Morgunblaðið - 27.09.2002, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 27.09.2002, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 FÖSTUDAGUR 27. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÖRYGGISVIKAN hófst á því að samgönguráð- herra, formaður samgöngunefndar Alþingis, for- maður siglingaráðs og siglingamálastjóri tóku þátt í björgunaræfingu í frífallandi björgunar- báti af Goðafossi, flutningaskipi Eimskips. Skip- ið lá við festar í Sundahöfn og stundvíslega klukkan 11 fyrir hádegi þeyttu íslensk skip flautur sínar í eina mínútu eins og mælst hafði verið til. Þeirra á meðal voru Goðafoss og Sæbjörgin, skólaskip Slysavarnafélags Íslands. Nokkrum mínútum síðar var björgunarbátnum varpað í sjóinn. Báturinn fór á bólakaf í höfninni með til- heyrandi gusugangi áður en hann skaust upp á yfirborðið aftur. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði eftir á að ferðin hefði verið „mjög athyglisverð“ og undirstrikaði jafnframt mikilvægi þess að björgunaræfingar af þessu tagi væru haldnar reglulega. Sturla sagði í ræðu sem hann hélt um borð í Sæbjörgu í gær að þeir sem best þekktu til sjómennsku og hefðu fylgst með öryggismálum sjómanna vissu að með skipulögðum vinnubrögð- um mætti fækka slysum. Ráðherra benti á að hann hefði beitt sér fyrir gerð langtímaáætlunar í öryggis- málum sjófarenda sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 2001. Fyrsti áfangi þeirrar áætlunar gildir til 2003 en þar er megináhersla lögð á fyrir- byggjandi aðgerðir og að auka vitund sjómanna og útgerða um slysahættu. Áætlunin er unnin í samvinnu ým- issa hagsmunaaðila og tekur á mörg- um þáttum sem snerta sjómannslífið, svo sem menntun og þjálfun sjómanna, gerð fræðsluefnis og leiðbeininga, og samræmdrar slysa- og sjúk- dómaskráningar sem stefnt er að því að taka í gagnið, svo dæmi séu nefnd. Samkvæmt áætlun- inni er stefnt að því að fækka sjóslysum um að minnsta kosti þriðjung fram til ársins 2004 og draga úr tjóni vegna þeirra. Ráðgert er að verja 45 m.kr. í tengslum við áætlunina til ársins 2003. Þá hefur samgönguráðuneytið jafnframt ákveðið að öryggismál sjófarenda verði framvegis hluti af samgönguáætlun. Ráðherra sagði að endurskipulagning sjóslysa- rannsókna hefði verið orðin tímabær og í því sambandi hafi ný lög verið sett um rannsóknar- nefnd sjóslysa og í kjölfarið gerðar grundvallar- breytingar á starfsemi nefndarinnar. „Hún er nú mun sjálfstæðari, hefur skyldur til að koma með tillögur að úrbótum um það sem miður fer, auk þess sem hún vinnur að gerð öfl- ugs gagnagrunns sem hefur að geyma mikil- vægar upplýsingar,“ sagði ráðherra. Er gagna- grunninum ætlað að gegna lykilhlutverki í því forvarnarstarfi sem unnið verður að í slysa- varnamálum á næstu árum, að sögn ráðherra. Unnið að gerð margs konar fræðsluefnis fyrir sjómenn Samgönguráðuneytið fól í fyrra Siglingastofn- un Íslands að fara með framkvæmd langtíma- áætlunar í öryggismálum sjófarenda. Í framkvæmdaáætlun sem samgönguráðherra hefur staðfest er að finna yfirlit um verkefnin, markmið þeirra, fjármögnun o.fl. Samkvæmt sjómannalögum skal leiðbeina ný- liða um störf sem hann á að sinna og hefur bæklingur verið útbúinn um hvernig staðið skuli að fræðslunni. Þá er á það bent að mikilvægt er að þekking yfirmanna á skipum sé góð og að þeir sæki endurmenntunarnámskeið í verkstjórn og öryggisstjórnun. Við framkvæmd lang- tímaáætlunarinnar er unnið að gerð margs kon- ar fræðsluefnis fyrir sjómenn, sem verður dreift á sérstakri heimasíðu um öryggismál sjómanna, í handbókum, myndböndum, tölvudiskum og bæklingum. Er meðal annars unnið að gerð fræðsluefnis um stöðugleika skipa og verður efnt til sérstaks kynningarátaks um þann þátt meðal skipstjórnarmanna og sjómanna. Einnig býður Slysavarnaskóli sjómanna nú upp á fimm daga námskeið í öryggisfræðslu. Sam- kvæmt reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 880/2001 má ekki ráða mann til starfa á skip eða lögskrá sjómann nema hann hafi sótt slíkt námskeið og hafi sótt endurmennt- unarnámskeið á fimm ára fresti. Þá er á það bent að stöðugt þurfi að auka öryggi við siglingu skipa sem flytja farþega og er ætlunin að kortleggja hættulegar sigl- ingaleiðir og að sigling farþegaskipa verði tak- mörkuð við öruggar siglingaleiðir. Í tilkynn- ingu frá forsvarsaðilum Öryggisviku sjómanna kemur fram að kastljósinu hafi áður verið beint að öryggi skipa og búnaði þeirra. Nú sé hins vegar ætlunin að leggja áherslu á sjó- manninn sjálfan og það sem hann geti sjálfur lagt af mörkum til að bæta vinnuumhverfi sitt og auka öryggi á sjó. Skipti þar mestu að- gæsla, varkárni og hirðusemi. Öryggisæfingar í öllum skipum á þriðjudag Í gær var alþjóðasiglingadagur IMO haldinn og var dagurinn helgaður sjómönnum og við- horfi þeirra til eigin öryggis og annarra í áhöfnum skipa. Í öryggisviku sjómanna, sem stendur til 3. október nk., verður áhersla lögð á slysavarnir og æfingar um borð í skipum. Að undirbúningi öryggisvikunnar standa, auk samgönguráðuneytisins, Siglingastofnunar Íslands og Slysavarnaskóla sjómanna, Land- helgisgæslan, Samband íslenskra kaupskipa- útgerða, Landssamband íslenskra útvegs- manna, Landssamband smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Ís- lands og Reykjavíkurhöfn. Í dag, föstudag, mun Slysavarnaskóli sjó- manna bjóða upp á fræðslu fyrir sjómenn í að halda æfingar um borð í skipum, bæði í Reykjavík og víðsvegar um landið. Á laugardag verður dagskrá á Miðbakkanum í Reykjavík þar sem þyrla Landhelgis- gæslunnar æfir björgun úr sjó og Sæbjörgin verður opin gestum. Slysavarnadeild kvenna mun selja kaffi og kökur en auk þess verða varðskip og önnur skip úr íslenska flotanum til sýnis. Á mánudag verður Slysavarnaskóli sjómanna með fræðslu fyrir sjómenn í Reykjavík og á landsbyggðinni. Á þriðjudag í næstu viku verða björgunaræfingar um borð í íslenskum skipum og hafa forsvarsaðilar öryggisviku sjó- manna mælst til þess að allir sjómenn taki þátt í æfingum um borð í skipum hvar sem þau kunna að vera stödd. Öryggisvikunni lýkur síð- an á fimmtudag með ráðstefnu um öryggismál sjómanna í Borgartúni 6. Öryggisvika sjómanna haldin í tengslum við alþjóðasiglingadag IMO Stefnt að fækkun sjóslysa um a.m.k. þriðjung til 2004 Í öryggisviku sjómanna sem hófst í gær og stendur til 3. október nk. verður áhersla lögð á slysavarnir og æfingar um borð í skipum. Rík áhersla er lögð á að sjómenn eigi þátt í að bæta eigið vinnuumhverfi. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskólans, tók á móti Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Hjá þeim stendur Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður. Morgunblaðið/Þorkell Um borð í bátnum voru m.a. Sturla Böðv- arsson samgönguráðherra, Guðmundur Hall- varðsson, formaður samgöngunefndar Al- þingis, Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofu- stjóri í samgönguráðuneytinu, og Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri. Flugslysið í Skerjafirði Væntanlega búið að taka síðustu skýrsluna EGILL Stephensen, saksóknari hjá lögreglunni í Reykjavík, segir að skýrslutökum vegna lögreglu- rannsóknar á flugslysinu í Skerja- firði sé væntanlega lokið. Síðast var tekin skýrsla vegna málsins í síðustu viku. Embættið mun síðan meta hvort ákært verði í málinu eða það látið niður falla. Rúmlega tvö ár eru nú liðin frá flugslysinu í Skerjafirði. Í byrjun þessa árs var talið að rannsókninni væri lokið en Egill segir að þá hafi komið í ljós að taka þurfti eina skýrslu til viðbótar. Illa gekk að ná í þann sem þurfti að yfirheyra og þegar hann loks kom til lands- ins varð að bíða eftir lögmanni hans. Sú skýrsla hafi síðan kallað á enn eina skýrslugjöfina sem sé nú lokið. Þá hafi rannsókn málsins verið tímafrek þar sem hin meintu brot varði mjög flókna löggjöf, bæði loftferðalögin og aragrúa fyr- irmæla. Skotvopnum og hnífum stol- ið frá Útilífi ÞREMUR haglabyssum, riffli, skot- færum og hnífum var stolið úr versluninni Útilífi í Glæsibæ en inn- brotið uppgötvaðist um klukkan níu í gærmorgun þegar starfsfólk versl- unarinnar mætti til starfa. Lögreglunni í Reykjavík var þá tilkynnt um stuldinn. Rannsókn stendur yfir en auðgunarbrotadeild lögreglunnar hvetur þá sem vís- bendingar geta gefið til að hafa samband. Verslunarstjóri Útilífs segir að engin merki hafi verið um innbrot. Leitað að heitu vatni í Eyjum LEIT að heitu vatni, til upphit- unar húsa, í Vestmannaeyjum, er hafin að sögn Friðriks Friðriks- sonar, veitustjóra Hitaveitu Suð- urnesja í Vestmannaeyjum. Hita- veitan stendur að verkefninu auk Orkustofnunar. Friðrik segir að markmiðið sé að búið verði að staðsetja borholu, þar sem næst í heitt vatn, í vetur. Nú eru hús í Eyjum hituð með fjarvarmaveitu en finnist heitt vatn til að hita hús- in með myndi það spara töluverð- an kostnað í orkukaupum. Að sögn Friðriks er áætlaður kostnaður leitarinnar um fimm milljónir kr. Hann segir að einkum verði leitað á sprungusvæðunum tveimur í Eyjum. „Við ætlum að skoða tvö sprungukerfi, annars vegar frá Dalfjalli út á Ystaklett, sem er eldra sprungukerfið og hins vegar frá Eldfellinu og út á Stórhöfða.“ Skarst tals- vert á höfði ÖKUMAÐUR bifreiðar slasaðist talsvert þegar hann ók á vegþreng- ingu á Arnarnesvegi í Lindahverfi í Kópavogi um klukkan 2:30 í fyrri- nótt. Ökumaðurinn, sem var einn í bif- reiðinni, skarst talsvert á höfði og var fluttur á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Lögreglan í Kópavogi grunar hann um ölvun við akstur. ♦ ♦ ♦ ♦ ♦ ♦ ♦ ♦ ♦
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.