Morgunblaðið - 17.04.2003, Síða 16

Morgunblaðið - 17.04.2003, Síða 16
16 C FIMMTUDAGUR 17. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÍÞAKA er lítil borg í norðurhluta NewYork-ríkis með um 30.000 íbúa en um60.000 þegar nemendur Cornell-há-skóla og Ithaca College bætast við.Þangað sækir fólk frá öllum heims- álfum til náms og starfa og hér búa ýmsir sem hafa valið það að búa í því andrúmslofti frjálslyndis sem borgin býður uppá. Óneit- anlega eru spurningar um framtíðarmögu- leika jarðarbúa knýjandi enda verða slíkar spurningar nálægar þar sem fólk úr ýmsum heimshornum er samankomið. Einnig er áhugavert að skoða hvað er ver- ið að vinna í myndlist á slíkum stað. Óvenju margir myndlistarmenn hafa sest að á svæðinu þótt það sé ekki í miklum tengslum við hinn valdamikla listaheim New York-borgar. Viðmiðanir geta verið margar og í Íþöku er viss fjarlægð á þá viðmiðun og það verðmætamat sem ríkir á Manhattan þótt fylgst sé með því helsta sem er að ger- ast og hægt sé að skreppa til að sjá sýn- ingar. Cornell-háskóli sem ríki í ríkinu Umhverfi Íþöku er hið fegursta þar sem borgin er á svæði Fingravatnanna (Finger Lakes). Borgin situr á og við hæðir sem ár og fossar falla um og ekki vantar gróskuna. Uppi í hárri brekku er svo háskólahverfið sem ríki í ríkinu. Þar er fjölbreytt menning- arstarfsemi á boðstólum fyrir alla, fyrir- lestrar, bíó, leikhús, tónleikasalir og lista- safn. Listasafnið Herbert F Johnson Museum of Art er með sýningar á nútímalist og einn- ig list frá liðnum öldum og kvikmyndahús Cornell er með metnaðarfullt val á kvik- myndum. Oft er eitthvert þema í kvik- myndahúsinu og undanfarið hafa áleitnar spurningar um stríð, frið og mannréttindi verið áberandi í efnisvali auk kvikmynda um fjarlæg og framandi menningarsvæði. Umræða um sögu blökkumanna í banda- ríkjunum eða „American Black History“ hefur einnig verið ofarlega á baugi og var t.d. febrúarmánuður helgaður henni. Sú um- ræða tengist oft umræðunni um þá stefnu sem nú ógnar í heimsmálum og umræðan um rasisma er hluti af því sem er mikið rætt hjá friðarsinnum og andstæðingum stríðsins við Írak. Bandaríkjamenn af afrískum upp- runa eru framarlega í baráttu gegn stefnu núverandi ríkisstjórnar og öll umræða um kynþáttahyggju og afleiðingar hennar er mjög heit. Verk tileinkuð frjálsri Palestínu á sýningu listasafns Cornell Listasafnið Herbert F Johnson Museum of Art hefur lagt áherslu á sýningar á nú- tímalist frá mismunandi stöðum í heiminum ásamt sýningum á bandarískri myndlist og list frá liðnum öldum. Þar var síðastliðinn vetur sýning á nýjum verkum eftir Rachid Koraichi sem er frá Alsír. Hann er flótta- maður og býr utan heimalandsins vegna of- sókna ofsatrúarmanna þar. Hann á djúpar rætur í hinum arabíska menningarheimi og hefur frá barnsaldri verið heillaður af heimi bóka og leturgerðarlistar. Á sýningunni voru stórar innsetningar, letur og abstrakt- teikning í ýmis efni. Þar má nefna Stíg rós- anna, The Path of Roses, þar sem unnið var með stórar hvít/ bláar keramikskálar, gullbróderuð teppi og kallígrafísk form í málm og fjallar að vissu leyti um leitina að frumspekilegu sambandi fegurðar og hins guðdómlega. Þótt letrið sem er bakgrunnur myndgerðarinnar sé framandi fyrir margan áhorfandann og ekki skiljanlegt sem letur þá skilar sér vel hið fagurfræðilega gildi línu og forma í kröftugri teikningu og öruggri pensilskrift listamannsins. Þar tekst í myndlistinni að miðla andblæ ljóðrænu og fegurðarþrár. Kraftmiklar stórar svart- hvítar ætingar fylltu einn salinn. Þær byggj- ast á ljóðum eftir palestínska skáldið og baráttumanninn Mahmoud Darwish og eru tileinkaðar baráttu fyrir frjálsri Palestínu. Hippaborgin Íþaka er vissulega ekki dæmigerð fyrir bandaríska smáborg og er stundum kölluð hippaborg en er kannski núna dæmigerð að mörgu leyti fyrir þann hluta bandarísks samfélags sem leitar að skynsamlegri lífsstíl en þeim sem hellist yfir í nútímamenningu okkar. Í Íþöku er kaupfélags-heilsubúðin Græna stjarnan (GreenStar Cooperative Market) sem hefur um 3.700 meðlimi en 30% varn- ings er selt til annarra en meðlima. Þar er hægt að fræðast um allt mögulegt, skoða framandi afurðir frá öllum heimshornum með áhugaverðum upplýsingum. Þar eru söl, heil og mulin til að bragðbæta salat, morgunkorn úr framandi korntegundum ásamt auðvitað tei, kaffi og fleiru sem selt er beint til að styðja framleiðslu í einhverju þróunarlandinu. Þar er líka upplýsingaefni, blöð, tímarit og námskeið í hollum eða um- hverfisvænum og ábyrgum lífsháttum. Þar verslar mikið af fólki sem leitast eftir að finna skynsamlegan lífsstíl. Þarna er hægt að setjast niður og lesa eða fá sér eitthvað verulega hollt að borða. Jafn- vel leikhorn fyrir börnin en það er líka í stóru bókabúðunum sem hafa komið upp á síðustu árum enda eru þær með vinsælli stöðum hjá litlu krökkunum sem draga gjarnan foreldrana eða ömmu í bókabúðina því barnadeildirnar eru svo skemmtilegar. Vissulega getur oft kaldur veturinn dreg- ið úr samskiptum og ástundun þess sem er í boði en rækilega lifnar yfir með hækkandi sól og hitastigi. Tengsl við fjarlægan menningarheim Á svæðinu eru óvenju margir listamenn og með mismunandi bakgrunn. Einn þeirra sem kemur frá Japan er Kumi Korf. Hún kom til Íþöku nýútskrif- aður arkitekt frá Tókýó. Í byrjun vann hún við hönnun bygginga en færðist síðan meir og meir í frjálsa myndlist. Bækur hennar (n.k. listbækur) eru handunnar og oft með skrifuðum ljóðum en stundum eingöngu myndverkum. Vinna með pappír er henni mjög hugleikin. Í bókum hennar og graf- íkmyndum kemur sterkt fram hin ríka hefð Japana í vinnu með pappír og hin lifandi form japanska letursins. Myndskrift hennar er oft eins og línurnar í náttúrunni umhverf- is. Viss einfaldleiki sem þó er alls ekki ein- faldur. Hún segist hugsa verkin og þá sér- staklega bækurnar svipað og hún væri að hanna byggingu. Minna bækur hennar óneitanlega á aldagamla hefð Japana í því að láta útfærslu allra smáatriða smella sam- an í heild sem leiðir hugann að einhvers konar upphöfnu samræmi. Verk um þrælahald og ofbeldi John Lyon Paul er myndlistarmaður í ná- grenni Íþöku. Hann er með vinnustofu í sveitinni í hinum skógi vöxnu hæðum. Þar vinnur hann í öll möguleg efni, málverk og skúlptúra. Hann er einn þeirra sem löngum hafa unnið að baráttu fyrir friði og gegn hernaðarstefnu og ofbeldi. Hann hefur unn- ið stór verkefni í skúlptúr sem eru talandi táknræn um slíkt efni þótt flest verka hans séu alveg abstrakt. Á vinnustofunni er nú í smíðum stórt verk úr tré og járni sem hann hefur unnið að síð- astliðin 2–3 ár og er einskonar minnisvarði og tákn gegn ofbeldi. Fyrirhugað er að verkið verði sýnt um Bandaríkin þver og endilöng til stuðnings baráttu gegn hern- aðarhyggju og ofbeldi. Verkið heitir „Many thousands gone“ og er það úr söng manns, fyrrverandi þræls, eftir lok bandaríska borgarastríðsins. Þessi söngur er þekktur undir nafninu „ekki fleiri uppboð á mér“. Trédrumbar þrír standa þétt saman og eru sem tákn fyrir fjölskylduna eða manneskjur og örlög þeirra. Lífrænt efni reyrt í járn- gjarðir og járnkrókar og hlekkir minna á harkalegan raunveruleika ýmiskonar ofbeld- is og pyntinga. Umhverfis í ytri hring eru „vitnin“, einnig úr tré með járngjörðum og hlekkjum. „Megi hinn kreppti hnefi ofbeldis verða að opinni hendi miskunnar“ er boðskapurinn sem listamaðurinn vill koma á framfæri með verkinu. Naglar hafa verið reknir í verkið af gestum til minningar um vissa atburði, per- sónur eða hópa sem hafa liðið eða eru nú í hættu vegna ofbeldis og verður því haldið áfram þar sem verkið verður sýnt. Málverk gegn stríði Victoria Romanoff er listakona sem býr í Íþöku. Hún var lítil stúlka í Þýskalandi á ár- um seinni heimsstyrjaldar og lifði af sprengjuregn í Hamborg og nágrenni þar sem hún hraktist milli staða í stöðugum ótta vegna loftárása. Hún var nýlega með sýn- ingu í galleríi í Íþöku þar sem voru sýnd málverk unnin útfrá þessum minningum. Málverkin voru tileinkuð andstöðu við stríð og ekki síst til að andmæla stríðinu við Írak sem þá var í uppsiglingu. Borgir gegn stríði – Íþökubúar samhuga Ekki er óeðlilegt að andstaða við stríð sé hlutfallslega mikil í samfélagi eins og Íþöku. Fjölmargar borgir og héruð og flestar þær sem við þekkjum hvað best til eru í hópi þeirra sem hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn stríði við Írak. Í þessum hópi þar sem voru 162 borgir og héruð þegar stríðið hófst eru til dæmis Baltimore, Boston, Houston, San Francisco, Chicago og New York City. Yfirlýsingin sem var samþykkt af meirihluta borgarstjórnar viðkomandi borgar er mis- róttæk. Sumstaðar var hún bundin við að andmæla stríðinu, væri það ekki háð með samþykki Sameinuðu þjóðanna en annars staðar var ályktunin alfarið gegn stríðinu við Írak. Í Íþöku var hún samþykkt af öllum borgarstjórnarfulltrúunum 10 og yfirlýsing þeirra mjög eindregin. Hægt er að kynna sér yfirlýsinguna nánar á netslóðinni: www.citiesforpeace.org. Nú í vetur hafa víða blasað við skilti í gluggum og fyrir utan hús með boskap eins og „ekki sprengja fyrir mig“, „ekki í mínu nafni“, „ekki stríð við Írak“ eða „friður á jörð“. Mikill munur er á viðhorfi og allri um- ræðu meðal Íþökubúa og þeirri stemningu og stíl sem virðist ráða á stóru sjónvarps- stöðvunum í allri umræðu um stríðið í Írak eins og auðvitað um margt fleira. Það er ekki hægt að lýsa mannlífinu í Íþöku núna án þess að segja frá þessari sterku andstöðu við stríðsrekstur sem þar ríkir. Einnig er gott og gagnlegt að fá að kynnast því hvern- ig fólk frá mismunandi menningarheimum getur lifað saman í sátt og sýnir á marg- víslegan hátt einlægan áhuga fyrir því að bæta heiminn og leitar leiða til þess. Herbert F. Johnson, listasafn Cornell-háskólans, og verkið Remembrance eftir David Stromeyer. Í friðsælli götu í Íþöku stendur skilti, eitt af mörgum þar í vetur, þar sem Íraksstríðinu er mótmælt með áletruninni Ekkert stríð gegn Írak. John Lyon Paul vinnur við verk gegn ofbeldi og stríði. Borgin Íþaka í norðurhluta New York-ríkis ber sterkan svip af al- þjóðlegu listalífi og öflugri umræðu um þjóðfélagsmál. Það er því ekki hægt að lýsa mannlífinu í borginni þessa dagana án þess að lýsa þeirri sterku andstöðu sem þar ríkir gegn stríðsrekstri Bandaríkjamanna. Jóhanna Bogadóttir var við störf í borginni. Ljósmyndir/Jóhanna Bogadóttir Hinn alsírski Rachid Koraichi við vinnu, en verk hans sækja í hinn arabíska menningarheim. Mannlíf og list gegn stríði Höfundur er myndlistarmaður.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.