Morgunblaðið - 27.04.2003, Síða 14
14 SUNNUDAGUR 27. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ
„STARFIÐ leggst mjög vel í mig og móttök-
urnar í bankanum hafa verið afar hlýjar. Ann-
ars er ég svona rétt að byrja að skoða hvernig
hlutirnir eru gerðir hérna. Eins og flestir
þekkja tekur alltaf einhvern tíma að koma sér
inn í nýtt starf,“ sagði Sigurjón Þorvaldur
Árnason, nýráðinn bankastjóri Landsbank-
ans, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Athygli vakti þegar bankaráð Landsbanka
Íslands gaf út tilkynningu um að Sigurjón
hefði verið ráðinn bankastjóri Landsbankans
við hlið Halldórs J. Kristjánssonar í síðustu
viku. Sigurjón telst til yngri bankastjóra þó að
hann sé reyndar elstur í hópi þriggja viðmæl-
enda Morgunblaðsins í hópi bankastjóra að
þessu sinni. Hann er sonur Árna Bergþórs
Sveinssonar, framkvæmdastjóra í Reykjavík,
og Snjólaugar Önnu Sigurðardóttur kennara
og er fæddur 24. júlí árið 1966. Sambýliskona
Sigurjóns er Kristrún Þorsteinsdóttir og eiga
þau von á sínu fyrsta barni síðar á árinu. Fyr-
ir á Sigurjón einn son, Garðar, fæddan árið
1992.
Stærðfræðihugsun gagnleg
Sigurjón gekk í Menntaskólann í Reykjavík
og varð semidúx á stúdentsprófi úr eðl-
isfræðideild árið 1986. Hann varð dúx í véla-
verkfræði á iðnaðarverkfræðilínu frá Háskóla
Íslands árið 1992. Að því námi loknu nam
hann fjármálafræði til MBA-gráðu við
University of Minnesota og eina önn í Japan
og hagverkfræði við Tækniháskólann í Berlín
í Þýskalandi.
Sigurjón var spurður hvort hann teldi að
grunnmenntun á sviði raungreina nýttist al-
mennt vel í fjármálaheiminum. „Já, eins og
reyndar á fleiri sviðum. Stærðfræðihugsun
kemur víða að góðum notum. Hinu er ekki að
leyna að nauðsynlegt er að bæta einhvers
konar fjármálalegri menntun ofan á slíka
menntun til að komast almennilega inn í við-
skiptaheiminn.“ Ákveðin persónueinkenni eru
kannski nauðsynleg í bland? „Jú, jú, mikið
rétt og viðskipti eru auðvitað blanda af mann-
legum samskiptum og hvers konar samn-
ingagerð. Traust er afar mikilvægt og svo
auðvitað að vita hvert maður stefnir.“
Gífurlegar breytingar
Sigurjón hóf störf í Búnaðarbankanum árið
1995 og gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá
bankanum frá 1998. Hann var framkvæmda-
stjóri rekstrarsviðs þegar hann var ráðinn
bankastjóri Landsbankans. Hann segir að gíf-
urlegar breytingar hafi orðið á íslenskum verð-
bréfamarkaði frá því hann hóf störf í Bún-
aðarbankanum fyrir 8 árum. „Ef mig misminnir
ekki var ég annar í röðinni til að byrja að fylgj-
ast með Verðbréfaþinginu hjá Búnaðarbank-
anum á sínum tíma. Ég býst
við að svipaður fjöldi hafi
verið að fylgjast með verð-
bréfamarkaðnum í hinum
bönkunum og svona einn til
tveir að eiga þar einhver
viðskipti. Núna minnir mig
að miðlararnir séu orðnir 92
í Búnaðarbankanum. Heilu
fyrirtækin hafa verið stofn-
uð um verðbréfaviðskipti.
Samhliða þessum breyt-
ingum á fjármálamark-
aðnum hafa orðið gífurlegar
breytingar í atvinnulífinu.
Verðbréfamarkaðurinn býð-
ur upp á breytingar á eign-
araðild fyrirtækja. Að fyr-
irtæki séu keypt af öðrum
fyrirtækjum eða deild í einu
fyrirtæki seld yfir í annað
o.s.frv. Þannig að segja má
að þessi mikla breyting sem orðið hefur á ís-
lensku atvinnulífi hefði aldrei getað orðið nema
vegna þess að fjármálamarkaðurinn var farinn
að þróast með þeim hætti sem við þekkjum.“
Sókn innan- og utanlands
Björgólfur Guðmundsson, formaður banka-
ráðs Landsbankans, hefur látið hafa eftir sér að
Landsbankinn verði ekki lengi minnsti banki á
Íslandi. Hvernig heldur þú að ykkur Halldóri
eigi eftir að ganga að standa undir þessum
væntingum? „Við ætlum að standa undir þess-
um væntingum. Að Landsbankinn vaxi uppúr
því að verða minnsti bankinn hvað efnahag
varðar á tiltölulega skömmum tíma. Nú hefur
harðsnúið lið bæst við allan þann góða mann-
skap sem fyrir var í Landsbankanum og í und-
irbúningi er sókn bæði á innanlands- og utan-
landsmarkaði. Halldór leiðir væntanlega
útrásina og gerir ráð fyrir að í því starfi verði
byggt á grunni Heritable-bankans. Ég legg
meiri áherslu á innanlandsmarkaði,“ svarar
Sigurjón og er spurður að því hvaða áherslur
hann muni leggja í þeirri sókn. „Ég mun leggja
mikla áherslu á að ferlar innan fyrirtækisins
verði með þeim hætti að í
senn sé hægt að taka
ákvarðanir hratt, af fag-
mennsku og fullkominni
yfirvegun. Hitt verður tím-
inn að leiða í ljós.“
Viðhorf ekki tengd
aldursskeiðum
Sigurjón er í framhaldi
af umræðum um samein-
ingu bankastofnana inntur
eftir því hvort að til greina
komi að sameina Lands-
banka og Íslandsbanka.
„Ég á ekki von á því að svo
verði í framtíðinni. Hins
vegar er því ekki að neita
að bankarnir ættu að ein-
hverju leyti að geta unnið
saman á ákveðnum svið-
um. Miðað við hvað hefur
verið að gerast á vettvangi Samkeppnisstofn-
unar á maður fyrirfram von á að hugmyndir
um sameiningu yrðu erfiðar viðfangs.“
Sigurjón var spurður að því hvort hann ætti
von á því að kynslóðaskipti í sætum banka-
stjóra þriggja stærstu bankanna ættu eftir að
skila breyttum viðhorfum inn í bankana. „Ég á
ekkert sérstaklega von á því að okkur þremur
fylgi einhver viðhorfsbreyting. Mestu máli
skiptir að menn séu tilbúnir til að takast á við
ný verkefni og hugsa jákvætt. Menn á miðjum
aldri geta verið alveg jafnnútímalegir í hugsun
og yngri menn. Hinu má heldur ekki gleyma að
menn safna auðvitað að sér reynslu í gegnum
tíðina. Ég held að það sé oft þannig að það sem
menn telja kannski íhaldssemi er afleiðing af
reynslu – gagnlegri reynslu. Eftirsóknarverð-
ast hlýtur alltaf að vera að hafa ákveðna
breidd í mannavali.“
Sigurjón sagðist ekki telja að ráðning hans
og fleiri fyrrverandi starfsmanna Bún-
aðarbankans markaði upphafið að harðari
samkeppni um fólk á fjármálamarkaðnum.
„Það eru náttúrlega ákveðnir umbrota- og
óróatímar á þessu sviði núna. Þá er ekkert
óeðlilegt að fólk hugsi sér til hreyfings. Hins
vegar á ég ekki von á því að samkeppnin um
fólk verði eitthvað harðari en áður. Hörð sam-
keppni um starfsmenn er heldur ekki ný af
nálinni. Það hefur bara ekki gerst áður að þær
aðstæður hafi skapast að menn verði svona
varir við að fólk sé að flytjast á milli fyr-
irtækja þótt dæmi séu um slíkt eins og þegar
ráðið var til FBA úr öðrum bönkum á sínum
tíma.“
Oft með hugann við vinnuna
Nú hefur þeirri staðhæfingu verið fleygt
fram að þú hafir búið í Búnaðarbankanum.
Áttu von á að vinnudagurinn verði mjög lang-
ur í Landsbankanum?
„Það er nú dálítið orðum aukið að ég hafi
búið í bankanum. Hins vegar verð ég að við-
urkenna að ég hef alltaf verið með hugann
mikið við vinnuna. Menn hafa kannski frekar
verið að meina það heldur en að ég væri þarna
allan daginn.“
Þú átt þér s.s. líka annað líf?
„Já, já, aðeins meira en komið hefur fram
(hlátur).“
Nú hefur einmitt komið fram að þið hjónin
eigið von á barni. Hefur þú hugsað þér að gefa
þér tíma frá annasömu starfi til að taka þér
feðraorlof ?
„Ef ég á að segja eins og er verð ég að við-
urkenna að allt þetta ferli hefur gengið svo
hratt fyrir sig að við hjónin höfum ekki haft al-
mennilegt ráðrúm til að tala um hvernig þessu
verður háttað. Við verðum að finna út úr því
með tilliti til aðstæðna heima fyrir og í bank-
anum.“
Ákveðin kynslóðaskipti hafa átt sér stað að undanförnu í íslensku viðskiptabönkunum. Með ráðningu Sigurjóns Þ. Árnasonar í starf
bankastjóra Landsbanka Íslands við hlið Halldórs J. Kristjánssonar er meirihluti bankastjóra viðskiptabankanna undir fertugu
Morgunblaðið/Sverrir
Sigurjón fer fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum
Landsbanka Íslands.
Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Bjarni Ármannsson er nú einn forstjóri Íslandsbanka en áður voru
forstjórar Íslandsbanka tveir.
Að lokinni einkavæðingu ríkisbankanna hefur landslagið á íslenskum bankamarkaði breyst talsvert. Morgunblaðið ræddi við þrjá
unga stjórnendur bankanna; Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans, Bjarna Ármannsson, forstjóra Íslandsbanka, og
Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings og væntanlegan forstjóra sameinaðs banka Kaupþings Búnaðarbanka hf.
Harðsnúið lið
ago@mbl.is
„Það eru náttúrulega
ákveðnir umbrota- og
óróatímar á þessu sviði
núna. Þá er ekkert
óeðlilegt að fólk hugsi
sér til hreyfings. Hins
vegar á ég ekki von á
því að samkeppnin um
fólk verði eitthvað
harðari en áður.“
Morgunblaðið/Sverrir
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings og verðandi forstjóri
sameinaðs banka: Kaupþings Búnaðarbanka hf.