Morgunblaðið - 06.02.2004, Blaðsíða 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. FEBRÚAR 2004 39
kveð þig með söknuði og þakklæti í
huga.
Hvíldu í friði, elsku amma mín,
guð geymi þig. Ég veit þú fylgist
með okkur og passar upp á okkur.
Þín
Vigdís.
Ég var á leiðinni í vinnuna og
hann pabbi var að keyra mig þegar
Jens bróðir hans hringdi í hann og
sagði honum að þú værir dáin.
Þetta var roslega skrýtið að vita
það, að þú værir farin. Það voru
margar hugsanir sem komu upp í
huga mér, allt sem við höfðum gert
saman og ég lært af þér. Það svona
fyrsta sem kemur upp í huga mér
þegar ég fer til baka, það eru ein
jólin sem ég, pabbi, mamma og
Inga systir vorum hjá þér og
Ámunda Ísfeld. Þetta var á að-
fangadag, þetta er eitt af því fyrsta
sem ég man eftir mér með þér. Ég
var eitthvað um sjö ára gamall. Svo
man ég eftir honum Felix, brúð-
unni sem þú gafst mér sem Haddi
frændi átti. Mér þótti svo vænt um
hana, meira að segja á ég hana
enn, hún er í kassa í dótinu mínu.
Það er líka eitt sem ég man svo vel
eftir, það er galdurinn sem þú
gerðir með glasið og spilastokkinn,
vá hvað það var flott. Ég var alveg
steinhissa á þessu, þetta var einn
af fyrstu göldrunum sem þú sýndir
mér. Ég átti ekki til orð. Þú lést
hreinlega spilin hoppa upp úr glas-
inu og stóðst hinum megin í her-
berginu, það eina sem kom upp í
huga mér þá var; amma er göldr-
ótt. Þú kenndir mér alveg helling
af spilagöldrum, gafst mér heilan
kassa af galdradóti, þú varst alltaf
að kenna mér eitthvað nýtt af því
tagi. Það má eiginlega segja að ég
sé orðinn jafn klár og þú.
Það er svo margt sem ég get tal-
að um, veit varla hvort ég geti sagt
þetta allt hérna.
Svo var það hún gamla Stína
sem þú sagðir okkur frá – ef við
myndum ekki vera þæg þá mynd-
um við fara niður til hennar, en við
fórum aldrei niður til hennar sem
betur fer, því ég og Inga vorum
alltaf svo góð heima hjá þér. Svo
einhvern tíma var pabbi hjá þér
líka, þá opnaði pabbi hlerann niður
í kjallara hjá þér og þá sá ég í
fyrsta skipti niður og viti menn,
þar var enginn, þá sá ég að gamla
Stína var ekki til, ég meira að
segja fór niður til að kíkja hvort
hún væri örugglega ekki þarna.
Svo varstu alltaf að segja okkur
einhverjar sögur, það voru alltaf
einhverjar nýjar og alltaf jafn
skemmtilegar. Það er eiginlega ein
sem er eftirminnilegust. Það er
sagan af draumnum sem þig
dreymdi einu sinni um mömmu
þína og pabba, að þau hefðu verið
jafn gömul og kirkjutröppurnar
eru í Hallgrímskirkju og að þú
myndir verða jafn gömul og þau til
samans sem er 126 ára, mig minnir
að tröppurnar séu það margar. Svo
kenndirðu mér nokkrar vísur þeg-
ar ég var yngri eins og fagur fiskur
í sjó og fullt af öðrum.
Ég man það líka vel þegar þú og
Ámundi Ísfeld komuð til Vest-
mannaeyja. Það gleymist aldrei.
Ég gæti hripað endalaust hérna
niður á blað en einhvers staðar
verður maður að stoppa.
Þú ert aftur á móti loksins búin
að finna hvíldina þína, þú varst bú-
in að vera veik svo lengi og núna
ertu komin til Hadda frænda, afa
Þorsteins, Ámunda Ísfeld, Stellu
litlu og mömmu þinnar og pabba.
Eins og við sögðum alltaf hvort við
annað þegar við kvöddumst: Guð
geymi þig, amma Sinna.
Þinn
Björgvin Hrafn.
Ég var vakin upp með símtali
um aðamma Sinna væri dáin. Mikið
rosalega var það sárt að vita að þú
værir farin frá okkur, en jafnframt
gott að vita að loksins ertu búin að
fá hvíldina þína. Það var svo erfitt
að kveðja þig síðastliðinn föstudag
vitandi það að ég fengi aldrei að
faðma og kyssa þig aftur á mjúku
kinnina þína. Það koma upp svo
margar minningar þegar ég hugsa
til baka, það er svo erfitt að setja
þær niður á blað, því það verður
ekkert eins án þín að rifja það upp.
Ég man fyrst eftir ömmu þegar ég
var þriggja ára og hún var að
passa mig, ég var hágrenjandi og
amma kom allt í einu og sagði:
„Hver var að hlæja þegar ég kom
inn, kannski það hafi verið kött-
urinn?“ Ég hætti strax að gráta og
fór að hlæja. Þú talaðir alltaf um
þetta þegar þú varst að segja mér
frá og hlóst jafn innilega. Manstu
eftir því þegar þú sagðir mér sög-
una af gömlu Stínu sem byggi í
kjallaranum í húsinu þínu? Allir
fengu að heyra um gömlu Stínu.
Manstu eftir kjötsúpunni sem ég
vildi ekki borða, en kláraði hana
svo með bestu lyst þegar ég var
orðin svöng? Manstu þegar ég og
Bjöggi vorum í pössun hjá þér og
Ámunda afa? Við Bjöggi horfðum á
Tomma og Jenna í fjóra klukku-
tíma, sjónvarpið var ekki mjög hátt
stillt. Þegar við vorum búin að sitja
í tvo tíma kom Bjöggi fram til að fá
að drekka og þér brá svo að þú
hoppaðir næstum hæð þína og
sagðir við Bjögga: „Hvaðan komst
þú, barn?“ Þá varstu búin að
gleyma því að við værum inni í
stofu því þú varst svo upptekin við
að baka bollur fyrir bolludaginn.
Þessa sögu sagðirðu mér oft og þú
hlóst alltaf jafn mikið að henni.
Manstu þegar ég var hjá þér og
við elduðum saman, þú tókst alls
konar góðgæti út úr ísskápnum hjá
þér og settir þetta allt saman í pott
og hrærðir. Ég spurði þig hvað við
værum að elda. Þá sagðirðu að
þetta væri „Rússsnússsnúsk“. Ég
spurði: „Hvað er það?“ Þá sagðir
þú: „Ég veit það ekki, bara svona
„Rússsnússsnúsk“, það verður
aldrei sama bragð aftur af þeirri
uppskrift.“
Manstu þegar ég kom í Sund-
höllina til þín, ég fékk alltaf frítt í
sund, ég var orðin flugsynd sex ára
gömul og oft fékk ég að vinna með
þér og Siggu Þorláks.
Dallaskvöldin á Vesturgötunni
gleymast seint, þegar það var kom-
ið saman alla fimmtudaga til að
horfa á Dallas. Afi átti alltaf fyrst-
ur pantaða spóluna úti á Olís.
Manstu allar grillveislurnar hjá þér
og afa á heimatilbúna grillinu úti í
garði? Allar stundirnar sem þú sast
og spilaðir við mig, öll bingókvöldin
sem ég fékk að fara með þér og afa
á. Manstu þegar ég og Vigdís feng-
um að mála dekkið blátt og bjugg-
um til litla fuglatjörn úti í garði hjá
þér? Manstu þegar þeir voru að
flytja húsið á Vesturgötu og við
Vigdís fengum að vaka alla nóttina
hjá þér?
Haddi frændi kallaði mig alltaf
Skottu. Ég gleymi því aldrei þegar
jólasveinninn kom til mín á Hraun-
teiginn með jólapakkana frá ykkur.
Þarna var Haddi frændi á ferðinni
og ég vissi það ekkert, en svo kom
danskur jólasveinn með honum og
ég vissi strax að þetta var Pétur
bróðir þinn, því það talaði enginn
jólasveinn á Íslandi dönsku.
Manstu túnfiskbrauðtertuna henn-
ar mömmu sem Hadda fannst best
af því það var enginn laukur og þú
sagðir alltaf: „En ég gerði alveg
eins salat og mamma þín.“
Það var svo gaman þegar þú
sagðir mér sögur af þér lítilli þegar
þú bjóst í Húsinu á Eyrarbakka,
þegar þú bjóst í Tryggvaskála,
hvernig þið þvoðuð þvottinn við
Ölfusá, sögurnar af þér og Ámunda
Hjörleifssyni, fyrsta manninum
þínum, Stellu dóttir þinni, af
Hadda. Hvernig þú og afi kynnt-
ust, af pabba og Jens litlum.
Það var svo margt sem þú
kenndir mér, þú kenndir mér að
fara með Faðir vorið, þú kenndir
mér allar morgunbænirnar, kvöld-
bænirnar, þú kenndir mér að
prjóna, þú kenndir mér löngu vit-
leysu, þú kenndir mér dönsku og
margt fleira.
Manstu síðustu skötuveisluna
þar sem við borðuðum saman?
Manstu þegar við fluttum til Vest-
mannaeyja og ég bjó hjá þér á
meðan ég var að klára skólann, og
þegar ég bjó hjá þér 9́3 í tvo mán-
uði.
Þú hringdir alltaf í mig á afmæl-
isdaginn minn og sagðir „til ham-
ingju með afmælið og veistu, Inga
mín, að sólin skín inn um gluggann
hjá mér núna, hún skín alltaf inn til
mín 6. mars.“
Elsku amma, viltu senda mér
sólargeisla inn um gluggann minn
6. mars, daginn sem ég verð þrí-
tug?
Þú varst svo glöð 16. jan. 9́5 þeg-
ar pabbi hringdi í þig og tilkynnti
þér að nú værir þú orðin
langamma, og aftur þegar pabbi
sagði þér frá því það væri kominn
annar prins. Svo þegar Bjöggi varð
pabbi var alveg sama gleðin. Svo
eignaðist Vigdís strák og þegar ég
spurði þig hvort þú myndir hvaða
dag hann væri fæddur þá sagðirðu:
„Já, ég man það, það var 6. sept.
alveg eins og hann Guðmundur
Þór, hálfbróðir þinn.“ Svo sagðirðu:
„Svo eiga Steinunn hans Jens og
Jökull bróðir þinn afmæli 1. sept.,
pabbi þinn og Guðmundur Hjálms
eiga afmæli 8. sept., ég og Þor-
steinn afi þinn eigum afmæli sama
dag.“ Þetta fannst þér stórmerki-
legt, svo hlóstu að þessu öllu sam-
an.
Núna eru mamma og pabbi þinn,
Ámundi, Haddi, Stella litla, Þor-
steinn afi, Pétur, Elsa, Ólafía, afi
Ámundi Ísfeld og Sigríður búin að
taka á móti þér. Núna færðu loks-
ins að eyða tíma með fólkinu þínu
sem kvaddi þig snemma. Skilaðu
kveðju til þeirra allra frá mér.
Viltu faðma Hadda frá Skottu.
Elsku amma, láttu þér líða vel,
ég kveð þig með söknuð í hjarta.
Þín sonardóttir,
Guðrún Ingibjörg.
Elsku langamma Sinna.
Kristur minn, ég kalla á þig,
komdu að rúmi mínu,
gjörðu svo vel og geymdu mig,
Guð, í skjóli þínu.
(Höf. ók.)
Vertu Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér,
sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
(Hallgr. Pét.)
Elsku langamma, við eigum eftir
að sakna þín mikið.
Kær kveðja.
Sighvatur Bjarki,
Gabriel Brynjar,
Nökkvi Baldur
og Hlynur Freyr.
Í dag kveðjum við Sinnu í hinsta
sinn. Í æsku kallaði ég hana „Sinnu
ömmu“ og henni þótti vænt um
það, þótt hún væri ekki amma mín
heldur mágkona pabba.
Ég veit ekki hvers vegna ég fór
að kalla hana Sinnu ömmu, kannski
af því að hún var alltaf svo góð við
mig, bakaði svo góðar kökur eða
gaf mér svo skemmtilegar gjafir.
Gjafir sem kallaðar eru sparidótið í
dag og mamma hefur passað upp á
og leyfir sonum mínum að leika sér
með, ef þeir lofa að vera þægir.
Sinna var skemmtileg kona, fé-
lagslynd og gestrisin. Oft var kom-
ið við á Vesturgötunni að lokinni
bæjarferð í æsku minni. Jafnvel
var kíkt við hjá henni í vinnunni í
Sundhöllinni. En ferðunum til
hennar fækkaði eftir að við elt-
umst. Þó leit ég yfirleitt inn hjá
henni fyrir jólin og móttökurnar
voru alltaf góðar í bakhúsinu á
Vesturgötunni, þar sem tíminn stóð
í stað og lítið var um breytingar. Í
huga mínum lifir minningin um
hversu Sinna varð glöð þegar við
heimsóttum hana úr sveitinni á átt-
ræðisafmælinu með Þorstein okkar
nokkurra vikna. Það var ef til vill
ánægjulegasta gjöfin sem við gát-
um gefið henni. Kærar minningar
um Sinnu eru geymdar en ekki
gleymdar.
Hjálmur Þorsteinn.
Í dag er Eugenia Nielsen (Sinna)
fyrrverandi húsfreyja að Vestur-
götu 16B Reykjavík lögð til hinstu
hvíldar. Andlát hennar kom ekki á
óvart þar sem hún hafði átt við
veikindi að stríða um alllangan
tíma. Fyrir um 45 árum kom ég
fyrst á Vesturgötuna. Sinna, maður
hennar Þorsteinn Hjálmsson sem
lést langt um aldur fram og syn-
irnir þrír voru þá þar til heimilis.
Maður fann það að þarna var vin-
um að mæta. Sinna var um margt
sérstæð, hún var búin að reyna
margt sem mörgum hefði orðið erf-
itt komast yfir, en hún tók öllu
mótlæti með slíkri skynsemi og
andlegum styrk að aðdáunarvert
var. Hennar helstu einkenni voru
glaðværð og óvenjuleg frásagnar-
gáfa, maður hlaut að hlusta með at-
hygli þegar Sinna sagði frá liðnum
atburðum, svo sem æsku sinni í
Húsinu á Eyrarbakka þegar hún
var lítil stúlka hjá foreldrum sínum
þar, eins þegar hún var við nám í
Kaupmannahöfn og svo allur henn-
ar fróðleikur um liðna tíð. Eft-
irtektarvert var að aldrei var hall-
að á neinn, hennar húmor var ekki
þannig.
Hjá henni voru afmælisdagar
vina og vandamanna alveg á
hreinu, alltaf þegar við hjónin átt-
um afmæli hringdi Sinna til að
óska okkur til hamingju og ávallt
var aldur okkar á hreinu sem gat
orkað tvímælis eftir því sem árin
færðust yfir okkur, að þessu var
stundum hlegið.
Fyrir nokkrum árum þegar
Sinna var í heimsókn hjá okkur
hjónunum fórum við í bíltúr með
Sinnu og ákváðum að skoða Húsið
á Eyrarbakka og fengum við leyfi
hjá fólkinu sem bjó þá í Húsinu.
Var Sinna þar á heimavelli bæði
íbúum og okkur til ánægju þar sem
hverju herbergi var lýst, hvar hver
hafði sofið og hvar hver hlutur
hafði verið. Meðal annars hvar
skattholið með leynihólfinu hafði
staðið, en það skatthol hafði hún
fengið í arf og hafði ég oft skoðað
það með athygli þar sem það stóð í
stofunni hennar á Vesturgötunni.
Þá fengum við að sjá hvar eggja-
kofinn hans afa hennar hafði verið
og kartöflugarðurinn ásamt mörgu
sem ekki verður talið hér.
Við hjónin og börn okkar kveðj-
um góða vinkonu, með þökk fyrir
tryggð og vináttu frá fyrstu kynn-
um. Sonum hennar og fjölskyldum
þeirra vottum við samúð okkar.
Blessuð sé minning Eugeniu
Nielsen.
Af eilífðar ljósi bjarma ber,
sem brautina þungu greiðir.
Vort líf, sem svo stutt og stopult er,
það stefnir á æðri leiðir.
Og upphiminn fegrı́ en auga sér
mót öllum oss faðminn breiðir.
(Einar Ben.)
Sigurður Helgason.
„Komið sem fyrst aftur,“ voru
síðustu orð Sinnu þegar við kvödd-
um hana eftir heimsókn í Víðines.
Ófáar voru heimsóknirnar til henn-
ar á Vesturgötuna enda í leiðinni í
bæjarferð. Aldrei var komið að
tómum kofanum. Komin yfir átt-
rætt var hún að baka og átti alltaf
eitthvað með kaffinu, sló unga fólk-
inu við með kunnáttu sinni í
bakstri og matargerð að dönskum
sið. Alltaf var hressandi að koma í
heimsókn og hlusta á sögur frá
gömlum dögum, þá kom þessi fíni
danski húmor í gegn, mikið var
hlegið þá. Og alltaf var sagt í lokin:
„Komið sem fyrst aftur.“
Okkur er minnisstætt að aldrei
talaði hún illa um nokkurn mann.
Sinna var lífsglöð og jákvæð mann-
eskja, sem kom vel í ljós eftir öll
áföll hennar í lífinu. Hún var eikin
sem bognaði ekki. Það var gott að
eiga Sinnu fyrir vin, hún var þessi
sterka og skapgóða manneskja sem
gott var að koma til, maður fór
betri heim eftir hennar fund.
Hafi hún þökk fyrir allt og allt.
Guð geymi hana.
Kristín (Bedda) og Þráinn.
Kynni mín af Eugeniu I. Nielsen
hófust er hún bauð Byggðasafni
Árnesinga skatthol forfeðra sinna
til varðveislu sumarið 1993. Þá ný-
lega hafði verið tekin ákvörðun um
framtíð fæðingarstaðar hennar,
Hússins á Eyrarbakka og þar
skyldi starfsemi safnsins verða í
framtíðinni, í hinu merka menning-
arsetri Húsinu sem byggt var fyrir
einokunarkaupmenn árið 1765.
Skattholið kom í stássstofu Húss-
ins sumarið 1995 og hefur þar sómt
sér vel innan um ýmis önnur hús-
gögn forfeðra hennar. Margt annað
hefur Sinna gefið safninu sem
fengur hefur verið að og sýnir að
henni var annt um æskustöðvarn-
ar.
Með Sinnu hverfur í raun síðasti
fulltrúi þeirrar merku fjölskyldu
sem af mikilli samviskusemi vann
við Lefolii-verslun á Eyrarbakka
frá 1847 þegar Jakob Lefolii keypti
hlut í Eyrarbakkaverslun og til
1919 þegar sonur hans Andreas
Lefolii seldi sunnlenskum bændum
verslunina. Lefolii-versluninni
mætti e.t.v. líkja við Baug nú-
tímans – svo mikil voru umsvifin.
Faðir Sinnu, Jens D. Nielsen, var
síðasti faktorinn og hafði tekið við
af afa Sinnu, Peter Nielsen, en
langafi Sinnu var Guðmundur
Thorgrímsen sem af miklum skör-
ungsskap byggði upp verslun Lef-
olii á Eyrarbakka. Innan dyra
Hússins störfuðu konurnar – hús-
freyjan, dæturnar og vinnuhjú – og
má segja að þar hafi ekki verið í
kot vísað. Fengu fleiri að njóta,
einkum í tónlist og því að þjóna á
danska vísu. Varð Húsið á Eyr-
arbakka brátt eitt þekktasta heim-
ili landsins þar sem fjölskyldan
gegndi forystuhlutverki, ekki bara
í verslunarmálum heldur líka í
menningarumsvifum af margvís-
legu tagi sem gjarnan báru ein-
kenni danskrar borgarmenningar.
Í garði Hússins mátti stundum sjá
heimafólk ásamt gestum drekka
kaffi á góðviðrisdögum. Þótti slíkt
nýstárlegt í upphafi 20. aldar. Og á
einni myndinni má sjá grammófón
sem sjálfsagt hefur ekki verið al-
gengt þá. Myndir teknar af kaup-
mannsfrúnni Oline Lefolii og
Agnesi Lunn, danskri myndlistar-
konu sem dvaldi á Eyrarbakka, gaf
Eugenia I. Nielsen Byggðasafni
Árnesinga árið 1955 og hafa þær
oft birst í ritum og prenti enda eru
þær einstæðar heimildir um sam-
spil íslenskrar bændamenningar og
danskrar verslunarmenningar á
Eyrarbakka.
Já, Sinna átti sína æsku á Bakk-
anum, fyrst hjá foreldrum sínum
og síðar í skjóli Guðmundu Nielsen
móðursystur sinnar en til Reykja-
víkur fluttu þau árið 1930. Eyr-
arbakki var í æsku Sinnu mynd-
arlegt þorp, höfuðstaður
Suðurlands, með tæpum 1000 íbú-
um sem höfðu framfæri sitt af sjó-
mennsku, iðnaði og verslun. En
eftir 1920 dregst verslun á Eyr-
arbakka saman og margir sem lífs-
viðurværi höfðu af verslun fluttu af
staðnum.
Sinna hefur veitt mér miklar
upplýsingar um lífið í Húsinu þeg-
ar hún var að alast þar upp.
Og sögur þær sem hún sagði
voru stórmerkar, þó þær fjalli ekki
um stóra viðburði heldur lítil
hversdagsleg atvik. Til dæmis um
þá athöfn sem fram fór eftir að
fugl flaug á símastaur og dó. Þá
var fundinn til sérstakur pappa-
kassi undan minningarkortum og
fuglinn jarðsettur af afa Nielsen
með mikilli viðhöfn í hólnum í
garðinum nær kirkjunni. Þar var
einnig grafin tíkin Herta sem hafði
mannsvit. Hún hristi út teppið sitt
á morgnana og tók út dallinn sinn.
Var látin deyja úr elli. Og hversu
afi Nielsen var góður búktalari.
Leiksvæði hafði Sinna í löngu súð-
arherbergi undir suðurhlið á ann-
arri hæð – á þeim sama stað og nú
í dag gefur að líta margvísleg leik-
föng og spil frá fyrri tímum. Sinnu
var minnisstæð dúkkan sú sem
Guðmunda móðursystir hennar gaf
henni, dúkkan hét Áslaug Svana
Erla Germaní.
Ég tel mig lánsaman að hafa
kynnst Sinnu. Aðstandendum flyt
ég samúðarkveðjur úr Húsinu á
Eyrarbakka. Blessuð sé minning
Eugeniu I. Nielsen.
Lýður Pálsson.