Morgunblaðið - 17.04.2003, Blaðsíða 37
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. APRÍL 2003 37
ÉG held ekki að hægt sé að nálg-
ast myndlist á einhvern einn ákveð-
inn hátt sem tekur öðrum fram.
Fyrst og fremst þurfa verkin að fá að
tala, lifa, njóta sín án fordóma áhorf-
enda, sem geta verið margvíslegir.
Sýningar vekja upp mismunandi
hugrenningar og tilfinningar hjá
áhorfendum, sumir myndlistarmenn
leggja sig fram um að vera vits-
munalegir í verkum sínum og hata
alla tjáningu og tilfinningar á meðan
aðrir virðast hafa þveröfugt viðhorf.
Þegar best lætur kemur fram fínt
samspil þarna á milli og áhorfandinn
finnur hjarta slá að baki hverju verki
á meðan hann samtímis gerir sér
grein fyrir faglegum og vitsmuna-
legum forsendum þess.
Nú vill svo vel til að sýningarnar
fjórar sem fjallað er um hér falla all-
ar undir það síðastnefnda, þegar
áhorfandinn finnur áþreifanlega fyr-
ir nærveru listamannsins, markmið-
um hans, faglegum metnaði og
sterkum tilfinningum.
Milli himins og jarðar
Þorgerður Sigurðardóttir nefnir
sýningu sína í Listasafni ASÍ Him-
inn og jörð. Hún leiðir áhorfandann
inn í verk sín í gegnum fallega
bernskuminningu sem hún segir frá í
sýningarskrá. Á sama stað fjallar sr.
Kristján Valur Ingólfsson um trúar-
leg tákn, en Þorgerður vinnur nokk-
uð með þau hér líkt og hún hefur
gert undanfarin ár. Þó held ég að nú
opni hún verk sín meira en áður og
margt fleira megi lesa úr þeim. Hún
hefur mestmegnis einbeitt sér að
grafíkverkum en sýnir nú fjölmargar
teikningar bæði stærri og minni,
unnar með blýi á akrílgrunn en áferð
þeirra minnir enn á grafíkverk. Í
þeim er nokkuð um hringi, ferninga
og krossa en eiginlega fannst mér ég
sjá í þeim allt milli himins og jarðar,
byggingar, sólkerfi, svarthol, stór-
borgir og á myndinni sem hér er birt,
sem er ein af einfaldari myndum
hennar en þó sú sem höfðaði mest til
mín, birkiskóg. Á sama tíma og hægt
er að lesa jarðbundin mótíf úr mynd-
unum má líka skoða þær í því tákn-
fræðilega og trúarlega samhengi
sem krossinn, hringurinn og ferning-
urinn bjóða upp á. Teikningar Þor-
gerðar eru kraftmiklar og opnar,
henni virðist liggja mikið á hjarta og
tekst að koma því til skila. Bernsku-
minning hennar var mér líka mik-
ilvægur tengiliður við verkin. Lista-
menn geta oft á tíðum skapað mun
sterkara samtal milli áhorfenda og
verka með því að fylgja verkum sín-
um úr garði með nokkrum einföldum
orðum.
Undir fögru yfirborði
G.Erla sýnir þrjú verk í Listasafni
ASÍ, í Gryfju, stigum og á þaksvöl-
um. Í Gryfju sýnir hún verkið Ef til
vill …, útsaumaðar servíettur á mál-
uðum bakgrunni. Formfagurt yfir-
borð kallast á við raunveruleikann í
þessu vel hugsaða og útfærða verki.
Hér er enginn nýr sannleikur á ferð
en skemmtileg útfærsla á kunnug-
legri hugsun. Það bætir þarfri vídd
við verkið að velja orðin sem saumuð
eru beint úr orðabók, þannig kemur
fram önnur speglun við opinbera lífið
og einkalífið, stafrófsröðin og lita-
skalinn eru mikilvægt mótvægi við
tilfinningaríkari hlið verksins. Í stig-
unum spilar G.Erla líka með kvenleg
sjónarhorn, ræstingatæknar í dag
eru víst flestir enn kvenkyns, bæði
heima og í vinnu þó þar séu sem bet-
ur fer undantekningar á. Þessar
undnu tuskur eru grátbroslegar og
smellnar og margt má úr þeim lesa,
m.a. hlutskipti listakvenna í gegnum
aldirnar. Víst hefur þar mikil breyt-
ing orðið á sem betur fer en jafnrétti
hefur samt ekki enn verið náð hvað
sem hver segir.
G.Erla nýtir sér þaksvalirnar hug-
vitsamlega í verki sínu Hvert, en ég
myndi ráðleggja barnafólki að hafa
gát á börnum sínum þar uppi þar
sem handriðið er lágt! Verkið Hvert
er unnið með koparþráðum og akrýl-
litum í akrýldúk. Hin tæra, fallega
hugsun sem er til staðar í hinum
verkunum tveimur er hér í útsaum-
uðum fótsporunum en umgjörðin er
heldur þunglamaleg. Það er fallegt
að hugsa sér hvernig sporin munu
veðrast og falla inn í bakgrunninn,
eins gæti maður hugsað sér að
sauma út í fótspor þeirra sem maður
elskar, eða fótspor barna sinna til að
varðveita þau að eilífu líkt og í ljóði
Halldórs Laxness úr Silfurtúnglinu;
Hvert örstutt spor, var auðnuspor
með þér … Verk G.Erlu eru hér í
anda listakvenna sem unnið hafa á
jafnréttissinnuðum nótum án þess að
verk þeirra verði á nokkurn hátt
áróðurskennd og hún sýnir hér vel
möguleika útsaums í samtímalistum.
Ómælisvíddir
Ragna Hermannsdóttir sýnir nú
vatnslitamyndir og teikningar í kjall-
ara Gallerís Skugga við Hverfisgötu.
Ragna á fjölmargar einka- og sam-
sýningar að baki og hefur auk mynd-
listarnáms við Myndlista- og hand-
íðaskólann og Ríkisakademíuna í
Amsterdam lokið heimspekiprófi frá
HÍ. Verk hennar eru þó langt frá því
að vera á fræðilegum nótum. Vatns-
litamyndir hennar byggjast mikið á
eiginleikum litanna sjálfra og hún
leitast við að skapa óræðar víddir
innan þeirra, einna best finnst mér
það takast þar sem litirnir eru ekki
ofunnir heldur fá að njóta sín léttir
og flæðandi. Auk vatnslitamyndanna
sýnir Ragna myndir unnar í tölvu,
þar sem bakgrunnurinn minnir að
nokkru leyti á flæði vatnslitanna og
síðan er teiknað ofan í það með línum
sem minna á olíukrít eða álíka. Hún
virðist líka notfæra sér eiginlega
tölvunnar til að brengla og skekkja
myndirnar svo að á litaglaðri og fjör-
legri mynd skapast dökkt og dular-
fullt andrúmsloft. Það er ákveðin
togstreita í þessum myndum sem er
spennandi. Ragna velur að teikna og
mála með tölvunni á hefðbundinn
hátt. Það er undarlegt að ný tækni
skuli reyna af fremsta megni að líkja
eftir því sem fyrir er, að tölvuforrit
reyni að líkja eftir því sem gert er
fríhendis á pappír. Útkoman er alltaf
vélrænni og fjarlægari. Það er ein-
mitt þetta sem Ragna vinnur að
mínu mati meðvitað með og tekur
síðan einu skrefi lengra með því að
brengla myndirnar, þær eru bæði
glaðlegar og næstum óhugnanlegar í
senn líkt og margt búi í litríkri þok-
unni.
Hraun og blúndur
Kristín Pálmadóttir sýnir ljós-
myndaætingar á jarðhæð í Gallerí
Skugga. Hún hefur áður sýnt hæfni
sína á þessu sviði með myndum af
landslagi, m.a. myndum frá Græn-
landi. Hér sýnir hún svarthvítar eða
tvítóna myndir af yfirborði grjóts og
má inn á milli greina klæði á mynd-
unum, einna skýrast á myndinni sem
hér er birt. Kristín er fær á sínu sviði
og myndir hennar einfaldar, hreinar
og beinar. Fínleg klæðin falla vel inn
í margbreytilegt yfirborð hrauns og
grjóts svo oft sést tæpast hvað er
hvað. Bláleitar myndir hennar eru
draumkenndar og búa yfir afar fal-
legri dýpt. Hún vinnur vel úr ein-
faldri hugmynd og mun án efa halda
áfram á þessari braut. Innan þessara
verka er vel rúm fyrir dirfsku og út-
úrdúra sem væru meira spennandi
en innsetning hennar í skáparými
gallerísins, ljósmyndaætingarnar
eru langtum betur heppnuð verk.
Er það hið kvenlega innsæi eða
hvað?
Ég velti því fyrir mér eftir að
skoða þessar fjórar sýningar hversu
hreinar og beinar mér fannst þær
allar og eins og ég sagði hér að ofan,
fannst mér ég finna fyrir nærveru
listamannsins, faglegum metnaði,
markmiðum og tilfinningum. Einnig
finnst mér viðfangsefni þeirra allra
vera margbreytileiki lífsins sjálfs og
þeim öllum takast að ná til áhorfenda
á áreynslulausan hátt. Ég er ekki
viss um hvort það eru hér konur á
ferð sem tala sterkar til kvenna, ég
er sjálf ekki hrifin af orðatiltækjum
eins og kvenlegt innsæi því innsæi
getur varla verið kynbundið. Þó vil
ég meina að munur sé oft á list
kvenna og karla en engum í óhag.
Kynin eru líka á margan hátt ólík en
ég skil ekki af hverju það þarf að
koma í veg fyrir jöfn laun. Ég get
ekki skilgreint í stuttu máli í hverju
þessi munur felst og án efa margir
mér ósammála um þetta. Það er líka
gefið mál að oft geta karlar unnið
sína list á kvenlegan hátt og öfugt.
Hvað sem því öllu líður eru hér fjór-
ar sýningar á ferð sem vert er að
skoða og njóta.
Kvenleg mýkt og margbreytilegt grjót í verki Kristínar Pálmadóttur á sýn-
ingu hennar sem stendur nú yfir í Galleríi Skugga á Hverfisgötu.
Ein af margræðum og kraftmiklum
teikningum Þorgerðar Sigurðar-
dóttur í Listasafni ASÍ.
Himinn og jörð
og allt þar á milli
Einkalífið og opinber hlið þess kemur skemmtilega fram í verki G.Erlu, Ef
til vill…, á sýningu listakonunnar í Listasafni ASÍ við Freyjugötu.
MYNDLIST
Listasafn ASÍ við Freyjugötu
Listasafn ASÍ er opið frá kl. 14–18, alla
daga nema mánudaga. Til 21. apríl.
HIMINN OG JÖRÐ, TEIKNINGAR,
ÞORGERÐUR SIGURÐARDÓTTIR
HVARF, BLÖNDUÐ TÆKNI, G.ERLA
Ragna Sigurðardóttir
Gallerí Skuggi, Hverfisgötu
Til 27. apríl. Sýningarnar í Galleríi
Skugga eru opnar frá kl. 13–17, alla
daga nema mánudaga.
RAGNA HERMANNSDÓTTIR, VATNS-
LITAMYNDIR OG TÖLVUTEIKNINGAR
KLÆÐI, KRISTÍN PÁLMADÓTTIR, LJÓS-
MYNDAÆTINGAR