í ágústmánuði árið 2004. Grikkir eiga við ákveðinn vanda að stríða og það er alveg sama hvar rekin er niður skófla, þá er komið niður á eitthvað sem er tvö til þrjú þúsund ára gamalt. Mörgum þykja þjóðminjalögin hér á Íslandi vera ströng og þá geta menn rétt ímyndað sér hvernig þeim er háttað í Grikklandi þar sem sagan er á hverju strái. Í þeim efnum eru alltaf að kom upp einhver vandamál sem seinka einu og öðru og halda eflaust áfram að koma upp.“ Kostnaðurinn við undirbúning og framkvæmd leikanna er áætlaður um 3,5 milljarðar Bandaríkjadala, um 350 milljarðar króna. Þetta fé hafa Grikkir svo gott sem tryggt sér í gegnum ríkið. Júlíus segir ríkis- stjórn landsins standa þétt að baki undirbúningsnefnd leikanna. Ólympíuhreyfingin að breytast Ólympíuleikar eru stærsti við- burður sem fram fer í heiminum fjórða hvert ár og Júlíus segir að Al- þjóða Ólympíunefndin hafi styrkst óhemjumikið á undanförnum tveim- ur áratugum undir stjórn Juan Ant- onio Samaranch. „Það hefur gerst þrátt fyrir að Samaranch sé umdeildur vegna sinnar fortíðar sem ráðherrra í rík- isstjórn Francos á Spáni. Samar- anch hefur gert frábæra hluti fyrir alþjóða íþróttahreyfinguna og íþróttir í heiminum. Þegar hann tók við IOC árið 1980 var það nærri gjaldþrota. Nú hefur hann snúið IOC í mikið fjárhagslegt stórveldi þannig að íþróttahreyfingin um all- an heim nýtur góðs af,“ segir Júlíus. „Um hreyfinguna hefur verið og er deilt og reglur hennar ekki taldar lýðræðislegar. Því má ekki gleyma að Ólympíuhreyfingin var stofnuð fyrir rúmum eitt hundrað árum og fyrst nú er verið að breyta reglum til frjálsari hátta og fyrir þeim breytingum stendur Samaranch. Hann hættir í sumar og skilur við hreyfinguna með allt öðrum og betri hætti en þegar hann tók við henni, það finnst mér vel gert. Mín tilfinning er sú að alþjóðaól- ympíuhreyfingin þróist til aukins lýðræðis á næstu árum. Bæði munu alþjóðasamböndin verða áhrifa meiri inn í IOC en nú er og fleiri en þau tíu til fimmtán sem nú eiga þar sæti verði virkari í nefndinni. Þá verði meiri hreyfing á fólki innan hennar og það er af hinu góða. Næsti forseti á alla möguleika að gera mjög góða hluti og það verður spennandi að sjá hver verður eft- irmaður Samaranch þegar kosið verður í sumar. Þar koma fimm til greina.“ Fimm vilja taka við Meðal þeirra sem keppa um for- setatignina eru tveir Evrópubúar, Jacques Rogge, belgískur læknir og forseti Evrópunefndar alþjóðaól- ympíunefndarinnar, og Pál Schmitt, en hann er m.a. formaður umhverf- isnefndarinnar sem Júlíus á sæti í og er sendiherra Ungverjalands í Sviss. Þá hefur Kanadamaðurinn, Richard Pound, lýst yfir framboði. Hann er afar virtur lögfræðingur í sínu heimalandi. Ein kona er á með- al frambjóðenda, Anita Defrantz, sem setið hefur í stjórn IOC sl. sex ár. Hún er frá Bandaríkjunum. Fimmti maðurinn sem sækist eftir kjöri er S-Kóreubúi, Kim Un-- Young. „Þetta er allt öflugt fólk og vel til þess fallið að taka við af Samar- anch,“ segir Júlíus. Grikkir verða að halda vel á spöðunum Á síðustu misserum hefur talsvert verið rætt um hvort Grikkir geti haldið Ólymp- íuleika árið 2004 sem þeim var úthlutað árið 1997. Þeir þykja hafa farið seint af stað með vinnu vegna leikanna og voru um tíma taldir komnir talsvert á eftir áætlun. Júlíus Hafstein á sæti í umhverfis- og íþróttanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC. Hann var nýlega í Aþenu þar sem nefndin fór yfir ýmis mál sem að henni snúa vegna leikanna. Af því tilefni rabbaði Ívar Benediktsson við Júlíus um undirbúning Aþenuleikanna og framtíð IOC. Júlíus Hafstein ásamt Masato Mizuno, t.h., samstarfsmanni í umhverfis- og íþróttanefnd Alþjóða ólympíunefnd- arinnar, og Simon Balderstone, framkvæmdastjóra ólympíuleikanna í Sydney.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.