Morgunblaðið - 13.09.2001, Page 26

Morgunblaðið - 13.09.2001, Page 26
26 FIMMTUDAGUR 13. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Árásin á Bandaríkin „STRÍГ, „dómsdagur“, „þriðja heimsstyrjöld“ eru orð sem komu fyrir í forsíðufyrirsögnum dagblaða út um allan heim í gær, í kjölfar hinna hrikalegu hryðjuverka í New York og Washington. Í fréttaskýringum bandarísku stórblaðanna ber mest á áhyggjum af því að nú eigi bandarísk stjórn- völd við andlitslausan en skelfilegan andstæðing að etja. Margir evrópsk- ir fjölmiðlar draga þá ályktun að árásirnar þýði að tíð óbilandi sjálfs- öryggis Bandaríkjamanna sé liðin, en varað er við því að þeim verði svarað með bráðræðislegum aðgerð- um. Hvort tveggja The New York Times og The Washington Post leggja áherzlu á að þótt árásirnar minni á óvænta sprengjuárás Jap- ana á Perluhöfn á Hawaii, sem varð til þess að Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina, þá sé nú sá mikli munur á, að „óvinurinn er and- litslaus“, þ.e. ekkert sé vitað um það hverjir standi að baki árásunum. „Ríkisstjórn [George W.] Bush [Bandaríkjaforseta] verður að ganga fram af ákveðni (...) til að verja land- ið gegn hugsanlegum áframhaldandi árásum,“ segir Washington Post í forystugrein. „Og þjóðin verður að búa sig af árvekni og einbeitingu undir sitt fyrsta stríð á þessari öld – og það hefst með því að bera kennsl á og refsa upphafsmönnum fjölda- morða gærdagsins,“ segir þar. Í The International Herald Trib- une voru Perluhafnarárásin og árás- in í fyrradag sagðar hliðstæðar að einu leyti. „Rétt eins og hernaðar- árás Japana vakti reiði bandarísku þjóðarinnar sem ekki unni sér hvíld- ar fyrr en óvinurinn var sigraður kann áfall gærdagsins að skapa slíka þjóðarreiði að hún magni aðgerðir Bandaríkjanna gegn meintum hryðjuverkamönnum upp í hömlu- laust, hnattrænt stríð.“ „Við erum öll Ameríkumenn“ „Við erum öll Ameríkumenn“ lýsti franska dagblaðið Le Monde yfir í forystugrein á forsíðu, og lýsti með því samstöðu Frakka með Banda- ríkjamönnum á þessari raunastund. Var þessi yfirlýsing tilbrigði við fræg orð Johns F. Kennedys þáver- andi Bandaríkjaforseta, sem hann lét falla í ræðu í Vestur-Berlín fyrir 40 árum: „Ich bin ein Berliner,“ en með því lýsti hann samstöðu með þeim Vestur-Berlínarbúum og öðr- um Evrópubúum sem voru í fram- línu baráttunnar gegn ógn og helzi kommúnismans. „Heimurinn er sleginn ótta,“ sagði Le Parisien og Le Figaro kallaði árásirnar „Hið nýja stríð“. Brezka dagblaðið The Daily Tele- graph notaði fyrirsögnina „Stríð gegn Ameríku“ og birti tugi mynda af vettvangi á Manhattan. „Eftir þennan þriðjudag verður heimurinn aldrei samur,“ sagði í Frankfurter Allgemeine Zeitung í Þýzkalandi. Spænska blaðið El País sagði að „við verðum að vera tilbúin til að bregðast hart við“ en varar við því að flýtir við að benda á sökudólga sé óráðlegur og gæti leitt af sér enn meira óréttlæti. Lundúnablaðið Independent tek- ur í sama streng: „Jafnvel andspæn- is slíkri hrikalegri ögrun verður að gæta stillingar,“ þar sem „þá aðeins er hægt að segja að hryðjuverka- mennirnir hafi náð sínu fram ef sið- aðar þjóðir yfirgefa sjálfar gildi sið- menningarinnar og láta ofbeldi bitna á saklausum“. „Lexía fyrir harðstjóra“ Eitt örfárra dagblaða sem ekki tóku þátt í hinum alþjóðlega for- dæmingar- og samúðarkór var Al- Iraq, málgagn Saddams Husseins Íraksforseta. Undir fyrirsögninni „Ameríka brennur“ sagði að árás- irnar væru „lexía fyrir alla harð- stjóra og kúgara“. „Bandarískir leið- togar verða að vera við slíkum lexíum búnir vegna þess að þeir hafa sýnt fólki óbærilegan hrottaskap, sem hefur sprungið framan í þá, eyðilagt kennileiti þeirra og komið Bandaríkjamönnum til að gráta bitr- um tárum,“ segir í Al-Iraq. Samstöðu lýst en varað við bráðræðishefndum Reuters Albanir í Kosovo-héraði halda á lofti bandaríska fánanum í Pristina í gær. Tugir þúsunda söfnuðust saman á götum úti og veifuðu bandarískum og alb- önskum fánum og héldu á lofti borðum sem á stóðu skilaboð til Bandaríkjamanna: Við stöndum með ykkur. Stór orð ekki spöruð í umfjöllun heimspressunnar um hryðjuverkin SUMUM farþega flugvélanna sem hryðjuverkamenn rændu í Banda- ríkjunum í fyrradag tókst að hringja í ástvini sína áður en þeir týndu lífi er flugræningjarnir stýrðu vélunum á „skotmörk“ sín. Flugfreyjan CeeCee Lyles hringdi úr farsíma í eiginmann sinn heim til þeirra í Fort Myers í Flór- ída, að því er frænka hennar, Mar- eya Schneider, greindi frá. Flug- vélin sem hún var um borð í hrapaði til jarðar í grennd við Pitts- burgh. „Hún hringdi í hann og tjáði hon- um hvað hún elskaði hann og drengina mikið,“ hefur AP eftir Schneider. Örvæntingaróp annarra sem um borð voru heyrðust óma í gegnum símann. Lyles sagði „það er búið að ræna flugvélinni“ og þá slitnaði sambandið. Örskömmu áður en vélin fórst náði Thomas Burnett, kaupsýslu- maður frá San Ramon í Kaliforníu, sambandi við eiginkonu sína. Hann tjáði henni að hann óttaðist að ör- lög flugvélarinnar og allra um borð væru ráðin, en hann sagði að hann og tveir aðrir farþegar ætluðu sér að gera eitthvað í því. Sagði Burnett flugræningjana þegar hafa drepið einn farþega. Hafði San Francisco Chronicle þetta eftir presti Burnett-fjölskyldunnar. Yfirvöld hafa ekki sagt hvort lík- legt sé að tilraun farþega til að spilla fyrir áformum flugræningj- anna hafi valdið því að þotan skyldi hrapa á víðavangi í Pennsylvaníu í stað þess að lenda á einhverri þýð- ingarmikilli byggingu. Á heimili Alice Hoglan hringdi síminn rétt áður en sólin kom upp í San Francisco í Kaliforníu að morgni þriðjudagsins. Sonur henn- ar, Mark Bingham, var á línunni. Hann var um borð í sömu flugvél United Airlines-flugfélagsins. „Sæl mamma ... ég elska þig mjög,“ sagði hann. „Ég hringi úr flugvélinni. Það er búið að ræna okkur. Það eru þrír menn hérna sem segjast vera með sprengju.“ Aðrir hringdu úr þotunum sem flogið var á Pentagon, aðalbygg- ingu bandaríska varnarmálaráðu- neytisins í Washington, og háhýsi World Trade Center í New York. Barbara Olson, lögfræði- og stjórnmálaskýrandi m.a. fyrir sjón- varpsstöðina CNN, hringdi tvisvar í eiginmann sinn, alríkislögmanninn Theodore Olson, og gaf nákvæmar lýsingar á flugráninu. Sagði hún meðal annars að flugræningjarnir væru vopnaðir hnífum og dúkahníf- um og þeir hefðu þjappað farþeg- um og áhöfn vélarinnar, þar með talið flugstjóranum, aftast í hana. „Hvað á ég að segja flugmönn- unum að taka til bragðs?“ kvað CNN Olson hafa spurt eiginmann sinn. Theodore Olson mun hafa hringt strax í stjórnstöð í dómsmálaráðu- neytinu til að koma þessum upplýs- ingum áleiðis. Tjáði hann CNN, að kona hans hefði áformað að fara til Los Angeles á mánudag en hefði frestað því um einn dag til að geta verið með eiginmanninum á afmæl- isdegi hans á þriðjudegi. „Hún var í flugvélinni sem lenti á Pentagon,“ sagði hann. „Hún hringdi úr vélinni er verið var að ræna henni. Ég vildi óska, að þetta væri ekki satt, en svona er þetta.“ Hinzta kveðja úr háloftunum New York. AP. AP Cee Cee Lyles, flugfreyja hjá Unit- ed, ásamt sonum sínum tveim. STJÓRNMÁLA- og embættismenn kröfðust þess í kjölfar árásanna á þriðjudaginn að gripið yrði til víð- tækari tæknilegra aðferða við að aftra hryðjuverkum. En tækni- sérfræðingar sögðu að aukið eftirlit með samskiptum og upplýsingum á Netinu myndi hafa lítil áhrif vegna þess að háþróuð dulkóðunartækni geri samskipti hryðjuverkamanna ólæsileg. „Sú hugmynd að við getum gert kraftaverk og komið upp tækni til að aftra hryðjuverkum er út í blá- inn,“ sagði Bruce Schneider, yf- irmaður tæknideildar netfyrirtækis sem sérhæfir sig í öryggismálum og þekktur dulmálssérfræðingur. „Það er ekki hægt að hlera öll samtöl ... við höfum ekki bolmagn til þess.“ En þingmaðurinn Richard Shelby, fyrrverandi formaður leyniþjónustunefndar þingsins, hvatti eindregið til þess að Banda- ríska þjóðaröryggisráðið (NSA) yrði styrkt og fært í nútímalegra horf. NSA er sú alríkisstofnun sem sér um megnið af rafrænum njósn- um sem Bandaríkjamenn stunda. Christopher Cox, formaður þjóð- aröryggisnefndar þingsins, kvaðst aftur á móti andvígur því að gripið yrði til strangra eftirlitsaðgerða. Sagði hann algerlega óvinnandi veg að „leita á öllum í heiminum“. Bob Stump, formaður hermála- nefndar þingsins, hvatti til þess að meiri áhersla yrði lögð á þróun njósnanets. „Við getum hlustað á hvaða símtöl í heiminum sem okkur sýnist, en við komumst ekki inn í þessa hópa. Við höfum lengi haldið því fram að okkur skorti njósnara.“ Borgararéttindasinnar lýstu ánægju með þessi viðhorf, en spáðu því að meiri kröfur yrðu gerðar um að farnar verði tæknilegar leiðir. Það gæti falið í sér nýjar hömlur á hugbúnaðardulkóðun og aukna notkun manngreinitækja á opinber- um stöðum. Manngreinitæki greina nákvæmlega einstæða einstaklings- bundna eiginleika, s.s. fingraför, blóðæðafar í auga eða raddfar. Sérfræðingar segja þó að um- fangsmikil notkun slíkra tækja hafi reynst óáreiðanleg. Á úrslita- leiknum í bandaríska ruðningsbolt- anum í janúar sl. voru um 100 þús- und áhorfendur myndaðir á laun í því skyni að bera kennsl á meinta glæpamenn í hópnum. „Í þessum græjum lítur einn af hverjum 50 út eins og Sjakalinn,“ sagði Jim Wayman, manngrein- isérfræðingur við San Jose- ríkisháskólann í Kaliforníu, þegar tækjunum var beitt í janúar. „Og það eru bara 50% líkur á að Sjak- alinn líti út eins og hann á að sér.“ Deilt um aukið eftirlit Los Angeles Times.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.