Morgunblaðið - 07.10.2003, Blaðsíða 19
„ÉG held að mörgum þyki þetta
ansi sárt,“ sagði Margrét Guð-
mundsdóttir, starfsmaður í Strax
við Byggðaveg, í tilefni af því að
Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, hef-
ur nú hætt afskiptum af versl-
unarrekstri á Akureyri. Kaldbak-
ur, sem er að stærstum hluta í
eigu KEA, seldi í gær 50,4%
eignarhlut sinn í Samkaupum
til Kaupfélags Suð-
urnesja. Samkaup
voru í eigu Kald-
baks og Kaupfélags
Suðurnesja og hefur fé-
lagið rekið á þriðja tug mat-
vöruverslana á höfuðborgarsvæð-
inu, Suðurnesjum, Vestfjörðum og
Norðurlandi undir nöfnunum
Nettó, Kaskó, Samkaup, Úrval,
Strax og Sparkaup auk þess að
reka kjötvinnslu í Njarðvík og
kostverslun á Akureyri.
Margrét sagði að ekki væri bú-
ið að kynna starfsfólki þær eigna-
breytingar sem urðu í gær. „En
það virðist bara allt vera komið
suður. Ég vona samt að fólk haldi
áfram að versla við okkur, hingað
kemur mikið af skólafólki og eins
eigum við trygga viðskiptavini,
fólk úr hverfinu,“ sagði Margrét.
Ingunn Björnsdóttir hefur
keypt inn sínar nauðsynjar í
versluninni við Byggðaveg allt frá
því hún var opnuð á sínum tíma.
„Þetta er eiginlega alveg ótrú-
legt, hvernig á maður að skilja
svona hluti?“ sagði hún. „Nú fer
allur gróðinn suður, það virðist
vera stefnan. Ég syrgi það vissu-
lega að nú fer allur arður burt úr
bænum, en ég verð að versla hér
áfram, þetta er mín búð og ég
kemst ekki annað til að versla,“
sagði Ingunn og bætti við að
starfsfólkið væri afar liðlegt,
„ekki get ég kvartað yfir blessuðu
fólkinu, það telur ekki eftir sér að
setja ofan í poka fyrir mig.“
Óskar Óskarsson, starfsmaður
Úrvals í Hrísalundi, sagði það
vissulega sögulega stund að KEA
væri hætt afskiptum af versl-
unarrekstri. Hann hóf störf hjá
KEA árið 1973 og í Hrísalundi
hefur hann verið síðustu 16–17 ár
og líkað ágætlega. „Ætli það sé
ekki ástæða þess að maður hefur
enst hér öll þessi ár,“ sagði hann.
Hann sagði nokkurn söknuð að
því að kaupfélagið kæmi nú ekki
nálægt verslunarrekstri í bæn-
um, „en ég vona bara að
þessar breytingar verði
til góðs,“ sagði Ósk-
ar.
Stefán Hall-
dórsson frá Hlöðum
hefur verslað við kaup-
félagið í áratugi, „en ég hef
ekki litið svo á að ég væri að
versla við KEA síðustu tvö ár,
mér finnst félagið varla vera til,
er þetta ekki bara orðið papp-
írsfyrirtæki?“ sagði Stefán.
Kaupfélagshjartað er sterkt
Anna Pétursdóttir, starfsmaður
í Nettó, hefur 25 ára starfsferil að
baki hjá kaupfélaginu, byrjaði í
versluninni á Grenivík en hefur
unnið í Nettó hin síðari ár. Hún
viðurkenndi að sitt trygga KEA-
hjarta hefði tekið feilpúst þegar
henni bárust fréttirnar um að fé-
lagið ætti verslanir sínar ekki
lengur. „Þú getur rétt ímyndað
þér það,“ var svarið við spurning-
unni um hvort henni hefði líkað
vistin. „Það er nú stundum sagt
um mig að ég sé fædd og uppalin
í kaupfélaginu. Jú, jú, kaupfélags-
hjartað er sterkt,“ segir hún og
nefnir að sér þykir því nokkur
tímamót nú þegar reksturinn hafi
flust til Suðurnesja. Hún sagði
eldra fólk horfa meira til þess við
hvern væri verslað, það væri
trygglyndara „en yngra fólkið
hugsar öðruvísi, því er meira
sama um hver á hvaða verslun“.
Anna vonaði að ekki yrðu stór-
felldar breytingar á rekstrinum,
„en auðvitað geta breytingar líka
verið af hinu góða, fólk er samt
vanafast og vill hafa hlutina í
föstum skorðum“.
Margrét Guðmundsdóttir: Hingað
kemur mikið af skólafólki og eins
eigum við trygga viðskiptavini,
fólk úr hverfinu.
Stefán Halldórsson: Ég hef ekki
litið svo á að ég væri að versla við
KEA síðustu tvö ár, mér finnst fé-
lagið varla vera til.
Anna Pétursdóttir: Stundum
sagt um mig að ég sé fædd og
uppalin í kaupfélaginu; kaup-
félagshjartað er sterkt.
Óskar Óskarsson: Söknuður að
því að kaupfélagið komi ekki
lengur nálægt verslun en breyt-
ingar vonandi til góðs.
Ingunn Björnsdóttir: Ég syrgi
það vissulega að nú fer allur arð-
ur burt úr bænum. En ég verð að
versla hérna áfram.
Kaldbakur selur hlut sinn í Samkaupum – KEA-verslanir heyra því endanlega sögunni til
Mörgum þykir
þetta ansi sárt
„Auðvitað geta breytingar verið af
hinu góða, en fólk er vanafast…“
Morgunblaðið/Kristján
AKUREYRI
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER 2003 19
KAUPFÉLAG Eyfirðinga hefur stundað
verslunarrekstur í Eyjafirði um áratuga-
skeið, en með sölu á helmingshlut Kald-
baks, sem að stórum hluta er í eigu KEA, í
Samkaupum til Kaupfélags Suðurnesja í
gær lauk afskiptum félagsins af versl-
unarrekstri í firðinum.
„Þetta eru út af fyrir sig nokkur tíðindi.
Þær eignir sem voru í hefðbundinni starf-
semi KEA fyrir utan sjávarútveg, hafa nú
verið seldar frá Kaldbaki,“ sagði Benedikt
Sigurðarson formaður stjórnar Kaupfélags
Eyfirðinga.
Hann sagði að ferlið
hefði hafist þegar félagið
seldi Byggingavörudeild
KEA til Húsasmiðjunnar
árið 2000. Síðan var
Mjólkursamlag KEA selt
og nú fyrir skömmu Norð-
lenska og í gær seldi fé-
lagið svo Samkaup.
Frá því hafist var
handa við fyrirtækjavæð-
ingu KEA fyrir nokkrum misserum er nú
einungis eftir innan Kaldbaks sjávarútvegs-
hluti starfseminnar, sem nú er í formi 18%
hlutar í Samherja.
„Við áttum kannski ekki von á að þróun
Kaldbaks yrði svona hröð, en hver hefði
getað séð þær gríðarlegu breytingar sem
orðið hafa í íslensku viðskiptalífi á örfáum
síðustu vikum,“ sagði Benedikt.
Hann sagði sölu Kaldbaks á hlut sínum í
Samkaupum til Kaupfélags Suðurnesja
gerða í góðri samvinnu við KEA. „Hags-
munir okkar félagsmanna eru ekki í upp-
námi, það er fullur vilji af hálfu Kaupfélags
Suðurnesja til að vinna með okkur að því að
þróa viðskiptakjör á grundvelli Kostakorts-
ins og við treystum því að samstarfið verði
gott. Þeir sinna sínu fólki vel,“ sagði Bene-
dikt.
Hann sagði ólíklegt að salan hefði í för
með sér röskun á þeirri verslunarstarfsemi
sem fyrir væri á Akureyri og Eyjafirði og
fólk þyrfti ekki að óttast að verslunum yrði
lokað. „Það hefur verið hagrætt í þessum
rekstri og búið að koma honum í ágætis
horf. Það er því fráleitt að reikna með að
breytingar verði gerðar af þessum sökum,“
sagði Benedikt.
KEA hætt afskiptum af verslunarrekstri
Benedikt
Sigurðarson