Morgunblaðið - 01.06.2001, Síða 58

Morgunblaðið - 01.06.2001, Síða 58
UMRÆÐAN 58 FÖSTUDAGUR 1. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ Í MARS 1996 fannst mér ég himin höndum hafa tekið, ég keypti mér íbúð og allt var svo frábært, ég var yfir mig sæl og glöð. Ég keypti íbúð- ina, félagslega eignar- íbúð, af húsnæðis- nefnd Reykjavíkur, sem þá var og hét. Dæmið leit allt vel út, ný og ágætis íbúð og hagstæð lán til langs tíma. Sá reyndar fram á smáerfiðleika í upp- hafi þar sem ég þurfti að taka lán fyrir út- borguninni að íbúð- inni og mínar aðstæður voru þann- ig að ég sá ekki fram á mikinn afgang um mánaðamót næstu tveggja til þriggja ára en það óx mér ekkert í augum, ég var að skapa mér og fjölskyldu minni öruggt framtíðarhúsnæði í öruggu framtíðarkerfi, eða það hélt ég. Kerfið var nefnilega þannig að ef þyrfti fólk af einhverjum ástæðum að flytja var hægt að sækja um flutning innan kerfisins. Kerfið bauð sem sagt upp á þann mögu- leika að fólk gat fengið aðra íbúð, stærri, minni eða á öðrum stað í sveitarfélaginu á sömu kjörum og það hafði keypt á þegar farið var inn í kerfið. Ég bý enn nokkuð sæl og nokkuð glöð í minni íbúð en ýmislegt hefur þó breyst. Kerfið dó drottni sínum um ára- mót 1998 og 1999. Mínar aðstæður hafa breyst þannig að íbúðin hent- ar minni fjölskyldu ekki lengur en hvað get ég gert? Kerfið dáið eins og áður sagði og möguleikar á inn- ankerfisflutningum sem stóðu mér til boða þegar ég „læsti mig inni í“ kerfinu eru ekki lengur til staðar. Hjálp, ég er föst!!! Enginn inn- ankerfisflutningur í boði og ég má ekki selja íbúðina mína nema bara þeim sem seldu mér hana og þá samkvæmt þeirra verðútreikning- um. Ég má borga þeim upp lánið og eiga íbúðina skuldlausa en ég má samt ekki selja hana þeim sem ég kýs, eða á frjálsum markaði, fyrr en sá tími sem þeir eiga for- kaupsrétt er liðinn, þetta eru nú 10 ár hjá því sveitarfélagi sem ég bý í. Jú, jú, auðvitað vissi ég um allar kvaðir þegar ég skrifaði undir af- salið en það var ekki vandamál á þeim tíma sem ég skrifaði undir af því að þá var kerfið sprelllifandi og ýmsir möguleikar í boði innan þess. Hefði ég læst mig inni í kerf- inu ef ég hefði séð þessar breyt- ingar fyrir? Nei, örugglega ekki. Ég hefði alveg örugglega ekki skrifað undir að láta binda mig bú- setufjötrum, þótt kjörin hafi verið hagstæð. Auðvitað get ég selt þeim íbúð- ina aftur, þeim sömu og seldu mér hana á sínum tíma sællar minn- ingar en þá miðast sú sala við þeirra verðútreikninga en ekki markaðsverð og þar munar ansi miklu. Á vissan hátt er ég alveg sammála þeim rökum að ég eigi ekki að græða á því að hafa getað keypt á þessum kjörum sem ég keypti á og selja svo á frjálsum mark- aði þegar mér hentar en það voru ákveðin réttindi af mér tekin. En eins og ég sagði áðan hafa aðstæður mínar breyst, hús- næðið hentar ekki lengur og ég spyr hvort fólki finnist það eitthvað skrýtið að ég vilji ekki selja íbúðina mína til baka til sömu aðila og seldu mér á sínum tíma og fá þá greitt fyrir hana framreiknað það kaupverð sem ég keypti á og þurfa svo að kaupa mér aðra íbúð á frjálsum markaði á markaðsverði? Munurinn þar á milli er það mikill að það er óleysanlegt dæmi fyrir mig og því sit ég föst í minni íbúð, þar sem flutningur innan kerfis er ekki lengur í boði, eins og áður hefur komið fram. Nú langar mig að deila með ykkur sögunni af honum Jóni. Á sama ári og ég keypti mína íbúð hafði Jón flutt inn í félagslega kaupleiguíbúð í sömu blokk og ég bý í. Þegar hann hafði búið þar í fimm ár nýtti hann sér forkaups- rétt sinn og keypti íbúðina á fram- reiknuðu verði hennar frá því sem það var þegar hann flutti inn. Mánuði eftir að Jón gekk frá kaupum á íbúðinni seldi hann hana aftur og nú á frjálsum markaði og fékk því markaðsverð fyrir hana, ég get sagt ykkur að Jón kom ekki illa út úr þessum viðskiptum því eins og ég nefndi áðan er ansi mik- ill munur á markaðsverði íbúða eða innlausnarverði því sem Hús- næðisskrifstofan fer eftir, mark- aðsverð er tugum prósenta hærra. Þarna tel ég að komi fram gróf mismunun á milli þeirra sem keyptu félagslegar eignaríbúðir og þeirra sem fengu félagslegar kaupleiguíbúðir. Það eru fordæmi fyrir því að sveitarfélög hafi gefið forkaupsrétt sinn eftir en í því sveitarfélagi sem ég bý í stendur það ekki til, þótt hann hafi vissulega verið styttur. Þar tel ég að komi fram enn eitt dæmi um mismunun, mismunun eftir búsetu, því peningar til allra húsnæðisnefnda landsins koma frá sama staðnum, ríkinu, og því und- arlegt að það gildi ekki það sama um öll sveitarfélög landsins og stórundarlegt að félagsmálaráð- herra, æðsti yfirmaður þessara mála, láti þetta viðgangast. Húsnæðisskrifstofa þess sveitar- félags ég bý í, eða sveitarfélagið sjálft, á forkaupsrétt á minni íbúð í fimm ár í viðbót. Meðal annars vegna þess ritaði ég þessa grein því það er ansi langt að bíða í fimm ár eftir að skipta um hús- næði þegar maður býr þannig að húsnæðið hentar fjölskyldunni ekki lengur og ég er bara hreint ekki lengur sæl og ekki lengur glöð. Því spyr ég nú, Páll Pét- ursson, af hverju gerir þú mér ekki kleift að flytja? Páll, má ég flytja? Herdís Pála Pálsdóttir Höfundur er stjórnunarráðgjafi. Félagsíbúðakerfi Ég hefði ekki skrifað undir að láta binda mig búsetufjötrum, segir Herdís Pála Pálsdóttir, þótt kjörin hafi verið hagstæð.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.