Morgunblaðið - 18.04.2004, Side 32
LISTIR
32 SUNNUDAGUR 18. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Kynntu þér tilboð okkar
á bílaleigubílum
Pantaðu AVIS bílinn áður en þú leggur af stað
Það borgar sig – Hringdu til AVIS í síma 591-4000
Við erum í 170 löndum
5000 stöðum
T.d. Reykjavík, London, Kaupmannahöfn,
Frankfurt, Milano, Alicante ...
AVIS Knarrarvogi 2 – 104 Reykjavík – Sími 591 4000 – Fax 591 4040 – Netfang avis@avis.is – Heimasíða www.avis.is
Minnum á Visa afsláttinn
L
eikverkið Græna landið
eftir Ólaf Hauk Sím-
onarson í leikstjórn
Þórhalls Sigurðssonar
var frumsýnt í Frum-
leikhúsinu í Keflavík síðasta haust
og óhætt er að segja að sýningin hafi
slegið í gegn því hún var sýnd alls
tólf sinnum fyrir fullu húsi áður en
sýningin var flutt milli sviða. Strax
eftir áramótin var verkið tekið til
sýningar á litla sviði Þjóðleikhússins
og hefur síðan gengið fyrir fullu húsi.
Spurður hvernig hugmyndin að
verkinu hafi kviknað svarar Ólafur
Haukur því til að hann hafi orðið
vitni að sjúkdómsþróun af því tagi
sem lýst er í verkinu, þegar móðir
hans fékk Alzheimersjúkdóm og fór í
gegnum þær þrengingar sem oft
fylgja sjúkdómnum. „En það var að-
eins kveikjan, enda fjallar verkið um
ýmislegt fleira en bara veikindi aðal-
persónunnar, byggingarmeistarans
Kára Sólmundarsonar.
Þetta er saga af mannlegum sam-
skiptum, gömlum manni sem hefur
lokað á heiminn og einangrað sig þar
sem hann telur sig hvorki eiga erindi
við heiminn né sína nánustu. Til
karlsins kemur heimilishjálpin Lilja
sem sættir sig ekki við að hann sé að
hverfa úr heiminum meðan hann
dregur ennþá sæmilega lífsandann.
Hún gerir það að verkefni sínu að
hjálpa honum, bæði til að komast af í
daglegu lífi, en einnig til að taka upp
þráðinn í samskiptum sínum við ætt-
ingjana. Þannig neyðir hún hann til
að horfast í augu við ýmislegt sem
hann hefur lengi afneitað. Í raun má
segja að erindið með sýningunni sé
að sýna fram á að lífinu er aldrei lok-
ið. Við höfum alltaf tækifæri til að
taka upp þráðinn, horfast í augu við
það sem við höfum hliðrað okkur hjá
og bæta okkur sem manneskjur.“
Hvernig komu persónur verksins
til þín?
„Persónur í leikriti eru ávallt sett-
ar saman úr ýmsu efni, m.a. pörtum
af persónum sem við höfum kynnst á
lífsleiðinni. Leikrit eru í raun alltaf
samþjappaðar örlagasögur eða
dæmisögur. Ef leikpersónur á annað
borð öðlast líf, fá þær sitt sérstaka
táknræna líf, þær falla alls ekki und-
ir neins konar meðalhóf – persónur í
leikritum eru alltaf með sínum hætti
öfgamenn. Hvert leikrit verður
þannig sérstakur lífheimur, sem
annaðhvort hefur þau eigindi, sem
lifandi leiklist þarf að hafa, eða hefur
þau ekki og er þá dauðvona fætt.“
Einfaldleikinn oft áhrifaríkasta
lausnin þegar upp er staðið
En hvað þarf gott leikrit að hafa til
brunns að bera að þínu mati?
„Í raun er mjög erfitt að skil-
greina innviði í góðu leikriti. Sann-
leikskorn um eðli mannskepnunnar,
það er það sem er öllum góðum leik-
ritum sameiginlegt. Það þarf að vera
ákveðinn sannleikur í því sem er ver-
ið að segja, hvort sem leikritið er
gamanleikur eða harmleikur. Það
gildir líka ennþá að leikrit þurfa að
fjalla um eitthvað, því ennþá spyrja
áhorfendur og eiga fullan rétt á
svari: „Um hvað er þetta leikrit?
Hvaða sögu er verið að segja okk-
ur?“ Síðan er vitanlega mikilvægt að
framsetning verksins þjóni leikritinu
og þá er komið að hlutverki t.d. leik-
stjóra og ekki síst leikara.“
Eins og áður hefur komið fram
samdir þú hlutverk Kára sér-
staklega með Gunnar Eyjólfsson í
huga, en þetta hlutverk gerir ekki
litlar kröfur til leikarans þar sem
hann er á sviðinu nánast allan tím-
ann.
„Gunnar hefur verið sá gæfumað-
ur að geta fengist við leiklist óslitið
síðustu áratugina og ekki gert neitt
hlé þótt hann sé nokkuð við aldur.
Ég held að lykillinn að því að leik-
arar á þessum virðulega aldri treysti
sér upp á svið með stórar rullur sé að
ferillinn haldist óslitinn og menn séu
alltaf á hverjum degi að takast á við
eitthvað nýtt. Þetta gildir náttúrlega
í lífinu almennt, því um leið og fólk
hættir að takast á við hlutina, takast
á við eitthvað í hversdeginum þá
förlast því og það á ekkert skylt við
sjúkdóma eða ellihrörnun. Því miður
er bara eins og margir veigri sér við
að gera hluti eða eru einfaldlega
settir til hliðar þegar árunum fjölg-
ar. En samfélagið er vonandi að upp-
götva að það gengur ekki að jarða
fólk 67 ára gamalt, þjóðfélagið hefur
ekki efni á því. Við verðum að hafa
alla starfandi og hugsandi með fullri
þátttöku eins lengi og kostur er.“
Nú hefur þú á ferli þínum oft
skrifað mannmörg leikrit, en í tveim-
ur síðustu verkum þínum, þ.e.
Græna landinu og Viktoríu og
Georg, eru aðeins þrjár persónur.
Finnurðu mikinn mun á því að skrifa
fjölmenn leikrit annars vegar og fá-
menn leikrit hins vegar?
„Já, handverkið er dálítið annað.
Það getur verið afskaplega gaman að
vera með stóran hóp og mála á
stærra léreft. En í fjölmennum sýn-
ingum verður höfundur að gæta sín á
því að halda aðalpersónunum til
haga og síðan mála það sem við á
með aukapersónunum, því þær mega
ekki stela athygli frá þeim persónum
sem í raun bera söguna áfram. Þegar
höfundur vinnur aftur á móti aðeins
með þrjár persónur er mikilvægt að
gera öllum persónunum ítarlegri skil
og í leikriti með þremur persónum
eru engin aukahlutverk. Það er hins
vegar afskaplega gaman að koma
saman mannmörgum sýningum og
mér þótti mjög gaman að taka þátt í
því að búa til sýningar á borð við
Gauragang og Þrek og tár. Það er
alltaf dálítið afrek að koma saman
svoleiðis sýningum þannig að þær
séu skemmtilegar og haldi jafnt
dampi og athygli.“
Nú hafið þið Þórhallur Sigurðsson
leikstjóri Græna landsins unnið tals-
vert saman í gegnum tíðina og þekk-
ið því vafalaust vel hvor inn á annan.
Hverju breytir það í vinnuferlinu?
„Það spillir náttúrlega ekki fyrir
ef menn ná vel saman,“ segir Ólafur
Haukur og brosir. „Úti í hinum stóra
heimi er afar algengt að það myndist
svona bandalög á milli þeirra sem
setja sýningar á svið, hvort sem er
höfundur, leikstjóri, leikmyndahönn-
uður, danshönnuður eða bún-
ingahönnuður. Það getur nefnilega
verið til mikilla bóta að hafa unnið
saman áður og þekkja vinnubrögð
hver annars, styrkleika og veikleika.
Þannig vita menn að hverju þeir
ganga og þurfa ekki sífellt að vera að
finna upp hjólið á hverjum degi.“
Hvernig er það, fylgist þú mikið
með æfingum þegar er verið að æfa
eftir þig leikrit?
„Já, ég er talsvert mikið viðriðinn
uppfærsluna. Ég er ekki einn þeirra
höfunda sem geta fullskrifað leikrit
sín við skrifborð. Meðan verið er að
æfa verkið er ég ávallt opinn fyrir til-
lögum og bæði endurskoða og end-
urskrifa eftir þörfum. Að mínu mati
er leikritið aldrei fullskrifað fyrr en á
frumsýningu.“
Það vakti mikla athygli þegar sýn-
ingin Græna landið var frumsýnd að
hún var leikin inni í gróðurhúsi. Var
það eitthvað sem þú sást fyrir þér
þegar þú skrifaðir verkið?
„Nei, ég sá fyrir mér að verkið
væri leikið í nokkurs konar sólstofu,
en Gretar Reynisson leikmynda-
hönnuður datt ofan á þessa snjöllu
lausn að ganga alla leið í einangrun
gamla mannsins og fara með hann út
í gróðurhús. Þetta er auðvitað það
sem snjallir leikmyndahönnuðir
gera, það er að taka grunnhugmynd
leikritsins og hlutgera hana. Í gróð-
urhúsinu þykist gamli maðurinn
vera að efna gamalt loforð við heitna
eiginkonu sína um að halda blóm-
unum til haga, en auðvitað eru þau
öll steindauð. Hann býr síðan um sig
í gróðurhúsinu þar sem hann er á
flótta undan einhverju lífi sem hann
hefur ekki alveg tök á að takast á við,
sem birtist m.a. í „græna fólkinu“
sem hefur komið sér fyrir í öllum
herbergjum hússins, en þetta fólk og
þessar raddir eru í raun hans innri
maður og hans innri heimur sem
sækir að honum.“
Felst ekki talsverð áskorun í því
að miðla þessum innra heimi Kára á
leiksviðinu?
„Það má auðvitað segja að þessi
hluti sýningarinnar hafi verið sá
flóknasti. Að finna lausn á því hvern-
ig ætti að koma þessum átökum og
hryllingi, sem maðurinn upplifir og
sér allt í kringum sig en er end-
anlega innra með honum, yfir til
áhorfenda. Eftir ýmsar tilraunir
varð niðurstaðan sú að miðla þessu á
sem einfaldastan hátt, enda er ein-
faldleikinn oft áhrifaríkasta lausnin
þegar upp er staðið. Það má segja að
Kári standi með vissum hætti milli
tveggja heima, hann er með annan
fótinn í þessum raunveruleika og
með hinn í einhverjum undarlegum
heimi þar sem við lifum líka hvort
sem við erum sjúk eða heilbrigð, því
við eigum öll okkar dulda eða falda
heim þar sem við lifum okkar and-
legu lífi. Kári Sólmundarson í Græna
landinu hefur ekki gætt þess nógu
vel að vökva blómin á lífsleiðinni og
sál hans er þar af leiðandi illa leikin.
Hann hefur heldur aldrei horfst í
augu við hvorki sínar eigin þarfir né
sinna nánustu. Hann hefur unnið sín
verk með sóma, þ.e. byggt stór og
góð hús, en hann hefur ekki sáð til
hamingju með sínum nánustu.“
Leikrit er eins og ísjaki
Nú hefur þú á löngum ferli fengist
við ólíkar greinar bókmenntanna
auk þess að semja fyrir leikhúsið,
sjónvarp og hvíta tjaldið. Hvernig
finnst þér glíman við leikhúsformið?
„Margir halda að leikritun sé eins
og hver önnur bókmenntaskrif, en
leikritun er allt önnur ella. Í leikriti á
leiksviði les áhorfandinn þrívíða
mynd í núinu og fær til sín sögu
borna fram af lifandi fólki. Að þessu
leyti er leikritun alveg einstakt list-
form. Mín reynsla er sú að glíman er
jafn erfið í hvert sinn. Það er engin
trygging fyrir nothæfu leikriti að
maður hafi skrifað leikrit áður. Leik-
ritun snýst alltaf um það að nálgast
einhvern kjarna í persónum. Í leik-
húsi er ekki hægt að blekkja, enda
sitja hundruð manna í salnum, fólk
sem ekki lætur blekkja sig. Dóm-
urinn er beinn og afdráttarlaus. Með
tímanum læra höfundar auðvitað
handverk leikritunar, hin ýmsu
brögð leikhússins, þeir læra sitthvað
um eðli leiktexta, því leiktexti hefur
talsvert annað eðli en annar bók-
menntatexti. Leikskáld þarf að
koma heilum heimi til skila með lág-
marki af texta. Leikskáld segir sögu
af persónum, lýsir veröld af ein-
hverju tagi og stofnar til átaka sem
fá lausn á sviðinu á mjög knöppum
tíma. Leikrit er eins og ísjaki, tíundi
hluti rís upp af haffletinum, hitt er
neðansjávar,“ segir Ólafur Haukur
að lokum.
Lífinu er aldrei lokið
„Ég er ekki einn þeirra höfunda sem geta fullskrifað leikrit sín
við skrifborð. Meðan verið er að æfa verkið er ég ávallt opinn
fyrir tillögum og bæði endurskoða og endurskrifa eftir þörf-
um. Að mínu mati er leikritið aldrei fullskrifað fyrr en á frum-
sýningu,“ segir Ólafur Haukur Símonarson leikskáld í samtali
við Silju Björk Huldudóttur, en leikrit hans Græna landið hef-
ur gengið fyrir fullu húsi frá því það var frumsýnt.
Morgunblaðið/Kristinn
„Margir halda að leikritun sé eins og hver önnur bókmenntaskrif, en
leikritun er allt önnur ella. Í leikriti á leiksviði les áhorfandinn þrívíða
mynd í núinu og fær til sín sögu borna fram af lifandi fólki. Að þessu
leyti er leikritun alveg einstakt listform,“ segir Ólafur Haukur Sím-
onarson, höfundur leikverksins Græna landið.
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Gunnar Eyjólfsson í hlutverki Kára Sólmundarsonar byggingarmeistara.
silja@mbl.is