Morgunblaðið - 19.06.2004, Síða 36
UMRÆÐAN
36 LAUGARDAGUR 19. JÚNÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Sagt er að orð séu dýr – oft-ast í þeirri merkingu aðmenn skuli tala gætilegaog íhuga vandlega það
sem þeir segja, því að það sem sagt
hefur verið geti reynst örlagaríkt
enda verði töluð orð ekki tekin aft-
ur. En orð eru einnig dýr í þeirri
merkingu að það verður að fara
rétt með þau, jafnt hvað innihald
(merkingu) sem útlit (beygingu)
varðar. Í dagsins önn og hraða nú-
tímans vill stundum verða nokkur
misbrestur á þessu og stundum er
eins og nokkur verðbólga hafi
hlaupið í merkingu orða, t.d. í
merkingu sagnarinnar að myrða
e-n.
Nýlega var framið bankarán í
Stafangri. Í fréttum af því var sagt
að ræningjarnir hefðu myrt lög-
regluþjón. Umsjónarmaður kann
ekki við þessa notkun sagnarinnar
myrða. Upprunaleg merking henn-
ar er ‘vega á laun’ enda er hún
leidd af orðinu morð ‘launvíg’. Síð-
ar hefur sögnin fengið aukamerk-
inguna ‘leyna’. Í fornu máli eru
þess mörg dæmi að menn hafi ver-
ið drepnir og myrtir síðan, t.d.:
hann drap sveininn og vildi myrða
og myrða dauðan mann. Í nútíma
máli er enn talað um að fara með
eitthvað eins og/sem mannsmorð ef
það sem um ræðir á að fara leynt.
Ógæfumennirnir í Stafangri drápu
lögreglumanninn vísvitandi, skutu
hann eða felldu en þeir myrtu hann
ekki í bókstaflegri merkingu. Um-
sjónarmaður las nýlega í blaði að
Bandaríkjamenn hygðust myrða
klerk nokkurn eins og skrifað var
en síðar í sömu grein var talað um
að taka klerkinn af lífi. Kannski er
það einnig svo að notkun sagnanna
myrða, drepa, vega og fella sýnir
að nokkru leyti afstöðu þess sem
talar/skrifar til verksins. Í Frétta-
blaðinu var ritað: Morð á leiðtoga
Hamassamtakanna hefur vakið
hörð viðbrögð en um sama efni gat
að lesa í Morgunblaðinu: Víg Ísr-
aela á leiðtoga Hamassamtakanna
á Gaza vekur hörð viðbrögð. Um-
sjónarmanni finnst fréttin í Morgi-
unblaðinu sögð með hlutlausum
hætti en ætla má að þeim sem
skrifaði um sama efni í Fréttablað-
ið blöskri framferði Ísraelsmanna.
Sögnin að hindra merkir ‘koma í
veg fyrir, tálma’, og er hún oftast
notuð með persónum, t.d. hindra
e-n í e-u. Umsjónarmaður las í
blaði að lögreglan á Spáni ?hefði
hindrað hryðjuverk og einnig ?að
tekist hefði að hindra slys og kann
illa við hvort tveggja.
Sögnin að blása er m.a. notuð um
það er blásið er í lúður. Í íslensku
er að finna fjölmörg orðasambönd
er vísa til þess er blásið er til fund-
ar (herstefnu (með því að blása í
herlúður)), t.d. blása til atlögu;
blása til brottfarar, blása til sóknar
og blása til þings. Einnig má boða
til fundar með því að blása mönn-
um saman. Ekki eru þess dæmi í
fornu máli að slíkar stefnur hafi
verið blásnar af en sú vísun kann
þó að liggja að baki í orðasamband-
inu blása e-ð af, sbr. hringja inn og
klykkja út. Það er þó alkunna að
tungumál breytast og einnig þau
viðmið sem liggja að baki föstum
orðasamböndum. Forfeður okkar
voru herskáir og blésu í herlúðra
en nú mun slíkt sjaldgæft og í
íþróttamáli blása dómarar í flautur
sínar og þeir geta blásið leik af.
Þar er bein merking ‘blása í flautu
til merkis um að
leik sé lokið’ en
óbein merking
er ‘hætta við
e-ð’. Umsjón-
armaður rakst á
eftirfarandi
dæmi í blaði:
?Allar vanga-
veltur hafa ver-
ið blásnar út af
borðinu (9.8.03). Þetta orðafar á
sér engar hliðstæður í íslensku
enda er trúlega um að ræða áhrif
frá ensku (e. wipe off the table).
Ýmsir ákvæðisliðir (allt að e-u,
hátt í e-ð, sem svarar e-u, nærri
e-u, nálægt e-u) stýra falli og ef
fallstjórn þeirra er frábrugðin
fallstjórn aðalliðar er fallanotkun
stundum á reiki, þ.e. ýmist ræður
aðalliður falli (a) eða ákvæðisliður-
inn (b), t.d.: (a) Skipstjóranum er
leyft að veiða allt að 35 þúsund
lestir af loðnu eða (b) Skipstjór-
anum er leyft að veiða allt að 35
þúsundum lesta af loðnu. Hér er
um það að ræða hvort sögnin veiða
(með þolfalli) ræður ferðinni eða
forsetningarsambandið allt að
(með þágufalli). Í fornu máli er það
jafnan forsetningin sem ræður
fallstjórn. Í samræmi við það má
telja það venjubundna málbeitingu
að segja: hitinn var allt að fjörutíu
og tveimur stigum en ekki ?hitinn
var allt að fjörutíu og tvö stig; Bið-
tími eftir barni frá Kína er allt að
18 mánuðum en ekki ?Biðtími eftir
barni frá Kína er allt að 18 mánuðir
og …veita ábyrgð fyrir allt að 200
milljónum dollara en ekki ?veita
ábyrgð fyrir allt að 200 milljónir
dollara. – Ýmis dæmi af þessu tagi
hefur rekið á fjörur umsjón-
armanns og hann vísar því til les-
enda að meta þau (innan sviga er
sýnd málbeiting sem felur í sér ný-
mæli): Hafa vistir til allt að þremur
vikum (þriggja vikna); framlengja
frestinn um allt að einum mánuði
(einn mánuð); ég skal bíða í allt að
tveimur dögum (tvo daga); viðgerð
kanna að taka allt að mánuði (mán-
uð); allt að þrem milljónum (þrjár
milljónir) manna búa á flóðasvæð-
inu; íþróttamaðurinn æfir allt að
tveimur tímum (tvo tíma) á dag og
heimila nemanda að klára allt að 30
einingum (einingar) á önn.
Íslensk tunga hefur eins og aðr-
ar tungur breyst talsvert í aldanna
rás þótt breytingar á málkerfinu,
einkum á setningafræði og beyg-
ingarfræði, séu svo litlar að við get-
um án fyrirhafnar lesið rúmlega
800 ára gamla texta. Nýlega rakst
umsjónarmaður á fyrirsögn í dag-
blaði sem hann skildi alls ekki:
Beckham í tómu tjóni. Þetta vakti
áhuga undirritaðs og því las hann
greinina. Efni hennar var það að
knattspyrnukappinn hefði meitt
sig á sjötta boðorðinu og væri því í
vondum málum eða tómu rugli eins
og stundum er sagt. Sama orða-
sambandi (vera í tómu tjóni) gat að
líta í nýlegu skólablaði. Hér mun
vera á ferðinni unglingamál en
ekki er alveg ljóst hvað liggur að
baki. Er það neyslusamfélagið og
efnishyggjan sem elur slíkt af sér?
Umsjónarmaður reynir eftir föng-
um að fylgjast með breytingum á
íslenskri tungu og nýliðun af þeim
toga sem að ofan gat og telur að
unglingamál hafi alltaf verið til,
hver kynslóð þarf að skapa sér sinn
stíl ef svo má segja. Þau nýmæli
lifa síðan sem þjóðarsálin vill setja
á, önnur deyja drottni sínum.
Úr handraðanum
Flestir munu þekkja orða-
tiltækið það blæs ekki byrlega fyr-
ir/(hjá) e-m, t.d.: Það hefur ekki
blásið byrlega fyrir flokki kansl-
arans síðasta árið og ekki blæs
byrlega fyrir/(hjá) KA-mönnum.
Það vísar til þess er byr eða með-
vind vantar og er yfirfærð merking
‘horfur eru ekki góðar’, sbr. einnig:
dreyma draum ekki byrlegan. Það
er notað með ýmsum forsetn-
ingum, t.d.: ekki blæs sem byrleg-
ast fyrir e-u; ekki blæs byrlega til
einhvers; ekki blæs byrlega með
útgáfu blaðsins og ekki blæs byr-
lega um fyrstu tilraunir til eflingar
jarðræktar. Umsjónarmaður hefur
veitt því athygli að í nútímamáli er
alloft sagt og ritað: ?það blæs ekki
byrlega fyrir liðið. Slík notkun
styðst ekki við málvenju.
… stundum er
eins og nokkur
verðbólga hafi
hlaupið í merk-
ingu orða, t.d. í
merkingu
sagnarinnar að
myrða e-n
jonf@hi.is
ÍSLENSKT MÁL
Jón G. Friðjónsson
30. þáttur
AÐ UNDANFÖRNU hafa sam-
gönguráðuneytinu borist ályktanir
vegna þingsályktunartillögu um
vegagerð um Stóra-
sand. Ályktanir eru
nær allar á þann veg
að áformum um þessa
vegalagningu er mót-
mælt. Vegna umfjöll-
unar um málið tel ég
nauðsynlegt að gera
nokkra grein fyrir
þeirri stefnu sem
mörkuð var í sam-
gönguáætlun og varð-
ar hálendisvegi.
Grunnnet
vegakerfis
Samgöngukerfinu er ætlað að upp-
fylla þarfir þjóðarinnar fyrir alla
fólks-og vöruflutninga. Í víðasta
skilningi eru því öll mannvirki, sem
nota má til þessara flutninga, hluti af
samgöngukerfinu. Þegar unnið er að
samgönguáætlun er mikilvægt að
draga sérstaklega fram þau mann-
virki sem mestu skipta fyrir heildina
og mynda eðlilegt samfellt sam-
göngukerfi um land allt. Þetta meg-
inkerfi samgangna er
nefnt grunnnet í gild-
andi samgönguáætlun:
Með grunnnetinu er
burðarkerfi sam-
gangna skilgreint.
Það er þýðingarmesti
hluti samgöngu-
kerfisins sem tengir
saman byggðarlög
landsins og myndar
eina heild.
Umferðin er mest á
grunnnetinu og því
mikilvægt að það njóti
forgangs við uppbygg-
ingu m.a. vegna slysahættu sem
fylgir aukinni umferð.
Líta ber á grunnnetið sem lands-
kerfi er gagnast landsmönnum öll-
um. Uppbygging þess er í þágu
landsins alls fremur en einstakra
byggðarlaga.
Miðað er við að allir byggðakjarn-
ar með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri teng-
ist gunnnetinu. Einnig er grunnnetið
látið ná til þeirra staða sem gert er
ráð fyrir að verði mikilvægastir fyrir
fiskveiðar, ferðamennsku, og flutn-
inga að og frá landinu. Grunnnetið er
samfellt, liggur um þéttbýlisstaði
þegar svo háttar til og helstu sam-
gönguæðar á stærstu þéttbýlissvæð-
unum teljast til netsins. Þetta er mik-
ilvæg skilgreining sem kemur fram í
greinargerð með tillögu til þings-
ályktunar um samgönguáætlun fyrir
tímabilið 2003 til 2014. Þessi skil-
greining dregur hins vegar ekki úr
nauðsyn þess að byggja upp aðra
hluta vegakerfisins.
Hálendisvegir
Vegir eru flokkaðir í stofnvegi, tengi-
vegi, safnvegi og landsvegi. Hálend-
isvegir eru undir vegflokknum
Landsvegir. Í samgönguáætlun, sem
samþykkt var á Alþingi 13.mars
2003, er fjallað sérstaklega um þá
landsvegi sem falla undir grunnnetið.
Þeir eru Sprengisandsleið, Kjalveg-
ur, Fjallabaksleið nyrðri og Kalda-
dalsvegur. Ekki er í samgönguáætl-
un gert ráð fyrir að brotnir verði nýir
fjallvegir eða nýir hálendisvegir, sem
taki við af stofnvegakerfinu sem er í
grunnnetinu og er ekki enn full-
uppbyggt, samanber þjóðvegurinn
milli Reykjavíkur og Akureyrar. Við
undirbúning samgönguáætlunar var
fjallað rækilega um alla helstu kosti
við endurbætur og uppbyggingu
vegakerfisins. Ekki var talið koma til
álita að gera ráð fyrir fleiri hálend-
isvegum á meðan hringvegurinn og
aðrir hlutar vegakerfisins væru ekki
fullbyggðir. Ég tel að það hafi verið
rétt ákvörðun og ekki sé, að svo
komnu máli, tilefni til þess að leggja á
ráðin um hálendisveg í samræmi við
tilgreinda tillögu um veg sem ætti að
liggja úr Norðurárdal í Skagafirði
um Stórasand til Borgarfjarðar.
Ný samgönguáætlun í vinnslu
Við endurskoðun gildandi samgöngu-
áætlunar verður þessi stefna tekin til
skoðunar. Þar verður lagt mat á það
hvort komið sé að þeim möguleika að
fjölga hálendisvegum og/eða byggja
hálendisvegi með sérstakri gjaldtöku
eins og lagt er til í tillögunni. Það er á
verksviði samgönguráðherra að
vinna að undirbúningi þess að gild-
andi samgönguáætlun verði endur-
skoðuð. Það verk er hafið og er þess
að vænta að okkur Íslendingum megi
auðnast að hraða sem mest má verða
uppbyggingu vegakerfisins. Takist
okkur að halda þeim framkvæmda-
hraða, sem hefur verið á síðasta kjör-
tímabili, munum við sjá miklar fram-
farir á vegakerfinu á næstu árum.
Þar skiptir mestu að ljúka hringveg-
inum og tengja saman byggðirnar
með ströndinni. Með sölu ríkiseigna,
svo sem hlutabréfum í Símanum,
ættum við að vera vel í stakk búin til
þess að takast á við næstu verkefni,
sem blasa hvarvetna við. Bættar
samgöngur er allra hagur. Með betri
vegum dregur úr slysahættu á þjóð-
vegunum. Þar er verk að vinna og
það skiptir miklu máli hver forgangs-
röðunin verður.
Er komið að því að fjölga
hálendisvegum?
Sturla Böðvarsson
fjallar um samgöngumál ’Það er á verksviði sam-gönguráðherra að vinna
að undirbúningi þess að
gildandi samgönguáætl-
un verði endurskoðuð.‘
Sturla Böðvarsson
Höfundur er samgönguráðherra.
VEL MÁ taka undir sum orð
Snorra Más Skúlasonar, kynning-
arfullrúa Þjóðminjasafns Íslands, í
Mbl. 2. júní sl. í tengslum við
hugsanlega risavaxna eftirmynd af
víkingasverði á Melatorgi til að
vekja athygli á safn-
inu. Hann segir m.a.
um nýjar sýningar
safnsins:
„Markmiðið er að
vekja gesti til um-
hugsunar um sambúð
lands og þjóðar í
gegnum aldirnar,
auka skilning og ekki
síst víðsýni Íslend-
inga. Hlutverk safns-
ins í nútímasamfélagi
er því að gera fólki
kleift að hafa betri
sýn á fortíðina í nú-
tímanum á leið inn í
framtíðina.“
Sverð frá vík-
ingaöld sendir á hinn
bóginn afar villandi
skilaboð sem helsta
táknmynd fyrir ís-
lenskar þjóðminjar.
Í fyrsta lagi gefur
það hinni rómantísku
ranghugmynd undir
fótinn að Ísland hafi
verið víkinganýlenda.
Áður en lengra er haldið er rétt
að átta sig á því að víkingar voru
aldrei nema örlítið brot af íbúum
Norðurlanda. Heilt tímabil er
samt kennt við þá af því þeir voru
duglegir frumkvöðlar í siglingalist,
margir kaupmenn og handverks-
menn, sumir líka ránsmenn. En
það er alveg sama hvað við fræði-
menn reynum að bæta mynd vík-
inganna: í vitund alls þorra al-
mennings og ferðamanna voru
þeir öðru fremur ræningjar og
nauðgarar.
Nú vill svo vel til að meðal land-
námsmanna Íslands voru nánast
engir víkingar sem höfðu ránskap
að atvinnu. Ástæðan er augljós.
Hér var ónumið land og ekkert
handa þeim að ræna, engar hallir,
klaustur, gull eða aðrar gersemar,
ekki einu sinni konur. Landnáms-
menn voru því nánast einvörðungu
bændur. Fyrir kom að vísu að ís-
lenskir bændasynir fóru til út-
landa í eitt til tvö ár og tóku sum-
ir þátt í kaupferðum og jafnvel
ránsferðum. En það varð aldrei að
atvinnu. Fornaldarsögurnar sem
einkum fjalla um víkinga gerast
allar utan Íslands og fyrir Íslands
byggð. Þeir örfáu uppgjafa vík-
ingar sem þrátt fyrir allt settust
hér að virðast helst hafa litið á Ís-
land sem einskonar elliheimili.
Í öðru lagi ýtir sverðið sem höf-
uðtákn undir þá strákslegu hug-
mynd að vígaferli hafi verið helstu
athafnir manna á fyrstu öldum
byggðar. Vissulega er töluvert um
manndráp í Íslendingasögum, en
annað efni þeirra er
langtum merkilegra,
og frá mannvígum er
oftast sagt sem harm-
leik en ekki sporti.
Eins og aðrar sögur á
öllum tímum fjalla
þær einkum um
óvenjulega atburði,
sanna eða stílfærða,
sem þykja frásagn-
arverðir eða spenn-
andi lesefni. Sumar
þeirra gegna líku hlut-
verki og ágætar
spennusögur Arnalds
Indriðasonar á síðustu
árum. Ef menn ætluðu
eftir þúsund ár að búa
til ímynd af íslenskum
veruleika kringum ár-
ið 2000 og nota slíkar
sögur sem heimild,
gæti táknmynd á
Melatorgi framtíðar
orðið risavaxin afsög-
uð haglabyssa eða
fíkniefnasprauta.
Hér er allsekki um
það að ræða að „sótthreinsa“ sög-
una, heldur gefa hverjum grip
eðlilegt vægi og hamla gegn
þröngsýni þeirra sem helst vilja
einblína á söguna gegnum eins-
konar hasargleraugu. Sýnishorn
þeirra fáu sverða sem fundist hafa
verða að sjálfsögðu á sínum stað í
sýningunni. Það er blátt áfram
rangt að fornleifauppgreftir sýni
að flestir höfðingjar í heiðni hafi
átt vegleg sverð. Aðeins 16 heil
sverð hafa fundist, en 56 spjót og
26 axir sem sumar gætu þó verið
smíðatól. Sverðinu er meira en
fullur sómi sýndur með því að
vera partur af stílfærðu merki
Þjóðminjasafnsins ásamt öxi og
kúptri nælu frá líkum tíma. Meg-
inþorri Íslandssögunnar á ekkert
tákn í merkinu.
Snorri Már óskaði eftir „líf-
legum skoðanaskiptum í tengslum
við opnun Þjóðminjasafns Íslend-
inga“. Með þessu greinarkorni er
því komið á framfæri að ekki eru
allir velunnarar Þjóðminjasafnsins
hrifnir af fyrrnefndri sverðs-
hugmynd.
Sverð og saga
Árni Björnsson svarar
Snorra Má Skúlasyni
Árni Björnsson
’Það er bláttáfram rangt að
fornleifaupp-
greftir sýni að
flestir höfð-
ingjar í heiðni
hafi átt vegleg
sverð. ‘
Höfundur starfaði í meira en þrjá
áratugi á Þjóðminjasafni Íslands.