Morgunblaðið - 24.04.2003, Page 20

Morgunblaðið - 24.04.2003, Page 20
Við Abu Ghraib-fangelsið við Bagdad fundust lík fimm manna, sem hurfu daginn eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í borgina. Líklega voru þeir með síðustu fórnarlömbum Saddams. AWATIF Hamdani, 22 ára gamall lækna- nemi, hvarf í nóvember 1981 ásamt eig- inmanni sínum, Ali Nassir. Awatif var þá ófrísk og 6. júní 1982 ól hún dóttur, sem hlaut nafnið Duaa, í Rashid-kvennafangels- inu í Bagdad. Var barninu komið til ætt- ingja hennar og í september sama ár var hún hengd, mánuði eftir að eiginmaður hennar hafði verið hengdur í öðru fangelsi. Tímabilið 1979 til 1982 var einn sam- felldur skelfingartími í lífi fjölskyldna þeirra hjóna. Um var að ræða menntaða sjíta, lækna og verkfræðinga, en þeir voru grun- aðir um að vera hliðhollir Írönum. Það var dauðasök eftir að Saddam Hussein komst til valda og á dögum Persaflóastríðsins fyrsta milli Íraka og Írana. Átta aðrir ættingjar Awatif, þar á meðal Rafel, bróðir hennar, hurfu einfaldlega, voru sóttir í kennslustund, í vinnuna eða hand- teknir á götu úti af öryggislögreglunni. Var því aldrei svarað hvort þeir væru látnir eða lifandi. „Frjáls en harmi slegin“ Fjölskyldan fékk svarið við því fyrir nokkrum dögum: Að minnsta kosti sjö mannanna átta eru látnir, voru teknir af lífi. „Við erum frjáls en harmi slegin,“ sagði Abdel Salman Kahachi, frændi Awatif, en sonur hans, Mazen, hvarf 1981 þegar hann var við framhaldsnám og er sá eini, sem er hugsanlega á lífi. Í meira en 20 ár beið fjölskyldan milli vonar og ótta eftir þessum fréttum og Duaa var til dæmis aldrei sagt neitt um örlög for- eldra sinna. Hún ólst upp hjá afa og ömmu og hefur alltaf litið á þau sem foreldra sína. Abdel segir, að nú verði henni sagður sann- leikurinn. Það er eins og allar flóðgáttir hafi opnast með falli Saddam-stjórnarinnar. Fólk þorir nú loks að tala um ástvini sína, sem hurfu á dögum harðstjórnarinnar, voru handteknir og líflátnir fyrir það eitt að láta einhver óvarleg ummæli sér um munn fara. Mazen Salman Kahachi, sonur Abdels, hvarf í nóvember 1981 ásamt flestum bekkj- arfélögum sínum eftir að einn þeirra hafði skrifað slagorð gegn stjórninni á töfluna. Ljóst þykir, að sjö þeirra voru teknir af lífi en ekkert er vitað um örlög hinna 56, þar á meðal Mazens. Mannréttindasamtök segja, að um 300.000 manns að minnsta kosti hafi horfið síðast- liðin 25 ár og líklega miklu fleiri. Þeir síð- ustu voru sóttir að næturlagi eftir að banda- rískir hermenn réðust á Bagdad. „Við verðum að grafa“ Fólk leitar nú upplýsinga í fangelsunum, grafreitunum og á stjórnarskrifstofum og margir halda í þá von, að einhverjir séu enn fangar í einhverjum skúmaskotum stjórn- arinnar, neðanjarðarhvelfingum og göngum. „Þeir gætu verið hér undir,“ sagði Basm- an Jawad Abas þar sem hann eigraði um fyrir utan Abu Ghraib-fangelsið við Bagdad í leit að bróður sínum, Kanan, sem var handtekinn 1985. „Við verðum að grafa,“ sagði hann um leið og hann litaðist um í einu aftökuherbergjanna með tveimur gálg- um. „Biðjið Bandaríkjamennina að koma með tæki.“ Á öðrum stað í fangelsinu voru grafin upp lík fimm af átta mönnum, sem voru hand- teknir 10. apríl, daginn eftir að Bandaríkja- menn réðust inn í Bagdad. Ættingjar tveggja mannanna segja, að þeir hafi haft gervihnattasíma, sem þeir notuðu til að hafa samband við liðsmenn stjórnarandstöðunnar í norðurhluta landsins. Upp um þá komst þegar Saddam-stjórnin var að falla og lík- legt, að þeir hafi verið meðal síðustu fórn- arlamba hennar. Líkin voru með hettu á höfði, hendur bundnar aftur á bak og kúla gegnum höfuðið. Haid Hassan, þrítugur að aldri, fylgdist með er frændur hans, með klút fyrir vitum vegna daunsins, drógu annað lík upp úr jörðinni. Mahday, bróðir hans, var einn þeirra þriggja, sem ekki höfðu fundist. „Ég missti bróður minn en jafnvel það er ekki hátt verð fyrir að losna við Saddam,“ sagði hann. „Við viljum, að börnin okkar geti búið við frelsi og fögnum þessu tæki- færi. Ég vona, að Bandaríkjamenn séu ekki bara eins og hvert annað innrásarlið.“ Nýstofnuð mannréttindasamtök í Bagdad reyna að aðstoða fólk í leit að horfnum ást- vinum þess en verkið er ekki auðvelt. Stjórnarstofnanir hafa verið rændar og skjölin ýmist brunnin eða í höndum fólks um alla borgina. „Þetta er ein allsherjar- ringulreið,“ segir Ibrahim Raowf Idrissi, stofnandi samtakanna. „Við verðum að fá aðstoð annarra samtaka.“ Skólastjórinn framseldi nemendurna Rafel, bróðir Awatif, var 22 ára tann- læknanemi er hann var handtekinn í desem- ber 1980. Í apríl 1981 var Abdul Hamdani, frændi Awatif, 23 ára læknanemi, handtek- inn. Mánuði síðar var frænka hennar, Jinan Kahachi, sem var að nema lyfjafræði, hand- tekin, dæmd í lífstíðarfangelsi en látin laus 10 árum síðar. Bróðir hennar og tveir frændur voru dæmdir í fangelsi, fimm ára, átta ára og til lífstíðar, en voru látnir lausir síðar. Sex eldri menn í fjölskyldunni voru handteknir en sleppt eftir hálft ár. Voru þeir pyntaðir á ýmsa lund, meðal annars barðir með stálvírum. Einn þeirra, Dhafer Kahachi, er alsettur örum eftir meðferðina. Skólastjórinn í skóla Mazens framseldi hann og allan bekkinn í hendur yfirvalda 5. nóvember 1981. 14. nóvember voru Awatif og eiginmaður hennar handtekin. Fjórum dögum síðar voru Arkan Kahachi og frændi hans, Amjid Asadi, handteknir úti á götu og 21. nóvember var Alia Hamdani, systir Abduls, dregin út af sjúkrahúsi í Bagdad þar sem hún vann sem lyfjafræðingur. Eftir handtöku Arkans og Amjids voru sex konur í fjölskyldunni handteknar og hafðar í haldi í níu mánuði. „Líflátinn“ Síðastliðinn laugardag kom Dhafer inn á heimili fjölskyldunnar í Norðvestur-Bagdad. „Þeir eru allir látnir,“ sagði hann. „Allir nema Mazen.“ Fólkið brást við fréttunum með miklum kveinstöfum en það hafði hald- ið dauðahaldi í vonina um, að þeir væru kannski á lífi á einhverjum leyndum stað. Dhafer hafði fundið skjöl frá öryggis- lögreglunni í mosku og sum, sem vörðuðu fjölskylduna hans. „Líflátinn“ hafði verið stimplað á skjölin, sjö alls. Ein kona lét bugast og var studd inn í svefnherbergið. Hinar konurnar fylgdu grátandi á eftir. Alaa, sem saknaði Arkans, sonar síns, hróp- aði í sífellu „nei, nei, nei“. Lucian Perkins Mikill ys og erill er jafnan hjá nýstofnaðri mannréttindanefnd í Bagdad, sem reynir að aðstoða fólk við að hafa uppi á týndum ættingjum og venslafólki. Opinber skjöl um afdrif fólksins eru hins vegar ýmist brunnin eða á tvist og bast um alla borg. Adel Salman Kahachi með mynd af syni sínum, Mazen. Hann var 18 ára er hann var handtek- inn 1981 ásamt næstum öllum bekkjarfélögum sínum. Dauðinn knýr dyra eftir 20 ára bið Eftir fall Saddam-stjórnarinnar geta Írakar loks farið að grafast fyrir um örlög ástvina sinna, sem hurfu inn í dýflissur harðstjórnarinnar. Leitin endar næstum alltaf á einn veg. ’ Ég missti bróðurminn en jafnvel það er ekki hátt verð fyrir að losna við Saddam. ‘ Bagdad. Los Angeles Times. ERLENT 20 FIMMTUDAGUR 24. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.