Morgunblaðið - 11.01.2003, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 LAUGARDAGUR 11. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
STJÓRN Alcoa samþykkti á fundi sínum í
New York í gær að ráðast í byggingu 322 þús-
und tonna álvers við Reyðarfjörð undir merkj-
um Fjarðaáls sf. Áætlað er að álverið hefji
framleiðslu árið 2007 og að framkvæmdir hefj-
ist í ársbyrjun 2005. Í tilkynningu frá Alcoa
segir m.a. að álverið verði hið umhverfisvæn-
asta í heimi. Það muni kosta 1,1 milljarð
Bandaríkjadala, eða um 90 milljarða króna, og
muni skapa 450 störf í álverinu sjálfu og 300
störf í tengdum iðnaði og þjónustu, alls um 750
ný störf.
„Fjarðaál mun gegna lykilhlutverki í áætl-
unum Alcoa um aukin umsvif í framleiðslu
áls,“ er haft eftir Alain Belda, aðalforstjóra og
stjórnarformanni Alcoa, í fréttatilkynning-
unni. „Við leggjum nú áherslu á að lækka
framleiðslukostnað og ná enn aukinni fram-
leiðni. Þegar við skoðum ný verkefni víðs veg-
ar um heiminn munum við
halda áfram að endurmeta
hagkvæmni þeirra álvera
sem við starfrækjum nú, sér
í lagi í Bandaríkjunum þar
sem dýr orka og vinnuafl
hafa dregið úr samkeppnis-
hæfni margra álvera.“
Belda segist gera sér
grein fyrir því hve sérstök
náttúra Íslands sé og fyrir-
tækið heiti því að ganga
mjög varfærnislega um umhverfið þegar verk-
efnið haldi áfram. „Við hlökkum til að starfa
með Íslendingum og kjörnum fulltrúum þeirra
við að tryggja þessu verkefni brautargengi á
Alþingi þegar kemur til afgreiðslu heimildar-
frumvarps og annarra reglna og leyfa er að
þessu lúta,“ segir Belda og bætir því við að
samþykkt stjórnar Landsvirkjunar í gær hafi
glatt hann mjög.
Ekki fékkst staðfest hjá Alcoa hvort sam-
þykkt stjórnarinnar hefði verið samhljóða en
samkvæmt upplýsingum blaðsins sat fulltrúi
umhverfisverndarsamtakanna World Wildlife
Fund (WWF) hjá við atkvæðagreiðsluna. Ell-
efu manns sitja í stjórn Alcoa.
Jake Siewert, talsmaður Alcoa, sagði að-
spurður við Morgunblaðið í gærkvöldi að
starfsemi fyrirtækisins á Íslandi yrði í lág-
marki þar til framkvæmdir væru áformaðar
eftir tvö ár. Unnið yrði að ýmsum undirbún-
ingi í samstarfi við íslensk stjórnvöld og
heimamenn á Austfjörðum. Spurður hvort líta
mætti á samþykkt stjórnar Alcoa sem end-
anlega ákvörðun fyrirtækisins sagði Siewert
svo vera. Það hefði skuldbundið sig til að
starfa að verkefninu af heilindum með íslensk-
um stjórnvöldum, en þau ættu lokaorðið í mál-
inu.
„Þó að síðasta ár hafi verið erfitt í okkar
rekstri þá er fyrirtækið mjög fjárhagslega
sterkt. Ég get ekki séð að markaðsástæður í
áliðnaði geti breytt okkar áformum að neinu
marki. Stjórnin hefur komist að sinni niður-
stöðu en við munum vinna áfram við verk-
efnið,“ sagði Siewert.
Stjórn Alcoa samþykkti á fundi í New York í gær að ráðast í byggingu álvers á Reyðarfirði
Álverið kostar um 90 milljarða kr. í byggingu
og skapar alls 750 ný störf á Austfjörðum
Ljósmynd/Alcoa
„Álverið mun gegna lykilhlutverki í áætlunum Alcoa,“ segir forstjóri Alcoa, Alain Belda (t.h.),
sem hér er á tali við einn stjórnarmanna fyrirtækisins, Franklin Thomas, á fundi í New York.
Ætlað lykilhlut-
verk í auknum
umsvifum Alcoa
Jake
Siewert
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra
segir við Morgunblaðið að tíðindi
gærdagsins um ákvarðanir stjórna
Alcoa og Landsvirkjunar vegna ál-
vers í Reyðarfirði og Kára-
hnjúkavirkjunar séu gríðarlegur
áfangi fyrir þjóðina. Fyrir liggi
ákveðinn vilji beggja samningsaðila
um að ráðast í verkefnið. Óhætt sé
að telja að málið sé í höfn, þó að
nokkur atriði séu ófrágengin eins
og samningar við verktaka, ábyrgð-
ir eigenda Landsvirkjunar fyrir
lántöku og frumvarp iðnaðarráð-
herra á Alþingi. Davíð segir að nýtt
og öflugt hagvaxtarskeið sé að hefj-
ast.
„Menn hafa unnið að þessu verk-
efni með beinum eða óbeinum hætti
í á annan áratug. Oft hafa von-
brigðin verið mikil og menn hafa
ekki þorað að slá neinu föstu fyrr
en á stundu sem þessari. Nú telur
maður óhætt að segja að málið sé
komið í höfn. Þetta þýðir að hér er
að hefjast nýtt og öflugt hagvaxt-
arskeið, sem kemur í kjölfar 7–8
ára hagvaxtar sem aðeins hefur
hægst á upp á síðkastið,“ segir
Davíð.
Hann segir að atvinnuástand
muni eflast tiltölulega fljótt, tekjur
Íslendinga útávið aukast og kaup-
máttur muni gjörbreytast til hins
betra. „Þetta eru afar góð tíðindi
fyrir land og þjóð, ekki síst fyrir
Austfirðinga. Nú horfum við af
mjög vel rökstuddri bjartsýni fram
í tímann.“
Einlægur vilji og enginn
sýndarskapur hjá Alcoa
Forsætisráðherra segir það hafa
verið skemmtilegt að starfa með
stjórnendum Alcoa síðustu mán-
uðina, en fyrstu viðræður við fyr-
irtækið hófust í apríl á síðasta ári.
Hratt og hreinlega hafi verið unnið
og strax myndast mikill trúnaður
milli manna.
„Menn höfðu traust hver á öðr-
um um að einlægur vilji væri til
þess að láta verkin tala. Enginn
sýndarskapur í því. Á fyrri stigum
málsins hefur okkur stundum þótt
við vera dregnir á asnaeyrum. Hér
hefur verið um
gríðarstórar
ákvarðanir að
tefla og ekki á
færi nema
stærstu fyr-
irtækja að axla
þær. Þess vegna
var mjög gott,
þegar norska
fyrirtækið hvarf
frá borði með svo
óvæntum hætti, að Alcoa skyldi
koma svo fljótt til sögunnar. Þetta
eru því afskaplega góð tíðindi fyrir
landsmenn alla, sérstaklega fyrir
Austfirðinga, sem hafa sýnt mikið
þolgæði í gegnum tíðina og ekki
sparað hvatningar,“ segir Davíð.
Aðspurður hvernig megi meta
tíðindin í gær í sögulegu ljósi segir
Davíð framkvæmdirnar á Aust-
fjörðum þær stærstu sem Íslend-
ingar hafi tekist á hendur. Þetta sé
þó fyllilega sambærilegt við það
þegar ákveðið var að reisa álver
Alusuisse hér á landi á sjöunda
áratug síðustu aldar. Umhverfið nú
sé allt annað og betra hvað varðar
t.d. tækniþekkingu landsmanna og
lánstraust Landsvirkjunar og rík-
issjóðs.
Meirihlutinn í borginni hlýtur
að axla ábyrgð á verkinu
Stjórn Landsvirkjunar sam-
þykkti orkusamning við Alcoa í
gær, m.a. með þeim fyrirvara að
eigendur samþykki að gangast í
ábyrgðir fyrir lántökur. Hvort hann
eigi von á að Reykjavíkurborg sam-
þykki málið segir Davíð að meiri-
hlutinn í borgarstjórn hljóti að axla
ábyrgð á verki sem þessu.
„Afstaða meirihlutans í borginni
verður að vera klár. Það yrði með
ólíkindum ef sá meirihluti, sem hef-
ur sameinast um að stjórna borg-
inni, ætlaði að vísa ábyrgð á tug-
milljarða veðsetningu á fjármunum
borgarinnar til minnihlutans til af-
greiðslu. Þá væri það enn eitt
dæmið um að þessari borg er ekk-
ert stjórnað. Henni hefur reyndar
ekkert verið stjórnað um nokkra
hríð,“ segir Davíð.
Davíð Oddsson forsætisráðherra
Nýtt hagvaxtar-
skeið að hefjast
Davíð
Oddsson
VALGERÐUR Sverrisdóttir iðn-
aðarráðherra segir að ákvarð-
anirnar sem stjórnir Alcoa og
Landsvirkjunar tóku í gær séu það
stórar að málið sé komið á beinu
brautina að hennar mati. Allir geri
sér ljóst að eingöngu úrvinnslu-
atriði séu eftir til að ljúka því, auk
þess sem Alþingi eigi eftir að sam-
þykkja frumvarp til heimildarlaga
um álverið í Reyðarfirði. Fyrir
liggi vilji meirihlutans á Alþingi til
að ráðast í gerð Kárahnjúkavirkj-
unar, atkvæði féllu 44 gegn 9.
„Þessar framkvæmdir munu
hafa gríðarlega þýðingu fyrir þjóð-
arbúið í heild og ekki síst fyrir
Austurland og þá íbúa sem þar
búa. Þetta skiptir einnig máli þar
sem byggðaþróunin síðustu árin
hefur verið mjög neikvæð. Sam-
dráttur hefur verið í þjóðfélaginu
síðustu mánuði og enginn hag-
vöxtur á þriðja ársfjórðungi síð-
asta árs. Með þessu er rík-
isstjórnin að leggja sitt af mörkum
til að halda uppi lífskjörum. Þar að
auki erum við að nýta endurnýj-
anlegar orkulindir, sem allar þjóð-
ir eru að keppast við að gera og
öfunda okkur af.
Viðurkennt er á
alþjóðavísu að
miklu skiptir
fyrir umheiminn
að nýta end-
urnýjanlega
orku. Ég vona
að menn átti sig
á þessu,“ segir
Valgerður.
Hún segir það
ákveðið afrek að hafa náð svo
langt með málið og raun beri vitni,
eftir nokkra mánuði frá því að við-
ræður við Alcoa hófust. Vissulega
hafi miklu skipt að fullmótað verk-
efni hjá Norsk Hydro og Hæfi hafi
legið fyrir. „Ástæða er til að nefna
það sérstaklega hve þeir hafa stað-
ið sig vel sem hafa unnið að verk-
efninu fyrir okkar hönd. Þeir hafa
lagt nótt við dag síðustu níu mán-
uði til að ná þeim árangri sem nú
blasir við.“
Góð lífskjör kalla
á framleiðslu
Valgerður segir það ljóst að frá
fyrstu stundu hafi Alcoa unnið að
málinu af mikilli alvöru. Æðstu
stjórnendur hafi komið að því
strax, áhuginn hafi verið meiri eft-
ir sem ofar hafi dregið í valdastig-
anum. Því hafi t.d. verið öfugt far-
ið hjá Norsk Hydro, líkt og hafi
sýnt sig fyrir tæpu ári.
Áformaðar stóriðju- og virkj-
unarframkvæmdir á Austurlandi
hafa verið umdeildar og aðspurð
hvað hún hafi að segja á þessari
stundu við andstæðinga þeirra
framkvæmda segist Valgerður
gera sér grein fyrir því að þeir
hafi ekki lagt niður skottið. Hún
segist bera virðingu fyrir þeim
sjónarmiðum að vernda eigi há-
lendi Íslands. Hins vegar verði að
minna á að til að halda uppi lífs-
kjörum í landinu þurfi framleiðslu.
Um það snúist málið og þess
vegna séu framkvæmdirnar nauð-
synlegar.
„Ég minni bara á að málið hefur
farið í gegnum lögformlegt ferli.
Vilji Alþingis til virkjunar liggur
fyrir og þannig er nú lýðræðið að
menn verða að lokum að sætta sig
við vilja meirihlutans.“
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra
Miklu skiptir að nýta
endurnýjanlega orku
Valgerður
Sverrisdóttir
FRIÐRIK Sophusson, forstjóri
Landsvirkjunar, segir að með sam-
þykki stjórna Landsvirkjunar og
Alcoa hafi gríðarstórt skref verið
stigið í áttina að því að hefja verk-
efnið á Austurlandi. Því beri að
fagna en eftir eigi að reyna á ýmis
atriði áður en hægt verði að skrifa
undir bindandi samninga. Málinu
sé ekki alfarið lokið fyrr en skrifað
hafi verið undir alla samninga, út-
litið sé þó bjart.
Friðrik segir að mestu skipti að
eigendur Landsvirkjunar séu til-
búnir til þess að ábyrgjast þau lán
sem taka þurfi vegna Kára-
hnjúkavirkjunar. Sökum stærðar
og umfangs
verksins sé eðli-
legt að leita eftir
samþykki eig-
enda áður en
skrifað verði
undir samninga
við Alcoa í byrj-
un næsta mán-
aðar. Slíkt hafi
ekki gerst áður
varðandi samn-
inga um raforkusölu hjá Lands-
virkjun.
Aðspurður um hverja hann telji
niðurstöðu Reykjavíkurborgar
verða til ábyrgðar á lántöku segir
Friðrik yfirgnæfandi líkur á að allir
eigendur séu tilbúnir til að sam-
þykkja málið, ekki síst í ljósi nið-
urstöðu eigendanefndarinnar svo-
nefndu.
Friðrik segir að einnig sé eftir
að gera samning um stórar bygg-
ingarframkvæmdir, en viðræður
standi nú yfir við lægstbjóðanda,
ítalska fyrirtækið Impregilo. Frið-
rik segir að þar sé enn talsvert í
land þar sem slíkir samningar séu
flóknir. Einnig hafi verið rætt við
aðra tilboðsgjafa til að kanna hvort
eitthvað nýtt sé í spilunum hjá
þeim. Þetta mál muni skýrast á
næstu tveimur vikum.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar
Gríðarstórt skref í málinu
Friðrik
Sophusson