Morgunblaðið - 12.12.2004, Side 6
6 SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
edda.is
Ný bók eftir
Kristínu Helgu
Gunnarsdóttur.
2. sæti
Börn og unglingar
Félagsvísindastofnun
30. nóv. – 6. des.
„ ... upplagt að fjölskyldan lesi
bókina saman. Fullorðnir og
eldri systkini munu nefnilega
ekki síður hafa gaman af uppá-
tækjum Fíusólar en þau litlu.“
– Hrund Ólafsdóttir, MBL.
2. prentun
væntanleg
1. prentun
á þrotum
Inflúensufaraldur á borð viðfuglaflensuna er ein helstaheilbrigðisógn sem jarðarbúarstanda frammi fyrir. Slíkur
faraldur yrði ekki einkamál þróun-
arríkja, þó að faraldsins yrði líklega
fyrst vart þar, heldur heimsins alls.
Ómögulegt er að segja til um hvenær
slíkur faraldur breiðist út en þegar og
ef það gerist hafa yfirvöld líklega um
sex mánuði til að þróa bóluefni við
sjúkdómnum, sé það ekki þegar til,
áður en faraldsins fer að verða vart
utan upprunalandsins eða staðarins.
Þetta segir dr. Lee Jong-wook, for-
stjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofn-
unarinnar, WHO, en hann fundaði
hér á landi á fimmtudag og föstudag
með framkvæmdastjórn WHO.
Dr. Lee segir að enn sem komið er
smitist fuglaflensa ekki manna á
milli, heldur aðeins frá fuglum til
manna. „En á endanum mun veiran
stökkbreytast,“ sagði dr. Lee í sam-
tali við Morgunblaðið að loknum
fundi á föstudag. „Þegar það gerist,
að veiran fari að smitast á milli fólks,
þá verður faraldur.“ Hann segir fyrri
inflúensufaraldra, t.d. spænsku veik-
ina, staðfesta þessa þróun og að full-
víst sé að þetta muni gerast.
Grannt fylgst með
útbreiðslu og þróun
Dr. Lee segir að WHO fylgist
grannt með fuglaflensunni og út-
breiðslu hennar. Daglega fái stofn-
unin skýrslur um flensuna og unnið
sé að áætlun innan stofnunarinnar
um hvernig beri að bregðast við far-
aldri í samstarfi við ríkisstjórnir, sér-
fræðinga og lyfjafyrirtæki. Hann seg-
ir að í flestum ríkjum sé til viðbragða-
áætlun um hvernig bregðast eigi við
faröldrum hvers konar.
Hann nefnir að eitt vandamálið við
inflúensur sé að lyfjaframleiðendur
vilji ekki framleiða lyf, aðeins til von-
ar og vara, þ.e. sé enginn öruggur
kaupandi að þeim. Því séu ríkis-
stjórnir nokkurra landa að íhuga að
kaupa bóluefni, til að eiga ef til kast-
anna kemur og ráðleggur WHO ríkj-
um að gera svo.
Spurður um viðbrögð WHO ef
inflúensufaraldur brytist út segir dr.
Lee: „Þegar HABL breiddist út gáf-
um við út viðmiðunarreglur sem lönd-
in þar sem sjúkdómurinn kom upp
fylgdu. T.d. var varað við ferðalögum
til þessara landa. Það var á sínum
tíma eina leiðin sem við höfðum til að
takmarka útbreiðslu HABL því við
vissum ekki hvað olli henni.“
Slíkt yrði einnig hugsanlega gert ef
faraldur vegna fuglaflensunnar yrði
að veruleika en þó færi það eftir því
hversu miklar varnir, t.d. lyf, væri bú-
ið að þróa við sjúkdómnum. „Viðmið-
unarreglurnar sem við gáfum út
vegna HABL á sínum tíma reyndust
mjög áhrifaríkar við að hefta út-
breiðslu sjúkdómsins. Fólk fór eftir
þeim þrátt fyrir að þær hefðu mikil
efnahagsleg áhrif í för með sér, t.d.
fyrir flugfélögin.“
Dr. Lee telur að rétt hafi verið
staðið að málum í Asíu þar sem fugla-
flensunnar varð fyrst vart. Hann
bendir á að ekki eingöngu kjúklingar
beri veiruna heldur geti hún einnig
leynst í farfuglum og borist þannig
milli landa. „Farfuglarnir eru því eins
og nokkurs konar sprengjur sem geta
borið veiruna til allra heimshorna.“
Berklar ennþá
mikil heilsufarsógn
En fleira ógnar heilbrigði mann-
kyns. Dr. Lee sagði að eitt stærsta
heilbrigðisvandamálið í dag væri
eyðni, 250 milljónir manna væru
sýktar og 3 milljónir létust árlega úr
sjúkdómnum. Hann nefndi einnig
berkla, sem voru eitt sinn vandamál
t.d. á Íslandi, en leiddu enn í dag 2
milljónir manna til dauða árlega,
þrátt fyrir að ódýr bóluefni væru til
við sjúkdómnum. Þá nefndi hann
einnig malaríu, sem væri nú um
stundir sá sjúkdómur sem drægi
einna flesta til dauða í Afríku. „Mal-
aría er algengasti sjúkdómur sem
börn yngri en fimm ára deyja úr í
Afríku,“ segir dr. Lee. Fái þau sjúk-
dóminn seinna hafa þau byggt upp
ónæmiskerfi sitt betur. Brýnt sé því
að koma í veg fyrir malaríusmit með-
al ungra barna.
Vannæring og offita
vandamál í öllum löndum
Dr. Lee benti á að offita væri eitt
stærsta heilsufarsvandamál nú-
tímans og við því hefði m.a. verið
brugðist í maí síðastliðnum þegar
heilbrigðisráðherrar 192 þjóða sam-
þykktu áætlun WHO um mataræði,
þjálfun og heilsu. Dr. Lee sagði það
misskilning að offita væri aðeins
bundin við hinn vestræna heim.
Hennar gætti einnig í þróunarríkj-
unum þar sem fátækt væri mikil.
„Með innrás skyndibitamatsölustaða
og breyttra matarvenja hefur þetta
orðið vandamál í þróunarríkjum, t.d.
meðal íbúa á eyjum í Kyrrahafinu.“
Einnig væri það útbreiddur mis-
skilningur að vannæring væri ein-
göngu bundin við þróunarlöndin.
Hana væri víða að finna hjá vestræn-
um þjóðum, t.d. vegna næringarlauss
mataræðis, t.d. skyndibitafæðis.
Dr. Lee minnti á að skortur á mat
væri ekki aðeins vandamál fátækustu
ríkjanna, skortur á hreinu drykkjar-
vatni væri í raun stærra vandamál
sem erfiðara væri við að eiga. „Það er
hægt að flytja matvæli á milli staða
en gott vatn er erfiðara að nálgast.
Því er fólk að deyja úr t.d. niðurgangi
og sjúkdómum sem það fær vegna
mengaðs drykkjarvatns. Það er stórt
vandamál, í Afríku og Asíu og víðar.“
Dr. Lee sagði að heilsufar í heim-
inum væri nátengt þáttum á borð við
menntun og jafnrétti kynjanna. „Það
er ekki nóg að byggja sjúkrahús og
þjálfa fleiri lækna til að tryggja heil-
brigði fólks, heldur skiptir matur og
næring miklu. Félagslegu þættirnir
skipta mjög miklu en eiga það til að
gleymast. Sjúkrahús eru ekki stað-
irnir þar sem heilsurækt á að hefjast.
Menntun, hollt mataræði, hreyfing,
heilbrigður lífsstíll eru einnig mjög
mikilvægir þættir.“
Dr. Lee Jong-wook, forstjóri WHO, segir fuglaflensu vera eina helstu heilbrigðisógn jarðarbúa
Morgunblaðið/Þorkell
„Viðmiðunarreglurnar sem við gáfum út vegna HABL á sínum tíma reynd-
ust mjög áhrifaríkar,“ segir Dr. Lee Jong-wook, forstjóri WHO.
„En á endanum
mun veiran
stökkbreytast“
’Farfuglarnir eru því eins og nokkurs
konar sprengjur sem
geta borið veiruna til
allra heimshorna.‘
Á FUNDI samstarfsráðherra Norð-
urlanda í Reykjavík á föstudag tóku
Danir við formennsku í ráðherraráði
þeirra af Íslendingum og meðal
áherslumála þeirra er að auka veg
rannsókna og nýsköpunar, afnema
landamærahindranir sem truflað
geta viðskiptalífið og að gera nor-
ræna samstarfið skilvirkara og jafn-
vel fækka ráðherranefndum Norður-
landaráðs. „Þær eru núna 19 en sem
dæmi get ég nefnt að ráðherranefnd-
ir Evrópusambandsins eru bara 13
eða 14,“ sagði Flemming Hansen,
samgönguráðherra Dana og sam-
starfsráðherra, í samtali við Morgun-
blaðið. Hann tekur nú við formennsk-
unni og kynnti á fundinum áherslur
Dana á næsta ári.
Flemming Hansen sagði að Ísland
hefði unnið gott starf í formennskutíð
Sivjar Friðleifsdóttur og síðan Val-
gerðar Sverrisdóttur og sagði hann
fundinn hafa verið mjög góðan. Þar
hefðu orðið miklar umræður og þótt
menn hefðu ýmsar skoðanir hefði
verið eining um þær áherslur sem
hann hafði fram að færa.
Afnám landamæra-
hindrana mikilvægt
Undir það tekur Valgerður Sverr-
isdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráð-
herra, sem segir að afnám landa-
mærahindrana vera mjög mikilvægt.
Þær væru meiri en menn gætu
ímyndað sér, t.d. þar sem menn ynnu
í einu landi en byggju í öðru. Þá sagði
Valgerður hafa verið einingu um þá
tillögu að leggja 2% af fjármagni
Norðurlandasamstarfsins í sjóð til
sérstakra forgangsverkefna. Það
ætti að gilda um fjárhagsáætlun árs-
ins 2006 en það yrði að koma í ljós
hvernig gengi að draga saman seglin
sem því næmi; oft hefði sýnt sig að
erfitt væri að hætta við verkefni eða
jafnvel leggja niður stofnanir. Val-
gerður sagði breytingar verða á sam-
skiptunum við Eystrasaltslöndin; þar
yrði fremur um samstarf að ræða en
eins konar þróunarhjálp eins og verið
hefði síðustu 12 árin enda væru þau
gengin í Evrópusambandið.
Flemming Hansen sagði áherslur
Dana vera í þremur liðum:
Í fyrsta lagi að auka veg hvers kon-
ar rannsóknastarfs og menntunar.
Þróun væri hröð í öllum vísindum og
menn menntuðu sig ekki lengur í eitt
skipti fyrir öll heldur yrðu að sinna
áfram rannsóknar- og nýsköpunar-
starfi.
Í öðru lagi vilja Danir leggja meiri
áherslu á landamæralaus Norður-
lönd og segir ráðherrann það ekki
síst eiga við viðskiptalífið en einnig
ýmis hagnýt atriði fyrir einstaklinga.
Nefndi hann sem dæmi að við flutn-
ing Norðurlandabúa til Svíþjóðar
yrðu menn að fá persónunúmer þar
eða kennitölu til að geta stofnað
bankareikning eða geta fengið far-
síma. Það tæki hins vegar þrjá mán-
uði sem væri ótækt. Á fundinum hefði
málið verið rætt og því komið í þann
farveg að framvegis ættu menn að
geta fengið sænska kennitölu sam-
dægurs. Hann sagði þetta kunna að
virðast smámál en fyrir viðkomandi
væri það stórmál og það sama mætti
segja um ýmsar slíkar hindranir sem
verða í vegi fyrirtækja í viðskiptum
þeirra milli landa. Undir þennan lið
fellur einnig að auka samstarf við
grannsvæðin, t.d. norðvesturhluta
Rússlands, og lögð verður meiri rækt
við vestnorræna svæðið og að nýta
ýmis frjáls samtök til að tengja enn
betur ýmiss konar samstarf Norður-
landanna.
Fjármagn í forgangsverkefni
Þriðja áhersluatriðið er að auka
skilvirkni í norrænu samstarfi, ekki
síst norrænu ráðherranefndarinnar.
Er ætlunin að taka til skoðunar
verkaskiptingu milli hennar og
Eystrasaltsráðsins, Barentssvæða-
ráðsins og heimskautaráðsins.
Danski samstarfsráðherrann segir
að með því að taka 2% af rúmlega 800
milljóna danskra króna fjárhagsáætl-
un Norðurlandaráðs megi fá 16 til 17
milljónir á ári til annarra verkefna
sem menn vilja veita forgang. Telur
hann vel ráðið að fá þannig nokkurt
fjármagn til að geta veitt í ný verkefni
eða endurskipulagningu. Hann segir
ekki viðunandi að hækka fjárhags-
áætlun ráðsins umhugsunarlítið um
2% á ári hverju eins og lengi hafi ver-
ið raunin. Sagði ráðherrann að í sam-
bandi við fjármálin yrði kannað hvort
unnt yrði að fækka ráðherranefndum
Norðurlandaráðs og fundum. Víst
væri faglegt samstarf af hinu góða og
á pólitíska sviðinu einnig en rétt væri
að staldra við og endurmeta hversu
umfangsmikið það þyrfti að vera.
Í lokin nefndi Flemming Hansen
að haldið yrði áfram því starfi sem Ís-
land hefði átt frumkvæði að varðandi
vestnorræna svæðið, að huga að
bættri samkeppnisstöðu sjálfstjórn-
arsvæðanna og ekki síst bættum
samgöngum. Sagði hann Grænland
tvímælalaust eiga mesta möguleika á
framförum í ferðaþjónustu en til að
þær næðu fram að ganga yrði að
greiða fyrir bættum samgöngum við
landið.
Danir hafa tekið við formennsku samstarfsráðherra Norðurlanda af Íslendingum
Morgunblaðið/Árni Torfason
Flemming Hansen er samgönguráðherra Danmerkur.
Vilja auka rannsóknir
og bæta skilvirkni í
norrænu samstarfi