Pressan - 05.12.1991, Blaðsíða 8

Pressan - 05.12.1991, Blaðsíða 8
8 FIMMTUDAGUR PRESSAN 5. DESEMBER 1991 Leikreglurnar um kvótakaupin eru mismunandi. Og það er sama hvaða skoðun menn hafa á kvóta, ljóst er að ekki standa allir jafnir fyrir leikreglunum. Þeir sem betur mega sín geta í raun keypt allan þann kvóta sem þeir vilja á því verði sem þeir vilja, vegna þess að þeir einir hafa möguleika á að láta aðra greiða kvótann. Þess vegna ráða þeir markaðnum og ná til sín æ stærri sneið af þeirri köku sem er til skipta og á að heita sameign þjóðarinnar. Kvótakaup og -sala hafa verið mikið í umræðunni. Það eru fá fyrir- tæki sem hafa verið ráðandi á þess- um markaði. Þau sem mest hafa keypt eru Útgerðarfélag Akureyr- inga, Samherji á Akureyri, Skag- strendingur á Skagaströnd, Grandi í Reykjavík og Hrönn á ísafirði, sem gerir út aflaskipið Guðbjörgu. Leiðir þessara stóru fyrirtækja til kvótakaupa eru mun fleiri en hinna smærri. Reyndar geta þau stóru komið kostnaðinum við kaupin að hluta yfir á þjóðina. Það er gert með afskriftum, kaupum á tapi og fleiri leiðum. Lengi vel var deilt um með hvaða hætti ætti að færa kvótakaup í bók- hald þeirra fyrirtækja sem keyptu kvóta. í fyrstu voru kvótakaupin færð eins og hver annar rekstrar- kostnaður, svo sem eins og olía, veiðarfæri og fleira. Næsta skref var að færa tap af bát- um sem sölutap. Skoðum þetta að- eins nánar. Stóru og öflugu fyrirtæk- in hafa keypt marga báta og fært kvótann af þeim yfir á önnur skip. Þegar bátarnir eru keyptir, segjum á eitt hundrað milljónir króna með kvóta, er kvótinn færður af bátun- um, ýmist allur eða að verulegum hluta. Síðan eru bátarnir seldir aftur, kvótalausir eða kvótalitlir á mun lægri upphæð en þeir voru keyptir á. Við það myndast sölutap sem kemur til frádráttar af hagnaði fyrir- tækjanna og þar með greiða þau lægri skatta til hinna sameiginlegu sjóða. Með því má segja að almenn- ingur í landinu taki verulegan þátt í kvótakaupum stóru fyrirtækjanna. Nú eru keyptar veiðiheimildir færðar sem eign í bókhaldi fyrir- tækjanna og eru afskrifaðar á nokkrum árum. Þar með er hafin eignamyndun. Margir eru þeirrar skoðunar að eftir að fyrirtækin eru búin að afskrifa kvótann hljóti hann að teljast þeirra eign og fyrirtækin geti þar með ráðstafað kvótanum með þeim hætti sem stjórnendur þeirra vilja. Þetta stangast á við það sem segir í fyrstu grein laganna um stjórn fisk- veiða, en eins og kunnugt er segir hún að kvótinn sé sameign þjóðar- innar. AÐRIR HAFA EKKl MÖGULEIKA Þeir sem PRESSAN ræddi við voru á einu máli um að smátt og smátt færðist mestur hluti kvótans til fárra en stórra fyrirtækja. Ástæð- an er einföld. Þau fyrirtæki sem ekki eru rekin með hagnaði, en þeim fer fækkandi í sjávarútvegi, hafa einfaldlega ekki möguleika á að keppa við stóru fyrirtækin. Tökum dæmi. Þegar vandræði voru hvað mest á Patreksfirði og þeir misstu þar frá sér veiðiskipin og kvótann, sem skipti reyndar mestu máli, fengu þeir fyrirgreiðslu til að kaupa skip aftur. Gott og vel, þetta leit vel út og Pat- reksfirðingar keyptu meðal annars bátinn Patrek aftur. Þegar þetta var gert komu margar gagnrýnisraddir fram sem töldu þennan rekstur von- lausan, vegna þess að kvótinn var of dýr. Aðrir voru á öðru máli. Nú hef- ur komið í ljós að Patreksfirðingar gátu ekki haldið bátnum. Af hverju? Jú, vegna þess að þeir gátu ekki nýtt sér afskriftirnar þar sem enginn hagnaður var af rekstrinum og reyndar alltaf borin von að hægt væri að reka bátinn með hagnaði. Patrekur hefur verið seldur til Stöðvarfjarðar. Það var Byggða- stofnun sem lánaði 50 milljónir til kaupanna. Þeir sem sögðu á sínum tíma að Patreksfirðingar gætu ekki gert út bátinn segja nú að eftir um eitt ár verði Byggðastofnun að koma aftur til hjálpar svo Stöðfirð- ingar losni við bátinn og svo koll af kolli. NÝR OG STÓR GJALDALIÐUR „Þessi gjaldaliður var ekki til í út- gerð og fiskvinnslu fyrir fáeinum ár- um en er orðinn einn sá stærsti í dag og fer sívaxandi," sagði Ólafur Arn- fjörd, sveitarstjóri á Patreksfirði, þegar hann var spurður um áhrif kvótakaupa á hag útgerðar og fisk- vinnslu. „Vinnslan kaupir fiskinn dýrasta verði, verðlagsráðsverðið heyrir sögunni til þar sem útgerðirnar verða að fá hærra og hærra verð og vinnslan kemur því líka illa út úr þessu. Það er eins og menn séu að vakna upp við þetta núna.“ Nú hafid þið selt Patrek, huers vegna? „Skipið var of dýrt. Ef vinnslan hefði borgað það verð fyrir fiskinn sem skipið þurfti þá hefði hún farið á hausinn. I mörgum tilfellum eiga menn að sjá að þetta gengur ekki upp. Þess vegna fer þetta á þennan veg. Þegar Patrekur var keyptur hingað voru menn fullir bjartsýni. Þetta gekk bara ekki upp. Til að vera sjálfbjarga var báturinn seldur, þrátt fyrir að sárt sé að horfa á eftir honum. Með þessu tryggjum við stoðir stærsta fyrirtækisins hér, Odda, sem stendur sæmilega eftir,“ sagði Ólafur Arnfjörð. VONLAUS REKSTUR Nýlegt dæmi eru kaupin á Stakka- vík ÁR. Báturinn var seldur frá Eyr- arbakka til Grenivíkur á 160 milljón- ir króna. Kvótinn er rúm 400 tonn og kostar einn og sér um 70 milljón- ir króna. í kaupum sem þessum er ekki getið um í kaupsamningum eða afsali hvernig verðið skiptist milli báts og kvóta. Þarna lætur nærri að kvótinn sé um 70 milljónir og báturinn, sem er 247 tonn og smíðaður 1967, lengdur 1975 og yf- irbyggður 1979, kostar um 90 millj- ónir króna. Þumalputtaregla segir að veltan á fyrsta ári verði að vera nærri kaup- verðinu. í þessu dæmi, sem er alls ekki óraunhæft, gengur reksturinn aldrei. Verum bjartsýn og segjum að meðalverð aflans á fyrsta árinu sé 80 krónur fyrir hvert kíló, sem sagt aflaverðmæti fyrsta árs verði þá um þrjátíu og tvær milljónir króna. Þá er eftir að greiða mannskapn- um, en það er um helmingur þess sem kemur inn, eða um 16 milljónir. Annar rekstrarkostnaður, svo sem olía, veiðarfæri, viðhald og fleira og fleira, er þá óreiknaður. Gott þykir að þegar þetta allt er greitt verði eft- ir um tíu prósent, 3,2 milljónir króna. Það er sama hvernig menn reikna, þessi afgangur, 3,2 milljónir, er hvergi nógur til að standa straum af afborgunum og vöxtum af hluta- fé. Gróflega er hægt að áætla að tap á fyrsta ári verði um 30 til 35 millj- ónir króna og það hækki svo eftir því sem árunum fjölgar og mögu- leikar þess að gera bátinn út verða sífellt minni. PRESSUNNI er ekki kunnugt um hversu mikið eigið fé kaupandinn átti, en samkvæmt því sem hér hef- ur verið rakið mega skuldirnar ekki vera miklar til að endar nái saman. Þess má geta í lokin að vélin í Stakkavíkinni er frá 1974 og því væntanlega orðin viðhaldsfrek. Það skal tekið fram að þetta dæmi, kaupin á Stakkavíkinni, er tekið hér sem eitt dæmi af mörgum hliðstæðum. SNÆFELLINGUR í ÓLAFSVÍK Þetta dæmi á líka við um hið nýja fyrirtæki í Ólafsvík, Snæfelling. Þeir keyptu þrjá báta með 1.700 tonna kvóta fyrir 420 milljónir. Miðað við 80 króna meðalverð verða árstekjur fyrirtækisins 135 milljónir króna, sem samkvæmt þumalputtaregl- unni gefa 13,5 milljónir í vexti, af- borganir og arð af hlutafé. Ætla má að Snæfelling vanti um 50 til 70 milljónir króna eftir eitt ár. Það mun hafa áhrif á lausafjárstöð- una, sem leiðir til þess að fjármagns- kostnaðurinn eykst enn. KAUP Á TAPI Tapkaup fyrirtækja hafa verið mikið í fréttum. Nú er einna helsi rætt um fyrirhuguð kaup Samherja á Akureyri á tapi Meitilsins í Þor- lákshöfn, sem er um einn milljarður króna. Samherji er tilbúinn að greiða eitt hundrað milljónir fyrir tapið. Ef af kaupunum verður má ætla að eigendur Samherja geti komist hjá skattgreiðslum í allt að fimm árum. í besta falli, þ.e.a.s. fyrir Samherja, getur þetta leitt til þess að þeir sleppi við að greiða skatta sem geta numið allt að sex til sjö hundruð milljónum króna. Þótt rekstur Samherja gangi vel er ólíklegt að hagnaðurinn á næstu ár- um verði svo mikill, en víst er að ef af þessum viðskiptum verður marg- falda Samherjamenn þessar eitt hundrað milljónir. Stórgróði blasir við fái þeir að kaupa tapið. En þetta er ekki allt. Að hluta til kemur þjóðin til með að greiða tap Meitilsins. Hluti af skuldum fyrir- tækisins er við opinbera aðila, svo sem Ríkissjóð, Átvinnutrygginga- sjóð og fleiri. Þeir peningar tapast og það verður til þess að sameigin- legir sjóðir landsmanna tapa. Hin hliðin er sú að Samherji er eitt fárra útgerðarfyrirtækja sem rekin eru með hagnaði. Með kaupum á tapinu hyggjast Samherjamenn lækka skatta sína. Ef það gengur eftir missa sameiginlegir sjóðir okkar af þeim peningum sem Samherji hefði annars greitt, vegna hagnaðarins. Þar sem tapframboð er orðið mik- ið hefur verðið fallið og tap fæst nú á um tíu prósent af verði. Þeir sem ráða yfir fjármagni geta því hæg- lega keypt tap og komist þannig frá skattgreiðslum að verulegum hluta. Hreinn Loftsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur sagt að með kaupum á tapi verði tap ríkissjóðs tvöfalt; fyrst í töpuðum kröfum op- inberra sjóða og síðan verði ríkis- sjóður af skatttekjum stöndugu fyr- irtækjanna. SUÐURNESIN KOMIN LENGST Margir bátar með mikinn kvóta hafa verið seldir frá útgerðarstöðun- um á Suðurnesjum. Þar hafa líka mörg fiskvinnslufyrirtæki hætt rekstri, oftast vegna gjaldþrots, og einnig eru dæmi um að eigendur þeirra hafi hreinlega gefist upp áður en kom til gjaldþrots. „Við erum komnir lengra en aðrir í þessari þróun. Hér eru hundruð manna atvinnulaus og útlitið ekki bjart. Við erum komnir lengra í þessari þróun en aðrir hefðbundnir sjávarútvegsstaðir. Þetta á eftir að breiða úr sér og sama vandamálið á eftir að koma upp víðar. Ef þessi þróun verður ekki stöðvuð verður borgarastyrjöld hér á landi, og ég mun taka þátt í henni," sagði fisk- verkandi á Suðurnesjum. Annar fiskverkandi sagði að mik- ið væri um að fólk hringdi í sig í at- vinnuleit. „Ástandið hér er orðið vægast sagt ömurlegt," sagði fisk- verkandinn. HAGRÆÐINGARSJÓÐUR Hagræðingarsjóður, sem sjávarút- vegsráðherra fer með, er stærsti kvótaeigandi á landinu. Sjóðurinn á um tíu þúsund þorskígildistonn. Nú er rætt um að selja kvóta sjóðsins á markaðsverði, en það mundi leiða til þess að ríkið yrði stærsti kvóta- seljandinn á landinu og þar með helsti þátttakandinn í því sem marg- ir nefna „kvótabrask“. Sigurjón Magnús Egilsson

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.