Morgunblaðið - 11.05.2003, Qupperneq 56
Kate Hudson lætur margoft reyna á þolrifin í Matthew McConaughey. Hér
klæðast þau samstæðum Burberry-fötum. Litli hundurinn fær að vera í stíl.
ÁSTIN og samskipti kynjanna eru
uppspretta ótal kvikmynda en það
sem gerir Hvernig á að losna við gaur
á 10 dögum (How to Lose a Guy in 10
Days) öðruvísi er óvenjulegur sögu-
þráður.
Andie Anderson (Kate Hudson) er
dálkahöfundur hjá Composure Maga-
zine í New York, sem fær það verk-
efni að skrifa um hvernig eigi að losa
sig við strák á tíu dögum. Hún lætur
sér ekki nægja getgátur heldur not-
ast við tilraunadýr, Benjamin Barry
(Matthew McConaughey), upprenn-
andi starfsmann auglýsingastofu í
borginni. Það sem hún veit ekki er að
hann er búinn að veðja við yfirmann
sinn um að hann geti látið konu verða
ástfangna af sér á tíu dögum. Í húfi er
arðvænlegur auglýsingasamningur
við demantafyrirtæki.
Þetta býður að sjálfsögðu upp á
ýmis bráðfyndin atriði um samskipti
kynjanna en í þetta sinnið fer stelpan
ekki grátandi heim þegar hún kemst
að því að strákurinn veðjaði um hana
því hún hefur sín eigin plön.
Segja má að myndin sé fyndin og
rómantísk allt í senn eins og margar
sígildar myndir af þessum toga. „Ég
var að reyna að gera hana í stíl gam-
alla mynda með Spencer Tracy og
Katherine Hepburn í aðalhlut-
verkum. Í þessum myndum voru báð-
ar persónur sterkar fyrir,“ segir Don-
ald Petrie, leikstjóri myndarinnar.
Annað sem gefur myndinni gam-
aldags „glamúr“ eru demantarnir,
sem skipa aukahlutverk í myndinni.
Demantar fyrir milljarð
„Ég varð frekar stressaður eftir að
við ákváðum að nota ekta demanta í
myndinni. Ég var hræddur um að
þeir myndu annaðhvort týnast eða
tefja fyrir upptökum því það var mikil
viðbótaröryggisgæsla í kringum þá á
tökustað,“ segir Petrie en í myndinni
skartar Kate sérsmíðuðum demanti
frá Harry Winston, sem kostar
hvorki meira né minna en 400 millj-
ónir króna.
Alls lánaði fyrirtækið demanta fyr-
ir um milljarð króna til notkunar í
myndinni. Öryggisgæslan var í sam-
ræmi við það og þurftu leikararnir
jafnvel að láta demantana í hendur
öryggisvarða ef þeir þurftu að bregða
sér á salernið.
Petrie komst að því af eigin raun að
demantar eru dýrir, jafnvel þótt þeir
eigi að endast að eilífu. Leikstjórinn
rómantíski segir frá því að honum
hafi dottið í hug að festa kaup á
eyrnalokkum handa eiginkonunni.
„Ég ætlaði að vera örlátur. Ég leit á
eyrnalokka og spurði hvað þeir kost-
uðu,“ segir hann en svarið var 25
milljónir króna þannig að eiginkona
Petries fékk enga eyrnalokka í þetta
sinnið. „Þetta voru ekki einu sinni
stórir eyrnalokkar,“ segir hann og
hlær.
Þetta er ekki fyrsta rómantíska
gamanmyndin sem Petrie gerir.
Hann gerði myndina Undurfurðulega
flatbakan (Mystic Pizza) frá árinu
1988 með Juliu Roberts í aðalhlut-
verki og Vinsælustu stúlkuna (Miss
Congeniality) frá árinu 2000 þar sem
Sandra Bullock skartaði sínu feg-
ursta. Hann leikstýrði einnig gaman-
myndinni vinsælu Önugum gamal-
mennum (Grumpy Old Men) með
stórleikurunum Jack Lemmon og
Walter Matthau í helstu hlutverkum,
svo eitthvað sé nefnt.
Að skilja konur
Petrie virðist vera næmur fyrir
mannlegum samskiptum og takast
hið ómögulega, (að mati Hollywood,
þar sem samskipti kynjanna snúast
að miklu leyti um mismun kynjanna),
að skilja konur. Hann segist fylgjast
með bæði konum og körlum úr fjar-
lægð og segir eina ástæðu þess að
myndin sé eins vel heppnuð og raun
ber vitni að fólk geti samsvarað sig
persónunum.
„Stundum heyrast allar konurnar í
kvikmyndahúsinu hlæja en ekki karl-
arnir og stuttu síðar hlæja karlarnir
en ekki konurnar,“ segir hann og
nefnir eitt slíkt dæmi.
„Þegar Kate biður Matthew að
sækja handa sér gosglas á lokamín-
útum spennandi körfuboltaleiks, þá
hlæja karlarnir ekki á meðan.“
Kate Hudson er mjög viðkunn-
anleg í hlutverki Andie og virðist eiga
vel heima í gamanmynd líkt og móðir
hennar, Goldie Hawn. Petrie segir
það skipta miklu máli að áhorfendum
líki vel við Kate því í raun hagi hún
sér á nokkuð andstyggilegan hátt í
myndinni.
„Það sem Kate er að gera í mynd-
inni er frekar illgjarnt. Við þurftum
að passa að það skini í gegn að hún
væri ekki að gera þetta vegna þess að
hún væri vond manneskja. Hún gerir
þetta til hjálpa bestu vinkonu sinni, til
að sýna henni hvað hún er að gera vit-
laust í samböndum sínum við stráka.
Hún er að reyna að hjálpa henni,“ út-
skýrir leikstjórinn.
Þolraunir Matthews
Þrautirnar, sem Kate lætur hjarta-
knúsarann Matthew glíma við jafnast
á við þolraunir Herkúlesar, fram-
reiddum að hætti Hollywood. Hann
þarf að horfa á stelpumyndir, klæðast
í samstæð paraföt, hún kemur óboðin
á strákakvöldið hans, hún endur-
hannar íbúðina hans og skilur eftir
litla og sæta bangsa á stílhreinu pip-
arsveinarúminu. Allt þetta ætti að
vera nóg til að buga meðalkarlmann-
inn, enda verður Kate hissa þegar
Matthew heldur áfram að ganga á
eftir henni.
Eins og Petrie bendir á gefur Kate
honum næg tækifæri til að bakka út.
„Kate spyr hann í upphafi hvort allt
sé leyfilegt í ástum og stríði og hann
svarar játandi.“
Petrie segir að oftar en ekki hafi
hann leyft leikurunum að spinna inn í
senurnar. „Til dæmis sagði ég Kate
að gera eitthvað við Matthew en lét
hann ekki vita af breytingunum.
Hann varð því mjög hissa í þessum
atriðum. Eins og þegar hún kemur
með litla hundinn til hans, þá fleygir
hún sér á hann og byrjar að kyssa
hann og faðma hann í miðri skrifstof-
unni. Það er ekki í handritinu,“ segir
hann prakkaralega enda var Matt-
hew greinilega brugðið.
Petrie segir að stefnan hafi verið
að láta myndina höfða til beggja
kynja og virðist það hafa tekist.
Petrie segir að hann hafi óttast að
strákar kæmu ekki á myndina vegna
titilsins en raunin hafi verið sú að
strákarnir (sem yfirleitt fara með
kærustunum sínum á myndina) hafi
skemmt sér jafnvel og stelpurnar.
Myndin er í grunnatriðum byggð á
stuttri bók eftir Michele Alexander
og Jeannie Long með ráðum um,
hvernig eigi að losna við gaur á tíu
dögum.
New York leikur líkt og demant-
arnir annað aukahlutverk í myndinni.
„Mig langaði til, ekki síst eftir 11.
september, að sýna fólki að New
York er ennþá falleg borg,“ segir
hann en borgin skartar sannarlega
sínu fegursta í myndinni.
Grínast með tískuheiminn
Annar heimur en heimur stórborg-
arinnar er áberandi í myndinni, heim-
ur tímaritanna og tískunnar. „Fram-
leiðandi myndarinnar, Linda Obst
(Svefnvana í Seattle), hefur skrifað
fyrir tímarit og vissi því margt um
hvernig við gætum gert þennan heim
raunverulegan,“ útskýrir Petrie en
gert er góðlátlegt grín að því sem
mætti kalla yfirborðslegan heim
„kvennablaða“.
Bebe Neuwirth (Lilith í Frasier)
leikur ritstjóra tímaritsins Compos-
ure, sem söguhetjan Andie Anderson,
vinnur hjá. Glöggir áhorfendur taka
eftir því að hún líkist mjög ritstjóra
bandaríska Vogue, Önnu Wintour.
Aðspurður staðfestir Petrie að per-
sóna hennar hafi verði byggð á
Wintour, sem þykir ein áhrifamesta
manneskjan í tískuheiminum.
Petrie var staddur í Toronto í Kan-
ada þegar viðtalið fór fram og hefur
síður en svo gefist upp á róm-
antískum gamanmyndum. „Ég er að
byrja að vinna við rómantíska gam-
anmynd með Gene Hackman og Ray
Romano í aðalhlutverkum,“ segir
hann. Myndin er fyrsta kvikmynd
Romanos (Allir elska Raymond) og
heitir Velkomin til Mooseport (Wel-
come to Mooseport).
Romano leikur mann frá litlum bæ,
sem hræðist hjónabandið. Hackman
leikur hins vegar fyrrverandi forseta
Bandaríkjanna, sem sest að í litla
bænum hans Romano þegar hann
lætur af embætti og fer að eltast við
kærustuna hans. Romano þarf því að
grípa til eigin ráða. Hver sagði að ást-
in væri auðveld?
Leikstjórinn Donald Petrie sýnir Kate Hudson hvernig hún eigi að bera sig að á mótorhjólinu.
Kate Hudson og Matthew McConaughey leika aðalhlutverkin í Hvernig á að losna við gaur á 10 dögum
Allt er leyfilegt í
ástum og stríði
Er í alvörunni svona mikill munur milli kynjanna?
Grínast er með hann í nýrri gamanmynd leikstjór-
ans Donalds Petries. Inga Rún Sigurðardóttir
ræddi við þennan kóng rómantísku gamanmynd-
anna, sem hann fullyrðir að séu fyrir bæði kynin.
ingarun@mbl.is
FÓLK Í FRÉTTUM
56 SUNNUDAGUR 11. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Tímaritið Heilsa fylgir Morgunblaðinu í
58.000 eintökum sunnudaginn 18.maí.
li
f
u
nheilsa
Tímarit um útivist og lífsstíl
Hafðu samband í síma 569 1111 eða
í gegnum netfangið augl@mbl.is
Auglýsendur!
• Efnistök eru tengd útivist sem fylgir hækkandi
sól og lífsstílnum sem fylgir hollri hreyfingu.
• Talað við göngugarpa, hlaupara, kajak-ræðara,
veiðimenn, golfara og fleiri.
• Fjallað um jaðarsport.
• Áhugaverðar gönguferðir á vegum Útivistar.
Gönguleiðir í Reykjavík og á Akureyri.
• Skemmtilegar græjur í sumarsportið.
• Áhugaverðir sumarleikir.
• Hugmyndir að hollu og fersku nesti.