Morgunblaðið - 07.10.2003, Side 25

Morgunblaðið - 07.10.2003, Side 25
ÞAÐ er ávallt sérstök hátíð þegar Erling Blöndal Bengtsson heimsækir Ísland og hér er honum fagnað sem heimamanni og snillingi. Á tónleikum Erlings Blön- dals Bengtssonar og Nínu Kavtaradze, sem haldnir voru í Salnum, á vegum Tíbrár, s. l. sunnudag, var fyrsta verk- ið A-dúr selló-sónatan eftir Beethoven, eitt af fallegri verkum meistarans, er var sérlega glæsilega flutt, þó Kavtaradze tæki hljóminn of til sín með þróttmiklum leik sínum á píanóið, sérstaklega í fyrsta kaflanum. Skersóið var einstaklega skemmtilega mótað en í því má heyra tónferli, sem er einkennilega staðbundið og eins konar spádómur um „móderniskan“ eins tóna leik. Hægi inn- gangur lokakaflans var fallega leikinn og lokakaflinn sér- lega lifandi. Annað viðfangsefnið var sellósónatan op. 65 eftir Chopin, sem er á margan hátt glæsilegt verk, þó píanóinu væri á köflun lagt meira til í efnismótun verksins en sellóinu. Einn fallegasti kafli verksins er „tríóið“ í skersóinu og þar og í hinum stutta largó-þætti, söng sellóið einstaklega fallega í höndum Erlings Blöndals. Píanóleikur Kavtaradze var glæsilegur, nokkuð hljóm- mikill en í Elegíunni, eftir Faure var samhljómurinn í jafnvægi og var þetta þokkafulla verk mjög vel flutt. Aðalverk tónleikanna var hin frábæra sellósónata, op. 40, eftir Shostakovitsj. Það sem sérstaklega einkennir tónmál meistarans, er það hversu óhræddur hann er að nota sérlega einfaldar tónhugmyndir en það er í meist- aralegri úrvinnslu þeirra, sem styrkur hans er fólginn. Í fyrsta kaflanum leikur höfundurinn sér að taktfrelsi og Snilldar- flutningur Morgunblaðið/Þorkell Nína Kavtaradze og Erling Blöndal Bengtsson. forðast að binda sig við ákveðna tóntegund. Þessi óvissa er tengd saman með skemmtilega útfærðum stefjabrot- um. Aukastef kaflans (í B-dúr) er rómantískt. Öðrum kaflanum má líkja við sveitalegan og grínagtugan vals en í tríóinu er háðslegt en áhrifamikið tónefni unnið úr sköl- um, brotnum hljómum og „glissandó“. Þriðji kaflinn er sérkennileg tónsmíð, því á eftir dapurlegu tónferli leiknu með dempara, kemur syngjandi tregafagur sorgarsöng- ur. Lokakaflinn er einn allsherjar hasar. Í sellósónötunni eftir Shostakovitsj var leikur beggja hreint frábær og allt efni verksins, dregið skýrum mynd- um, allt frá innilegum syngjandi tónhendingum sellósins, til átaks atriða, eins og t.d. skala-hasars píanósins í loka- kaflanum. Í þessu meistaraverki er tilfinningatúlkunin með margvíslegum hætti, þar sem unnið er með trega, sönggleði, háð og útrás fengin með galsafengnum krafti. Allt þetta má tengja persónulegri reynslu höfundar og fyrir bragðið verður tónmál verksins annað og meira en glæsilegur tónaleikur. Það voru þessir þættir, sem áttu sér vist í snilldarflutningi Erlings Blöndals Bengtssonar og Nínu Kavtaradze. TÓNLIST Salurinn Erling Blöndal Bengtsson og Nína Kavtaradze fluttu verk eftir Beethoven, Chopin, Faure og Shostakovitsj. Sunnudagurinn 5. október, 2003. SAMLEIKUR Á SELLÓ OG PÍANÓ Jón Ásgeirsson LISTIR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. OKTÓBER 2003 25 ÞAÐ er eitthvað hlægilegt við ten- óra. Eða kannski öllu heldur – við þá staðalmynd sem við höfum af þeim. Sjálfsuppteknir, hávaðasamir og hé- gómlegir loftbelgir. Og svo bætist alltaf við, ef þeir eru heimsfrægir í útlöndum, sú tilfinning að eitthvað sé málum blandið með þá heims- frægð. Halldór Laxness hefur mikið á samviskunni gagnvart þessari stétt listamanna. Nú hefur Guðmundur Ólafsson skrifað leikrit þar sem þessar klisjur eru nýttar sem skopefni og fléttað saman við nokkuð alvarlega lífs- hlaupssögu. Útkoman er verulega skemmtileg sýning. Aðalpersónan hefur ekkert nafn, sem er ákaflega viðeigandi, enda er hér mættur Tenórinn. Klæðskera- saumaður upp úr öllum hugmynd- unum sem við höfum um svoleiðis hljóðabelgi. Heimsfrægur, eigin- gjarn, aðfinnslusamur, hégómlegur og yfirborðskenndur. Stjarna. Eða það finnst allavega honum sjálfum. En bæði er síðan flett ofan af því hversu lítið númer hann er, og svo er líka manneskjan sýnd, fortíð hennar og fjölskyldulíf í upplausn, einmana- leikinn, maðurinn á bak við tenórinn. Þessa mynd dregur höfundurinn Guðmundur að mestu leyti afar vel, er bráðfyndinn þegar það á við og nær líka að gefa skýrt til kynna raunveruleika fólksins sem hann fjallar um. Tenórinn kemur víða við og hefur skoðun á öllu því sem svona tenórar eiga að hafa skoðun á. Óréttlátur frami kolleganna, fá- læti fjölmiðla, holdafar sópransöng- kvenna, hið tenórfjandsamlega veð- urlag á Íslandi, hið áreynslulausa og ljúfa líf poppsöngvara, draumurinn um að vera bara „hversdagslegur maður“, pípari - eða jafnvel undir- leikari. Því Tenórinn er ekki einleikur. Þarna er líka píanóleikari, og við fylgjumst með þeim undirbúa tón- leika í subbulegu búningsherbergi í ótilteknu (tónlistar)húsi á Íslandi. Þessi návist undirleikarans er upp- spretta allskyns skemmtilegheita og vitaskuld tæknilega nauðsynleg, því í verkinu eru flutt nokkur lög. Á hinn bóginn veldur hún nokkrum form- legum vandræðum fyrir verkið. Ten- órinn er ekki einleikur en hlutverk tenórsins er skrifað eins og einleiks- hlutverk. Þannig lætur Guðmundur hann játa hluti fyrir píanóleikaran- um sem virkar ótrúverðugt, en væri fullkomlega eðlilegt að játa fyrir salnum í eiginlegum einleik, sem er trúnaðarsamtal við áhorfendur. Undirleikarinn fær ekki að verða persóna, það er nánast ekki pláss fyrir hann í verkinu. En hann er þarna samt, og skapar óróleika í forminu. Annar galli á verkinu er að mínu mati notkun á rödd af bandi til að miðla ákveðnum upplýsingum sem skapa tilfinningalegan hápunkt verksins. Þetta er skiljanleg lausn, en virkar eins og þrautalending. Fyrir utan þessa aðfinnslupunkta er rétt að ítreka að texti verksins er góður, og það heldur athyglinni og skemmtir áhorfendum frá upphafi til enda. Leikstjórinn, Oddur Bjarni Þor- kelsson, hefur líka unnið gott starf og mótað flæði sýningarinnar vel. Enginn er skrifaður fyrir raunsæis- legri og ágætlega heppnaðri leik- mynd sýningarinnar, en gera má ráð fyrir að hún sé samvinnuverkefni hópsins. Guðmundur er bráðgóður í hlut- verki tenórsins. Hann hefur áður sýnt að hann býr yfir afar næmri til- finningu fyrir kómískri tímasetn- ingu og nýtir hana óspart hér, ísmeygileg hæðnin í afstöðu tenórs- ins til alls í kringum sig kemst vel til skila, svo og hégómleiki hans og innistæðulaus mikilmennskan. En Guðmundur nær líka inn að kvikunni, miðlar óörygginu sem undir býr og tenórinn flýtur á eins og korktappi. Og svo syngur hann hreint ljómandi vel, leikur sér að hefðbundnum tenórlögum á borð við Draumalandið og Una Furtiva Lagrima úr Ástardrykknum. Þá verður mjög svo frumlegur flutning- urinn á Söng villiandarinnar ógleymanlegur og aukalagið sem hann söng á frumsýningunni hreint yndislegt. Áhorfendur eru minntir á að tryggja að Guðmundur sleppi ekki við það. Vitaskuld er sérstök ánægja að heyra þjálfaðan leikara skila hverju einasta atkvæði söng- textanna til áhorfenda, nokkuð sem lendir oft í öðru sæti hjá flytjendum sem fyrst og fremst eru söngmennt- aðir. Sigursveinn Magnússon er píanó- leikarinn og skilaði hlutverki sínu af hófstilltu öryggi, og átti sinn ísmeygilega þátt í fyndninni. Sam- leikur þeirra er áreynslulaus og Sig- ursveinn komst eins langt með þessa ófullburða persónu og hægt er að fara fram á. Sigrún Edda Björns- dóttir var svo heiðursgesturinn fjar- verandi, rödd af bandi sem tenórinn átti samtal við í gegnum síma. Þetta tókst snurðulítið tæknilega séð, en hefur leiklistarlega vankanta eins og áður segir. Tenórinn er þegar á heildina er litið góð kvöldskemmtun, skýr mynd af staðlaðri týpu með undirtóna af einstaklingsbundinni mannlýsingu og rós í hnappagat höfundar, leik- stjóra og flytjenda. Söngskemmtun í Iðnó Morgunblaðið/Kristinn „Tenórinn er þegar á heildina er litið góð kvöldskemmtun,“ segir meðal annars í umsögninni. Þorgeir Tryggvason LEIKLIST Iðnó Höfundur: Guðmundur Ólafsson, leik- stjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson, tækni- maður: Ingi Einar Jóhannesson, leik- endur: Guðmundur Ólafsson, Sigursveinn Magnússon og Sigrún Edda Björnsdóttir. Sunnudagur 5. október 2003. TENÓRINN DR. GAUTI Kristmannsson, að- junkt í þýðingafræðum, heldur fyr- irlestur í Odda, stofu 101 á morgun kl. 12.15. Fyrirlesturinn er á veg- um Stofnunar Vigdísar Finnboga- dóttur og nefnist „Sir Walter Scott and Eyrbyggja saga: the end and beginning of Icelandic Literature“. Hann verður fluttur á ensku. Sir Walter Scott var meðal þeirra fyrstu sem kynntu norræn- ar bókmenntir á Bretlandi. Hann þýddi eða endurritaði Eyrbyggja sögu úr latínu snemma á nítjándu öld og er það með fyrstu þýðingum á einhverri Íslendinga sagna á ensku. Hann orti síðar nokkurs konar „víkingakvæði“ þar sem hann notaði fyrirmyndir Íslend- inga sagna auk þess sem hann var ófeiminn við að fá lánað úr þeim sögum sem hann þekkti þegar hann var að skrifa sínar eigin skáldsögur. Kunnastur er Scott þó fyrir að vera ekki aðeins höfundur fjölda söguljóða og skáldsagna, heldur fyrir að vera í raun höf- undur heillar bókmenntagreinar, hinnar svokölluðu sögulegu skáld- sögu eins og bókmenntafræðingur- inn Georg Lukács skilgreindi hana. Í erindinu verður litið til tengsla Scott við þær íslensku bókmenntir sem hann þekkti og einnig tengsla þeirra íslensku höfunda við hann sem má kannski telja helstu arf- taka hans. Tengsl Sir Walters Scotts við íslenskar bókmenntir Rannsóknar- kvöld í Fischersundi FÉLAG íslenskra fræða heldur rann- sóknarkvöld í Sögufélagshúsinu, Fischersundi 3 kl. 20.30 annað kvöld, miðvikudags- kvöld. Fyrirlesari er Ragnhildur Richter og nefnist erindið Mærin á menntalandi. Ragnhildur hefur sérstaklega rann- sakað ævisögur kvenna og leitar m.a. í erindi sínu svara við spurn- ingunum: Hvernig lýsa konur ferða- laginu um „menntalandið“ í endur- minningum sínum? Skiptir saga þeirra máli? Vill einhver heyra hana? Í endurminningum sínum fjallar Arnheiður Sigurðardóttir um sam- skipti sín við háskólasamfélagið. Henni fannst hún ekki fá aðgang að því samfélagi, jafnvel svo að líkja má við landlausa menn sem fá ekki land- vistarleyfi þar sem þeir þrá að vera. Var hún ein um þessa reynslu? Um- ræður verða að loknu erindi. Ragnheiður hefur gefið út fræðirit- ið Lafað í röndinni á mannfélaginu (1997) og á liðnu ári kom út bókin Ís- lenskar konur – ævisögur, safnrit með ævisögum íslenskra kvenna sem hún tók saman og ritaði inngang að. Ragnhildur Richter ♦ ♦ ♦ ÞORGEIR Tryggvason mun skrifa gagnrýni um atvinnuleiksýningar í Morgunblaðið í vetur. Þorgeir er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1988 og lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 1998. Þorgeir hef- ur sótt ýmis nám- skeið í leiklist, dramatúrgíu, leikstjórn og leik- ritun, og stýrt smiðju fyrir leikskáld á vegum Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Þorgeir hefur unnið við leiklist í hjáverkum frá 1985, leikið, leikstýrt, samið tónlist og ekki síst skrifað leik- rit, aðallega fyrir leikfélagið Hugleik í Reykjavík, í félagi við aðra fé- lagsmenn. Helstu verk eru Stút- ungasaga, Fáfnismenn og Embætt- ismannahvörfin. Þá hefur hann ásamt Ármanni Guðmundssyni og Sævari Sigurgeirssyni skrifað verk fyrir Leikfélag Akureyrar, Stopp- leikhópinn og Hafnarfjarðarleikhús- ið og Leikfélag Húsavíkur. Af leikstjórnarverkefnum má nefna Líku líkt eftir Shakespeare hjá Leikfélagi Kópavogs árið 2000 og Draum á Jónsmessunótt sem hann vann með leikfélaginu Sýnum í Elliðaárdalnum í júlí sl. Þorgeir hefur undanfarin þrjú leikár skrifað um sýningar áhuga- leikfélaga í Morgunblaðið. Þorgeir kemur í stað Soffíu Auðar Birgisdóttur sem skrifað hefur um atvinnuleiksýningar í Morgunblaðið undanfarin ár. Hún er í leyfi erlendis í vetur. Nýr atvinnu- leikhúsgagn- rýnandi Þorgeir Tryggvason Út eru komnar tvær nýjar Stubbabæk- ur; Stubbarnir fara í gönguferð og Stubbarnir fara í hermileik. Bjarni Guðmarsson þýddi. Bækurnar eru harðspjalda og með flipum til að lyfta. Í bókunum segir frá Stubbunum sem eru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt saman. Í annarri bókinni segir frá Stubbunum í gönguferð og í hinni framkvæma þeir ýmsar þrautir sem hinir leika eftir. Útgefandi er Vaka-Helgafell. Bækurnar eru hvor um sig 10 bls. Verð: 990 kr. Börn ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.