Morgunblaðið - 27.04.2003, Síða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27. APRÍL 2003 11
Mér hefur fundist á þessum fjórum árum að
við höfum verið að vinna okkar störf með lág-
marksþingmannafjölda. Ef við fáum skilaboð
sem eru með þeim hætti sem kemur fram í
skoðanakönnunum eigum við ekkert erindi í
ríkisstjórn.“
Þú sagðir hér áðan að flokkurinn hefði lagt
mikið á sig í virkjanamálum og kannski meira
en flokkurinn þoldi. Hvað áttu við með því?
„Ég á við með því að við fengum mikla and-
stöðu bæði á Austurlandi, vegna þess að við
gátum ekki svarað til um það í aðdraganda
síðustu kosninga hvenær niðurstaða fengist í
þessu máli, og síðan hér á Suðvesturlandi
vegna sterkra tilfinninga í umhverfismálum.
Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið
flokkur sem hefur lagt áherslu á umhverfis-
mál. Það eru mjög margir náttúruunnendur í
flokknum og það fannst mörgum í flokknum
við ganga of hart fram í málinu.
Við tókum málefni Þjórsárvera mjög alvar-
lega og það var umræða innan flokksins um
það að blása það allt saman af. Við sem vorum
í forystu flokksins gerðum okkur grein fyrir
því að það gæti þýtt að verksmiðjan á Grund-
artanga yrði alls ekki stækkuð en þeir sem
byggðu verksmiðjuna á sínum tíma höfðu fyr-
irheit um slíka stækkun. Þess vegna ákváðum
við að reyna til þrautar að finna lausn sem
tryggði friðlandið. Það tókst. “
Þannig að tillaga Jóns Kristjánssonar setts
umhverfisráðherra í máli Norðlingaölduveitu
hefur þá verið mikill léttir fyrir flokksmenn
Framsóknar?
„Jón Kristjánsson lagði mikla vinnu í að
leysa þetta mál og allir sanngjarnir menn
hrósa niðurstöðunni. Frammistaða Jóns sýnir
hvað það er mikilvægt að stjórnmálamenn
gefist ekki upp við að finna bestu lausnina á
hverjum vanda.“
Má ekki segja að það hafi orðið trún-
aðarbrestur á milli stjórnvalda og Lands-
virkjunar þegar leitað var annað en til fyr-
irtækisins eftir tillögu um útfærslu á
Norðlingaölduveitu?
„Það liggur fyrir að Landsvirkjun lagði
mikla áherslu á að fá sem hagkvæmasta nið-
urstöðu. Umhverfisráðherra varð að taka tillit
til annarra sjónarmiða og það tókst að finna
lausn þar sem var viðunandi samræmi milli
viðhorfa beggja. Það var mikið ánægjuefni.“
Verðið þið áfram í ríkisstjórn hvað munið
þið leggja til í orkumálum?
„Það verða virkjanaframkvæmdir í gangi
allt næsta kjörtímabil og það er nægur tími til
þess að kanna ýmsa kosti fyrir framtíðina,
bæði hvað varðar jarðhita og vatnsafl. Við
höfum beitt okkur fyrir því að rammaáætlun
hefur verið sett í gang og við munum vinna
áfram á þeim grundvelli. Ég á ekki von á að
það komi til neinna sambærilegra árekstra og
við höfum orðið vitni að á síðustu árum. Ég
held að þessi mál muni sigla nokkuð lygnan
sjó á næsta kjörtímabili.“
Taka ekki þátt í byltingarkenndum
hugmyndum
Þú hefur lýst því yfir að þú hafir mikinn
áhuga á áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Má
líta svo á að atkvæði greitt ykkur sé atkvæði
greitt núverandi ríkisstjórn, munið þið útiloka
samstarf við aðra flokka?
„Ég kannast ekki við að hafa gefið neina
slíka yfirlýsingu. Við erum tilbúnir til sam-
starfs við alla flokka. Hins vegar teljum við að
samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hafi verið
farsælt og við höfum lagt á það áherslu að það
sé kominn tími á það að Framsóknarflokk-
urinn fái forystuhlutverk í íslenskum stjórn-
málum. Gengi okkar í kosningum mun fyrst
og fremst ráða því. Við erum hins vegar ekki
tilbúnir að fara í ríkisstjórnarsamstarf sem
setur stöðugleikann í hættu eða taka þátt í
einhverjum ævintýrum og byltingarkenndum
hugmyndum um undirstöðumál í íslensku
samfélagi en margar hugmyndir stjórnarand-
stöðunnar ganga í þá áttina.“
Þrátt fyrir það haldið þið opnu samstarfi
við þessa flokka?
„Ríkisstjórnarsamstarf er samkomulags-
mál. Þeir sem vilja vera í ríkisstjórn verða að
gera sér grein fyrir því að þeir þurfa að
semja. Við höfum rekið hér ákveðna utanrík-
isstefnu sem byggist á aðild að Atlantshafs-
bandalaginu og varnarsamstarfinu við Banda-
ríkin. Við erum ekki tilbúnir að breyta því og
við erum ekki tilbúnir að setja ríkisfjármálin í
hættu. Í því sambandi vil ég ekki draga dul á
að mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn ganga
fulllangt í þeim efnum. Við í Framsókn-
arflokknum erum að tala um skattalækkanir
upp á rúma 16 milljarða. Þeir eru að tala um
skattalækkanir upp á 30 milljarða. Ég tel að
það verði ekki gert nema með verulegum nið-
urskurði í velferðarkerfinu eða með því að
reka ríkissjóð með miklum halla.“
Þú sagðir áðan að þið mynduð sækjast eftir
forystuhlutverki haldi þessi ríkisstjórn velli.
Hversu mikla áherslu mun Framsóknarflokk-
urinn leggja á að fara með forsætisráðu-
neytið?
„Við munum leggja mjög mikla áherslu á
það. Samningsstaða okkar mun ráðast af
gengi okkar í kosningunum. Við misstum þrjá
þingmenn í síðustu kosningum og staða okkar
til að krefjast forystu í ríkisstjórn var mjög
slæm.“
Í nokkrum könnunum undanfarið hefur þú
ekki verið með öruggt þingsæti. Telurðu að
það hafi verið mistök af þér að taka sæti í
öðru Reykjavíkurkjördæmanna?
„Nei. Mér fannst rétt að formaður flokksins
setti sig í þessa baráttu. Ég er ekki svartsýnn
í því sambandi en ég verð að sjálfsögðu að
taka örlögum mínum eins og aðrir.“
Afkastamesta
utanríkisþjónusta í heimi
Utanríkisþjónustan hefur vaxið í þinni tíð
og þú hefur meðal annars stofnað til friðar-
gæslu. Lifum við á breyttum tímum, með til-
liti til þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi?
„Þegar ég kom inn í utanríkisráðuneytið
fyrir átta árum var varið 0,43% af landsfram-
leiðslu til utanríkismála. Á árinu 2003 er þetta
hlutfall 0,65%. Langstærsti hlutinn af þessari
aukningu er til þróunarmála og friðargæslu.
Við höfum stofnað nokkur ný sendiráð í sam-
ræmi við þær kröfur sem alþjóðavæðingin
gerir til okkar og ég tel að sú styrking sem
orðið hefur á utanríkisþjónustunni hafi verið
mjög mikilvæg og því fjármagni hafi verið vel
varið.
Ég verð hins vegar var við það núna í kosn-
ingabaráttunni að andstæðingar mínir dreifa
því mjög að þarna hafi verið rangar áherslur
og virðast fá nokkrar undirtektir. Þetta eru
jafnvel sömu mennirnir og voru fyrstir til að
leggja það til að það yrði stofnað sendiráð í
Japan með þingsályktunartillögu á Alþingi.
Ég tel að við verðum, ef við ætlum að halda
sjálfstæði okkar og stöðu í heiminum, að reka
öfluga utanríkisþjónustu. Alþjóðavæðingin
gerir sífellt meiri kröfur. Við verðum stöðugt
háðari viðskiptum og samskiptum við önnur
lönd. Samningar við önnur ríki; Evrópusam-
bandið, Alþjóðaviðskiptastofnunina og aðra
skipta sköpum fyrir framtíð landsins.
Ég fullyrði að við erum með minnstu, en af-
kastamestu og skilvirkustu utanríkisþjónustu
í heimi. Lúxemborg, sem er í hjarta Evrópu,
er til dæmis með mun fleiri sendiráð og skrif-
stofur en við og Danir og Norðmenn með
fimm sinnum fleiri.
Þeir sem gagnrýna utanríkisþjónustu okk-
ar gleyma alltaf að skýra út hvers vegna aðr-
ar þjóðir telja nauðsynlegt fyrir sína hags-
muni að reka miklu stærri og fjölmennari
þjónustur en við.“
En á tímum tækniframfara þar sem hægt
er að tala saman augliti til auglitis á milli
landa í gegnum tölvur, telurðu samt sem áður
nauðsynlegt að opna sendiráð?
„Við getum ekki haft alþjóðasamskipti í
gegnum síma og tölvur. Það er ekki hægt að
semja um viðkvæm og mikilvæg mál í gegnum
tölvur. Þú færð ekki skilning á þínum málstað
og þínum hagsmunum í gegnum tölvur. Fólk
verður að hittast og læra að meta hagsmuni
hvert annars. Það verður ekki gert nema með
samskiptum. Tölvurnar eru gott hjálpartæki
en ekkert meira.“
Gereyðingarvopn munu finnast
Aðeins að Íraksstríðinu. Enn hafa engin
gereyðingarvopn fundist í Írak. Myndirðu
telja það áfall ef engin slík finnast fyrir þá
sem stóðu að stríðinu?
„Það sem hefur fundist eru grafir ungs
fólks fyrir utan fangelsi í Bagdad þar sem
u.þ.b. 40 hafa verið líflátnir í hverrri viku. Það
var sagt að slíkt væri ekki fyrir hendi. Það
hafa fundist lyf í stórum stíl en það var sagt
að það væri lyfjaskortur. Það hafa fundist
peningar í kössum sem hefði verið hægt að
nota til að kaupa mat og lyf fyrir sveltandi
börn en það var sagt að þessir peningar væru
ekki til. Ég tel að gereyðingarvopn muni finn-
ast. Saddam Hussein gerði aldrei grein fyrir
þeim gereyðingarvopnum sem hann við-
urkenndi að eiga árið 1991. Gátan um örlög
þeirra verður áreiðanlega ráðin. Þetta mál
verður metið þegar allt er komið í ljós og það
er of snemmt að dæma um það.“
Ríkið seldi Lands- og Búnaðarbanka á dög-
unum. Verði Framsóknarflokkurinn áfram í
ríkisstjórn, hyggið þið á frekari einkavæð-
ingu?
„Við teljum rétt að halda áfram með athug-
un á sölu Símans en við viljum stíga þau skref
varlega. Við erum andvígir einkavæðingu í
heilbrigðiskerfinu. Við teljum að Íbúðalána-
sjóður eigi áfram að vera í eigu ríkisins og
leggjum mikla áherslu á að hægt verði að
hækka lánshlutfall við íbúðakaup. Í stefnu-
skrá okkar fyrir þessar kosningar er lagt til
að þau mörk verði hækkuð í 90% af kaupverði
venjulegs húsnæðis.
Hvað Lánasjóð íslenskra námsmanna varð-
ar kemur ekki til greina að einkavæða hann
eins og hugmyndir hafa verið uppi um. Við
teljum lánasjóðinn algjöra forsendu þess að
allir eigi jafnan aðgang að námi án tillits til
efnahags og annarra aðstæðna.“
Að lokum, þetta er níunda kosningabar-
áttan þín. Hvernig líturðu á framtíð þína í
stjórnmálum og í formannsstóli Framsókn-
arflokksins?
„Á mér er enginn bilbugur. Ég verð nú ekki
í þessu að eilífu en ég hef ekki ákveðið hvað ég
ætla að vera lengi. Ef ég fæ traust kjósenda
þá er ég skuldbundinn að vinna fyrir þeirra
hönd og ég ætla mér að standa undir því.“
Morgunblaðið/Jim Smart
rsj@mbl.is
’ Fyrstu fjögur árin varflokkurinn með fimmtán
þingmenn. Við töpuðum
fylgi í síðustu kosningum
og fengum tólf þingmenn.
Mér hefur fundist á þess-
um fjórum árum að við
höfum verið að vinna okk-
ar störf með lágmarks-
þingmannafjölda. Ef við
fáum skilaboð sem eru
með þeim hætti sem kem-
ur fram í skoðanakönn-
unum eigum við ekkert
erindi í ríkisstjórn. ‘