Morgunblaðið - 29.09.2002, Qupperneq 26

Morgunblaðið - 29.09.2002, Qupperneq 26
LISTIR 26 SUNNUDAGUR 29. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ Í LISTAMIÐSTÖÐINNI Straumi í Hafnarfirði sýna nú tveir listamenn verk sín. Danny van Walsum er Hollendingur fæddur 1964. Hann hefur haldið nokkrar einkasýningar í Hollandi og tekið þátt í allmörgum samsýningum. Van Walsum er fyrst og fremst málari þótt hann nefni tækni sína blandaða tækni. Í Straumi sýnir hann bæði málverk unnin með þessari blönd- uðu tækni og dúkristur. Verkin eru gerð með olíukrít og olíulitum, auk þess að vera að hluta til klippimynd- ir. Yfir þetta kemur svo einhvers konar lím sem festir allt saman nið- ur og gefur glansandi áferð. Eins og Hollendingum er lagið hefur hann sjálfur hannað rammana um verkin en þeir eru smekklegir og vel hugs- aðir. Yfirbragð myndanna er létt og leikandi og litadýrðin mikil. Sömu mótífin koma fyrir aftur og aftur, en þurfti þó listamanninn sjálfan til að ég áttaði mig á því að þarna var um að ræða hraunbungu, sjóndeildar- hing og ský, en ekki innanstokks- muni einhverja, leikfimihest eða málaratrönur. Litina segist hann sjá í íslensku landslagi og efast ég ekki um það þótt þeir séu óvenjulegir í því samhengi, ekki þarf að hugsa lengra en til Svavars Guðnasonar til að sjá annað eins, en frekari samlík- ing milli þessara tveggja væri þó út í hött. Myndir van Walsum eru hálf- hlutbundnar abstraktmyndir, þar sem formin svífa um af krafti og léttleika og margar þeirra eru fal- legar. Markmið hans er að sögn að búa til fallegar myndir. Hann er ágætlega fær málari en það liggur við að formið sé orðið of þægilegt í meðförum hjá honum, án efa væri honum óhætt að halda annaðhvort lengra á þessari braut eða skipta um stefnu. Aðferðin sem hann velur sér er á vissan hátt skemmtileg, litirnir koma vel fram en límið færir mynd- irnar helst til mikið frá málverkinu og í átt að þrívíðum hlut, malerískir eiginleikar myndanna njóta sín ekki sem skyldi. Hinn stóri og fallegi sýningarsal- ur í Straumi rúmar léttilega myndir van Walsum og stórt verk Elvu Daggar Kristinsdóttur, gosbrunn úr trefjaplasti. Elva Dögg útskrifaðist frá skúlptúrdeild MHÍ 1994 og var síðan búsett í Danmörku um árabil en býr nú í Hafnarfirði. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum hér og erlendis. Útskriftarverkefni hennar 1994 vakti nokkra athygli en þá mótaði hún kvenlíkama í hamsa- tólg, að nokkru sem ádeilu á þá stöð- ugu en óskiljanlegu áherslu sem samfélagið leggur á fitu eða fituleysi kvenna. Hún hefur nú söðlað um í efnistökum og notar trefjaplast við gerð skúlptúrs/gosbrunns. Í verkinu flæðir vatn upp úr ávexti í höndum krjúpandi konu, hún heldur hönd- unum fyrir ofan höfuð, umgjörðin er svo einhvers konar blómaumgjörð. Gosbrunnurinn kallar strax verk tveggja afar ólíkra listamanna fram í hugann, myndir Jeff Koons af henni Kikkólínu og kvenmyndir Niki de Saint-Phalle. Koons var kaldhæð- inn í verkum sínum en Niki spann óð til konunnar, sköpunargleði hennar og krafts. Mér dettur auðvitað ekki í hug að eigna Elvu Dögg kaldhæðni með þessu verki. Með því að sýna konuna sem uppsprettu er hún án efa nær hugmyndum Niki. Þar sem hér er um eitt einstakt verk er að ræða verður framtíðin að leiða í ljós hvert Elva ætlar sér að stefna með list sinni. Ljósmyndir af fyrri verkum hefðu kannski varpað skýrara ljósi á ætlunarverk hennar, sama má segja um van Walsum. Upplýsingar þær sem fylgja með sýningunni hefðu mátt vera um- fangsmeiri. Listafólkið er samtaka í að skapa list til augnayndis og á þeim for- sendum heppnast sýningin ágæt- lega. Nú hefur myndlistin lengi ver- ið í kreppu eins og sagt er og innan hennar ríkt ótakmarkað frelsi á all- an hátt. Hver og einn verður að ákveða fyrir sjálfan sig hvaða kröfur hann gerir til myndlistarinnar í dag. En þó að verk sem eru sem flestum til sjónrænnar ánægju séu góð og gild, ætti að vera óhætt að fara fram á meira. Elva Dögg er hugmyndarík listakona og forvitnilegt að sjá í hvaða átt hún þróast. Það er óskandi að hún, eins og sem flestir aðrir myndlistarmenn, fái tækifæri til að þróa list sína frekar meðfram brauð- stritinu. Í öllum regnbogans litum Gosbrunnur Elvu Daggar Kristinsdóttur og málverk Danny van Wals- um á sýningunni í Listamiðstöðinni Straumi í Hafnarfirði. MYNDLIST Listamiðstöðin Straumi Til 29. september. Sýningin er opin fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14–17. BLÖNDUÐ TÆKNI, ELVA DÖGG KRIST- INSDÓTTIR, DANNY VAN WALSUM Ragna Sigurðardóttir FINNINN Kimmo Schroderus og hin sænska Charlotta Mickelsson sýna nú saman í Galleríi Skugga við Hverfisgötu. Charlotta lauk námi við Listaháskólann í Stokkhólmi fyr- ir þremur árum og býr nú og starfar í Stokkhólmi. Hún hefur haldið sýn- ingar á Norðurlöndum og í Þýska- landi. Kimmo Schroderus lauk meistaragráðu við Listaakademíuna í Helsinki árið 1998, hann hefur þó unnið að list sinni lengur eða í rúman áratug og haldið sýningar víða um lönd. Charlotta Mickelsson sýnir verk sín í kjallara Skugga, nokkur minni verk eru einnig á jarðhæð. Charlotta er ein af þeim sem vinna verk sín á staðnum, hún rannsakar möguleika fátæklegra, hversdagslegra efna í daglegu umhverfi og finnur á þeim nýjar hliðar. Hún leitast við að grípa inn í rýmið, breyta því á fínlegan hátt og fetar þar í fótspor fleiri sem hafa verið í svipuðum hugleiðingum – margir hafa notað rýmið sem efni- við á síðustu áratugum, allt frá því að ríkjandi viðhorf módernismans um listaverkið sem algildan hlut óháðan umhverfi sínu viku fyrir hug- myndum um listaverkið í samhengi við umhverfi sitt og ekki endilega í hlutbundnu formi. Fram til þessa hefur Charlotta unnið mest með þrenns konar efni- við; hún strekkir hálfgegnsætt plast- band milli veggja á mismunandi vegu, hún notar plastfilmur til að búa til eitthvað sem minnir á bruna- blöðrur á veggjunum og límbönd sem strekkt eru í horn og málað yfir þau. Öll verkin bera vott um mikla hugvitssemi og næmi fyrir eiginleik- um efnisins, þau lífga rýmið við, vekja undrun og koma á óvart. Hún sýnir einnig ljósmyndir af eldri verkum og birtir þannig enn frekar möguleikana sem efniviður hennar býður upp á. Af þeim verkum sem hún sýnir í Skugga fannst mér stærsta verk hennar þó síst heppn- að, en greinilega hafði hún unnið betri verk úr þeim efnivið annars staðar. Verk hennar hafa bæði skír- skotun til þátta í arkitektúr, til dæmis minna hvít límböndin á gifs- flúr, loftskreytingar, og til líkamans, þau skapa raunar einhvers konar sérkennilegan samruna þarna á milli. Plastfilmurnar minna sem fyrr sagði á brunablöðrur og gæða vegg- ina óvænt nýju lífi. Margir reyna að skapa spennandi verk úr lítt spenn- andi efni og ýmiss konar inngrip í rými hafa verið vinsæl um nokkurt skeið. Það er ánægjulegt að sjá svo vel heppnaða sýningu unna á þeim grundvelli, þar sem hinu einfalda tekst að fela í sér margar skírskot- anir á hæglátan og kíminn hátt og er um leið skemmtileg sjónræn upplif- un. Kimmo Schroderus sýnir tvo stóra skúlptúra á jarðhæð Skugga, líkt og hjá Charlottu er útgangs- punktur hans hversdagslegir hlutir, en þar sem hún notar minnsta efni- við mögulegan notar hann eiginlega eins mikið og hægt er. Þema Schroderus er mannleg tilvera. Vegna þess að hann hefur notað tæki eins og saumavél við gerð verka sinna og fjallar um þemu eins og heimili og fjölskyldu er sagt að hann ögri viðteknum viðhorfum til þess sem kvenlegt telst eða karllegt í list- um, sbr. einblöðung frá Galleríi Skugga. Nú á dögum hlýtur að vera algjört aukaatriði hvaða tæki lista- menn nota við vinnu sína, konur eru löngu farnar að logsjóða og menn að hekla og prjóna. Og ef það er óal- gengt að karlmenn fjalli um sam- mannlega þætti í verkum sínum, um hvað fjalla þeir þá? Að leggja áherslu á þetta atriði finnst mér frekar íhaldssamt heldur en hitt. Það er spurning hvort að þannig sé ekki verið að viðhalda ákveðnum for- dómum. Kimmo hefur unnið bæði tvívíð og þrívíð verk á síðustu árum, eitt virð- ast þau öll eiga sameiginlegt – það er eitthvað sláandi við þau. Saumaðar leðurmyndir hans af kvenlíkömum og tattóveruðu fólki sbr. sýningar- skrá eru óvenjulegar og frumlegar, vísa bæði í handverk, leðursaum, nú- tíma auglýsingasamfélag og áhersl- una á fullkomna kvenlíkama. Einnig hefur hann smíðað skúlptúra í formi húsgagna. Sófaborðið Because I say so, Af því að ég segi það, sem hefur verið mölbrotið þrisvar og límt sam- an þrisvar, segir meira en mörg orð. Í fremra herbergi Skugga sýnir Kimmo verkið If not Today then To- morrow, Ef ekki í dag þá á morgun, ryðgað bílflak með sætum úr birki, án efa best heppnaða verk Kimmo hingað til. Hér vísar hann jafnt í fjöl- skyldulíf sem ákveðið tímabil heils samfélags, vonir, drauma og loforð, eftirsjá, brostna drauma, svikin lof- orð. Í innra herbergi hefur verið komið fyrir sérsmíðuðu rúmi, stálgrind með leðurumgjörð, þar er einnig mikill leðurútsaumur á ferð. Verkið ber nafnið Sweet dreams eða Sætir draumar og tekst að fela í sér and- stæður. Sætir draumar eru gefnir í skyn með sæng og silkirúmfötum en umgjörðin, efnið og vinnan sem er lögð í verkið, er svo yfirþyrmandi að manni finnst sem þessir draumar geti aldrei ræst. Í galleríinu er svo líka ljósmyndamappa sem sýnir skúlptúr úr stálpípum í vinnslu, einnig þar er efniviðurinn yfirþyrm- andi nálægur á bæði spennandi og óþægilegan hátt. Kimmo Schroderus er að vissu leyti hefðbundinn listamaður, hann samþykkir vafningalaust það hlut- verk listamanns að búa til hluti og selja þá síðan. Hann leggur áherslu á handverkið og að vinna verk sín sjálfur. Þó að skúlptúrar hans vísi til húsgagna veltir hann ekki fyrir sér stöðu skúlptúrs í dag, þær spurn- ingar sem hann spyr og þau við- brögð sem hann vekur eru fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis og snú- ast um mannleg samskipti. Verk hans eru á mörkum þess að vera kitsch og sum eru borin ofurliði af efniviðnum. En hann býr yfir því sem marga dreymir um en öðlast aldrei, aðal góðs listamanns; hann hefur sterka sýn. Bestu verk hans eru tvímælalaust þau einföldustu. Samanlagt eru sýningarnar tvær í Galleríi Skugga kærkominn fengur í sýningaflóruna og vonandi að sem flestir fari að sjá þær á meðan tæki- færi gefst. Ragna Sigurðardóttir Hin sterka sýn Verk Kimmo Schroderus: If not Today then Tomorrow. Verk eftir Charlottu Mickelsson. MYNDLIST Gallerí Skuggi Til 29. september, opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 11 til 17. BLÖNDUÐ TÆKNI, CHARLOTTA MICKELS- SON, KIMMO SCHRODERUS LISTASAFN Reykjavíkur býður gestum sínum til Skyndikynna við listamenn í Hafnarhúsinu á afmæl- issýningu Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, MHR-30, sunnudagana 29. september og 6. október kl. 15. Í dag munu þessir listamenn segja frá verkum sínum: Valgerður Guðlaugs- dóttir, Magnús Pálsson, Guðjón Ket- ilsson, Halldór Ásgeirsson, Magnús Sigurðarson, Finna Birna Steinson og Finnbogi Pétursson. Skyndikynni við listamenn BERGLJÓTU Jónsdóttur, stjórn- anda listahátíðarinnar í Bergen, stendur til boða fastráðning sem stjórnandi hátíðarinnar að því er greint var frá á netsíðu blaðsins Bergens Tid- ende, www.bt.no. Þessi möguleiki opnaðist eftir að stjórn hátíð- arinnar ákvað að breyta reglum þannig að unnt sé að fastráða stjórnandann. „Ég hikaði lengi áður en ég sagði já, því það er auðvelt að verða blindur gagnvart sjálfum sér og það versta sem getur hent menningarstofnanir er að staðna,“ sagði Bergljót í viðtali við blaðið. „En ég trúi því, sem betur fer, að ég muni vita þegar það er kominn tími til að hætta. Og ég vil endilega njóta aðstoðar góðra ráð- gjafa, innlendra sem erlendra.“ Það var stjórnarformaður listahátíðarinnar, Jannik Lindbæk, sem greindi frá ákvörðuninni, en til þessa hefur hver stjórnandi ein- ungis verið ráðinn til fjögurra ára þó sá möguleiki hafi verið fyrir hendi að framlengja ráðninguna í tvígang, ár í senn. Sjö ár eru nú lið- in frá því að Bergljót var ráðin sem stjórnandi listahátíðarinnar og sjálf segist hún ekki vita hversu lengi hún muni halda áfram. „Ég hef allt- af verið sú sem víkur og það hefði verið einfaldara fyrir mig að taka öðrum starfstilboðum. En nú segi ég já því listahátíðin í Bergen stendur frammi fyrir mörgum spennandi áskorunum.“ Heldur starf- inu jafnlengi og hún vill Bergljót Jónsdóttir ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.