Morgunblaðið - 13.09.2001, Síða 40

Morgunblaðið - 13.09.2001, Síða 40
MINNINGAR 40 FIMMTUDAGUR 13. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Ingibjörg Björns-dóttir fæddist í Reykjavík 11. októ- ber 1949. Hún lést á líknardeild Landspít- alans í Kópavogi 2. september síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar eru Björn Þor- geirsson, f. 27. júlí 1917, og Sigurlaug Þ. Ottesen, f. 11. júní 1921, d. 6. september 1991. Systkini Ingi- bjargar eru Þorgeir Björnsson, f. 1946, maki Margrét Sig- urðardóttir og Þuríður Björns- dóttir, f. 1956, maki Bjarni Geirs- son. Fyrri maður Ingibjargar var Jón Yngvi Yngvason, f. 1944, d. 1985, þau slitu samvistir 1980. Barn þeirra er Sigrún Jónsdóttir, f. 16. nóvember 1969. Barnsfaðir hennar er Sigurbjörn Daði Dag- bjartsson, f. 1975. Barn þeirra er Arney Ingibjörg, f. 1994. Seinni maður Ingibjargar var Þorvaldur Þorsteinsson, f. 1960, þau skildu 1996. Ingibjörg stundaði nám hjá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og útskrifaðist frá Leiklistarskóla Ís- lands 1978. Hún starfaði m.a. hjá Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Akureyr- ar og Alþýðuleik- húsinu auk þess sem hún lék bæði í sjón- varpi og útvarpi. Hún stundaði nám í leikstjórn við Leik- listarháskólann í Maastricht í Hol- landi á árunum 1988–89 og leikstýrði eftir það uppfærslum leikfélaga víða um land. Ingibjörg vann sem list- rænn ráðunautur með Þorvaldi að mörgum verkum, m.a. að Skilaboðaskjóðunni í Þjóðleik- húsinu 1993. Hún flutti til Stykk- ishólms 1999 og lét þar gamlan draum rætast þegar hún opnaði kaffihúsið Narfeyrarstofu í júní 2000. Útför Ingibjargar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Í örfáum orðum langar mig að minnast æskuvinkonu minnar Ingi- bjargar Björnsdóttur. Hún Ibbý hefur verið vinkona mín svo langt aftur sem ég get munað. Hún fædd- ist tæpum tveimur árum á undan mér og án þess ég vissi það þá var ég svo heppin að hún valdi að vera vin- ur minn. Við ólumst báðar upp í Verkó, sitt hvorum megin við „portið“ sem var veröldin okkar í bernsku. Þar bök- uðum við okkar fyrstu sandkökur, vandlega skreyttar sóleyjum og fífl- um, lékum okkur í dúkkuleik, en Ibbý átti einhvern flottasta dúkku- vagn í vesturbænum. Rólurnar voru líka óspart notaðar og þá söng Ibbý gjarnan hástöfum, enda gædd góðri söngrödd. Það kom fyrir að frú Sig- urlaugu, móður hennar, þætti nóg um og áminnti dóttur sína út um eld- húsgluggann. Ég skildi það ekki þá að Ibbý sem söng svona fallega mætti ekki þenja röddina eins og hún mögulega gat. Ibbý bar af okk- ur öllum börnunum í portinu. Lífs- gleðin skein úr augum hennar, bros- ið hennar bjarta var geislandi og krullurnar hennar, sem ekki fengust keyptar í neinu apóteki, mynduðu umgjörð um sviphreint andlitið. Mér þótti hún æðisleg og þykir enn. Seinna söng Ibbý á árshátíðum í skóla og við önnur tækifæri. Hún söng eins og engill. Á unglingsárum okkar sungum við gjarnan saman bítlalögin með glóðvolgar plöturnar á fóninum. Ibbý spilaði með á gítar og ég raulaði og reyndi að halda lagi. Ég hafði þann vafasama heiður að vera sú eina sem gat sett Ibbý út af laginu einstaka sinnum. Ekki setti hún út á það, heldur upplifði ég það sem afrek mitt á söngsviðinu. Á heimili hennar var tónlist höfð í há- vegum og margs hefði ég farið á mis ef Ibbý hefði ekki þolinmóð miðlað mér af nægtabrunni sínum. Hún miðlaði mér reyndar ýmsu öðru gegnum árin. Við vorum ekki alltaf samstiga á öllum sviðum. Andleg málefni áttu alla tíð meira hennar hug en minn. Framhaldslíf var nokk- uð sem ég var ekki til umræðu um. Þegar við vorum litlar fann Ibbý oft fyrir fólki að handan og þáði hún gjarnan fylgd mína alla leið í gegn- um dimman kjallarann á Hring- brautinni og upp á hæðina. Ég held ég hafi aldrei sagt henni hversu hratt hjartað sló á leiðinni til baka. Ef til vill hafði hún bara á réttu að standa og reyndar vil ég gjarnan hugsa mér hana í kóngabláa kjóln- um sínum á sviðinu fyrir handan. Ibbý var ætíð umhugað um sína og gleymdi engum, hún var afskap- lega næm manneskja og hafði áhuga á líðan vina sinna alla tíð. Hún fann alltaf á sér þegar hlutirnir voru ekki í lagi. Síðustu mánuðina vorum við sem fyrr trúnaðarvinir og þegar ég eitt sinn vildi ekki opinbera alveg allt sagði hún kankvís: Lotta, þú veist ég er í „meðfylgdinni“. Það var hún svo sannarlega. Nú að lokum vil ég þakka henni meðfylgdina og alla hennar elsku og tryggð. Ég kveð hana full þakklætis yfir að hafa fengið að vera vinur hennar og full trega yfir að hafa misst hana svo snemma. Sigrúnu, Arneyju Ingibjörgu, Birni og öllum öðrum ástvinum votta ég samúð mína. Sigríður Sigurlaug Júlíusdóttir (Lotta). Í dag kveðjum við Ingibjörgu Björnsdóttur sem til margra ára var tengdadóttir okkar. Þó að hjóna- bandinu lyki rofnaði sambandið aldrei, hvorki við hana né dóttur hennar og litla ömmubarnið hennar og sólargeisla, Arneyju Ingibjörgu. Það er sárt að hugsa til þess að þegar Ingibjörg af dugnaði og bjart- sýni fór að byggja upp nýja tilveru með því að kaupa hús í Stykkishólmi og setja þar upp kaffihús þá greip sjúkdómurinn inn í og hún var orðin veik þegar kaffistofan var opnuð. Sigrún dóttir hennar flutti til Stykk- ishólms til að vera til hjálpar. Þetta gekk í nokkra mánuði og um áramót leit út fyrir að unnið hefði verið á krabbameininu og það var mikil gleði. En hún stóð ekki lengi því síðan seint í mars hefur baráttan staðið óslitið. Ég heimsótti Ingibjörgu á líknardeildina í ágúst. Hún var róleg og æðrulaus þótt hún vissi hvert stefndi. En þriðja september var öllu lokið. Hún dó umvafin ástvinum sínum. Við þökkum henni samfylgdina og tryggðina um leið og við vottum Sig- rúnu, Arneyju, föður hennar, systk- inum og öðrum aðstandendum og ástvinum okkar innilegustu samúð. Guð blessi Ingibjörgu Björnsdótt- ur og minningu hennar. Soffía og Þorsteinn. Á undurfögru Jónsmessukvöldi fyrir rúmu ári tók Ibbý brosandi á móti mér á tröppunum framan við Narfeyrarstofu. Þá höfðum við ekki sést frá því skömmu áður en hún flutti til Stykkishólms, þegar hún sagði mér að hún væri búin að festa þar kaup á húsi, staðráðin í að láta rætast gamlan draum um að eignast og reka kaffihús. Á því tæpa ári sem síðan var liðið hafði margt gerst. Draumurinn hennar Ibbýjar var orðinn að veru- leika. Bjarteyg og broshýr stóð hún þarna í kvöldsólinni, Sigrún og Arn- ey Ingibjörg ekki langt undan, og við gengum inn í fallega og hlýlega kaffistofuna og gæddum okkur á gæðakaffi og köku áður en við kom- um okkur makindalega fyrir í nota- legri íbúðinni yfir kaffistofunni. Héldum áfram að tala um drauma. Drauma sem fæðast, drauma sem deyja, drauma sem rætast. Og hversu mikilvægt er að eiga drauma – og þora að láta þá rætast. En yfir sólgylltu kvöldinu og lífi þessarar fallegu konu hvíldi skuggi sjúkdómsins sem hún hafði greinst með fyrr á árinu. Hún fékk að sjá drauminn sinn verða að veruleika, fékk að leyfa öðr- um að taka þátt í ævintýrinu, en hún fékk ekki að njóta þess lengi. Um tíma virtist hún ætla að hafa betur í baráttunni við sjúkdóminn til þess svo að vera slegin niður af enn meira afli. Eftir standa harmi lostnir ást- vinir og spyrja spurninga sem þeir fá engin svör við. „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ 1 Kor. 13.12–13. Við erum ósjáandi, skilningsvana og hrygg í dag, en við höfum orð Krists fyrir því að þá, þegar við sjáum augliti til auglitis, þar er hann. Ég kveð hana Ibbý, mágkonu mína til margra ára, með þökk og virðingu og í fullvissu þess, að sá sem lífið gaf taki það aftur og feli í hendi sinni. Að þar hvíli hún nú í friði. Nú ertu leidd, mín ljúfa, lystigarð Drottins í, þar áttu hvíld að hafa hörmunga’ og rauna frí, við Guð þú mátt nú mæla, miklu fegri en sól unan og eilíf sæla er þín hjá lambsins stól. (Hallgrímur Pétursson.) Guð blessi minningu Ingibjargar Björnsdóttur og sefi sorg þeirra sem eftir lifa og sakna. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir. Árið er 1972. Það er vor og bjart yfir Breiðafirði. Gamli Baldur siglir úr Stykkishólmshöfn áleiðis til Flat- eyjar með svolítinn varning og örfáa farþega. Dugga, dugg og skipið líður um breið sund á milli eyjaklasa. Ung kona með dökkt, sítt hár situr á aft- urdekki ásamt lítilli dóttur og drekk- ur í sig fegurð Breiðafjarðar. Þær eru einnig á leið til Flateyjar í fyrsta sinni og þarna bar fundum okkar Ingibjargar saman. Hvorugt hafði þá grun um að við yrðum nánir vinir það sem eftir lifði ævi. Flatey varð þungamiðja lífsins. Hún tók okkur fagnandi og fyrr en varði færði hún okkur í fjötra. Skarkali heimsins varð fjarlægur þessari nýju veröld sem var svo öflug að öll draumalönd svefns og vöku urðu að eyjum undir breiðfirskum himni. Jafnvel þótt ár- in liðu og Ibbý flyttist burtu var eng- inn staður henni hjartfólgnari en Flatey og til hinstu stundar var hún óskalandið. Mannkostir Ibbýjar komu ekki í smáskömmtum. Hún var heil í öllu sem hún tók sér fyrir hendur; glettin og spaugsöm, list- hneigð og félagslynd og stjórnmál hennar snerust um lífsgildin jafn- rétti og frelsi. Á gleðistundum var hún hrókur alls fagnaðar og með persónutöfrum og hjartahlýju seiddi hún fólk til sín og eignaðist vini hvar sem hún fór. Á þann hátt var hún rammgöldrótt. Ibbý tók afstöðu, hvort sem henni var það ljúft eða leitt. Þetta átti við bæði í einkalífi og út á við og hér er lítil Flateyjarsaga af viðhorfum hennar: Á árunum 1975–80 dreymdi örfáa Flateyinga risastóra drauma um að bjarga byggðinni – ekki með því að nýta gæði náttúrunnar til nýrra hluta og efla menningu, listir og mannvit eins og forðum í Fram- farafélagi Flateyjar heldur með því að byggja stóran flugvöll uppi á há- eyjunni. Þetta þýddi gjörbreytta ásýnd Flateyjar og að fórna fugla- varpi, umturna húsum og landslagi og eyða friðlýstum minjum. Á borgarafundi var tillagan um „Flatey International Airport“ sam- þykkt og ekki heiglum hent að standa á móti straumnum í svo þröngu samfélagi en það gerði Ibbý, stolt og sterk. Hún vissi að þetta risavaxna rugl myndi grafa undan framtíð eyjarinnar og góðum sam- skiptum manna. Ibbý varð strax að sameiginlegum vini okkar Ingu. Hún ræktaði vináttuna; sá um það öðrum fremur. Hún var gleðigjafinn og félaginn sem ávallt var gott að hitta. Örlát á tilfinningar kom hún því iðulega og án allrar væmni til skila hve vinátta okkar væri henni dýrmæt. Sama gilti um dætur okkar sem hún artaði af ástúð. Við vorum fjölskylda hennar og hún okkar. Ibbý fór ekki varhluta af erfiðleik- um lífsins en ástin var hennar lífs- elexír. Lengstu stríðin háði hún á heimavelli til að bjarga ástvinum sínum. Án þessa elexírs var erfitt að lifa en jafnvel þegar ástleysi virtist yfirþyrmandi tók hún til sinna ráða og lét draum rætast – að setjast að við Breiðafjörð. Rætur hennar voru við Helgafell og í Stykkishólmi og þar kom hún upp fyrirmyndar kaffi- húsi. Hún var komin heim og eins nálægt Flatey og kostur var. Á sama tíma háði hún illvíga orrustu við krabbamein sem lagði ljúfuna að velli. Ef til vill er hún aftur frjáls og horfin á vit breiðfirska drauma- landsins. Hver veit? Við syrgjum dásamlegan vin og sendum Sigrúnu, Arneyju Ingibjörgu, öldnum föður, systkinum og öðrum ástvinum inni- legar samúðarkveðjur. Guðmundur Páll Ólafsson og Ingunn K. Jakobsdóttir. Nú til dags þegar fólk af lands- byggðinni flytur unnvörpum á suð- vesturhorn landsins vekur það at- hygli þegar kona á besta aldri tekur sig upp frá Reykjavík og sest að vestur í Stykkishólmi og gerist frumkvöðull í „kúltúrlífi“ bæjarins. Á ótrúlega skömmum tíma festi hún hér djúpar rætur og setti at- hyglisverðan svip á bæjarlífið með opnun og rekstri fyrsta kaffihússins á staðnum. Þá markaði hún sér afar jákvæðan sess í huga bæjarbúa fyrir að vera hún sjálf, einstaklega hlý, glöð og alltaf tilbúin til að leggja sitt af mörkum í hverju máli sem horfði til framfara fyrir bæinn okkar. Þessi kona var Ingibjörg Björns- dóttir, sem við kveðjum í dag. Ibbý, eins og við vinir hennar köll- um hana, átti vissulega rætur hér fyrir vestan því Björn faðir hennar var ættaður frá Helgafelli og sjálf hafði hún búið um árabil í Flatey á Breiðafirði og nokkur leikrit hafði hún sett upp með Leikfélaginu Grímni í Stykkishólmi svo hún þekkti vel til staðhátta og átti hér góða vini þegar hún flutti vestur. Ibbý lagði mikinn metnað í öll sín verk, draumurinn um kaffihúsið, sem hlaut nafnið Narfeyrarstofa, varð að veruleika og var ekkert til sparað að gera það svo vel úr garði sem verða mátti. Öllu var einstak- lega smekklega fyrir komið, veiting- ar voru gómsætar og oft frumlegar og ekki spilltu óvenjulegar blóma- skreytingar, kertaljós á borðum og oft var boðið upp á lifandi tónlist. Sjálf var hún löngum á staðnum og fylgdist vel með þörfum gesta sinna. Það munu vera um tvö ár síðan Ibbý flutti til Stykkishólms og um fjórir mánuðir síðan hún neyddist til, sökum alvarlegra veikinda, að flytja aftur suður en mest af þeim stutta tíma sem hún átti með okkur hér glímdi hún við alvarleg veikindi af slíkri elju og baráttuhug að það lét engan ósnortinn. Með henni hingað vestur fluttu einnig einkadóttir hennar Sigrún og ömmustelpan Arney en það var ómetanlegur styrkur fyrir Ibbý að hafa Sigrúnu með sér við uppbygg- inguna og reksturinn á Narfeyrar- stofu. Samleið okkar Ibbýjar varð ekki löng, við vorum nágrannar og hún sýndi mér einstaka hlýju og elsku- semi og um hana á ég bara ljúfar minningar. Ég man hana á jólaföstu sitjandi á gömlum kolli uppi á háaloftinu í Norska húsinu lesa jólasögu fyrir börnin, á bita hangir hangikjötslæri og bak við hana er gömul ljósatýra. Ég sé hana fagna gestum við opn- un Narfeyrarstofu, hún geislar af gleði og syngur af hjartans lyst. Ég man hana í gömlu kirkjunni okkar á síðasta kvöldi liðinnar aldar minnast atburðar sem gerðist þar fyrir einni öld en eftir miðnætti bauð hún vinum sínum til fagnaðar á Narfeyrarstofu og hún var glöðust af öllum. Á fundi um framtíð „Danskra daga í Stykkishólmi“ snemma vors var Ibbý mætt sárþjáð af veikindum sínum en full af eldmóði og bjartsýni og óspör á að bjóða fram krafta sína svo að þau hátíðahöld mættu takast sem best. Síðasta minningarbrotið er frá sólbjörtum degi um miðjan ágúst, Ibbý úti á palli við líknardeildina umvafin hlýju þeirra sem hún elsk- aði mest. Eins og svo oft áður varð ekki við dauðann samið en með Ingibjörgu Björnsdóttur sjáum við Hólmarar á bak góðri konu sem þrátt fyrir stutt stopp hér markaði spor í sögu okkar og bar hag okkar fyrir brjósti. Elsku Sigrún og Arney, þið voruð sólargeislarnir í lífi hennar og yfir velferð ykkar mun hún áfram vaka. Guð veri með ykkur. Rakel Olsen. Hún hét Ingibjörg og var kölluð Ibbý og hún kom sjóleiðina að vest- an beint inn í bekkinn okkar þegar við vorum að byrja annað árið okkar af fjórum í Leiklistarskóla. Hún hafði nokkrum árum áður verið full tvö ár í Leiklistarskóla Þjóðleik- hússins en orðið að hætta námi þar sem ekki var gert ráð fyrir því á þeim árum að leiklistarnemar yrðu barnshafandi. En hún var ákveðin kona og með tilkomu Leiklistarskóla Íslands sá hún möguleika á að ljúka því námi sem hún hafði byrjað á og hana dreymdi um. Hún tók því hvatningu Jóns Yngva bónda síns og barnsföður um að halda suður til náms og það má með sanni segja að það hafi orðið okkur sem fyrir vor- um í bekknum til happs að Ibbý skyldi taka þessa mikilvægu ákvörð- un. Því við vorum sjálfumglaðir hrokafullir útvaldir ólátabelgir og hún var móðirin sem setti ofan í við okkur. Stundum horfði hún á okkur alvarlegum augum og lét okkur vita að „þetta væri ekki fyndið“, hvernig við höguðum okkur. Hjartahlý og góð hlustaði hún á sleggjudóma okk- ar og varði þá af einurð sem fyrir þeim urðu. Hún kom inn í bekkinn á örlagastundu með ferskan blæ í far- teskinu. Hún var sérstök með sitt síða, svarta hár, sitt hlýja hjartalag og með sinn íbyggna svip og þennan óræða glampa í sínum fallegu aug- um. En það sem augun hennar Ibbý- ar gátu orðið svört, þegar við geng- um of langt í kaldranalegum húmor okkar, þá urðu þau stundum svo stingandi svört af alvöru að við kepptumst öll við að draga í land hið snarasta og breiða yfir galgopahátt- inn. Já, Ibbý var einmitt manneskj- an sem við þurftum í bekkinn. Þessi skynsama allt um faðmandi móðir. Hún kom til okkar þótt hún kæmi of INGIBJÖRG BJÖRNSDÓTTIR ná- var lát nn átti uga nn- ur- kur ita m- . Sé sins höf- mæli eða m. Sími 562 0200 Erfisdrykkjur við Nýbýlaveg, Kópavogi

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.